Ágúst Gíslason fæddist á Bíldudal í Arnarfirði 5. desember 1941. Hann lést 29. maí 2022 á Bíldudal.

Ágúst var sonur Guðrúnar Sigríðar Ágústsdóttur húsfreyju, f. 23. maí. 1914, d. 15. febrúar 1990, og Gísla Guðmundssonar skipstjóra, f. 13. júlí 1908, d. 18. febrúar 1943. Seinni eiginmaður Guðrúnar Sigríðar Ágústsdóttur og fóstri Ágústs var Ólafur Gunnar Þórðarson, verkstjóri og fiskmatsmaður, fæddur á Borg í Arnarfirði 9. ágúst 1922, d. 12. maí 2021. Ágúst átti einn albróður, Örn Gíslason bifvélavirkjameistara, f. 6. febrúar 1939, d. 15. september 2017.

Ágúst kvæntist Kolbrúnu Matthíasdóttur, f. á Bíldudal 5. febrúar 1942, í Arnarhól 3. ágúst 1963. Börn Ágústs og Kolbrúnar voru: 1) Páll skipstjóri, f. 22. febrúar 1961, d. 30. september 2017. Fyrrum eiginkona hans var Elínborg Anika Benediktsdóttir, þau slitu samvistum. Börn þeirra eru: a) Kristján Reynald Hjörleifsson, sambýliskona hans er Ásta Sigurðardóttir og eiga þau þrjú börn. b) Ágústa Mattý, sambýlismaður hennar er Arnar Már Liljan Jóhannsson og eiga þau eina dóttur. c) Sandra Líf, sambýlismaður hennar er Ágúst Vilberg Jóhannsson og eiga þau eitt barn. 2) Una Mattý, f. 21. október 1962, d. 3. mars 1963. 3) Matthías, fyrri kona hans var Tone Solbakk, þau skildu. Þau eiga tvær dætur: a) Kolbrún, eiginmaður hennar er Guðbjartur Gísli Egilsson og eiga þau þrjár dætur. b) Elísabeth Lind, unnusti hennar er Guðmundur Ingi Gunnarsson og eiga þau eitt barn. Seinni kona Matthíasar er Fríða Eyrún Sæmundsdóttir. 4) G. Sigríður, eiginmaður hennar er Jens Bjarnason, þau eiga fjögur börn: a) Una Mattý, b) Ágúst, c) Hekla Björk, d) Bjarni Gunnar. 4) Gísli Ægir, hans kona er Anna Vilborg Rúnarsdóttir, þau eiga þrjú börn: a) Rúnar Örn, sambýliskona hans er Emilía Bjarnadóttir og eiga þau saman eitt barn, b) Nanna Dís, c) Hildur Ása.

Ágúst ólst upp á Bíldudal og lauk grunnskóla þar. Ágúst vann hin ýmsu störf á meðan hann var á atvinnumarkaðinum. Lengst af til sjós og sem verksmiðjustjóri í fiskimjölsverksmiðju á Bíldudal. Um tíma rak hann einnig sína eigin gröfuútgerð. Ágúst var öflugur í félagsstörfum allt sitt líf. Hann tók virkan þátt í störfum Leikfélagsins Baldurs ásamt því að syngja í ýmsum kórum og öðru félagslífi. Hann hringdi kirkjuklukku Bíldudalskirkju um langt skeið. Ágúst gegndi ýmsum ábyrgðarstöðum svo sem nefndar- og kirkjustörfum. Ágúst var ötull í félagsstörfum allt sitt líf. Útför Ágústs fer fram í Bíldudalskirkju í dag, 4. júní 2022, kl. 14.

Það var fallegur sumardagur sem pabbi minn valdi til að kveðja, 29. maí, einstaklega sólbjartur og landið geislaði eins og pabbi elskaði. Ég hafði hringt í hann um hádegið ofan af Snæfellsjökli og sagt honum að ég væri að horfa yfir til hans, að landið væri svo fallegt og Breiðafjörður væri í sparifötunum í dag. Hann hafði gaman af því þegar ég hringdi frá fjöllum, pabbi elskaði landið sitt og þekkti alla fugla og fiska. Þeir voru ófáir bíltúrarnir sem við tókum út í Ketildalina til að horfa út Arnarfjörðinn og sjá sólarlagið eins og það gerist best. Hann að reyna kenna mér örnefni með litlum árangri, gafst þó ekki upp. Í þessum bíltúrum voru málin oft leyst og við létum okkur oft dreyma um lengri bíltúra á framandi slóðum. Þolinmóð barnabörn lærðu fljótt að það var hægt farið yfir og stundum stoppað við hvern stein eða læk, alls staðar sögur eða minningar sem gott var að rifja upp. Dýrmætt.


