Sigrid Anna Jósefsdóttir Felzmann fæddist í Znaim í fyrrverandi Tékkóslóvakíu 8. október 1942. Hún lést á heimili sínu í Hafnarfirði 1. júní 2022.

Foreldrar hennar voru Jósef Felzmann fiðluleikari, f. 20. febrúar 1910, d. 18. desember 1976, og Ingibjörg Júlíusdóttir húsmóðir, f. 9. júlí 1917, d. 2. júlí 1984.

Bróðir Sigridar var Gunnar R. Jósefsson Felzmann sem lést 2014. Eftirlifandi eiginkona hans er Hrafnhildur Sigurðardóttir.

Sigrid giftist Yngva Erni Guðmundssyni húsverði og listamanni 11. júní 1960. Foreldrar hans voru Guðmundur Einarsson frá Miðdal, f. 5. ágúst 1895, d. 23. maí 1963, og Lydia Pálsdóttir leirkerasmiður og húsmóðir, f. 7. janúar 1911, d. 6. janúar 2000.

Börn Sigridar og Yngva eru: 1) Ingibjörg Lydia, f. 1960, maki Eyjólfur Jóhannsson sem lést 2009. Þau skildu 2002. Börn þeirra eru Eyjólfur, f. 1979, Daði, f. 1981, og Andri, f. 1985. 2) Aldís, f. 1961, maki Jón Þór Þorgrímsson. Börn þeirra eru Hugrún, f. 1989, Gígja, f. 1991, og Signý, f. 1996. 3) Yngvi Jósef, f. 1976, maki Þórdís Ósk Rúnarsdóttir. Barn þeirra er Kristófer Rúnar, f. 2002.

Fyrstu æviár sín bjó Sigrid ásamt foreldrum sínum og bróður í Vínarborg í Austurríki. Fimm ára gömul flutti hún með fjölskyldunni til Íslands og bjó fjölskyldan lengst af í Vesturbæ Reykjavíkur.

Sigrid og Yngvi bjuggu sér heimili í Hafnarfirði þangað sem þau fluttu árið 1965. Sigrid vann við ýmis störf en síðasta áratuginn fram að eftirlaunaaldri starfaði hún sem safnvörður hjá Hafnarborg, menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar.

Útför Sigridar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 15. júní 2022, kl. 13.

Fyrir rétt nær hálfri öld átti ung og glæsileg kona erindi við föður minn sem þá stóð í byggingarframkvæmdum á Höfðanum. Ég var gutti í sumarvinnu og veitti þessari óvenjulegu heimsókn athygli enda fyrsta skiptið sem kvenmann bar óvænt að garði. Erindið var að minna annars skilvísan föður minn á reikning frá Steypustöðinni sem hafði misfarist að greiða í dagsins önn.

Mörgum árum síðar kynntist ég Aldísi, dóttur þessarar glæsilegu konu, Sigridar Felzmann, sem alltaf var kölluð Sigga. Á þeim tímapunkti voru verðandi tengdaforeldrar mínir, Sigga og Yngvi Örn Guðmundsson, nýflutt í gamalt sögufrægt hús að Jófríðarstaðarvegi 7, kallað Blómsturvellir, og voru að byggja við gamla húsið. Sigga og Yngvi bjuggu sér mjög smekklegt heimili að Blómsturvöllum þar sem Sigga, með sína meðfæddu stílistahæfileika, naut sín við að að raða og tóna hluti saman innandyra sem utan með Yngva sér við hlið sem einnig hafði gott auga fyrir hlutunum. Ávallt var blómlegt að Blómsturvöllum og fátt gladdi Siggu meira en að hafa rósir í kringum sig sem ástkær eiginmaðurinn var einstaklega óspar að færa henni alla tíð. Garðurinn á Blómsturvöllum var blómlegur frá vori til hausts, enda nutu þau þess að vera í garðinum á góðum dögum sumarlangt.

