Unnur Jónsdóttir fæddist á Húsavík 3. mars 1933. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Grund 20. júní 2022.
Foreldrar hennar voru Jón Aðalgeir Jónsson, f. 7. ágúst 1895, d. 8. apríl 1977, og Guðrún Eggertsdóttir, f. 7. nóv. 1894, d. 27. maí 1936. Móðir Unnar lést þegar Unnur var þriggja ára og gekk Guðrún Dýrleif Þorkelsdóttir henni í móðurstað, f. 17. júní 1902, d. 30. apríl 1997.
Bræður Unnar voru Eggert, f. 26. nóv. 1922, dó ungur, Sigurður, f. 10. nóv. 1923, d. 15. mars 1923, Jón Ármann, f. 23. okt. 1925, d. 18. apríl 2020.
Unnur giftist Kristjáni Jónassyni lækni, hann lést 17. nóv. 1985. Foreldrar hans voru Guðríður Kristjánsdóttir, f. 10. ágúst 1897, d. 2. des. 1977, Jónas Jónasson, f. 13. nóv. 1893, d. 15. nóv. 1968.
Unnur og Kristján eignuðust fjögur börn:
1) Guðrún Dýrleif, f. 4. apríl 1958, d. 24. okt. 2012. Dýrleif giftist Karli Heinz Gerhard Grimm, f. 25. júlí 1949. Þau skildu. Sonur þeirra er Kristján Gerhard, f. 25. mars 1981. Hann kvæntist Hjördísi Ernu Sigurðardóttur, f. 2. júlí 1982. Þau skildu. Börn þeirra eru Gabríel Kristján, f. 23. mars 2002, Rannveig Lára, f. 15. maí 2004 og Rúnar Máni, f. 16. mars 2009.
2) Stefán, f. 1. janúar 1960, eiginkona hans er Ólöf Halldóra Bjarnadóttir, f. 16. apríl 1958. Börn þeirra eru: Unnur Elísabet, f. 11. júní 1988, eiginmaður hennar er Haraldur Þórir Hugosson, f. 18. ágúst 1988. Börn þeirra eru Hugo Steinn, f. 7. des. 2016 og Móeiður Beta, f. 22. okt. 2019. Bjarni Kristján, f. 14. ágúst 1990. Sambýliskona hans er Anna Sóley Cabrera, f. 9. jan. 1991. Börn þeirra eru Elísabet Anna, f. 26. jan. 2015 og Arinbjörn Helgi, f. 23. okt. 2021.
3) Guðríður Anna, f. 17. júní 1966, eiginmaður hennar er Ómar Björn Hansson, f. 25. júlí 1959. Synir þeirra eru Óli Valur, f. 9. jan. 2003 og Björn Dúi, f. 5. jan. 2004.
4) Kristín Jóna, f. 19. sept. 1967, eiginmaður hennar er Hafsteinn Már Einarsson, f. 10. ágúst 1966. Dætur þeirra eru Helena og Iðunn, f. 4. des. 1997.
Unnur lauk prófi frá Ljósmæðraskóla Íslands 30. sept. 1955. Hún og Kristján fluttu heim frá Svíþjóð eftir átta ára dvöl erlendis árið 1970. Unnur hóf störf á Landspítala 1974 sem ljósmóðir, fyrst á fæðingargangi og svo við mæðravernd og starfaði þar til 1998.
Útför Unnar fer fram frá Áskirkju föstudaginn 1. júlí klukkan 13.
Það er þekkt mýta að samband tengdasona við tengdamóður sína geti verið
stirt og þyrnum stráð. Ég get ekki vottað um sannleikskorn líkra sögusagna
því reynsla mín er á allt annan veg. Við Unnur, tengdamóðir mín, náðum mjög
vel saman þrátt fyrir að vera um margt ólík. Með árunum styrktist og
efldist samband okkar og var okkur vel til vina.