Það er ekki einfalt að skrifa hinstu kveðju til pabba. Ég heyri hljóma í huga mínum að það sé góður maður genginn. En þetta var afi vanur að segja þegar miklir og sterkir menn kvöddu. Ég skil það núna, því það var hann pabbi minn svo sannarlega.


Ég var svo heppin að vinna í pabbalottóinu, alast upp við einstaka ást og öryggi, endalausa hvatningu og lífsgleði.


Ég fékk heiðarlegt og gott uppeldi sem einkenndist af góðum gildum og trú á það góða, koma vel fram við náungann og vera tilbúin að fyrirgefa. Fyrir það þakka ég pabba og mömmu, það er gott veganesti.


Við systkinin erum svo rík að fallegum minningum, ferðalögum með þeirra bestu vinum og samveru. Þar lærðum við hversu mikilvægt það er að rækta vinskap, en það gerði pabbi alltaf svo vel. Hann lagði líka áherslu á að við myndum rækta frændgarðinn okkar og elska fólkið okkar. Hversu dýrmætt er það í dag þegar við erum alltaf svo upptekin af engu. Tjarnabraut 1 var alltaf full af gleði og góðu fólki, enda pabbi höfðingi heim að sækja og duglegur að bjóða í mat, vöfflur eða pönnukökur. Litlu augasteinarnir hans komu hlaupandi í fangið á honum og fengu pönnukökur með sykri og hlýtt faðmlag. Hversu dýrmætt. Hann var líka besti afi í heimi og vissi ekkert betra en að fá heimsókn frá þeim.


Pabbi hafði svo mikla útgeislun, laðaði fólk að sér. Hann hafði háan og sterkan hlátur sem heyrðist nánast yfir Hálfdán. Ég man eftir því að hafa beðið hann að hlæja lægra stundum á skemmtunum og þá glotti hann og spurði: til hvers? Hann var líka alltaf svo áhugasamur, hvort sem það var um okkur eða vini okkar. Held að flestir vina minna hafi drukkið kaffi á Tjarnabraut og notið einstakrar gestrisni foreldra minna. Það er ekki sjálfgefið að geta gengið að því vissu að fylla húsið af ókunnugu fólki og fá ekkert nema kærleika og opinn faðm.


Pabbi tók alltaf virkan þátt í öllu félagsstarfi og var svo ótrúlega samfélagslega sinnaður, hann brann fyrir litla þorpið sitt. Mætti og hvatti allt áfram sem var í uppbyggingu og barðist fyrir íþróttahúsi, sundlaug og málefnum aldraða. Borgaði sig inn á dansleiki þó svo að hann ætlaði ekki að mæta. Lét sig varða fólk og málefni.


Hann sagði mér oft að maður ætti ekki að bíða eftir því að aðrir gerðu hlutina. Ef maður vildi breyta einhverju yrði maður sjálfur að berjast fyrir því. Það er satt.


Ég held að ég hafi aldrei kynnst neinum manni sem var eins harður af sér og pabbi. Hann þekkti því miður mótlæti of vel. Hann missti bæði föður sinn og móðurforeldra í skelfilegu sjóslysi þegar Þormóður fórst við Breiðafjörð. Lenti í slæmu slysi ungur sem markeraði heilsu hans og hreyfigetu alla tíð.

Var verkjaður alla daga og stundir. Hann kvartaði þó aldrei yfir neinu, var ekki í kvörtunardeildinni eins og hann orðaði það. Hann stóð með okkur í gleði og sorg og minnti okkur á að vonin væri besta vopnið í lífsins þrautum.


Hann var duglegur að segja okkur frá æsku sinni og ungdómsárum. Það voru góðar stundir. Hann átti vini út um allt og hafði einstakt lag á að þekkja fólk alls staðar. Þá var það, eins og alltaf, faðmur og hlýja sem tók á móti fólki.


Ég vildi óska þess að ég hefði verið duglegri að þakka pabba fyrir hversu mikið hann hefur mótað mig og líka hversu oft hann sagði okkur hvað hann elskaði okkur. Ég ætla að viðhalda hans lífsins gildum, ég ætla að faðma fast og segja fólkinu mínu oft hvað ég elska það.


Samverutími mömmu og pabba í þessu lífi var vel yfir 60 ár. Sá tími einkenndist af ást, gleði og samheldni.


Pabbi, þú varst mitt lífsins lán og gerðir okkur öll að betra fólki.


Og ég segi það hér og mun segja það áfram: Ég elska þig.

G. Sigríður Ágústsdóttir.