Hilmar Albert Albersson fæddist 9. janúar 1944. Hann lést á heimili sínu Heiðargerði 16, Akranesi,  10. júní 2022

Móðir Hilmars var Ásta Kristbjörg Bjarnadóttir, f. 12. maí 1922, d. 3. sept. 1991, en faðir hans er óþekktur

Hilmar sjálfur er fæddur 9. janúar 1944 og er elstur systkina sinna sem öll eru honum sammæðra. Þá er næstur Hilmari Júlíus Hólm Baldvinsson (7. ágúst 1948), næst Guðlaug Sigríður Kristjánsdóttir (20. ágúst 1950 - 22. feb. 2020), Bjarni Júlíus Kristjánsson

(6. apríl 1953 - 6. júlí 2002), Helgi J. Kristjánsson (10. mars 1954), Michael Allan Comer

(6. júlí 1956), Elís Kristjánsson (8. ágúst 1957 - 3. sept. 2016) og Sigurður Kristjánsson

(11. feb. 1959)

Hilmar er fæddur í Borgarnesi en var fyrstu æviárin í Stykkishólmi hjá afa sínum og ömmu, Elísabetu Hildi Gísladóttur og Bjarna Júlíusi Kristjánssyni. Þá fluttist hann til Keflavíkur með móður sinni en var þar aðeins í örfá ár og kom varla þangað aftur fyrr en hann fór á vertíð sem sjómaður sem fullorðinn maður, sem þá var auðvitað bara rétt um tvítugt. Hilmar vann alltaf mikið, allskonar vinnu en oftast var hann sjómaður og án þess að vera mikið fyrir titla, hefði örugglega titlað sig sem slíkan. Frá átta ára aldri og þar til Hilmar fór að sækja vinnu annaðhvort við sjó eða önnur störf ólst Hilmar upp hjá yndislegum hjónum þeim Ingibjörgu Guðrúnu Erlendsdóttur (alltaf kölluð Imba) og Alberti Guðmundssyni í Kolbeinstaðarhrepp á bænum Heggstöðum. Fjölskyldan á Heggstöðum átti alltaf fastan sess í hjarta Hilmars.

Árið 1967 tekur Hilmar saman við eiginkonu sína Rögnu Steinunni Eyjólfsdóttur (f. 8.júlí 1936) í Grundarfirði en hann vann þá við vegavinnu. Þau eiga saman fimm börn - Albert Hilmarsson (28. ágúst 1968), Hjörtur Hilmarsson (2. mars 1970), Ásdís Lilja Hilmarsdóttir (5. feb. 1974), Signar Kári Hilmarsson (12. ágúst 1975) og Hermína Huld Hilmarsdóttir (27. júní 1980). En fyrir átti Ragna þrjá syni, þá Guðjón Ingva Ingimarsson (f.10.12 1960 - 18.10.1961) Kristvin Ingva Ingimarsson (4. nóv. 1962) og Leifur Dagur Ingimarsson (11. jan. 1965 - 5. maí 1985). Hilmar og Ragna eiga 17 barnabörn og 5 barnabarnabörn.
Útför hans fer fram frá Stykkishólmskirkju í dag, 4. júlí 2022, klukkan 14.

Nú missti ég stóran hluta af mér, í raun stærri hluta en ég gerði mér grein fyrir. Maður ætlar foreldrum sínum að vera ávallt hjá manni þó maður auðvitað viti að sú er ekki raunin.

Pabbi var mér vinur, tefélagi, styrkur, stoð og stytta og svo fléttaður inn í allar athafnir mínar að hann hefði sennilega sjálfur orðið hissa ef hann hefði vitað hvað ég stólaði mikið á hann. Hann var aldrei nema símtali í burtu hvort sem mig vantaði andlegan stuðning eða aðstoð við eitthvað lítilfjörlegt eins og sósugerð. Við áttum skoðanaskipti, hlógum að einhverri vitleysu og hjálpuðumst að við þá þætti sem voru öðru okkar ekkert mál en hitt strögglaði við. Það er erfitt að sitja og vita að hann kemur ekki við á hádegisrúntinum eða hringi til að athuga hvort það sé eitthvað að frétta því hann hafi engar fréttir. Það er erfitt að sætta sig við að heyra ekki sagt aftur "jumings kellingin" og það er erfitt að sætta sig við að hafa þurft að kveðja án þess að vera tilbúinn og algjörlega óviðbúinn því.
Pabbi var alls ekki ekki gallalaus frekar en nokkur maður en hann var karakter í öllum skilningi orðsins, hann var hlýr, umvefjandi og styðjandi, hann var ríkjandi og átti rýmið, hann var hress, hann var hávær, hann var fyndinn og stundum óviðeigandi en aldrei illa meinandi, hann var hvatvís og drífandi og það sem mestu skipti að hann var maður sem skilur eftir sig þakklæti, ást og hlýju auk mikils söknuðar en ég er svo þakklát fyrir að hafa átt hann að og að við höfum verið hluti af lífi hvort annars og svo þakklát fyrir að drengirnir mínir áttu afa eins og hann. Afa sem átti alltaf knús í massavís og eitthvað gott í gogginn með.
Ég trúi því og það veitir mér ró að pabbi fór eins og hann lifði og eins og hann hefði viljað fara, kannski fékk hann góða hugmynd og það var óþarfi að draga hana til morguns.

Hermína Huld Hilmarsdóttir.