Ingibjörg Sigjónsdóttir fæddist á Meðalfelli 2. janúar 1933. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Skjólgarði 25. maí 2022.
Foreldrar hennar voru Guðlaug Guðmundsdóttir, f. 18. maí 1909, d. 28. nóvember 1998, og Sigjón Einarsson, f. 10. janúar 1896, d. 23. ágúst 1961.
Systkini hennar: Elstur var Snorri bóndi, f. 23. júlí 1930, d. 8. nóvember 2013, Þorsteinn, f. 29. nóvember 1939, bóndi í Bjarnanesi, maki Vilborg Jónsdóttir. Yngst var Jóna, f. 20. mars 1945, d. 5. júní 2021, maki Guðni Karlsson.
Fjölskyldan bjó í Móa en flutti í Bjarnanes 1948 en þá var Ingibjörg 15 ára. Hún var alin upp við almenn sveitastörf og gekk í barnaskóla á Fornustekkum og í Kirkjukjallaranum við Laxá. Hún fór síðan í Héraðsskólann í Reykholti í Borgarfirði í tvo vetur og síðan dvaldi hún í Reykjavík og vann sem heimilishjálp og á elliheimilinu Grund. Hún flutti aftur til Hornafjarðar 1955 og fluttist til Hafnar og fór að starfa sem ráðskona hjá Einari kaupmanni frá Hvalnesi.
Hinn 28. desember 1957 giftist Ingibjörg Ólafi Runólfssyni skipstjóra, f. 24. júní 1933, d. 15. september 1961. Foreldrar hans voru Sigurborg Ágústsdóttir, f. 20. júní 1896, d. 10. janúar 1972, og Runólfur Bjarnason, f. 4. nóvember 1891, d. 30. október 1978.
Börn Ingibjargar eru: 1) Þráinn Gíslason, f. 21. mars 1955, faðir hans er Gísli Vilhjálmur Ákason, f. 28. febrúar 1934, búsettur í Kópavogi. Börn Ingibjargar og Ólafs Runólfssonar eru: 2) Guðlaug Valdís, f. 12. ágúst 1957, maki Jón Benjamín Oddsson, f. 13. ágúst 1956. Börn þeirra eru Ingibjörg Erna og Herdís Harpa. 3) Sigrún Hafdís, f. 21. desember 1958, maki Elías Guðmundsson, f. 9. júní 1957. Börn Hafdísar og Þrastar Rafnssonar, f. 11. apríl 1963, d. 3. október 2010, eru Sunna og Valdís Anna. 4) Ólafur Helgi, f. 12. september 1960, maki Laufey Kristmundsdóttir, f. 30. september 1963. Börn þeirra eru Ólafur Helgi, Kristmundur Davíð og Sigurborg Kristín. 5) Olgeir Karl, f. 12. febrúar 1962, maki Alma Þórisdóttir, f. 9. október 1964. Börn þeirra eru Sigurbjörg Sandra, Ægir og Þórir Kristinn.
Barnabarnabörnin eru orðin tíu.
Seinni eiginmaður Ingibjargar var Jón Óskarsson, f. 4. maí 1939, d. 4. nóvember 2007. Sonur Jóns er Freyr Onryd.
Útförin fór fram frá Hafnarkirkju 6. júní 2022.
Þú varst engri konu lík,
Þú varst fjallkonan mín.
Þegar læknirinn þinn hringdi og sagði mér að þú værir látin setti mig hljóða.
Þú hafðir fyrir lífinu og háðir marga baráttuna, en hélst alltaf áfram með þínum mikla styrk og æðruleysi.
Þegar kom að leiðarlokum gerðir þú þetta með þínum hætti, lagðist fyrir eftir umönnun þessa dásamlega fólks sem hefur annast þig síðustu árin, hallaðir aftur augunum þínum og gafst eftir, fallegt.
Þú stakkst okkur af eins og Alma tengdadóttir þín orðaði þetta svo vel.
Nú sit ég í glaða sólskini við fuglasöng í lundinum þína fagra skógarlundinum, Ingibjargarlundi sem þú ræktaðir á löngu árabili og skrifa þér nokkrar línur.
Oft er sagt að fötin skapi manninn en ég er á þeirri skoðun að reynslan og áföllin, ásamt gleðigjöfum lífsins, skapi þá manneskju sem við höfum að geyma.
Þú varst komin að níræðu og orðin sú manneskja sem lífið ætlaði þér.
Það gaf á bátinn og áföll lífsins urðu stór, þú misstir hann pabba okkar í hafið aðeins 28 ára gamlan frá börnunum fimm, en þú barðist áfram með barnahópinn þinn, Þráin, Valdísi, Hafdísi, Óla og Olgeir og komst okkur til manns, þess njótum við nú að hafa hvert annað.
En gleymum ekki því góða, minningarnar um þig eru svo margar og þær ylja.