Ég kynnist Kristínu Jónu, konu minni, í ársbyrjun 1989 og kom fljótlega upp
úr því inn á heimili hennar að Ásvallagötu 58. Tvær yngstu systurnar
Guðríður og Kristín bjuggu þar ásamt Unni móður sinni. Kristján eiginmaður
Unnar hafði dáið fjórum árum áður og tvö elstu börnin, Dýrleif og Stefán
voru þá flutt að heiman. Dýrleif, kölluð Dilla, bjó reyndar skammt frá og
var fastagetur á heimilinu á þessum árum ásamt Kristjáni Gerhard syni
sínum, sem var þá 8 ára.
Fjölskyldulífið á Ásvallagötu var aðeins frábrugðið því sem ég átti að
venjast heima á Móaflötinni í Garðabænum þar sem við fimm bræðurnir ólumst
upp. Mun rólegra yfirbragð var á Ásvallagötunni og mikil áhersla á
máltíðirnar enda komst ég fljótt að því að Unnur var afbragðskokkur. Allt
lék í höndum hennar í eldhúsinu og allt sem hún reiddi fram bragðaðist
listavel; kjötbollurnar, lambakótiletturnar, steikti fiskurinn og jafnvel
soðningin fékk nýtt líf í hennar meðförum. Að ógleymdu sjávarréttasalatinu,
kanilsnúðunum og skítuga grjónagrautnum sem allir í fjölskyldunni
elskuðu. Í eldamennskunni var hún sannarlega á heimavelli en líka á undan
samtímanum í áherslu á hollustu því hún eldaði oftast mjög hollan mat og
gætti vel að innihaldsefnum og eldunaraðferðum.
Ég furðaði mig í fyrstu á því að það voru gjarnan notuð sænsk orð um
ákveðna rétti á heimilinu, sjöttbullar og glass svo dæmi sé tekið.
Þessi háttur hafði lifað innan fjölskyldunnar frá því að þau dvöldu í
Svíþjóð um árabil á meðan að Kristján sérmenntaði sig í röntgenlækningum.
Unnur tók afar vel á móti þessum unga manni sem bættist inn á heimilið. Hún
var mjög kurteis í samskiptum en einnig varfærin og gætti þess vel að gefa
okkur unga parinu svigrúm.
Unnur bjó á nokkrum stöðum í Vesturbænum, fyrst á Ásvallagötu 58, en þegar
hún var orðin ein eftir í húsinu fluttist hún í fallegt lítið einbýli á
Lágholtsvegi 13, og svo nokkrum árum síðar endurnýjaði hún kynni sín við
Ásvallagötuna og flutti hún í íbúð á Ásvallagötu 29. Að síðustu flutti hún
í hús eldri borgara á Aflagranda 40, þá um áttrætt og bjó síðustu árin
steinsnar frá heimili okkar.
Unnur ferðaðist mikið um fótgangandi, sem var ekki algengt í þá daga og hún
gekk afar greitt. Mátti maður hafa sig allan við að halda í við hana á
göngunni þrátt fyrir 33 ára aldursmun. Gangan var alla tíð einkenni Unnar,
einskonar líkamsrækt hennar og gætti hún að því fram eftir öllum aldri að
halda sér við með góðum göngutúrum. Hún vílaði ekki fyrir sér að labba
langar leiðir ef því bar að skipta t.d. í Kringluna úr Vesturbænum og til
baka. Eftir að hún fluttist á Aflagrandann, á efri árum, kynntist hún
Þorbjörgu vinkonu sinni voru þær óþreytandi að labba um vesturbæinn og
miðbæinn þvert og endilangt.
Þegar við hjónin eignuðumst tvíburadæturnar Helenu og Iðunni ´97 urðu mikil
straumhvörf í lífi okkar og þá kynntist ég tengdamóður minni á nýjan og
dýpri hátt. Við Kristín vorum bæði í annasömum störfum og reyndist hún
tengdó okkur mikil hjálparhella. Hún hætti að vinna sem ljósmóðir um svipað
leyti og tók ríkan þátt í að hjálpa til með hvaðeina sem þurfti að gera og
græja á heimilinu og létti verulega undir með okkur á álagstímum. Hún var
mikilvægur þátttakandi í uppeldi dætra minna enda er Unnur amma þeirra þeim
afar kær og hugleikin. Þegar haldin voru afmæli eða önnur tækisfærisboð á
heimilinu var Unnur ætíð með í ráðum og oftar en ekki fann hún sér hlutverk
í eldhúsinu óumbeðin. Þetta var hennar háttur og val og fólk leitaði í
eldhúsið til að spjalla við hana.
