Ögmundur Einarsson fæddist 16. júní 1942 í Reykjavík. Hann lést á Hrafnistu í Reykjavík 6. maí 2022. Hann var sonur hjónanna Einars Ögmundssonar, f. 23. október 1916, d. 6. júní 2006 og Margrétar Bjarnadóttur, f. 26. júní 1914, d. 25. desember 2003. Systur: Ingibjörg, f. 7. desember 1946, Ingveldur, f. 23. janúar 1950, d. 9. október 2012 og Þórunn, f. 5. janúar 1956. Eiginkona Ögmundar er Magdalena Jónsdóttir, f. 26. september 1937. Þau gengu í hjónaband 8. ágúst 1964.

Börn þeirra hjóna eru:

1. Kristín, f. 25. febrúar 1966, eiginmaður hennar er Gunnar Haraldsson. Börn þeirra eru: Magdalena, gift Sverri Daða Þórarinssyni og eiga þau synina Óliver Daða og Róbert Helga. Ögmundur Páll er í sambúð með Helgu Soffíu Jóhannesdóttur. Þau eiga dæturnar Sigrúnu Heiðu og Ólafíu Björg. Helgi Ragnar er í sambúð með Jóhönnu Clöru Lauth og Hildur Kristín Margrét sem er í sambúð með Viktori Daða Vignissyni.

2. Einar, f. 19. desember 1967, og eiginkona hans er Kristín Þóra Gunnarsdóttir. Börn þeirra eru Guðbjörg Heiða og Baldur Heiðar.

3. Davíð Jón, f. 6. maí 1982, og eiginkona hans er Eva Dögg Þorgeirsdóttir og sonur þeirra er Tristan Nói.

Ögmundur ólst upp í Reykjavík en var öll sumur í sveit á Hlemmiskeiði á Skeiðum hjá ömmu sinni og afa. Hann gekk í Melaskóla, gagnfræðaskólann við Hringbraut og Vonarstræti, Samvinnuskólann á Bifröst og Stokkholms Tekniska Institut.

Starfsferill: Ýmis sumarstörf. Hjá Reykjavíkurborg (Borgarverkfræðingi og ýmsum deildum Gatnamálastjóra). Forstjóri Vélamiðstöðvar Reykjavíkurborgar 1971-1984. Hjá Ístaki 1984-1985. Rekstrarráðgjafi Borgarverkfræðings 1985-1988 en var þá ráðinn framkvæmdastjóri Sorpu og starfaði þar til febrúar 2007.

Að starfsferli loknum naut hann veru í sumarhúsinu í Grímsnesi eins mikið og heilsa leyfði.

Útförin fer fram frá Áskirkju í dag, 23. maí 2022, klukkan 13.

Fráfall Ögmundar bróður míns var þungt högg en nokkuð fyrirsjáanlegt. Við sem eftir stöndum og fylgdumst náið með veikindum hans vorum það raunsæ að sjá að hverju stefndi. En eitt er víst að við erum aldrei tilbúin að kveðja þá sem okkur þykir vænt um og allra síst þá sem maður hefur alist upp með og umgengist náið alla ævi. Það eru tíu ár síðan ég settist við tölvuna til að skrifa minningarorð um systur okkar Ingveldi og nú snýst þetta um kveðjuorð um eina bróðurinn í hópnum.

Við ólumst upp í yndislegu umhverfi og hlutum gott uppeldi. Ömmi var elstur og síðan komu þrjár systur. Þegar við Inga vorum fæddar þá var nokkuð þröngt um okkur öll í kjallaranum í Hólabrekku svo Ömmi fékk að sofa uppi hjá afa. Þegar við fluttum síðan yfir þúfuna eins og sagt var þá fékk einkasonurinn sérherbergi en við Inga vorum í koju inni hjá pabba og mömmu. Við kölluðum hann nú stundum prinsinn en það var mjög gott á milli okkar alla tíð. Ég man eftir því að það var stundum sagt við mig hann er nú góður drengur hann bróðir þinn og hann stóð svo sannarlega undir því nafni.

