Ragna Þorgerður Stefánsdóttir fæddist í Pétursborg á Reyðarfirði 18. október 1924. Hún lést á Hrafnistu Sléttuvegi í Reykjavík 19. júní 2022.

Foreldrar hennar voru Guðmundur Stefán Bjarnason frá Fossi á Síðu og Sigríður Jónsdóttir frá Einholti á Mýrum.

Ragna var sjötta í röð tíu alsystkina, hin eru: Blómey, Geir, Guðríður, Bjarni Jón, Pálína Anna, Gunnar Auðunn, Helga Valborg, Kristín Stefanía og Guðný, en þau eru öll látin.

Að auki átti hún fjögur hálfsystkin, eldri, börn Stefáns af fyrra hjónabandi; Matthildi, Skarphéðin, Gunnar og Njál, sem öll eru látin.

Ragna giftist 22. október 1949 Vigfúsi Sigurðssyni frá Húsavík, f. 18. janúar 1924, d. 13. nóvember 1998.

Barn þeirra er Hanna Rúna, f. 1956, hennar dóttir er Ragna, f. 1977, sambýlismaður David Schlechtriemen, f. 1979, dætur þeirra eru Ronja, f. 2008, og Rúna Karlotta, f. 2013.

Fyrir átti Vigfús soninn Inga, f. 1951, kvæntur Hrefnu Eyjólfsdóttur f. 1954, eiga þau þrjá syni.

Ragna ólst upp á Reyðarfirði en fluttist ung til Reykjavíkur, þar sem hún bjó allar götur síðan. Hún vann ýmis störf á sinni starfsævi. Starfaði við aðhlynningu á Kleppsspítalanum og síðan hjá Samvinnutryggingum og VÍS í 28 ár sem matráður til starfsloka.

Útför Rögnu fer fram í dag, 24. júní 2022, frá Bústaðakirkju og hefst athöfnin kl. 10.00.

Ragna Þorgerður Stefánsdóttir fæddist á Reyðarfirði 18. október 1924, dóttir þeirra Sigríðar Jónsdóttur og Guðmundar Stefáns Bjarnasonar. Hún ólst upp hjá foreldrum sínum í stórum systkinahópi og fór snemma á unglingsaldri að vinna eins og títt var um börn á þeim tíma. Lífið var ekki öllum auðvelt í þá daga og Ragna frænka mín sagði mér oft frá því hvernig henni leið í vinnu sem vinnustúlka á Reyðarfirði. Ég er ekki frá því að það hafi sett mark sitt á hennar líf upp frá því hvernig æska hennar var.

Ragna var harðdugleg kona, fylgin sér og vinnusöm. Hún var ættrækin mjög og gestrisin og til hennar lágu leiðir okkar systkinanna í Reykjavíkurferðum. Alltaf tók Ragna vel á móti okkur með sínum alþekkta bakstri, pönnukökum, kleinum og fleira góðgæti sem rataði oftar en ekki í tóma maga.

Úr æsku minni eru minnisstæðar heimsóknir Rögnu og Fúsa austur á sumrin en þá var oft fjör hjá þeim systrum, mömmu og Rögnu og Pöllu. Mikið spjallað og rifjaðar upp gamlar minningar.

Ég kynntist Rögnu frænku eiginlega í alvöru fyrst þegar ég ellefu ára gömul fékk að fara með þeim Fúsa og ömmu til Reykjavíkur eftir sumarheimsókn þeirra austur. Þá var ferðalag til Reykjavíkur þriggja daga ferð. Við ókum til Akureyrar, gistum þar hjá vinafólki þeirra og héldum svo áfram til Skagafjarðar þar sem gist var í tjaldi eina nótt og svo að lokum komum við til Reykjavíkur og í Gnoðarvoginn þar sem þau bjuggu þá uppi á fjórðu hæð. Það var geysilega spennandi fyrir litla stúlku austan af landi að koma í borgina. Ég man að það var gaman á leiðinni suður og þau reyndust mér afar vel.

Alltaf lá leiðin í Gnoðarvoginn til Rögnu næstu árin þegar leiðin lá til Reykjavíkur og stundum í heimsókn til hennar í vinnuna í Samvinnutryggingum þar sem hún var matráðskona. Hún Ragna var eiginlega ættarstólpinn sem hélt ættinni saman eftir að amma Sigríður dó. Við dóttir hennar Hanna Rúna urðum vinkonur í æsku og það tengdi okkur enn frekar saman.