Unnur var mikil fjölskyldumanneskja og vildi allt fyrir sitt fólk gera. Hún
átti góðar vinkonur og ræktaði einnig fjölskyldutengslin á æskuslóðirnar
norður á Húsavík með símtölum og reglubundnum heimsóknum, en var ekki mikil
félagsvera þess utan. Hún hélt sér ætíð vel, var vel til höfð, virðuleg og
klæddist vönduðum klassískum fötum. Hún hafði næmt fegurðarskyn og auga
fyrir uppröðun og skipulagi. Hún hefði efalaust orðið fyrirtaks
innanhússhönnuður ef hún hefði lagt það fyrir sig.
Lífið var henni ekki áfallalaust. Hún missti móður sína ung að árum en ólst
upp hjá góðri uppeldismóður; Dýrleifi, sem hún nefndi síðar fyrsta barn
sitt eftir. Kristján eiginmaður hennar lést aðeins 57 ára gamall úr
krabbameini og Unnur var þá orðin ekkja aðeins 52 ára gömul. Þá lést elsta
dóttir hennar, Dilla, árið 2012. Þrátt fyrir þessa brotsjói stóð Unnur
alltaf upprétt og hélt áfram með sitt líf og bar harm sinn í hljóði. Hún
kvartaði aldrei yfir hlutskipti sínu þó vafalaust hafi þessi áföll reynt
verulega á.
Unnur gat verið húmoristi þegar sá gállinn var á henni og náðum við þar
góðri tengingu. Hún sagði oft þá sögu þegar hún einhverju sinni náði í
stelpurnar okkar á leikskólann, þegar við hjónin vorum erlendis. Þetta var
um vetur og það var hríðarverður úti. Hún klæddi sig vel upp og eftir að
hafa gengið í nokkrar mínútur í storminum kom hún á leikskólann öll snjóug
og líklega heldur óárennileg að sjá. Þar sem hún stendur í ganginum á
leikskólanum að svipast um eftir ömmudætrum sínum stendur lítil stúlka
fyrir framan hana og mænir á hana náföl á svip. Stúlkan segir svo með
titrandi röddu ert þú grýla?. Unnur hló manna mest að þessari upprifjun
sjálf.
Það var lengi haft á orði innan fjölskyldunnar að Unnur væri eins og
fiðrildi þegar hún kom í heimsókn, staldraði stutt við og fór gjarnan
fljótlega heim til sín ef það var ekki eitthvert ákveðið viðfangsefni sem
hún gat sinnt. Með árunum róaðist hún þó og fór að dvelja lengur á heimili
okkar í hvert sinn sem hún kom, jafnvel þó ekkert sérstakt tilefni væri
fyrir hendi. Ég skynjaði það sterkt að henni leið vel á okkar heimili og
hún tengdist okkur sífellt sterkari böndum. Konan mín henti að því gaman að
móðir hennar kom oft í heimsókn þegar hún var ekki heima og dvaldi lengi að
spjalla við mig og við jafnvel horfðum á sjónvarpið saman.
Ég vil að endingu þakka Unni tengdó fyrir viðkynninguna og samveruna í
lífinu. Hún var okkur hjónum og ömmudætrum stoð og stytta í daglegu amstri
og auðgaði líf okkar. Hún var líkt og kryddið í matseldinni sem er
nauðsynlegt fyrir jafnvægi réttarins og glæðir hann skemmtilegu bragði. Ég
er stoltur að hafa átt hana tengdó að vini.
Takk fyrir allt elsku Unnur.
Hafsteinn Már.