Sævar Árnason fæddist á Þórshöfn á Langanesi 10. ágúst 1946. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 19. apríl 2022. Foreldrar hans voru Árni Þorkels Árnason, f. 30. desember 1917, d. 29. nóvember 1997, og Helga Gunnólfsdóttir, f. 1. ágúst 1925, d. 8. október 2004. Systkini Sævars voru 10: Drengur, f. 9. apríl 1943, d. 28. ágúst 1943; Gunnlaug Eyfells, f. 30. júní 1945, gift Halldóri Magnússyni, f. 4. ágúst 1942; Árný Kristbjörg, f. 19. júlí 1948, gift Kristjáni S. Rafnssyni, f. 9. júlí 1948, d. 3. júlí 1996; Gunnólfur, f. 18. júní 1950, kvæntur Fanneyju Bjarnadóttur, f. 24. maí 1953; Svala, f. 18. ágúst 1951 d. 29. október 2009, gift Birni Pálssyni f. 23. maí 1975; Hreiðar, f. 22. júlí 1953; Helga, f. 31. október 1956, gift Sigurjóni Hreiðarssyni, f. 5. desember 1952; Ómar, f. 16. mars 1958, kvæntur Ingibjörgu Á. Blomsterberg, f. 5. desember 1960; Árni Þór, f. 12. september 1959, kvæntur Ástu Þórarinsdóttur, f. 19. júní 1961; og Skjöldur Vatnar, f. 13. maí 1963, kvæntur Kristínu L. Sveinsdóttur, f. 18. september 1967.
Sævar kvæntist 25. mars 1978 eftirlifandi eiginkonu sinni Hildi Ellertsdóttur, fyrrverandi grunnskólakennara, f. 3. október 1952. Foreldrar hennar voru Ellert Guðmundsson, f. 13. mars 1930 og Sigríður Marta Sigurðardóttir, f. 28. ágúst 1931.
Sævar og Hildur eignuðust tvö börn saman: Ellert, f. 2. janúar 1979, og Aldísi Ósk, f. 10. ágúst 1985, maki Ómar Örn Kristófersson, f. 1. júní 1982. Börn Aldísar eru Sævar Snær Birgisson, f. 21. júní 2005, og Katrín Rós Birgisdóttir, f. 19. mars 2010. Sonur Hildar er Örn Úlfar Sævarsson, f. 28. febrúar 1973, kvæntur Ástu Andrésdóttur, f. 6. janúar 1976. Börn þeirra eru Vala Melkorka, f. 3. september 2012, Laufey Matthildur og Högni Dagfinnur, f. 24. janúar 2016.
Sævar ólst upp á Þórshöfn á Langanesi en fluttist til Suðurnesja á unglingsárunum ásamt fjölskyldu sinni. Hann kynntist Hildi, eftirlifandi eiginkonu sinni, í mars 1977 og hófu þau búskap í Keflavík og bjuggu þar lengst af, en síðustu árin í Innri-Njarðvík í Reykjanesbæ.
Sævar var til sjós á yngri árum en lauk sveinsprófi, og síðar iðnmeistaraprófi, í húsasmíði og starfaði sem slíkur alla tíð, lengst af á Keflavíkurflugvelli en einnig við Blönduvirkjun, Vatnsfellsvirkjun og í Reykjavík og við verkefni á Grænlandi og í Þýskalandi. Sævar söng með Karlakór Keflavíkur frá 27 ára aldri og síðar einnig með Eldeyjarkórnum og ferðaðist víða og kom fram með söngfélögum sínum, bæði hér heima og erlendis.
Útför Sævars fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 3. maí 2022, kl. 13. Þeim sem vilja minnast hans er bent á Krabbameinsfélag Suðurnesja.
Pabbi hafði þann einstaka hæfileika að geta ákveðið nákvæmlega klukkan
hvað hann ætlaði að vakna og það stóðst alltaf, jafnvel þegar þurfti að
skutla fólki í flug um miðja nótt. Nú er hann sjálfur farinn og sorgin og
söknuðurinn eru blandin beiskju því hann hefði svo sannarlega átt skilið að
vera með okkur miklu lengur. En ávextir erfiðisins gegnum tíðina reyndust
eitraðir, mein sem rakið var beint til óheilnæmra vinnuskilyrða.
Sævar Árnason kom inn í líf okkar mömmu þegar ég var fjögurra ára og tók ég
honum alls ekki jafn vel og hann tók mér. Ég var ekkert á þeim buxunum að
deila móður minni með öðrum en tíminn vann með okkur og fékk ég að kalla
hann pabba allar götur síðan og njóta þeirra margvíslegu mannkosta sem hann
hafði að bjóða allt til enda. Það var reyndar stundum haft á orði að móðir
mín hefði nýtt sér tengsl sem fyrrverandi starfsmaður Þjóðskrár til að
finna mér stjúpföður sem héti Sævar, til einföldunar.
