Guðrún Jacobsen fæddist 30. október 1930. Hún lést á Skjóli 30. apríl 2022.
Faðir hennar var Carl Anton Jacobsen, f. 6. júní 1868, d. 1942, og móðir hennar var Þorbjörg Aldís Björnsdóttir, f. 7. október 1893, d. 24. nóvember 1957.
Eiginmaður Guðrúnar var Karl Júlíusson, f. 26. apríl 1924, d. 19. október 1975. Þau skildu.
Börn þeirra eru: Þröstur Júlíus Karlsson, f. 1. nóvember 1948, Sigrún Stella Karlsdóttir, f. 1. febrúar 1954, Harpa Karlsdóttir, f. 9. apríl 1961, og Guðrún Glódís Gunnarsdóttir, f. 13. desember 1968.
Útför Guðrúnar fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 24. maí 2022, klukkan 13.

Minning um móður.



Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig.

Þetta er í ritningunni en það sem er mikilvægara fyrir mér er að móðir mín fór með þessi orð yfir mér þegar kom að fermingardegi mínum, pálmasunnudeginum, er við fermingarbörnin áttum að velja okkur setningu úr Biblíunni. Ég var sú eina með þessi orð enda sérvalin af móður minni. Flest hinna völdu hina gullnu reglu.

Það átti eftir að reyna á þessi orð. Að standa undir þeim hefur verið mitt lífsmottó og einnig hafa synir mínir fjórir og þrír stjúpsynir þurft að heyra þau trekk í trekk. Ef Guð getur treyst þér fyrir litlu, og þú framkvæmir eftir bestu getu, þá getur hann látið þér í té stærra og mikilvægara verkefni. Hér mætti nefna stjórnmálafólkið í voru landi, en það er vel við hæfi enda var mamma mjög pólitísk. Skoðunum sínum á pólitík og þjóðmálum hélt hún ekki út af fyrir sig. Hún skrifaði reglulega í Velvakanda Morgunblaðsins. Í dag mætti kalla það blogg. Þetta sem og svo margt annað lærði ég af henni og var farin að skrifa greinar og birta ljóð í sama miðil, enda í þá daga blað flestra landsmanna.

Mamma kenndi mér svo mikið og í gegnum hana hafa synir mínir og stjúpsynir fengið allan þann lærdóm. Maður agar þann sem maður elskar. Þetta var viðkvæðið þegar mér fannst hún vera ansi ströng. Skylduna fyrst, skemmta sér á eftir, þegar manni var kennt að borga reikningana sína á undan öllu öðru, vera ekki í skuld, taka til í herberginu eða klára heimalærdóminn áður en manni var sleppt út í frelsið, brennóbolta eða annað. Bókalestur var engin skylda, kom bara eðlilega með soðnu ýsunni og kartöflunum. Borgarbókasafnið og nammi í poka, upp í rúm. Sæla, enda mamma rithöfundur, bróðir minn einnig og faðir minn stærsti bókaútgefandi á Íslandi, svo lestur var þá það sem tölvuleikir og samfélagsmiðlar eru fyrir krakka í dag.


Mamma kenndi mér margt um dýrin. Hún gaf fuglunum úti í garði á veturna. Það gera margir og þykir ekkert spes en mamma arkaði endanna á milli bæjarmarkanna til þess að fá kjötsag. Það er spes. Og það tók mörg fótsporin og þunga byrði því aldrei keyrði mamma bíl. Sem betur fer lærði ég aldrei að keyra bíl, annars hefði ég líklega slasað sjálfa mig og aðra því ég er svo fljótfær! Það er ekki ólíklegt því mamma var ekki bara fljótfær heldur líklega ofvirk enda hefur enginn sem ég þekki gengið eins hratt og hún gerði. Ég man eftir mér grenjandi á harðahlaupum á eftir henni sem barn að reyna að halda í við hana. Hún var alltaf á hlaupum og einstaklega frá á fæti enda einn frægasti jitterbug-dansari Reykjavíkur, rétt eftir stríðsárin. En víkjum aftur að fuglunum og fleiri dýrum. Kjötsagið var nefnilega soldið spes. Í þá daga var nánast enginn að gefa spörfuglunum enda tugir ára síðan. Hvað þá kjötsag. Mamma var alltaf á undan sínum tíma og í hörkuvetrargaddi þurftu þessi grey einmitt á því að halda. Flækingsköttunum gaf hún einnig. Þeir komu að eldhúsglugganum í kjallaranum, fengu volgt mjólkurbland og soðna ýsu, átu en hvæstu og mamma sagði alltaf:Ekki slá á höndina sem gefur þér. Kettirnir átu, fuglarnir kroppuðu og Tobba, hundurinn okkar, sat á tröppunum og fylgdist með. Ég man sem barn hvað mér þótti þetta merkilegt. Hvernig tókst mömmu, sem var alltaf að flýta sér, að ná þessari harmóníu? Öll dýrin í hennar skógi náðu að verða vinir.

