Sigríður Hjördís Indriðadóttir fæddist í Reykjavík 7. júní 1939. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 16. maí 2022.
Foreldar hennar voru hjónin Jóhanna Ólafsdóttir, f. 1.7. 1918, d. 14.5. 2007, og Indriði Bogason, f. 13.12. 1911, d. 6.9. 1992. Systkini Sigríðar eru: Bogi, f. 16.4. 1941, Ólafur, f. 27.6. 1945, d. 19.10. 2018, og Magnús, f. 20.12. 1952.
Hinn 4.1. 1963 giftist Sigríður Þóri Hallgrímssyni, f. 7.8. 1936. Þórir starfaði við Kársnesskóla í Kópavogi, fyrst sem kennari, en síðar sem yfirkennari og skólastjóri.
Sigríður og Þórir eignuðust tvö börn: Indriða Jóhann, f. 4.5. 1963, og Elísabetu Þóreyju, f. 15.7. 1973.
Indriði er kvæntur Önnu Jónu Geirsdóttur, f. 11.2. 1962. Börn þeirra eru: a) Hafdís, f. 23.1. 1979, maki Þorvaldur Ingi Guðjónsson, f. 31.5. 1976, barn þeirra er Elís Kári, f. 25.5. 2020, börn Hafdísar eru Anna Lilja, f. 14.5. 1999, Mikael Aron, f. 5.8. 2003, og Írena Rut, 19.3. 2009. b) Þórarinn Elís, f. 24.11. 1990. c) Sigríður Hjördís, f. 7.1. 1992, maki Hannes Björn Guðlaugsson, f. 15.1. 1990, börn þeirra eru Jóhanna Þórdís, f. 1.1. 2019, og Ólöf Anna, f. 20.5. 2021. d) Brynhildur Ósk, f. 10.12. 2001.
Elísabet er gift Flóka Halldórssyni, f. 29.12. 1973. Dætur þeirra eru Una Sólveig, f. 7.10. 2005, Ása Gunnþórunn, f. 4.3. 2007, og Saga Sigríður, f. 19.10. 2010.
Sigríður ólst upp í Vesturbænum í Reykjavík, lengst af á Öldugötu 9 en síðar á Melhaga 12. Hún gekk í Melaskóla, Gagnfræðaskóla Vesturbæjar og Menntaskólann í Reykjavík þar sem hún útskrifaðist sem stúdent árið 1959. Hún útskrifaðist sem kennari úr Kennaraskóla Íslands árið 1960.
Sigríður hóf starfsferil sinn sem kennari í Kársnesskóla í Kópavogi árið 1960 þar sem hún kynntist samkennara sínum og síðar eiginmanni Þóri Hallgrímssyni. Þau trúlofuðu sig 1. janúar 1962 og gengu í hjónaband 4. janúar 1963. Sigríður kenndi alla sína starfsævi við Kársnesskóla.
Sigríður og Þórir fluttu í Holtagerði 49, Kópavogi, árið 1963, þar sem þau byggðu sér hús og bjó Sigríður þar frá þeim tíma eða þar til um miðjan febrúar sl. þegar hún fékk dvöl á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð.
Útförin fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 25. maí 2022, klukkan 13.
Mamma ólst upp í Vesturbænum, lengst af á Öldugötu 9 þar sem hún bjó ásamt foreldrum sínum og föðurafa og -ömmu. Hún talaði hlýlega um barnæsku sína, þar sem fjöldamargir krakkar í hverfinu léku sér saman úti við og flykktust á Melavöllinn að horfa á íþróttaviðburði. Hún var elst systkina sinna, átti þrjá yngri bræður, og sem elsta systkinið sá hún oft um að líta eftir þeim. Sem barn var hún í sveit á Breiðabólsstað á Síðu, hjá frændfólki sínu sem henni þótti afar vænt um, þar líkaði henni vistin vel og sagði hún ófáar sögur af dvöl sinni í sveitinni.
Mamma hafði gaman af klassískri tónlist og falleg tónlist hreyfði við henni. Faðir hennar var víóluleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands og fór hún oft á tónleika þegar hann var að spila. Sem lítil stelpa var hún sídansandi heima hjá sér með svo miklum tilþrifum að móðir hennar hélt að ballettséní væri á ferð. Hún var því send í ballettskóla en ballettferilinn var endasleppur, mamma var hrædd við ballettkennarann og neitaði að mæta í fleiri tíma. En hún smitaði mig af ballettáhuganum og við vorum duglegar að sækja ballettsýningar.
Mamma var góður námsmaður og þótti gaman að læra, hún gekk í Menntaskólann í Reykjavík og síðar í Kennaraskólann. Þó að ekki sé lengra síðan var á þeim tíma ekki sjálfgefið að konur fengju að mennta sig og var hún þakklát foreldrum sínum, sérstaklega mömmu sinni, að styðja hana í því að fá að njóta menntunar. Mamma tók eftir því þegar hún var að alast upp að stelpur nutu ekki sömu tækifæra og strákar og misbauð það réttlætiskennd hennar.
