Eva Sóley Rögnvaldsdóttir var fædd í Ólafsfirði þann 21. febrúar 1943. Hún lést þann 13. apríl 2022 í faðmi fjölskyldunnar á heimili sínu að Hömrum í Mosfellsbæ.  Foreldrar hennar voru þau Auður Jónsdóttir, f. 24. janúar 1904, d. 12. apríl 1974, og Rögnvaldur Þorleifsson f. 4. október 1903, d. 11. apríl 1984. Systur Evu eru Sesselja Rögnvaldsdóttir, f. 29. maí 1930, d. 2. október 1983, og Þórgunnur Rögnvaldsdóttir, f. 10. maí 1936, d. 6. desember 2020. Eftirlifandi maki Evu Sóleyjar er Magnús Sveinsson, f. 28 júlí. 1939.  Börn þeirra eru Cecilía Magnúsdóttir, f. 7. desember 1972, maður hennar er Örn Arnarson f. 17. janúar 1966, þau eiga fjóra syni, þá Viktor Örn, Brynjar Magnús, Árna og Örn. Íris Magnúsdóttir, f. 8. september 1975, hún á tvö börn, þau Evu Sóleyju og Ægi.  Sveinn Snorri Magnússon, f. 7. september 1979, kona hans er Elín Málmfríður Magnúsdóttir, f. 19. ágúst 1981, þau eiga þrjú börn, Laufeyju Sigurbirnu, Magnús og Cecilíu Ólöfu. Börn Magnúsar frá fyrra hjónabandi eru Guðrún Magnúsdóttir f. 14. maí 1958, d. 20. febrúar 1994, dætur hennar eru Katrín Dögg og Sigríður Amanda. Sigurjón Magnússon f. 26. október 1960, d. 24. júlí 2009.

Útförin fer fram frá Bessastaðakirkju í dag, 25. apríl 2022, klukkan 12.

Elsku mamma mín hefur nú kvatt þennan heim. Það er svo sárt og erfitt að missa þig elsku besta mamma mín. Fallegri sálu var vart hægt að finna, þín fegurð bæði innan sem utan, skein ávallt svo fallega í þínum augum og fallega, ljúfa brosi. Ég er svo einstaklega þakklát fyrir þann tíma sem ég fékk með þér, fyrir þína óendanlegu ást og umhyggju, tryggð, hlýju og ljúfleika. Þú varst svo einstök í alla staði og einkenndist alla þína tíð af jákvæðni, hlýju, hjálpsemi og kærleik í garð annarra. Betri móður og fyrirmynd hefði ég ekki getað hugsað mér. Þú studdir mig alltaf sem klettur í öllu sem ég tók mér fyrir hendur eða mætti á lífsleiðinni. Þú kenndir mér að elska, meta það sem ég hef og sjá það fallega og jákvæða í öllu. Í sorginni og söknuðinum, finn ég styrk og hlýju í yndislegum minningum um þig, ásamt þeirri tilhugsum um endurfund ykkar systra og fjölskyldu, þar sem þú hefur öðlast frið og ró. Ég veit þú dansar þar með þessum ljúfu englum sem tekið hafa á móti þér með mikilli ást og opnum örmum. Elsku mamma ég veit þér líður vel nú og að þú sækir mig með sama hætti þegar minn tími kemur. Þangað til mun ég hugsa til þín í hvert skipti sem ég sé fallegt blóm, fallega liti og landslag því það varst einmitt þú sem kenndir mér að meta og sjá fegurðina í. Síðustu samtölin okkar einkenndust einmitt mikið af spjalli um fegurð náttúrunnar og litadýrð gróðurs og himins. Ég skynjaði þar eitthvað himneskt sem á kallaði, þegar þú oftar en ekki lýstir fallegu útsýni með litardýrð og blómum í blómstrun. Það var róin og einlægnin i orðum þínum. Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að vera þér við hlið og að fá að halda í hönd þína þegar þú kvaddir okkur. Elsku mamma, takk fyrir allt, ég elska þig af öllu hjarta.



Til himnaríkis ég sendi,

þér kveðju mamma mín.

Á því virðist enginn endi,

hve sárt ég sakna þín.



Þú varst mín stoð og styrkur,

þinn kraftur efldi minn hag.

Þú fældir burtu allt myrkur,

með hvatningu sérhvern dag.



Nú tíminn liðið hefur,

en samt ég sakna þín.

Dag hvern þú kraft mér gefur,

ég veit þú gætir mín.

(Steinunn Valdimarsdóttir)



Elskú mamma mín var ekki bara einstök móðir, heldur var hún einnig einstaklega hjarthlý, ljúf og yndisleg amma, sem dýrkaði og dáði barnabörnin sín, öll sem eitt og þau hana undartekningarlaust. Þegar ég eignaðist dóttur mína, var það aldrei neitt vafamál að hún skildi skýrð í höfuð bestu manneskju sem ég hef kynnst, henni móður minni. Gladdi það móður mína mikið, en hún var einmitt viðstödd fæðingu dóttur minnar. Urðu þær nöfnur mjög nánar og brölluðu ýmislegt saman í gegnum árin, bæði á Íslandi og í Danmörku. Má þar nefna ógleymanleg böð og leik í eldhúsvaskinum á fyrstu árunum, eins dúkku teboð, dans, söng og sundkennslu. 5 árum seinna eignaðist ég son minn sem öðlaðist eins sama sterka kærleik, gleði og nærveru móður minnar. Það var alltaf fundinn tími fyrir hafnarrölt með ís, heimsóknir í tívolí, dýragarða, sundferðir og mikill tími var gefinn í nærveru og gleði við spilakvöld og hlýleg matarboð, því hún mamma mín hafði alltaf svo mikla gleði og kærleik að gefa þeim. Mamma var þeim svo náin, einstaklega dýrmæt og mikilvæg manneskja, alveg eins og hún alltaf hefur reynst mér. Elsku mamma og amma, þú býrð alltaf í hjörtum okkar. Við elskum þig af öllu hjarta.



Amma kær, ert horfin okkur hér,

en hlýjar bjartar minningar streyma

um hjörtu þau er heitast unnu þér,

og hafa mest að þakka, muna og geyma.



Þú varst amma yndisleg og góð,

og allt hið besta gafst þú hverju sinni,

þinn trausti faðmur okkur opinn stóð,

og ungar sálir vafðir elsku þinni.



Þú gættir okkar, glöð við undum hjá,

þær góðu stundir blessun, amma kæra.

Nú hinstu kveðju hjörtu okkar tjá

Í hljóðri sorg og ástarþakkir færa.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)



Foreldrar mínir kynntust fyrir rúmum 50 árum síðan og eignuðust þau okkur systkynin þrjú fljótlega upp úr því. Settust þau að í Bessastaðarhreppi þar sem við ólumst upp. Seinni árin hafa foreldrar mínir þurft að kljást við sjúkdóma, en fundu þar sterkan styrk frá hvort öðru. Fráfall móður minnar hefur því reynst föður mínum afar erfitt og finnst mér því viðeigandi að minnast þeirra kærleik með eftirfarandi fallega ljóði. Minningin um ástkæra og einstaka eiginkonu lifir.



Eins og fljótið

lífið áfram líður

augnablikin hverfa

eitt og eitt



En í huga mínum

áfram ávallt lifir

minningin

sem snerti

hjarta mitt.

(Steina Valdimars)




Með ást og sorg í hjarta kveðjum við þig um sinn elsku mamma og amma.

Þín Íris, Eva Sóley og Ægir.

Íris Magnúsdóttir.