Þóra Einarsdóttir fæddist á Hrjót í Hjaltastaðaþinghá 7.6. 1933, dóttir hjónanna Kristjönu Sesselju Einarsdóttur, f. 3.9. 1912, d. 13.12. 2002, og Einars Bjarnasonar, f. 26.9. 1900, d. 26.7. 1974. Vorið 1933 fengu foreldrar Þóru ábúð á Stóra-Steinsvaði í sömu sveit og bjuggu þar allan sinn búskap. Þar ólst Þóra upp í stækkandi systkinahóp. Systkini Þóru eru í aldursröð: Bjarni, f. 1935, Einar Kristberg, f. 1940, Stefán Hilmar, f. 1946, tvíburarnir Ástrún og Eysteinn, f. 1949, og tvíburasysturnar Steinvör og Sesselja, f. 1952.

Eiginmaður Þóru var Björn Arnarr Ágústsson frá Ásgrímsstöðum, f. 21.12. 1918, d. 20.11. 2001. Þau gengu í hjónaband 26.12. 1954. Börn þeirra eru: 1) Guðbjörg, f. 25. maí 1956, maki Egill Pétursson. Sonur Guðbjargar og Reynis E. Kjerúlf er Arnþór Björn. Synir Arnþórs eru Bjarki Fannar, Marinó Freyr, Björn Róbert og Rúnar Snær. Börn hans eru Brynhildur Una, Dagbjört Vala og Reynir Sveinn. 2) Kristjana, f. 12. júní 1958. Maki hennar er Jón Helgason. Sonur þeirra er Magnús, synir hans eru Brynjar Þorri, Arnór Snær og Eyþór og Þórey Birna, hennar börn eru Ágúst Bragi og Snærós Arna. 3) Ágústa, f. 15. ágúst 1962. Maki hennar er Hafsteinn Jónasson. Synir þeirra eru Viðar Örn, dætur hans Jóhanna Lillý, Matthildur Vala og óskírð stúlka og Jónas Ástþór. Dóttir Jónasar er Esma Dís. 4) Einar Sverrir, f. 17.11. 1963. Maki Einars er Guðbjörg Þórdís Kristjánsdóttir. Börn þeirra eru Þóra, synir hennar eru Arnar Már, Einar Andri og Guðjón Arnarr. Dætur hans eru Erla Dröfn og Arna Dröfn. 5) Vilhelm Ásgrímur, f. 11.9. 1965. Börn hans og Lindu Bjargar Sigurðardóttur eru Sigurður Fannar, hans börn eru Vilhelm Þór og Auður Hilda. Yngst barnabarnanna er Guðbjörg Ragna, sem er við nám í læknisfræði erlendis og getur því ekki verið viðstödd útför ömmu sinnar.

Þóra og Björn hófu búskap á Ásgrímsstöðum. Árið 1956 var nýbýlið Móberg sett formlega á fót. Þangað fluttu þau í byrjun jólaföstu árið 1958 og bjuggu þar til ársins 1982. Þá brugðu hjónin búi og fluttu til Egilsstaða. Fyrst áttu þau heima á Brávöllum 6 og síðan í Dalskógum 8, þar sem Þóra hélt heimili þar til hún flutti á Dyngju.

Útförin fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 19. maí 2022, klukkan 14.

Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Að byggja nýbýli frá grunni upp úr miðri síðustu öld hlýtur að teljast ákveðið þrekvirki. Þegar foreldrar okkar byggðu upp á Móbergi áttu þau ærið verk fyrir höndum að rækta tún og byggja gripa- og íbúðarhús allt frá grunni, ólíklegt er að fólki dytti í hug að fara út í slíkt í dag. Stofnun nýbýla var algeng á þessum tíma enda flestar jarðir í ábúð og fólk þurfti að leggja gríðarlega hart að sér til að sjá sér og sínum farborða og það gerðu foreldrar okkar svo sannarlega. Tvær elstu dæturnar voru fæddar þegar þau fluttu í Móberg. Fyrstu árin sótti pabbi vinnu frá búinu, einkum í síldarbræðslu á Seyðisfirði en mamma sinnti um börn og bú enda jafnvíg á úti- og inniverk. Við gömlu systur eigum sérstakar minningar frá þessum árum. Þegar mamma þurfti að sinna verkum úti við og gat ekki haft okkur með sér, lét hún okkur sitja andfætis í pappakassa með eitthvað til að dunda við svo sýndi hún okkur á eldhúsklukkunni hvert stóri vísirinn myndi benda þegar hún kæmi inn. Það brást aldrei að mamma var komin á undan vísinum, ef hún hafði ekki náð að ljúka verkunum þá var leikurinn endurtekinn. Þannig lærðum við á klukku. Þetta er til marks um hvað mamma var ráðagóð og fann lausnir sem dugðu. Ekki voru nútímaþægindi á fyrstu búskaparárunum, ekkert rafmagn fyrr en 1967 þegar díselrafstöðin kom. Samt gat hún bakað marengstoppa eins nú eru mjög í tísku en til þess hafði hún aðeins handsnúinn þeytara og gasofn sem enginn var á hitamælirinn. Einnig bjó hún til rjómaís í ferhyrndum kakóstaukum og var hann frystur með því að salta í snjó og grafa staukana þar. Mamma gekk í farskóla eins og tíðkaðist á hennar uppvaxtarárum og naut einnig menntunar í Alþýðuskólanum á Eiðum. Meðal kennara þar var Sigrún Sigurþórsdóttir og kenndi hún ýmiskonar flókinn útsaum og aðrar hannyrðir sem mamma var fljót að tileinka sér og fékk hún afburðagóða einkunn fyrir hannyrðir. Þetta nýttist henni vel ásamt því veganesti sem hún fékk frá móður sinni hvað varðaði heimilishald. Þegar litið er til baka er óskiljanlegt hverju mamma gat komið í verk. Það lék allt í höndunum á henni. Hún saumaði allan fatnað, prjónaði á prjónavél á okkur systkinin og elstu barnabörnin sín. Einnig prjónaði hún í höndunum og hélt því áfram allt þar til yfir lauk. Öll ömmu- og langömmubörnin hennar eiga prjónaflíkur sem hún vann af ást og kærleika til þeirra. Eftir að hún fór að hafa meiri tíma fyrir sjálfa sig var hún mjög dugleg að fara í sund og stunda ýmiss konar líkamsrækt. Hún vann allskonar handverk og eiga afkomendur hennar marga fallega muni sem hún heklaði eða vann í bútasaumi. Mamma átti afar erfitt með að vera aðgerðalaus og átti það til að vera fulldugleg við að úthluta verkefnum til fjölskyldunnar, svo dugleg að stundum hefði það hálfa verið nóg.

Þegar elsta barnabarnið fæddist var móðirin nýorðin 18 ára. Hún hafði fram að þeim tíma ekki sýnt sérstakan áhuga á barnagæslu og þá kom sér vel fyrir drenginn að hann átti ömmu sem leiðbeindi og var alltaf tilbúin til að hafa hann hjá sér enda átti hann sitt annað heimili hjá afa sínum og ömmu til fullorðinsára. Þannig var það með öll barnabörnin, þau áttu umhyggju vísa hjá ömmu og afa.
Eftir að yngri systkinin stálpuðust fór mamma að stunda vinnu utan heimilisins. Þegar verið var að byggja Lagarfossvirkjun vann hún í mötuneyti þar og í sláturhúsinu á Egilsstöðum á haustin. 1975 fór hún að vinna við Barnaskólann á Eiðum og var þar í 3 vetur. Eftir að hún flutti í Egilsstaði vann hún ýmis störf við þjónustu og aðhlynningu, m.a. sem leiðbeinandi á Stólpa. Enginn fer gegnum lífið án þess að það skiptist á skin og skúrir. Mamma glímdi við kvíða og þunglyndi sem ágerðist mjög með árunum og var það henni og fjölskyldunni allri afar erfitt. Eflaust má rekja það að einhverju leyti til þess þegar hún, 9 ára gömul, var að fara út með öskufötuna þar sem leyndist glóð sem læsti sig í kjólinn hennar og hlaut hún af mikið brunasár. Hún var flutt til aðhlynningar á Eskifjörð til Einars Ástráðssonar læknis og dvaldi hún á heimili læknishjónanna í 9 mánuði. Hún minntist þeirra alltaf með hlýju og þakklæti og sagði þau hafa lagt sig fram um að draga úr kvölum líkama og sálar. Læknirinn tók keðjuna af reiðhjóli dætra sinna, festi það upp á búkka og lét mömmu svo hjóla. Þetta var hluti af endurhæfingunni þegar hún lærði að ganga í annað sinn. Geðrænir sjúkdómar voru og eru enn flokkaðir öðruvísi en beinbrot eða krabbmein. Þó eru þeir meinsemd sem grefur um sig í sálinni og getur slegið niður hvern sem er, hvenær sem er. Þrátt fyrir erfið andleg veikindi gerði mamma allt sem hún gat fyrir fjölskylduna sína og oft á tíðum mikið meira en hún hafði krafta til. Fyrir það erum við þakklát. Það veganesti sem við systkinin fengum með okkur út í lífið hefur reynst okkur vel og vonandi höfum við náð að miðla einhverju áfram til næstu kynslóðar.
Elsku mamma okkar. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Guðbjörg, Kristjana, Ágústa, Einar Sverrir og Vilhelm Ásgrímur.