Við Gulli bundumst Rögnu og Fúsa miklum vinaböndum eftir að við fórum að búa og heimsóttum þau oft bæði í sumarbústaðinn upp í Mosfellssveit á sumrin og á Sogaveginn eftir að þau fluttust þangað. Það eru óteljandi minningar um skemmtilega samveru, prakkaraskap og fleira sem hugurinn kallar fram. Eitt sinn fórum við til dæmis öll saman í útilegu í Skaftafell sem er minnisstæð ferð því vegurinn var slæmur og aksturinn austur tók óratíma. En Ragna dró fram kaffi og með því nokkrum sinnum á leiðinni og við sátum úti í náttúrunni og nutum góðgerða hennar í blíðviðri. Það eru svona minningar sem gera mann óendanlega hamingjusaman og þakklátan fyrir að hafa átt þetta góða fólk að.

Við Ragna ræddum oft áður fyrr um andleg mál, líf eftir dauðann, drauma og spádóma. Hún hafði gaman af því að spá í bolla og það var til siðs að fá hana til að kíkja í bollann til gamans. Þá var setið við eldhúsborðið á Sogaveginum og bollar lagðir á eldavélarhellu til þurrkunar eftir að hafa snúið þeim rétta hringi og blásið kross í þá. Þarna fengum við oft fyrstu fréttir af fyrirhugðum ferðalögum og fjallgöngum svo eitthvað sé nefnt. Ég man að Ragna fór með mér til að kaupa tarotspil hjá Guðspekifélaginu en þau á ég enn og hugsa til hennar í hvert skipti sem ég handleik þau.

Ragna var prakkari og hafði gaman af því að leika sér. Ég man eftir henni með okkur austur í Breiðdal í sumarbústað þegar mamma varð fimmtug. Þá lék hún á als oddi, hékk uppi í rjáfri og rólaði sér fram og aftur og við öll með öndina í hálsinum, Ragna mín, ekki detta. Og svo var hlegið og hlegið, sungið og spjallað. Minningar um Rögnu uppi í sumarbústað í Mosó í ótrúlega góðu veðri allt sumarið koma fram í hugann, hún með vatnsslöngu að leika við bróður minn Höska og Helgu dóttur mína og þau hlaupandi undir vatnsbununa skríkjandi af gleði. Einnig kemur upp í hugann þegar hún fékk far með okkur austur á Reyðarfjörð eitt sumarið og sat aftur í með Óla Geir, hvernig þau léku saman Herkúles og beinagrindina og spjölluðu saman um heima og geima.

Ragna hafði yndi af blómum og gróðri og mörgum stundum undi hún í garðinum sínum við að rækta hann. Þrátt fyrir slæmsku í skrokknum reytti hún arfa og sló garðinn sem lýsir best hugarfari hennar.

Mikil var gleði Rögnu og Fúsa þegar nafna hennar Ragna, yngri dóttir Hönnu Rúnu, fæddist. Ragna sá ekki sólina fyrir yndislegu ömmustúlkunni sinni og var það gagnkvæmt. Síðar komu svo langömmustúlkurnar til sögunnar, þær Ronja og Rúna, og ekki var síður mikil gleði hjá Rögnu við að hafa þær hjá sér á Sogaveginum.

Það var alltaf gestkvæmt hjá Rögnu og Fúsa enda tekið vel á móti öllum sem þangað lögðu leið sína. Í eldhúskróknum var spjallað um heimsins vanda og það sem efst var á baugi hverju sinni auk þess sem rætt var um stórfjölskylduna og fylgst vel með hvað hver og einn var að bralla hverju sinni.

Eftir að Fúsi féll frá bjó Ragna ein á Sogaveginum en hafði góðan stuðning af dóttur sinni Hönnu Rúnu og dótturdóttur Rögnu og til hennar komu daglega hjúkrunarfræðingar frá heimahjúkrun sem sinntu henni vel. Það var því ekki fyrr en verulega fór að halla undan fæti í heilsu hennar sem hún fór til dvalar á Hrafnistu. Hún var alveg sátt við það enda fann hún að hún þurfti aukinn stuðning. Hún átti fallega búið herbergi þar með sínum eigin munum og þar var gluggi sem hún gat horft út um og fylgst með t.d. framkvæmdum sem þar stóðu yfir og margir unnu að en af því hafði hún gaman. Hún hafði alla tíð ánægju af því að horfa á sjónvarp og fylgdist með fótboltaleikjum og íþróttum.

Nú hefur hún Ragna frænka kvatt lífið eftir langa og góða ævidaga. Nú hittir hún vonandi Fúsa sinn og alla sína horfnu ættingja fyrir hinum megin. Ég þakka fyrir umhyggju og samfylgd í gegnum árin og kveð Rögnu frænku mína með þakklæti og virðingu. Guð blessi minningu hennar.