Á uppvaxtarárum okkar tíðkaðist ekki að karlmenn gengju í heimilisstörf og við systur tókum því sem sjálfsögðum hlut að strauja fyrir Ömma buxur og skyrtu þegar hann var á leið út á lífið og oft bauðst hann til að borga mér nokkrar krónur fyrir að bursta skóna.

Ömmi var að sjálfsögðu í fótbolta og var í Þrótti, þetta var þá þeirra svæði. En rétt vestan við okkar svæði voru flestir í KR. Ég var stundum spurð í skólanum með hverjum ég héldi í fótbolta og ég stóð auðvitað með bróður mínum og sagðist halda með Þrótti.

En það var ekkert auðvelt því margir töldu KR miklu flottara lið og litu niður á Þróttarana.

Ömmi var alla tíð mjög tónelskur og spilaði á mörg hljóðfæri. Sat líka oft við eldhúsborðið og notaði hnífapörin til að slá taktinn, sem okkur systrum fannst frekar pirrandi. En þegar hann settist við píanóið þurfti hann ekki nótur heldur spilaði lögin fljótlega bara með því að raula lagið. Ég öfundaði hann mikið af þessari gáfu því ég var á sama tíma að læra á píanó en gat ekkert spilað nema eftir nótum. Hann var líka oft í hjómsveitum og okkur systrum fannst það ansi spennandi. Við vorum allar þrjár að fylgjast með myndum sem hann hengdi upp í herberginu sínu og giska á hver yrði eða væri kærastan hans. Síðar bættist svo harmónikkan við og það var alltaf gaman um jólin þegar hann spilaði jólalögin og við gengum í hring undir styrkri stjórn pabba.

Þegar ég hugsa til baka þá má segja að við höfum lítið sem ekkert eytt æskunni saman á sumrum. Ömmi var farinn snemma vors í sveitina, austur að Hlemmiskeiði, og þar var hann við snúningastörf frá unga aldri og alls í níu sumur.

Eftir að framhaldsskólaaldri var náð fór hann í Samvinnuskólann á Bifröst og svo til Svíþjóðar og lærði þar tæknifræði.

Lengst ævinnar var hann mjög hraustur og á grunnskólaaldri man ég aldrei eftir að honum yrði misdægurt. Það gekk svo langt að hann öfundaði mig aðeins af því að verða oft lasin og komast ekki í skólann svo einu sinni hristi hann upp í hitamælinum og náði nokkrum kommum en mamma sá við honum svo þetta gekk ekki.

En því miður var hann ekki alla tíð svona hraustur. Um miðbik ævinnar fóru ýmis veikindi að gera vart við sig og er óhætt að segja að hann tók því öllu með miklu æðruleysi.

En hver svo sem máttur örlagadísanna er þá er erfitt að sætta sig við að nú sé Ömmi horfinn úr okkar lífi. Hann var stóri bróðir minn og við vorum miklir vinir. Ég skil það betur í dag en þegar sagt var við mig hér fyrr á árum hann Ögmundur bróðir þinn er góður drengur.

Síðastliðið ár höfðum við bæði mikla ánægju af því að rifja upp liðna tíma. Hann gat bætt í eyðurnar og við gert saman grín að ýmsu spaugilegu.

Ömmi og Lena hittust í Svíþjóð og hafa arkað saman æviveginn alla tíð síðan. Fjölskyldan stækkaði og Einar, Kristín og Davíð Jón hafa öll stofnað sínar fjölskyldur, eignast börn og barnabörnunum fjölgar.

Á þessari sorgarstundu sendum við Júlíus fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur og biðjum þess að allar góðar minningar nái að ylja þeim í framtíðinni.

Blessuð sé minning bróður míns sem ég sakna sárt.

Ingibjörg.