Guðríður Karen fæddist í Baldurshaga, Fáskrúðsfirði, 22. september 1940. Hún lést á líknardeild Landspítalans 26. maí 2022. Foreldrar hennar voru hjónin Nanna Steinunn Þórðardóttir, f. 2. apríl 1913, d. 11. nóv. 2003 og Bergkvist Stefánsson, f. 15. sept. 1903, d. 5. júní 1986. Af fjórum systkinum var Guðríður næstelst barna þeirra hjóna. Þau eru Jón Baldvin, f. 16. okt. 1938, Rannveig Ragna, f. 26. júní 1942 og Bergþóra, f. 4. mars 1951. Fyrir átti Bergkvist dótturina Sigurbjörgu, f. 2. sept. 1928. Hinn 28. maí 1967 giftist Guðríður Jóni B. Guðmundssyni frá Siglufirði. Þau hófu búskap sinn á Siglufirði sama ár en fluttu til Fáskrúðsfjarðar 1972. Börn þeirra eru: 1) Helena S. Stefánsdóttir, f. 14 feb. 1963. Faðir Stefán Smári Kristinsson, f. 5. nóv. 1941, d. 13. okt. 1962. Helena er gift Ólafi Þ. Auðunssyni, börn þeirra eru Stefán Smári og Jóel Daði. 2) Nanna Þ. Jónsdóttir, f. 6. okt. 1967, gift Árna Gíslasyni, þeirra börn eru Karen Mist, Gísli Jón og Tómas. 3) Sigurjóna Jónsdóttir, f. 9. mars 1969, gift Víglundi Þórðarsyni, börn þeirra eru Vígdís og Björk. 4) Guðmundur Bergkvist, f. 30. mars 1972, giftur Ólínu B. Einarsdóttur, börn þeirra eru Brynja Katrín, Bjarni Dagur og Björgvin Ari. 5) Þórður Már Jónsson, f. 12. janúar 1974, giftur Thanh Tam Ha, börn þeirra eru You Ha og ­­­­­­­Amanda. Dætur Þórðar eru einnig: Sunna, Tanja, Ísabella Eir, Sara Sól og Aþena Rós, móðir Elísabet A. Christiansen. 6) Aðalsteinn Jónsson, f. 19. nóv. 1975, giftur Júlíönu G. Þórðardóttur, börn þeirra eru Ástdís Eik, móðir hennar er Súsanna Björg Ástvaldsdóttir. Jón Þór, Emil Elí og Bjartur Búi. Langömmubörnin eru tvö, Katla Sóley, dóttir Karenar Mistar, og Jenný Þóra, dóttir Vigdísar. Guðríður Karen, eða Guja, eins og hún var oftast kölluð, ólst upp á Fáskrúðsfirði. Hún fór í  Húsmæðraskóla eins og algengt var. Guðríður vann margvísleg störf, lengi við verslunarstörf. Var starfsmaður Kaupfélagsins á Fáskrúðsfirði á yngri árum, einnig Amaró á Akureyri. Á Fáskrúðsfirði rak hún um tíma verslanir. Hún sá um rekstur á Félagsheimilinu Skrúð um tíma, ásamt eiginmanni sínum. Hún starfaði einnig við fiskvinnslu inn á milli. Guðríður var í mörg ár sundlaugarvörður á Fáskrúðsfirði eða allt þar til hún lauk starfsævinni. Hún var liðtæk í félagsstörfum á Fáskrúðsfirði, meðal annars í Slysavarnafélaginu og Kvenfélaginu. Árið 2006 fluttu Guðríður og Jón í Hveragerði þar sem þau sinntu áhugamálinu sem var garðræktin og blómin. Það gerðu þau til ársins 2018 þegar þau fluttu í Boðaþing í Kópavogi.

Útförin fer fram frá Lindakirkju Kópavogi í dag, 1. júní 2022, klukkan 13. Athöfninni verður streymt á  lindakirkja.is/utfarir. Hlekk á streymi má finna á:

https://mbl.is/andlat

Elsku mamma er farin frá okkur, límið sem hélt fjölskyldunni saman.