Sigga var einstaklega fróð um plöntur og blóm. Að ganga með henni úti í náttúrunni var unun en þar þekkti hún með nafni nánast hvert stingandi strá. Sigga hafði yndi af að skoða fallega garða og þá sér í lagi í Hafnarfirði. Ekki þótti henni verra að vera boðin inn í garð til að virða fyrir sér dýrðina.

Sigga var fjölskyldukær og tók virkan þátt í lífi og viðburðum barna og barnabarna hvort sem það voru tónleikar, ballett, nýsköpun, fótbolti eða annað þar sem hún lifði sig inn í viðburðinn og naut sín til fulls. Hannyrðir og sér í lagi hekl og bútasaumur var henni hugleikinn og gerði hún einstaklega falleg teppi fyrir alla í fjölskyldunni sem eru sannkölluð listaverk. Sigga var hláturmild og oft þurfti ekki mikið til að kitla hláturtaugarnar hjá henni sem smitaði af sér til nærstaddra. Þau hjónin voru dugleg að fara á listviðburði en Sigga hafði unnið í Hafnarborg um áratugsskeið og hafði gott innsæi í list og menningu.

Þau hjónin voru í göngu- og vinahópnum Ganglerum sem fór í 4-5 daga gönguferðir á hverju ári í ríflega þrjá áratugi, síðast í fyrrasumar um Norðausturland. Í hópnum myndaðist dýrmæt og djúpstæð vinátta. Sigga hóf að fylgja Yngva í sund í Suðurbæjarlaug nánast á hverjum morgni eftir að hún hætti að vinna fyrir rúmlega áratug síðan, ásamt því að stunda aðra líkamsrækt sem þar var í boði, enda kattliðug. Góður og gefandi félagsskapur myndaðist með sundfélögunum sem kölluðu sig Pottorma. Ætíð var hist í kaffi eftir sund og jafnvel haldið í skemmtiferðir fjarri laugarbakkanum. Sigga stundaði ballet á yngri árum og byrjaði aftur fyrir fáeinum misserum og stundaði um tveggja ára skeið, sér til mikillar ánægju.

Sigga hafði unun af lestri, krossgátum, ballett og að horfa á góðar bíómyndir. Að heyra hana lýsa bíómyndum var stórmerkilegt þar sem hún virtist hafa fleiri skilningarvit en við flest hin. Hún drakk í sig leikinn og ekki síður leikmyndina, liti og búninga. Þar gat hún verið mjög gagnrýnin ef henni mislíkaði eitthvað en jafnframt farið fögrum orðum um það sem henni líkaði. Hún var opinská í daglegu tali og náði eyrum viðstaddra og hafði mótandi áhrif á sitt nærumhverfi.

Sigga fæddist í miðri seinni heimsstyrjöld í Tékkóslóvakíu og fimm ára gömul kom hún með foreldrum sínum eftir krókaleiðum til Íslands. Hún átti barnavagn sem hún fékk ekki að taka með sér til Íslands. Það sat í henni alla tíð og rúmlega fimmtíu árum síðar fór hún að safna barnavögnum, aðallega litlum míníatúrum. Eflaust er talan í dag nær hundrað, enda voru allir í fjölskyldunni á útkikki á ferðalögum með smágjöf í huga til Siggu er heim var komið. Sigga var einnig mjög áhugasöm um Silver Cross sem hún hafði mikið yndi af að skoða á netinu eða þar sem þeim brá við. Sigga eignaðist sinn Silver Cross sem barnabörnin hafa notið og bíður nú eftir fyrsta langömmubarninu sem er á leiðinni.

Sigga greindist með krabbamein fyrir átta mánuðum. Það var vitað að baráttan yrði erfið en hún sýndi mikið æðruleysi og dugnað og lét fátt stoppa sig. Hún naut þess að samgleðjast með börnum og barnabörnum til síðasta dags. Það getum við verið þakklát fyrir.

Kæri Yngvi minning um merka, ástríka og gefandi konu lifir með okkur öllum.

Jón Þór

Jón Þór Þorgrímsson