Þú varst fædd á Meðalfelli í Nesjum í Hornafirði og ólst upp í torfbæ að Móa í sömu sveit til 14 ára aldurs. Þú sagðir mér oft frá því sem gert var í torfbænum og ljómaðir við frásögnina, fluttir svo með foreldrum þínum að Bjarnanesi þar sem þú ólst upp ásamt systkinum þínum þremur, Snorra, Steina og Jónu.
Að vera alin upp í sveitinni hefur án efa mótað lífsskoðun þína og viðhorf til náttúrunnar og náttúruverndar, virkjanir á hálendi Íslands voru þér mjög hugleiknar og hafðir þú á þeim sterkar skoðanir. Þú elskaðir Ísland.
Þú þreyttist aldrei á því að keyra um landið, þú og Jón seinni maðurinn þinn, þið lögðuð land undir fót og fóruð landshornanna á milli til að hitta börn og barnabörnin við vorum þakklát því.
Þú varst mikil amma og kenndir barnabörnunum þinum margt og bauðst þeim alltaf faðminn þegar þau þurftu á þér að halda, ferðirnar með þér inn á Móa í fallega lundinn þinn eða að veiða með þér og afa munu seint gleymast, svo varstu líka heppin að eignast tíu barnabarnabörn sem þú varst ákaflega hreykin af.
Ég naut þeirrar gæfu að ferðast með þér, stundum við bara tvær eitt skiptið hafðir þú flogið til Ísafjarðar og við farið landleiðina til baka Vestfirðir Vesturland það var alveg sama hvar við fóru og eða áðum, þú varst með öll örnefni á hreinu, hvort heldur voru fjöll, vötn, ár eða fossar, og sögur staðanna ekki síður. Landafræði og saga þjóðarinnar voru þín áhugamál ásamt því að lesa bækur og ljóðelsk varstu mjög. Þú sagðir mér að oftar en ekki hefðir þú í sveitinni lesið við tunglsljós þegar þú áttir að vera farin að sofa og líka laumast með bók þegar þú sóttir kýrnar.
Þú kenndir mér svo margt þar á meðal að lesa og rýna ljóð. Einar Ben. ljóðskáld var í miklu uppáhaldi hjá þér, þú fékkst mér þetta ljóð eitt sinn eftir gott spjall okkar í milli og hef ég reynt að tileinka mér inntak þess.
Eitt bros getur dimmu í dagsljós
breytt
sem dropi breytir veig heillar
skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt
aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leynist strengur í brjósti
sem brast
við biturt andsvar gefið án sakar.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast
sem aldrei verður tekið til baka.
(Einar Benediktsson)
Þú varst sú manngerð sem hikaðir hvergi, varst tilbúin að taka hverri nýrri áskorun af áræðni og forvitni, þú varst nýjungagjörn og fljót að tileinka þér nýja tækni, sjálfvirka þvottavél varstu fljót að fá þér og ótrúlega vorum við börnin þín kát þegar litla sjónvarpið var komið í hús.
Þú dreifst í að taka bílpróf þegar þú varst um fertugt og keyptir bíl, gula bjöllu, mamma ótrúlega klár. Við systkinin vorum ákaflega stolt af þér þegar þú tókst ákvörðun um að setjast á skólabekk þegar þú varst orðin fullorðin og ungarnir flognir úr hreiðrinu. Þú útskrifaðist sem sjúkraliði og vannst við það starf þar til veikindi stoppuðu þig.
Lífið með þér kenndi okkur börnunum þínum margt.
Þegar á okkur reyndi í lífinu gastu alveg gefið okkur ráð en þau voru einföld og skýr, svo þurftum við bara að vinna úr málunum sjálf.
Þegar þú misstir báða fæturna sökum veikinda, var aðdáunarvert að fylgjast með þér hversu sjálfsbjargarviðleitni þín, áræðni og lífsvilji hjálpaði þér að lifa og njóta.
Að vera áhorfandi og þátttakandi í lífsför þinni ætti að kenna okkur að taka þig okkur til fyrirmyndar og eftirbreytni.
Þau sitja í brekkunni saman
syngjandi lag
tvær stúlkur, þrír drengir með bros um brá,
sem blóma leita í dag.
Hér syngja þau söngva lífsins
sumarsins börn,
óhrædd við daginn, sólgin í sólskin,
með sakleysið eitt að vörn
gegn öllu sem lífinu ógnar
um allan heim.
Ég heimta af þér veröld lát vor þeirra lifa
og vaxa í friði með þeim.
(Jakobína Sigurðardóttir)
Elsku mamma mín nú þegar ég yfirgef skógarlundinn þinn fagra, Ingibjargarlundinn er mér ljóst að lífið verður aldrei eins, ég mun ávallt sakna þín og minning þín mun lifa í hjarta mínu.
Takk fyrir allt,
þín dóttir
Valdís.