Að loknu kennaranámi hóf mamma að kenna við Kársnesskóla í Kópavogi, sem reyndist örlagaríkt þar sem hún kynntist föður mínum. Á þeim tíma var húsnæðisskortur í Reykjavík og brugðu þau á það ráð að festa kaup á lóð við Holtagerði í Kópavogi, steinsnar frá Kársnesskóla, þar sem þau byggðu hús. Mamma bjó þar í 59 ár með föður mínum eða þar til í febrúar sl. þegar hún var orðin alvarlega veik og flutti á hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð.
Hjónaband mömmu og pabba einkenndist af mikilli samheldni og hlýju, þau störfuðu á sama vinnustað alla sína starfsævi, og heima fyrir voru þau ekki síður samheldin og samtaka og gengu í öll störf saman. Eftir því sem mömmu hrakaði undanfarin ár tók pabbi yfir öll verk og sinnti mömmu af einstakri alúð og umhyggjusemi svo eftir var tekið. Mamma tók þessu ekki sem sjálfsögðum hlut og var óspör á að tala um hvað pabbi minn væri góður karl og hvað hún væri heppin að eiga hann að.
Mamma var hógvær kona, nægjusöm og heimakær. Henni leið best heima í litla rauða húsinu í Holtagerði með stóra garðinum, þar sem hún naut þess að vera úti á sumrin og þar sem hún á veturna gaf fuglunum daglega hafragraut bragðbættan með rúsínum. Hún hafði yndi af bóklestri, las mikið og var dugleg að benda mér á og lána mér bækur. Hún var réttsýn og jarðbundin, tilfinningarík og kærleiksrík. Hún var fróð og upplýst, vel máli farin og lagði mikla áherslu á gott málfar. Hún lagði kapal og réð krossgátur af miklum móð. Það var alltaf stutt í kennarann í henni og hún var óspör á að fræða mig um heima og geima.
Mamma var einstaklega blíð móðir og amma. Hún var mikil fjölskyldukona og vildi allt fyrir sitt fólk gera. Dætur mínar nutu góðs af því hvað hún var barngóð og greiðvikin. Hún var alltaf boðin og búin að passa þær. Ekkert viðvik var of mikið og það var sama hvað það var, hvort sem það var að passa köttinn okkar þegar við fórum í ferðalög eða fara út að ganga með hundinn þegar mikið var að gera hjá mér, hún bauðst alltaf til þess að létta undir og hjálpa til að fyrra bragði og ætlaðist aldrei til neins á móti. Hún og pabbi hjálpuðu til þegar brúa þurfti bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóladvalar og gerðust svo gott sem dagforeldrar dætra minna. Í fæðingarorlofunum voru mamma og pabbi nær daglegir gestir til mín og við gengum þvert og endilangt um Vesturbæinn með barnavagninn. Mamma var ekki alvarleg eða umvöndunarsöm amma heldur var þvert á móti fjör og hressleiki í fyrirrúmi þar sem farið var í skessuleiki í garðinum í Holtagerði eða hlaupið hlæjandi um Landakotstúnið. Eftir því sem dætur mínar eltust komst sú hefð á að hafa sérstaka ömmu- og afadaga einu sinni í viku þar sem amma og afi sóttu þær úr leikskóla og skóla, með smurt flatbrauð og kleinur í nesti og vörðu eftirmiðdeginum saman. Við náðum einnig að fara í fjórar utanlandsferðir saman með dætrum mínum og eru minningar úr þeim ferðum ómetanlegar.
Mamma var létt í lund, skapgóð og ljúf. Hún var skemmtileg. Eins og hún sagði sjálf kunni hún ekki að fara í fýlu. Hún var glaðsinna og hláturmild. Nöldur, neikvæðni og barlómur voru henni ekki að skapi heldur vildi hún einblína á björtu hliðarnar í lífinu. Hún var lífsglöð og það lýsir henni vel að þrátt fyrir að vera orðin mjög veik talaði hún iðulega um það við mig hvað sér þætti gaman að lifa og hvað það væri gaman að vera til. Þegar ég heimsótti hana í Sunnuhlíð og sjúkdómurinn hafði lagst á svo miklum þunga á hana að hún var orðin ósjálfbjarga svaraði hún því samt alltaf til að hún hefði það fínt þegar ég spurði hana um líðan hennar.
Það var erfitt fyrir okkur aðstandendur að sjá minnissjúkdóminn ömurlega ná yfirhöndinni á kláru, minnugu og skörpu konunni sem móðir mín var. En hún tók því eins og öðru með jafnaðargeði og æðruleysi. En sjúkdómurinn náði ekki að ræna hana mildinni og hlýjunni og það var alltaf stutt í brosið hjá henni, kossana og faðmlögin.
Það var sérstaklega fallegt veður þegar mamma kvaddi í dagrenningu, bjart, stillt og milt, líkt og hún. Það eru forréttindi að hafa fengið að eiga svona góða og ljúfa móður og mun ég minnast mömmu með gleði og hlýju.
Þín augu mild mér brosa
á myrkri stund
og minning þín rís hægt
úr tímans djúpi
sem hönd er strýkur mjúk
um föla kinn
þín minning björt
(Ingibjörg Haraldsdóttir)
Elísabet Þórey Þórisdóttir.