Við mamma vorum nánar þó við værum ekki alltaf sammála frekar en annað fólk.
Hún var glöð og félagslynd, enda átti hún marga vini á öllum aldri, flesta ævilangt. Hún var dugleg að rækta sambandið við þá og mundi flesta afmælisdaga.
Það var merkilegt, þar sem fjölskylda hennar er stór, ekki klikkaði hún þar. Til marks um það velti hún því mikið fyrir sér á síðustu dögum lífsins, hvað hún ætti að gefa Döddu systur sinni í afmælisgjöf, þar sem hún ætti stórafmæli á næstunni. Líklega hefur hún haldið í vonina um að hún gæti fagnað afmæli systur sinnar. Að fagna var hennar yndi og veisluhöld voru hennar sérgrein. Enda var hún svo þekkt fyrir tertulistina að það þótti ástæða að nefna í kökublöðum. Mamma hélt líka í vonina um að fá að fagna 55 ára brúðkaupsdegi þeirra pabba, en því miður náðist það ekki. Slíkur var lífskrafturinn og viljinn. Henni fannst hún ætti eftir að gera svo margt með fjölskyldunni, því henni fannst svo gaman að lifa.

Fjölskyldan var henni allt og stærsta verkefni lífsins var að halda heimilinu gangandi og koma sex börnum til manns. Auk þess að vera virk í félags- og mannúðarmálum vann mamma að hluta utan heimilis. Pabbi var togarasjómaður með langa fjarveru frá heimilinu. Börnin fóru eitt af öðru að heiman og hefur sennilega verið tómlegt á heimilinu um tíma. Svo komu tengdabörnin, en þau voru mömmu mjög kær. Talaði hún oft hvað hún væri heppin með þau og held ég að það hafi verið gagnkvæmt.

Ríkidæmi mömmu og pabba er mikið en þau eiga 20 barnabörn og tvö barnabarnabörn og fer sá hópur stækkandi á árinu. Mamma þráði að hitta öll þessi börn, og oftar en hægt var, því í amstri dagsins týnist tíminn eins og sungið er í texta eftir Bjartmar Guðlaugsson. Hann var í miklu uppáhaldi hjá mömmu.

Mamma var tónelsk og átti ung drauma um að læra söng. Hún sagði mér eitt sinn að hún hefði um tíma troðið upp sem trúbador með gítar, svo hló hún. Sennilega var það á Akureyri en hún bjó um tíma hjá mikilli tónlistarfjölskyldu. Elín Eydal, móðir þeirra Eydalsbræðra, var fjölskylduvinur. Talandi um hlátur, mamma sagði eftirminnilega sögu frá námsárunum á Laugalandi. Eins og algengt var um heimavistarskóla, var þar margt brallað og stundum komu skammir eftir því. Mamma hafði breitt bak og tók á sig margs konar prakkarastrik vinkvenna sinna. Eitt sinn þegar verið var að finna út hver gerði hvað sagði skólastýran hvöss; Hvað hlægir þig Guðríður? Mamma reyndi að halda í sér hlátrinum því hún vissi hið sanna í málinu.

Foreldrar mínir kynntust á Akureyri en í lok skólaárs 1962. Pabbi minn lenti í hörmulegu slysi um vorið og lét lífið að hausti, eftir langa baráttu. Jón pabbi kom inn í mitt líf um fjögurra ára aldur. Það var mér mikil gæfa. Fjölskylda blóðföður míns er einstök og hefur alla tíð verið mikil vinátta á milli mömmu, Jóns pabba og þeirra.
Þú getur þetta alveg ef þú vilt það sagði mamma alltaf við okkur systkinin. Ég hef reynt að tileinka mér þá visku og sá sömu frjókornum til fólksins í lífi mínu.

Snemma að morgni uppstigningardags hringdi síminn. Það var Jóna systir sem sat þá vaktina hjá mömmu, hún sagði mér að nú væri komið að kveðjustundinni. Þetta var fallegur og sólríkur dagur, ég ræsti bílinn við hús systur minnar og mér til undrunar heyrði ég kunnuglega tóna í útvarpinu. Queen, uppáhalds erlenda hljómsveitin hennar mömmu, og stórsöngvarinn Freddie Mercury söng lagið You're My Best Friend. Gegnumgangandi laglína í laginu er You make me live.

Tárin runnu niður kinnarnar því mér fannst hún vera að senda mér skilaboð en tárin voru þakklætistár. Þakklæti fyrir lífið sem hún gaf okkur systkinunum og góðu stundirnar með henni. Þó að mamma hafi náð háum aldri fannst henni hún eiga svo margt eftir, enda lifði hún lífinu lifandi. Hvíl í friði elsku mamma. Minningin lifir þótt söknuðurinn sé sár.

Helena S. Stefánsdóttir og fjölskylda.