Magnús Guðlaugsson, hæstaréttarlögmaður og löggiltur fasteignasali, fæddist á Seyðisfirði 3. ágúst 1958. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu í Garðabæ 9. maí 2022.
Foreldrar Magnúsar voru Erla Magnúsdóttir húsmóðir, f. 16.9. 1932, d. 18.1. 1980, og Guðlaugur Jónsson, málarameistari, kaupmaður og gjaldkeri, f. 2.6. 1915, d. 19.3. 2005.
Bróðir Magnúsar er Jón Benedikt, f. 31.12. 1959.
Magnús kvæntist 30.9. 1984 Önnu Sigríði Þórðardóttur hjúkrunardeildarstjóra. Þau slitu samvistum árið 2013. Foreldrar Önnu: Anna Hjaltested sjúkraliði, f. 23.5. 1932, d. 8.11. 2019, og Þórður Sigurðsson forstjóri, f. 9.7. 1929.
Börn Magnúsar og Önnu: a) Erla, f. 20.6. 1984, d. 24.6. 1984. b) Guðlaug Erla Akerlie hjúkrunarfræðingur, f. 14.6. 1985, m. Sveinn Akerlie flugstjóri, f. 15.12. 1981. Börn þeirra eru Erla María, f. 16.9. 2013, Arna Katrín, f. 23.11. 2014, og Karl Orri, f. 11.7. 2020. c) Sigrún Anna háskólanemi, f. 5.7. 1989, m. Nicholas Dean Herring hugbúnaðarverkfræðingur, f. 12.3. 1985. Dóttir þeirra er Freyja Sif, f. 13.3. 2018. d) Þóra Kristín Hjaltested háskólanemi, f. 17.6. 1993, m. Karl Stefánsson jarðfræðingur, f. 18.4. 1995. e) Lárus vegaverkamaður, f. 28.3. 1995, m. Emilía Helgadóttir nemi, f. 3.11. 1997. Börn þeirra eru Helena, f. 11.6. 2020, og drengur f. 21.4. 2022.
Magnús lauk stúdentsprófi frá MR, embættisprófi í lögfræði frá HÍ 1984, öðlaðist hdl.-réttindi 1987 og hrl.-réttindi 1994. Hann starfaði sem lögfræðingur hjá Fasteignamarkaðnum 1984-86, og fulltrúi á lögmannsstofu Ágústs Fjeldsted, Benedikts Blöndal og Hákonar Árnasonar 1986-88, og málflutningsstofu Guðmundar Péturssonar, Péturs Guðmundssonar og Hákonar Árnasonar 1988-90. Magnús var meðeigandi á lögfræðistofunni Lögrúnu sf. sem árið 2001 sameinaðist Lögmáli ehf., lögmannsstofu. Frá árinu 2017 hefur hann starfað á eigin stofu, Codex ehf., samhliða störfum hjá Domusnova fasteignasölu.
Á námsárum sínum í HÍ starfaði Magnús í stjórn og sem formaður Loka, félags ungra sjálfstæðismanna, sat í Stúdentaráði á vegum Vöku, í varastjórn Félagsstofnunar stúdenta, í stjórn Orators og var formaður félagsins 1981-82. Hann sat í landskjörstjórn 1990-91. Magnús hefur verið virkur í starfi Frímúrarareglunnar til fjölda ára og gegnt þar ýmsum trúnaðarstörfum.
Útförin fer fram frá Vídalínskirkju í dag, 24. maí 2022, klukkan 13.
Frá busadögum í sumarlok 1974 til vordaga 1978 var ekki beinn og breiður vegur. Þeir farartálmar sem auðkenndu MR-kerfið ollu Magnúsi ekki teljandi vandræðum. Gjörningaveðrið hófst haustið 1974 með íslenskri réttritun. Kennsluaðferðin var árangursrík og allharkaleg. Lesinn var upp texti á nútímaíslensku sem nemendur skyldu skrifa niður hjálpartækjalaust. Brot af þessu réttritunarsauðahúsi hefði getað hljómað svo: Munkarnir þræddu þröngt einstigið með signa ýsu í poka og þurftu að gæta þess að sundla ekki yrði þeim það á að horfa til botns í geigvænlegu og ógnþrungnu hyldýpi þar sem ægði saman líkamsleifum munka, ýsuhausum á tjá og tundri, og slitri af forneskjulegum munkakuflum fyrri alda. Fyrir hverja prófvillu var hálfur dreginn frá. Það kostaði ekki mikla atorkusemi til þess að fá neikvæða prófeinkunn í þessu fagi!