Jarþrúður Ólafsdóttir.

Jarþrúður Ólafsdóttir

Elsku besta amma í heimi er nú farin. Ég hef alltaf verið mikil ömmustelpa, eina barnabarn ömmu og ég og dætur mínar augasteinarnir hennar. Hún hefur alltaf fylgt mér, stutt mig með ást og kærleik allt mitt líf og mótað mig á svo ótalmargan hátt. Ég veit að hennar tími var víst kominn en sorg mín og söknuður eru hyldjúp.


Ég gæti skrifað heila bók um ömmu, enda var hún litríkur karakter og mesta kjarnakona sem ég hef kynnst. Það á vel við að hún skyldi hafa kvatt okkur á kvenréttindadaginn, því sjálfstæði og kvenréttindi er eitthvað sem hún kenndi mér og sýndi, maður getur sko allt sjálfur, ekkert er gefins og maður þarf að hafa fyrir og vinna fyrir hlutunum. Hún sagði mér gjarnan stolt frá því hvernig hún keypti sína fyrstu íbúð og sinn fyrsta bíl, Volkswagen (að sjálfsögðu hélt hún svo áfram að keyra eins og herforingi, allt þar til hún var níræð).


Amma hefði getað orðið heimsfræg kvikmyndastjarna eða listakona, hún var að minnsta kosti heimsfræg í mínum augum. Alltaf vel til höfð og fór ekki út úr húsi án þess að setja upp andlitið eins og hún sagði alltaf. Hún fór sínar eigin leiðir og sagði stundum í gríni að hún hefði sennilega verið fyrsti pönkari landsins þegar hún litaði svartan lokk í dökkrauða hárið sitt ung að árum. Síðar meir á níunda áratugnum var hún flotta amma mín með bláan eða grænan maskara eins og ekkert væri. Henni var alveg sama hvað öðrum fannst og lá sjaldan á skoðunum sínum, það kenndi hún mér snemma. Ég fékk þann heiður að heita í höfuðið á henni og áttum við það sameiginlegt að vera báðar freknóttir rauðhausar, sem ég var glöð með, því ég var eins og amma og amma var best.


Amma var ekki bara móðir mömmu, amman mín og yndisleg langamma stelpnanna minna, heldur nokkurs konar ættmóðir fjölskyldunnar og nú síðust til að kveðja okkur af tíu systkinum sínum. Ég var svo heppin að hafa fengið að kynnast þeim, því amma var einstaklega frændrækin og mörg voru börnin sem vildu líka fá að kalla hana ömmu sína. Við fórum í endalausar heimsóknir um landið þvert og hennar heimili stóð alltaf opið, enda var hún með eindæmum gestrisin, alltaf var heitt á könnunni og eitthvað gott með því. Oft var glatt á hjalla og gestkvæmt og ófáir ættingjar og vinir sem gistu og jafnvel bjuggu tímabundið hjá henni og afa. Allt fram á síðustu ár héldu börn, barnabörn og barnabarnabörn systkina hennar áfram að heimsækja hana, hún gaf sér alltaf tíma til að spjalla yfir kaffibolla og tók vel á móti öllum með bros á vör og stóru faðmlagi.


Minningarnar hrannast nú upp, það var svo ótal margt sem amma kenndi mér enda var henni margt til lista lagt. Hún málaði málverk, saumaði út bæði stóla, listaverk, dúka og púða, skar út í gleri, málaði postulín, föndraði og saumaði sína eigin kjóla, bútasaumsteppi og prjónaði. Það eru ófá listaverkin sem við eigum nú eftir hana. Hún eldaði og bakaði best af öllum pönnukökur, vöfflur, kleinur og ástarpunga og ekki komu jólin nema við fengjum rjúpur, kæsta skötu (sem var aldrei nógu bragðsterk fyrir ömmu) og skorið væri út laufabrauð með fjölskyldunni.