Mamma þoldi aldrei lygar eða slúður. Illt umtal var aldrei liðið. Einu sinni voru tvær stúlkur fyrir utan girðinguna og mamma heyrði þær tala illa um einhverja aðra stúlku. Hún vatt sér að þeim, innan við girðinguna sína, og sagði: En hvað það er leitt að sjá svona fallegar stúlkur tala svona illa um aðra. Þær setti hljóðar og skunduðu í burt.

Mamma var hæsti sópran. Ég var í hendinni á henni sem krakki leidd á hinar og þessar kóræfingar. Pólýfónkórinn í stjórn Ingólfs Guðbrandssonar var þrautaganga enda var hann einstaklega smámunasamur, fullkomnunarárátta í að fá hinn fullkomna tón. Og aftur, í þá daga var ekkert nema bara að sitja kyrr og láta lítið fara fyrir sér. Fjögurra klukkustunda æfingar að kveldi til og mamma bannaði mér að bora í nefið og sitja með fæturna sundur. Ég lærði Messías eftir Handel og Jólaóratoríu Bachs utan að. Allt. Einnig allar óperur sem settar voru upp í Þjóðleikhúsinu. Mamma tók mig með til New York, þegar Þjóðleikhúsið fór þangað í menningarferð, þá 10 ára. Ég fór með Þjóðleikhúskórnum til Færeyja, þegar þau komu fram á mörgum tónleikum með söngleikjaprógramm og slógu í gegn. Þar fékk ég þá ábyrgð að fletta blöðum á sviðinu fyrir píanóleikarann, Carl Billich. Mamma hafði sent mig í píanónám til dætra Ríkarðs Jónssonar myndhöggvara. Mamma kom mér í ballettnám þegar ég var 5 ára og áfram hélt það, þar til nú að ég kenni klassískan ballett.

Mamma var alltaf ströng. Ég man eftir aga í hennar uppeldi en seinna fór að bera á meiri húmor. Húmorinn átti eftir að verða stærsti þáttur í hennar karakter. Og gæska. Ekki það að mamma hafi ekki hlegið dátt á fyrri árum, jú svo sannarlega. Alltaf og mikið. Og alltaf fann ég fyrir gæskunni. En það var ekki tekið út með sældinni að láta enda ná saman, ein og óstudd, a.m.k. í mínum uppvexti með harðri verkamannavinnu en samt að sinna því sem veitti henni hamingju, listinni.

Mamma var frábær dansari, jitterbug í gamla daga, hæsti sópran og spilaði snilldarlega á munnhörpu. Hún málaði einnig, eftir hana eru mörg falleg verk. Hún var mjög góður kokkur; vann sem kokkur á Hamrafellinu og öðrum stórum skipum, t.d. Svaninum, lestarskipi gerðu frá Grindavík sem ég, 8 ára, þvældist með sællar minningar, minni togurum o.fl. Dugnaðurinn var gegndarlaus. Mamma kenndi manni allt um að velja gott hráefni og elda matinn á þann hátt sem háttsettir kokkar í dag tuða um, á einfaldan hátt, látið ferskt hráefnið njóta sín. Alltaf var hún á undan sínum tíma.

Ég sakna hennar. Við öll söknum hennar.

Ég vil þakka starfsfólki Skjóls fyrir umönnun hennar. Þau eru öll svo yndisleg.

Elsku móðir mín. Ég á þér allt að þakka.

Hvíl í friði. Þín dóttir,



Guðrún Glódís Gunnarsdóttir.

Mamma er fallin frá eftir 91 ár af þessari tilvist. Hún var allt í senn, kvenskörungur, mjög listhneigð, bæði á penna og liti, vélritaði öll sín bókarhandrit með tveimur puttum ásamt reglulegum skrifum í Velvakanda Morgunblaðsins. Hún var mjög náin móður sinni meðan hún var á lífi en svo fékk amma Aldís krabbamein og mamma reyndi allt til að létta henni þá þjáningu. Þær lögðu á sig langt og erfitt ferðalag til Lourdes í Frakklandi, þar sem von var á kraftaverkalækningu í lind sem sögð var hafa lækningamátt. Þetta var síðasta vonin og þess virði fyrir mömmu að prófa þegar öll von um lækningu var úti. Flug til Kaupmannahafnar og svo lestarferðir í einn og hálfan sólarhring í steikjandi hita og hvorug talaði erlend tungumál. Þegar amma dó skrifaði mamma bókina Pílagrímsferð til Lourdes sem lesin var upp í útvarpinu, líklegast um 1960.

