Stutta skáldsagan eða nóvellan Kjörbúðarkonan eftir hina japönsku Sayaka Murata hefur vakið mikla athygli víða um heim. Murata er margverðlaunuð í heimalandinu en Kjörbúðarkonan er fyrsta verk hennar sem vestrænir lesendur hafa fengið að kynnast.
Aðalpersóna verksins, Keiko Furukura, hefur alltaf verið utanveltu, öðruvísi en aðrir, og talin trú um að hún þyrfti á „lækningu“ að halda. Hún hefur unnið í sömu kjörbúðinni í 18 ár, hefur fullkomnað rulluna og talar í raun sjálf um að hún hafi „endurfæðst“ sem kjörbúðarstarfsmaður (17) daginn sem hún hóf störf.
Sjálf kjörbúðin, Smile Mart, leikur stórt hlutverk og verður hálfpartinn eins og persóna út af fyrir sig. Hún er lifandi vera sem andar, gefur frá sér hljóð og lykt, allan sólarhringinn, allan ársins hring. Og Furukura hefur eiginlega runnið saman við þessa veru. „Þegar ég leiði hugann að því að líkami minn sé allur úr mat úr þessari verslun finnst mér ég vera jafn mikill hluti af henni og blaðarekkarnir eða kaffivélin“ (30). Það er ekki annað að sjá en að henni þyki þessi samruni þægilegur. Hún nýtur þess að vera kjörbúðarkona.
Furukura er engum til ama. Hún er góð í sínu starfi og ánægð með lífið. En það dugir ekki til. Kröfur samfélagsins eru slíkar að henni finnst hún þurfa að breyta um stefnu.
Meginþema verksins er áhersla samfélagsins eða jafnvel þráhyggja þess fyrir því að fólk finni sig í stöðluðum hlutverkum kynjanna. Kjörbúðarkonan er í raun ádeila á þá kröfu til kvenna að þær geri það sem samfélagið ætlist til af þeim, sækist eftir virðulegu starfi og vel launuðu eða eiginmanni í virðulegu starfi og vel launuðu.
Það hvílir þungt á Furukura að hún sé að bregðast fjölskyldu sinni með því að vera öðruvísi en aðrar konur á hennar reki. Þrátt fyrir að hafa engan áhuga á því að kynnast karlmanni þá þróast kynni hennar af hinum nýja og algjörlega ómögulega búðarstarfsmanni Shiraha fljótt í þá átt. Hann er nefnilega að leita að eiginkonu og er eins og Furukura talsvert á skjön við venjulegt japanskt samfélag og í hálfgerðri uppreisn við það. Kynni hennar af þessum manni koma talsverðu róti á líf hennar og á söguþráð verksins.
Furukura er óvenjuleg hetja en þó ekkert einsdæmi. Ýmsir höfundar hafa skrifað verk út frá sögupersónum sem hafa aðra sýn á heiminn líklega vegna þess að þau eru á einhverfurófinu án þess að það sé sérstaklega nefnt. Furukura minnir til dæmis um margt á persónuna Eleanor Oliphant í bókinni Allt í himnalagi hjá Eleanor Oliphant eftir Gail Honeyman. Furðulegt háttalag hunds um nótt eftir Mark Haddon er annað ágætt dæmi.
Með þessari tækni, að sýna heiminn frá sjónarhóli þeirra sem eru á einhvern hátt „öðruvísi“, er hægt að varpa ljósi á ýmsar venjur, hefðir og gildi sem við sem samfélag höfum litið á sem sjálfsagðan hlut.
Þótt aðstæðurnar sem lýst er í bókinni séu ýktar þá er boðskapur verksins eitthvað sem við öll getum tekið til okkar. Erum við að eltast við það sem við sjálf viljum, það sem veitir okkur hamingju, eða erum við að eltast við það sem við höldum að við eigum að vilja af því samfélagið hefur beint okkur í þá átt?
Verkið er einfalt í sniðum á yfirborðinu. Textinn er skýr og hnitmiðaður og bygging þess líka. Það eru hinar samfélagslegu vangaveltur sem höfundurinn setur fram sem gera það flókið. Verk Muraka er dæmi um hvernig má segja margt með fáum orðum og setja fram flóknar hugmyndir með einfaldri umgjörð.
Íslensk þýðing Kjörbúðarkonunnar er hluti af áskriftaröð Angústúru, þýðingunum í hvítu kápunum, sem hefur frá upphafi verið ákveðinn gæðastimpill. Elísa Björg Þorsteinsdóttir er öflugur þýðandi og á margar góðar þýðingar í þessari ritröð, þessi ekki síðri en þær sem á undan hafa komið.
Í þessari útgáfu er að finna stutta grein eftir Kristínu Ingvarsdóttur, lektor í japönskum fræðum við Háskóla Íslands. Grein þessi dýpkar skilning manns á söguheiminum, japönsku samfélagi samtímans, og kynnir höfundinn Sayaka Murata og hugðarefni hennar.
Kjörbúðarkonan vekur okkur til umhugsunar um hin fastmótuðu gildi sem einkenna japanskt samfélag og ekki síður um hvernig yfirfæra má þessar hugmyndir á samfélag okkar hér á Íslandi sem er ef til vill ekkert svo frábrugðið því japanska þegar öllu er á botninn hvolft.
Ragnheiður Birgisdóttir