Ágúst Elbergsson fæddist í Rimabúð á Kvíabryggju 3. mars 1942. Hann lést á dvalarheimilinu Sundabúð á Vopnafirði 28. maí 2022.

Foreldrar hans voru Elberg Guðmundsson, f. 10.12. 1901, d. 1.1. 1987, og Ásgerður Guðmundsdóttir, f. 8.12. 1909, d. 28.1. 1997.

Systkini Ágústs voru níu, þau eru: Guðmundur Hinrik, f. 1927, d. 1983. Ragnheiður María, f. 1929, d. 1997. Kristín Jakobína, f. 1930, d. 1931. Jón Beck, f. 1933, d. 2009. Þorvaldur Jóhannes, f. 1934, d. 2021. Óskírður drengur, f. 1936, d. 1936. Halldóra Eyfjörð, f. 1943. Ragnar Vilberg, f. 1946. Elínborg, f. 1949.

Eftirlifandi eiginkona hans er Árný Björk Kristinsdóttir frá Hrísey. Börn þeirra eru: 1) Ragnheiður, gift Pétri Má Finnssyni, dætur þeirra eru Arna Björk og Linda Rún. Maki Örnu Bjarkar er Örvar Guttormsson og dætur þeirra eru Amelía og Alexandra. 2) Elfa, synir hennar eru Ágúst Heiðar og Kristján Friðrik. 3) Kristinn, giftur Freyju Sif Wiium Bárðardóttur, börn þeirra eru Tinna Líf, Stefán Árni, Árný Björk og Bríet Inga. Fyrir átti Kristinn dótturina Sölku. Ágúst átti fyrir soninn Kára Breiðfjörð, sem lést 15. september 2006. Dætur hans eru María Erla, Emma Kolbrún og Snædís Sól.

Ágúst bjó fyrstu mánuðina á Kvíabryggju með fjölskyldu sinni. Þau fluttu til Grundarfjarðar þegar byggðarkjarninn byrjaði að myndast þar og fluttu svo í nýbyggt hús sitt 1945 sem fékk nafnið Bjarmaland en í almennu tali kallað Elbergshús.

Ágúst byrjaði ungur til sjós. Um tvítugt fór hann að vinna á norskum millilandaskipum þar sem hann sigldi um öll heimsins höf. Eftir heimkomuna, tveimur árum seinna, hélt hann áfram til sjós í Grundarfirði og á fragtskipum Ness hf. sem vinur hans átti. Hann lærði síðan fiskmat sem hann starfaði við til margra ára. Síðustu starfsárin starfaði hann við húsamálun hjá tengdasyni sínum.

Útförin fer fram frá Vopnafjarðarkirkju í dag, 11. júní 2022, klukkan 14.