Man fyrst eftir mér á Víðimelnum, í örlitlu þakíbúðarhúsnæði, og mamma að semja handrit við eldhúsborðið og ég gónandi á hana skella upp úr og tala upphátt, svo mikið lagðist hún í skrifin.


Íbúðin angaði jafnan af olíulitum, því mamma málaði mjög sérstakar figúratívar myndir, lyktin fannst mér góð. Hún rölti með mig á trésmíðaverkstæði víðsvegar um borgina og keypti efni í ramma og viðarbúta til að mála á, en hún málaði einnig á striga og hélt nokkrar málverkasýningar, m.a. í Ásmundarsal. Hún hafði oftar en ekki farið til sjós með pabba á Dísarfellinu og Hamrafellinu, skrifaði m.a. söguna Kokkur til sjós um borð. Hún átti það til að leita uppi dýrabúðir og bjarga þaðan ýmsum fuglategundum, eins og páfagauknum Tobba og hrísfuglum sem hún keypti í Glasgow. Þeim tókst að fjölga sér uppi á fataskápnum á Víðimelnum.

Það er svo margs að minnast, frá þá helst bernskunni. Mamma fór snemma í Þjóðleikhúskórinn og fékk nokkur hlutverk gegnum söngröddina, m.a. í Kabarett, Kátu ekkjunni og Leðurblökunni. Það var gaman á þessum árum að fá að vera í lausagangi um allt Þjóðleikhúsið og sjá sýningarnar ansi oft. Man að það var mikil ástundun í kórstarfi og var hún í Dómkórnum næstum 20 ár. Hún sótti um í Pólýfónkórnum undir stjórn Ingólfs Guðbrandssonar og fékk strax þar inni. Þar var mikið félagsstarf og fengum við systur að fara til Ítalíu ásamt fleiri börnum kórfélaga og er sú ferð mér sú minnisstæðasta á ævinni. Þetta var 1976 og fæstir komið upp í þotu. Ítalirnir grétu og hrópuðu bravó eftir hverja tónleika. Á enn þann dag í dag vini úr þessari ferð.

Mamma stundaði Sundhöllina nær út ævina, sá hana stinga sér af háa brettinu 76 ára gamla og kafa alla leið út í grunnu. Ótrúlegur kraftur í þessari konu, enda lifði hún nánast á því sem kallast ofurfæði, þ.e. nær ekkert krydd, engin aukaefni, oftast ný línuýsa, kálbögglar með lambahakki, bananar og epli ofan á brauðsneiðarnar, alvörumjólk, eigin jógúrt úr Kákasusgerli, niðursoðin bláber í krukku frá Póllandi allan ársins hring og oft súr hvalur í eftirrétt. Man ekki eftir því að mamma hafi fengið kvefpestir eða bakteríusýkingar yfirhöfuð, hún kvaðst ekki vita hvernig höfuðverkur liti út! Enda sagði hún undir lokin: Ég verð aldrei veik, ég er skilin út undan! Hún tók aldrei bílpróf, enda var húmorinn svolítið bundinn við það undir það síðasta, hún hafði skýringu á því: Ég væri löngu búin að drepa fjölda manns! Enda oft kölluð hraðlestin á vinnustað.

Hún hvatti mig til að lesa góðar bækur og bóklestur var helsta dægradvölin og tilhlökkunin á jólum eftir skemmtilegum bókapakka er minnisstæð; Grimms-ævintýrin, Bör Börsson, Ævintýri æskunnar, Hjaltabækurnar, þjóðsögur og draugasögur. Mamma gaf mér Eyðimerkurblómið í jólagjöf 2004, áritaða af Waris Dirie sem fæddist í Sómalíu árið 1965 og var 13 ára þegar hún flúði land eftir að hafa verið seld í hjónaband. Mamma hafði mikið fyrir árituninni enda staldraði Waris stutt við á landinu í tilefni bókarinnar og mamma talaði ekki stakt orð í erlendum tungumálum. Það var þó gefin út bók eftir mömmu á dönsku, Den lille mester, enda rann í henni danskt blóð.

Dýpsta sælan og sorgin þunga,
svífa hljóðlaust yfir storð.
Þeirra mál ei talar tunga,
tárin eru beggja orð.

Harpa Karlsdóttir.