Samverustundirnar hefðu að ósekju mátt vera fleiri en þær sem áttum voru
alla tíð ljúfar og þægilegar og alltaf vildi pabbi allt fyrir okkur
systkinin gera, jafnvel þvert á fjárráðin hverju sinni. Þetta var nefnilega
dálítið basl á tímabili en með einstökum dugnaði og vinnusemi tókst pabba,
og auðvitað mömmu líka, að skapa fjölskyldunni góða umgjörð. Ósérhlífni og
seigla eru orð sem lýsa honum vel. Ég man eftir dögum þegar pabbi kom heim
eftir heilan dag í smíðum og fór svo beint að beita fram yfir miðnætti.
Seinna, þegar vinnu skorti á Íslandi, þá var bara farið til
Grænlands.
Hjálpsemi hans var líka orðlögð og fengu margir að njóta dugnaðar hans og
hæfileika við smíðar í frístundum. Auðvitað vorum við Ásta þar á meðal en
við fengum ómetanlega hjálp frá honum þegar við eignuðumst okkar íbúð og
svo lyfti hann sannkölluðu grettistaki þegar við stækkuðum við okkur með
nýfædda tvíbura. Hann var alltaf boðinn og búinn.
Og það er þess vegna sem þetta er allt svona ósanngjarnt. Að maður sem gaf
svona mikið af sér skuli ekki hafa uppskorið meiri og innihaldsríkari hvíld
eftir vel unnin störf í áratugi. Þess í stað tók við barátta við meinið
illvíga en með sinni einstöku seiglu tókst pabba að framlengja þá ójöfnu
viðureign um mörg ár umfram þær líkur sem honum voru gefnar við greiningu
meinsins.
Nú er baráttan á enda og innbyggða vekjaraklukkan er hætt að tifa, að
minnsta kosti hérna megin í tilverunni. Hinn skilyrðislausi kærleikur
Sævars Árnasonar, glaðlyndið, söngurinn, æðruleysið og ósérhlífnin munu þó
áfram vekja með okkur einlægt þakklæti og ómetanlegar minningar alla
tíð.
Örn Úlfar Sævarsson.
Pabbi minn er farin frá okkur eftir rúmlega fimm ára baráttu við krabbamein
af völdum asbests. Til að byrja með voru lífslíkurnar nú ekki miklar, eða
um 1 og hálft ár. Hann náði að lifa með því í rúm fimm ár. Þegar ég kom inn
í herbergið á spítalanum og hann var að fara yfir hinum megin þá strauk ég
á honum hausinn, sagði honum hversu mikið ég elska hann og hversu þakklát
ég er fyrir hann. Þakklæti er tilfinning sem fylgdi mér allan daginn og
hefur fylgt mér síðan ég kvaddi hann. Ég er svo þakklát fyrir að hafa fæðst
á afmælisdegi hans og öll árin sem við deildum saman þeim degi. Ég er svo
þakklát fyrir að ég hafi verið það heppin í lífinu að hafa fengið hann sem
pabba, og enn þakklátari fyrir að hafa náð að segja honum frá því í einu af
okkar mörgum samtölum áður en hann fór frá okkur. Ég er svo þakklát fyrir
allan þann tíma sem ég hef fengið að hafa hann í lífi mínu og í lífi
barnanna minna. Ég er svo þakklát fyrir að börnin mín fengu að kynnast
föður mínum sem átti svo stóran þátt í að móta mig. Mér finnst þó erfitt að
barnið sem ég ber núna, og er væntanlegt í heiminn á næstu dögum, fái ekki
að kynnast honum og hann því. Pabbi sagði við mig að hann vonaði að við
gætum sagt einhverjar ágætar sögur af sér. En eins og ég sagði við pabba þá
verða sögurnar svo miklu meira en bara ágætar. Það eru svo margar frábærar
sögur af honum sem hægt er að segja frá. Pabbi minn var svo mikið
ljúfmenni, sá alltaf jákvæðu hliðarnar á öllu og var alltaf tilbúinn til að
stökkva til og hjálpa ef einhver þurfti aðstoð. Ég er svo þakklát fyrir að
hafa náð að segja honum frá nafni barnsins. Við gátum rætt saman um nafnið.
Hann lofaði mér að segja engum frá því en hann getur sagt öllum frá því
hinu megin núna. Það er bara svo margt sem ég get verið þakklát fyrir með
hann pabba minn og ég get skrifað margar blaðsíður um það. Ég leyfi þessum
orðum að duga í bili. Ég trúi því elsku pabbi minn að þú vakir yfir okkur
og passir upp á okkur. Við söknum þín, börnin mín sakna þín. Við elskum þig
og pössum upp á mömmu fyrir þig.
Leyfi hér einu af mörgum lögum að fylgja með sem þú söngst fyrir mig þegar
ég var yngri.
Þú ert yndið mitt yngsta og besta,
þú ert ástarhnossið mitt nýtt,
þú ert sólrún á suðurhæðum,
þú ert sumarblómið mitt frítt,
þú ert ljósið sem lifnaðir síðast,
þú ert löngunnar minnar Hlín.
Þú ert allt sem ég áður þráði,
þú ert ósk, - þú ert óskin mín.
(Þórarinn Guðmundsson / Gestur)
Þangað til við hittumst næst..
Þín dóttir
Aldís Ósk.
Aldís Ósk.