Ylhýr tunga feðranna var annar af þeim þröskuldum sem MR-busar þurftu að yfirstíga, hinn var stærðfræði. Þar fór Magnús á kostum. Busaárið á stærðfræðisviðinu fólst í einfaldri flatarmyndafræði (t.d. frumsendur, hornasumma þríhyrnings) fyrir jól og lausn jafna (t.d. af öðru stigi), notkun á reiknistokk og lógaritmatöflum á útmánuðum. Þessi sígildu og kjarnyrtu vísindi, íslenska og stærðfræði, réðu miklu um það - hafi menn skálmað af nægilegu öryggi yfir þröskuldana tvo - hvert næst skyldi halda. Magnús fór í stærðfræðideild í 4.-Y sem var til húsa í Fjósinu. Líkt og busaárið í 3.-D fór kennsla að mestu fram síðdegis. Skólinn var tvísetinn. Frjósemi eftirstríðsáranna (baby-boom) og aukinn aðgangur að æðri menntun hafði kollvarpað eldra skipulagi. Kerfið hafði þanist út í ótal áttir, menntaskólar í Reykjavík voru orðnir þrír að tölu auk Verslunarskólans, og landsprófið heyrði brátt sögunni til. Það var mikill órói í íslensku samfélagi um þessar mundir: óðaverðbólga, Geirfinnsmálið, kvennafrídagurinn, upphaf tölvuvæðingar, landhelgismálið, jarðeldar við Kröflu.
Það lýsir vel hugarþeli þessara ára að upp á vegg í 3.-D var límd blaðaúrklippa með ljósmynd af Leirfinni (stytta, sbr. Geirfinnsmálið). Það er erfitt að afmá þessa mynd úr höfði sér. Samt er það ekki síst upphaf tölvuvæðingar á þessum árum sem situr eftir og er varanlegt í hafróti minninganna. Reiknistokkar, lógaritmatöflur, forritanlegar vasareiknivélar, tölvur, gataspjöld. Magnús hafði gaman af tólum, tækjum, og fínum skjalatöskum. Hann gat lesið af reiknistokk - sá sem hann sjálfur átti var mikil völundarsmíði - með margra aukastafa nákvæmni (sannreynanleg með því að fletta upp í lógaritmatöflu!).
Vorið 1976 var aftur komið að ákvörðunartöku í MR-kerfinu. Magnús ákvað að fara í eðlisfræðideild I líkt og fimmtán aðrir menn og konur (eitt bekkjarsystkinanna er fyrir nokkru látið: Þorvaldur K. Árnason). Það var skynsamleg ákvörðun af hálfu Magnúsar. Hann réð vel við námsefnið, stærðfræðin var honum mjög að skapi þótt fórna þyrfti töflum og stokkum, og við bættist nýtt námsfag þar sem Magnús fór á kostum: tölvufræði. Þetta var veturinn 1977-1978 í 6.-X í MR. Þá á útmánuðum fengum við undir styrkri leiðsögn Yngva Péturssonar kennara okkar í MR að forrita og keyra forritin (í forritunarmálinu FORTRAN) (vitanlega allt með gataspjöldum) á stórri IBM-tölvu Háskóla Íslands. Á vissan hátt birtust þarna töflur og stokkar Magnúsar endurbornir. Veturinn 1976-1977 í 5.-X í MR var af rólega taginu, líkt og menn hafi skynjað hvað væri í vændum í sjötta bekk: gjörningaveður og strembin próf. Vilji menn kynna sér nánar talna-umhverfið þar sem Magnús blómstraði og lagði jafnframt sitt af mörkum svo aðrir gætu blómstrað, er bent á skólaskýrslur MR sem eru einstök heimild um mann- og menntalíf á Íslandi. Magnús lauk stúdentsprófi ásamt bekkjarsystkinum sínum í 6.-X þann 26. maí 1978. Hann var traustur námsmaður, góður í stærðfræði og sérstaklega í tölvufræði. Hann var góður félagi á þessum MR-árum. Eftir það slitnuðu tengslin, því miður. Af hverju fór hann í lögfræði? Magnús varð á vissan hátt ósýnilegur. Og þótt mér stæðu allar ofurtölvur heimsins til boða stoðar það lítið. Hann heldur áfram að vera ósýnilegur og óáþreifanlegur. Öðru máli gegnir um minningarnar. Og því hef ég lagt áherslu á þær í þessum greinarstúf.
Skúli Sigurðsson
Skúli Sigurðsson