Elsku hjartans pabbi minn, kletturinn í fjölskyldunni, er búinn að kveðja þetta jarðneska líf. Eftir sitjum við fjölskyldan og syrgjum sárt en að sama skapi fegin fyrir hans hönd að vera laus við angist og þjáningar. Vitum svo vel að heill her af elskandi ættingjum hafa tekið honum með opinn faðminn.
Minningarnar flæða í gegnum hugann en það er af svo að mörgu að taka. Pabbi var stór karakter, einstaklega ljúfur og góður, ótrúlega stríðinn og mikill prakkari. Átti líka til stórt skap ef honum mislíkaði eitthvað. Ég var alltaf svo montin af pabba mínum, svo hávaxinn og myndarlegur og þegar hann hló þá hristust axlirnar og glumdi hláturinn um allt. Við systkinin ólumst upp á ástríku heimili í Grundarfirði. Pabbi, vinir og ættingjar byggðu fallegt hús að Fossahlíð 7 og fannst mér pabbi minn geta allt. Mikið var alltaf gaman þegar hann kom heim úr millilandasiglingum, því þá kom hann alltaf með útlenskt nammi, gos og falleg föt á okkur öll. Það var sko ekki mikið mál fyrir hann að kaupa föt á fjölskylduna, því hann var einstakur smekkmaður. Ég var líka svo heppin að vinna með honum í Stöðinni og er það einn skemmtilegasti vinnustaður sem ég hef unnið á. Það var eins og að vera á uppistandssýningu alla daga. Pabbi, Laggi bróðir hans og Óli vinur þeirra fóru á kostum og gerðu alla daga frábæra. Útilegurnar með stórfjölskyldunni voru skemmtilegar, veiðiferðirnar, öll fjölskylduboðin þegar allir mættu í Elbergshús sitja fast í minningunni. Þegar ég var að byrja að hitta Pétur, þá kallaði pabbi hann alltaf Ólsarann. Þegar við vorum nýbyrjuð saman kom Pétur um kvöldmatarleytið til að bjóða mér á rúntinn en pabbi tók það ekki í mál ... "Náðu í Ólsarann og bjóddu honum í hangikjöt". Pínu vandræðalegt en ísinn var brotinn. Upp frá því var Pétur eins og sonur hans. Í Hafnarfjörðinn fluttu mamma og pabbi 1984. Þá var ég flutt í bæinn og fannst mikið gott að fá þau til mín. Pabbi var mikið snyrtimenni, jafnvel hægt að kalla hann pjattaðan og var sko ekki sama hvernig fötin litu út. Fór óendanlega í taugarnar á honum þegar að götóttar gallabuxur komust í tísku. Hann gat bara ekki skilið þetta. Þegar við Pétur eignuðumst hana Örnu Björk okkar árið 1989 var dásamlegt að sjá stoltið í augunum hans. Hann og mamma voru á leið í frí en hann gat ekki farið af stað fyrr en hann væri búinn að sjá augun hennar. Á þessum tíma var lagið Álfheiður Björk vinsælt og breytti pabbi textanum í "Arna mín Björk, ég elska þig". Þegar hún varð aðeins stálpaðri teygði hún sig til hans og sagði Afi labba labba. Tók hann hana þá í fangið og labbaði og söng fyrir hana. Var alltaf svo gaman að fara í heimsókn eða í pössun til ömmu og afa. Pabbi var að vinna í Noregi þegar Linda Rún fæddis 1994 og var hann með mynd af henni til að monta sig af. Kallaði hann hana litla trollungen sinn. Eftir að hann kom heim fannst honum best í heimi þegar að litlu gullin hans komu hlaupandi í fangið á honum, þegar hann kom úr vinnunni. Sambandið á milli afans og barnabarnanna var yndislegt. Ófáar ferðirnar upp á Hamarinn í Hafnarfirði með þær, hoppa á steinunum við kirkjuna, göngutúrar, ísferðir og svo margt fleira. Og auðvitað sluppu þær ekkert við stríðnina hans. Hann reyndi sem mest hann mátti að láta Lindu Rún segja "amma kegglingin" en það fannst henni erfitt. Amma var bara amma. Pabbi og mamma voru ómetanleg í allri aðstoð, hvort sem það var að passa börnin, hjálpa til við húsbyggingar, veita sálrænan stuðning og ekki síst þegar við byggðum sumarbústaðinn okkar. Endalaust þakklæti frá okkur. Þegar langafabörnin komu komu svo í heiminn varð montið bara meira. Amelía bræddi í honum hjartað og kallaði hann hana drottninguna sína. Auðvitað stríddi hann henni líka og fyrir rest þá sagði hún við mig að hann langafi væri nú svolítið ruglaður. Eitt sem barnið talar enn um, er þegar langafi talaði við krummann. Þá stóð pabbi og var að kveðja okkur. Var þá hrafn á ljósastaur og krunkaði, pabbi svaraði honum og í langa stund kölluðust þeir á. Amelía var agndofa. Hann langafi kann að tala við krumma! Minningarnar eru svo margar og yndislegar og góðar að eiga. T.d. þegar að þeir bræður, pabbi, Valdi og Laggi sátu saman og grínuðust um hin ýmsu mál. Ekkert var heilagt hjá þeim. Dásamlegt að hlusta á þá. Einnig besti vinur pabba, hann Snolli, sem var duglegur að kíkja upp í Arnarásinn og rifja upp gamla tíma. Það var pabba dýrmætt. Þegar veikindi pabba ágerðust fluttu þau á Vopnafjörð til að fá betri þjónustu og hana fengu þau svo sannarlega. Bestu þakkir til starfsfólks Sundabúðar. Grínaðist pabbi með að fyrst hann flutti aldrei til Noregs, þá væri Vopnafjörður næsti bær við. Síðustu tvö árin voru elsku pabba erfið og leitaði hann þá í bænina enda trúaður maður. Stoð hans og stytta var hún mamma sem vék ekki frá honum. Hélt í hönd hans og róaði með nærveru sinni og fallegu orðum. Enda voru síðustu orð pabba áður en hann fór var: Ég elska þig. Pabbi átti til svo marga frasa sem lifa með okkur áfram og í tíma og ótíma munu framvegis heyrast frá einhverjum úr fjölskyldunni eitthvað úr frasa-biblíunni eins og:Dæ dæ dæ, amma gemm mér kjem, afi labba labba, það er farið að snjóa og svo margt fleira. Uppáhaldið mitt var þegar hann kvaddi. Þá sagði hann alltaf: Ha det bra og ég svaraði I lige måde. Það var okkar. Elsku hjartans pabbi minn, þakka þér af öllu hjarta fyrir alla þá ást sem þú gafst mér og mínum. Pétur Már, Arna Björk, Örvar, Linda Rún, Amelía og Alexandra senda sínar innilegustu kveðjur og þakkir fyrir allt.
Elskum þig endalaust.
Ha det bra. Þín dóttir,


Ragnheiður.