Amma var líka algjört náttúrubarn og kenndi mér að virða og elska náttúruna. Við elskuðum að fara saman í berjamó með mömmu og fá okkur nesti í náttúrunni, að sjálfsögðu var alltaf með í för þartilgert nestisbox til að vera með fallega smurðar og skreyttar brauðsneiðar og heitt að drekka á brúsa. Hún ræktaði grænmeti, sultaði ber og rabbabara og hafði áhuga á náttúrulækningum og garðyrkju. Hún kenndi mér að búa til blóðbergste, að nota fíflamjólk til að eyða freknum, sagði mér að kúahland væri gott fyrir hárið, kenndi mér að blása í ýlustrá og flétta blómakransa. Á Jónsmessunótt laumuðumst við út á miðnætti flissandi í náttkjólunum til að velta okkur naktar upp úr dögginni í garðinum, að gömlum sið, okkur til heilsubótar. Ég þótti svolítið sérstakt barn þar sem ég, ömmustelpan, gat þulið upp heilu ljóðbálkana, sungið og farið með vísur og þjóðsögur utanbókar sem amma hafði kennt mér. Ég lærði að spila og leggja á kapal hjá henni og á meðan við biðum eftir því að spákaffið þornaði í bollunum á ofninum í eldhúsinu, sem var þakinn gömlum kaffislettum, spiluðum við manna, félagsvist, veiðimann og ólsen ólsen með ættingjum og vinum sem komu í heimsókn. Amma var líka skyggn og mikil spákona, spáði í kaffibolla fyrir alla sem komu í heimsókn og spáði á tímabili í tarotspil. Lífið var alltaf ævintýri með ömmu, virðing var borin fyrir því yfirnáttúrulega og draugar, tröll og álfar var eitthvað sem við trúðum á saman og fundum fyrir þegar við ferðuðumst um landið á besta bíl í heimi, Skodanum!


Amma elskaði að ferðast bæði innanlands og utan, einu skiptin sem ég hef sjálf farið hringinn var í þau skipti sem ég ferðaðist í tjaldferðum með ömmu og afa. Síðast þegar ég fór ég hringinn var það með ömmu fyrir 15 árum, ógleymanleg ferð þar sem við stoppuðum á fallegum stöðum, snertum jökla og heimsóttum ættingja fyrir austan. Áttræðisafmæli ömmu fögnuðum við mamma svo með henni, að sjálfsögðu, í Eiffelturninum í París, það mátti nú ekki minna vera. Einnig er ógleymanleg ferðin þegar hún heimsótti mig til Englands, þó svo hún væri orðin áttræð þá hljóp hún á undan okkur öllum með göngustafinn, klifraði í stigum með garðklippurnar, pantaði tvöfaldan viskí á pöbbnum (eina áfengið sem henni fannst nokkuð varið í að smakka) og vinir mínir tóku að sjálfsögðu ástfóstri við hana, enn þann dag í dag spyrja þeir um hana. Við ferðuðumst saman til Edinborgar þar sem hún lifði sig eftirminnilega inn í líf drottningar Edinborgarkastala, því hún hafði fjörugt ímyndunarafl og átti auðvelt með að setja upp lítinn leikþátt í tíma og ótíma. Ég þekkti enga aðra sem sparkaði með þegar hún horfði á fótbolta í sjónvarpinu eða hrópaði á fólkið í leynilögguþáttunum hvaða þrjót það ætti að góma.


Amma elskaði tónlist, við sungum og dönsuðum oft saman í eldhúsinu. Eitt af uppáhaldslögunum hennar var Summer holiday og á það vel við núna, því nú veit ég að amma er komin í langþráða sumarfríið sitt eins og segir í laginu, þar sem engar eru áhyggjurnar, sólin skín skært, hafið er blátt, hægt er að gera allt sem maður vill og draumarnir rætast. Þú getur bókað það amma að ég mun halda upp á 100 ára afmælið þitt eftir tvö ár með glæsibrag og dans í eldhúsinu!

Ég er að mestu leiti alin upp í húsinu á Sogaveginum, í ömmu faðmi, það var alltaf mitt annað heimili og ég á eftir að sakna allra gleðistundanna í eldhúsinu með henni og mömmu og þess að hún taki á móti okkur sitjandi í sumarstólnum sínum fyrir framan húsið með sólhattinn. En nú höfum við fjölskyldan tekið stolt við Sogaveginum, ættaróðalinu, og gert það að okkar heimili. Ég, David maðurinn minn og dætur okkar Ronja og Rúna Karlotta munum gera okkar besta í að halda uppi heiðri ömmu og Sogavegur 34 stendur að sjálfsögðu áfram opinn fyrir fjölskyldu og vinum, og þar er enn heitt á könnunni hennar ömmu.


Lífið verður tómlegt án þín elsku amma en ég veit að þú ert á góðum og fallegum stað þar sem þú bíður eftir því að taka á móti okkur einn daginn með þinn hlýja faðm og bros, en á meðan vakir þú yfir okkur og gætir.
Ég skil við þig amma með þakklæti í hjarta, þakklát fyrir öll þau ár sem ég fékk með þér og þakklát fyrir það að David, Ronja og Rúna Karlotta fengu líka að kynnast þér og tengjast þér órjúfanlegum böndum. Við hlökkum til að hitta þig aftur síðar!


Blessuð sé minning þín elsku amma. Takk fyrir allt.

Þín ömmustelpa,

Ragna Skinner.