Kristján Hermann Sigurgeirsson fæddist 21. nóvember 1956. Hann lést 1. maí 2022.
Kristján var jarðsunginn 13. maí 2022.

Elsku pabbi. Þú varst auðvitað besti pabbi í heimi og ég sakna þín alla daga. Ég reyni að finna allt það jákvæða til að styrkja þá hugsun að það sé í lagi að þú sért farinn. Mér finnst ekkert í lagi að þessi krabbaskítur sé að taka þig og svona mikið af öðru fólki, sama á hvaða aldri það er. Þú, ásamt öðrum með sterkan lífsvilja og kraft til að gefast ekki upp fyrr en einhver ýtir á off-takka. Mér fannst svo merkilegt hvað allir virtust þekkja mig úr læknateyminu þar sem þú hafðir sagt svo mörgum frá dóttur þinni, mér, sem hjálpaði þér að skipta á stómanu og fleira í þeim dúr. Mér leið eins og þú hefðir sagt öllum að ég væri einhver prófessjónal í stómaskiptum vegna þess að það komu hjúkrunarfræðingar og vildu fá að fylgjast með mér gera það - þér fannst víst best hvernig mínar aðferðir voru við það. Þú sýndir öllum svo mikið þakklæti sem komu að því að hlúa að þér í veikindunum og lést vita af því. Ég hringdi í þig nokkur stutt símtöl daglega til að segja þér strax frá gullkornum frá barnabörnunum o.fl. svo ég myndi ekki gleyma þeim. Þú hafðir auðvitað gaman af því og hlóst dátt þegar ég endaði svo símtölin með jæja það var ekkert annað, ég bara varð að segja þér þetta áður en ég gleymdi því.

Það er ekki langt síðan ég var að bugast á náminu mínu sem ég hef tekið mér frekar langan tíma í sökum veikinda þinna þar sem ég vildi alls ekki láta tíma þinn, sem eftir væri, fram hjá mér fara. Mér fannst ég alger aumingi að vera að ræða þessa bugun við sterkasta mann í heimi, að mínu mati, enda sagðir þú: Til hvers að fara að gefast upp núna þegar þú ert komin svona langt? Auðvitað kemur svona setning frá þér, manninum sem gafst aldrei upp, sama hvað var. Þú varst spenntur að tala um verkefni sumarsins og þú ætlaðir svoleiðis að ganga í þau sama hvað. Því miður þá er það besta í stöðunni að ég og Sigurgeir hjálpum þér að klára og græja allt það sem þú vildir klára. Þú hefur staðið með okkur í gegnum súrt og sætt og það munum við einnig gera gagnvart þér. Það eru nokkrar setningar sem munu fylgja manni alla tíð, setningar sem þú hefur látið út úr þér hér og þar: Lífið er hart í bak og fyrir og jallabaddarí fransí, hvað sem það nú þýddi, en sú setning yljar manni alltaf um hjartarætur. Við áttum góðar stundir saman á síðustu metrum þínum. Ég leyfði þér að skynja að ég væri að bíða með þér og fara með þér í nýtt ferðalag svo þér fyndist þú ekki einn. Ég man þegar okkur var tilkynnt staðan og hvert stefndi að læknirinn nefndi eitthvað með hvort við hefðum rætt hluti tengda andláti og þess háttar. Þú sagðir það er bara eins og maður sé að bíða eftir strætó og svo kom stuttu seinna jæja, þá bara bíð ég. Ég spyr þig hverju þú sért að bíða eftir og þú svarar nú, þessu andláti. Ég gat nú hlegið dátt að þessu þrátt fyrir alvarleika stundarinnar. Ég er bara svo ánægð fyrir tímann sem við fengum saman í lífinu og allar stundirnar sem þú sýndir mér skilyrðislausa ást í formi ferðalaga og alls tímans sem þú gafst þér í að láta mér líða eins og merkilegasta barni í heimi. Þú barst mig á háhesti langar vegalengdir þegar ég nennti ekki að labba. Þú hjálpaðir mér að læra að hjóla án hjálpardekkja og ég man þann dag eins og hann hefði verið í gær. Það voru nammidagar og sjónvarpsgláp á föstudögum. Að fara og hitta alla á Tjarnarflötinni þar sem börn léku sér saman og fullorðnir þrömmuðu um gólf og töluðu hver ofan í annan. Það voru yndislegar stundir að geta notið æskuslóða þinna með því að traðka í hrauninu og leika með túttubyssur úti í garði hjá ömmu og afa eða í ýmsum leikjum með fleiri krökkum úr hverfinu. Ég og þú erum svo svipuð með það að vera nægjusöm og okkur finnst einhvern vegin sjálfsagt að eyða okkar frekar í aðra en okkur sjálf. Ég geng líka í fötum þar til þau eru orðin svo götótt að það telst ósiðlegt að nota þau lengur. Við elskum bæði að komast heim og fara úr sokkunum. Þú talaðir einhvern tíma um að vilja ganga um berfættur í kufli út um grænar grundir. Ég vona að þú sért bara akkúrat í þeim sporum núna og takir svo á móti mér þegar minn tími kemur. Elska þig og sakna þín alveg rosalega mikið pabbi minn og barnabörnin sakna afa síns. Þú ert auðvitað bara besta hetjan í okkar augum.

Þín dóttir,

Hrafnhildur.