Sveinbjörg Eygló Jensdóttir fædd­ist í Keflavík f. 11.01. 1942. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á  Landsspítalanum við Fossvog, 30. júní 2022.

Foreldrar hennar voru  Sólveig Sigurðardóttir, f. 19.10. 1913, d .03.03. 2008, frá Keflavík. og Jens Ingvi Jóhannsson, frá Mjóabóli í Dalasýslu. f. 27.02. 1917, d. 27.07. 1951.

Systur Sveinbjargar Eyglóar eru Halldóra Ingibjörg Helga, f. 05.11. 1936, Magnea Eyrún, f. 10.04. 1938, d. 17. 09. 2014.  Jóhanna, f. 20.01. 1946.

Sveinbjörg Eygló giftist hinn 15. 11. 1958  Guðmundi Árna Sigurðssyni, f. 02.11.1938, d. 20.09. 1998.

Börn þeirra eru:  Sólveig Ágústa, f. 22.04. 1959. Maki: Friðjón Einarsson. Börn: Eygló Anna Tómasdóttir, Karen Lind Tómasdóttir og Samúel Kári Friðjónsson.  Helga Kristín, f. 25.05. 1961. Maki: Vigfús Guðmundsson. Börn: Guðmundur Árni Eyjólfsson, Ingveldur Eyjólfsdóttir og Sævar Freyr Eyjólfsson.  Sonja, f. 13.06. 1963 Maki: Mike Frey. Börn: Helga Kristín Danoy, Meghin Robbin Danoy og Frank Peter Danoy.  Guðmundur Jens, f. 11.09. 1965. Maki: Björk Þorsteinsdóttir, Börn: Auður Erla Guðmundsdóttir og Sonja Steina Guðmundsdóttir. Ásgeir Freyr, f. 25.02. 1975. Maki: Jaime C. Sigurdsson. Börn: Sara Rós Sigurdsson, Siena Riley Sigurdsson, Sóley Ruth Sigurdsson.

Barnabarnabörn Sveinbjargar Eyglóar eru 14 búsett bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi.

Eygló ólst upp á Suðurgötu 51 í Keflavík og stundaði nám í grunnskóla og gagnfræðaskóla Keflavíkur ásamt því að læra hárgreiðslu, en flutti síðar á Háholt 16 í Keflavík ásamt eiginmanni sínum og börnum. Eygló flutti til New York ásamt fjölskyldunni 1969 og bjó þar í hartnær 40 ár.  Hún helgaði sig fjölskyldunni fyrstu áratugina, en upp úr 1980 hóf hún rekstur á gistingu fyrir ferðalanga á leið frá Íslandi til annarra áfangastaða í Bandaríkjunum.  Þegar Eygló var orðin ekkja hóf hún verslunarrekstur í Florida ásamt því sem hún sá um fasteignir fyrir íslendinga sem áttu húsnæði þar.   Eygló var mjög litaglöð og glysgjörn kona og voru vörurnar hennar eftir því og þótti barnabörnunum mikið ævintýri að kíkja í búðina til ömmu enda mikið að sjá og upplifa.  Eygló fluttist aftur heim frá Bandaríkjunum til Keflavíkur 2010.



Útför henn­ar er gerð frá Keflavíkurkirkju, 11. júlí 2022, klukk­an 13.

Ég er ekki enn búin að átta mig á því að hún Eygló tengdamóðir mín sé ekki að fara að droppa inn þá og þegar eins og hún var vön að gera þegar hún var á landinu. Hún var af þeim gamla skóla að kíkja í heimsókn án þess að hringja sérstaklega áður eða senda skilaboð eins og tíðkast meira nú til dags. Við Gummi kvörtuðum oft góðlátlega undan þessu, en núna gæfum við mikið fyrir innlitið og minnir mann á að lífið er hverfult.

Ég kynnist Eygló upp úr 1990 í New York þar sem hún og fjölskyldan hennar bjó og þekkti ég þá annan sona hennar sem hafði oft dvalið á Íslandi og var nú mættur aftur í foreldrahús. Ég var í námi í háskóla og því fylgdi mikið skemmtanalíf og man ég alltaf að eitt af því fyrsta sem hún sagði við mig var: Ert þú stúlkan sem er alltaf að draga hann Gumma minn í partí? Og jú, ég var víst sú stúlka, en eins og allir sem okkur þekkja vita þurfti ekkert að draga Gumma í partí og hún vissi það manna best enda hefur Gummi partígenin frá henni segi ég. Eygló var mikið fyrir gleðskap og var einstaklega broshýr og til í að dansa og tjútta og það var gaman að vera með henni í svoleiðis fjöri.

Matarboðin hennar voru einstök, hún var langt á undan nútímaveitingahúsum í að bera fram óvissuferðar-matseðil því það kenndi ávallt margra grasa á matarborðinu hennar. Kjötmeti, núðlur, bakað ziti og pítsur í bland ásamt salati, sósum og ýmsu öðru meðlæti, allt borið fram á sama tíma, og hún í essinu sínu, ávallt klædd í litríkan fatnað með stóra eyrnalokka og hálsmen í stíl. Já hún Eygló var litríkur karakter og kunni alls ekki við ríkisliti okkar Íslendinga svartan og gráan. Afmælis- og jólagjafirnar frá henni voru líka í hennar stíl, litríkar, margar og já fríkaðar oft á tíðum. Dætur okkar voru mjög spenntar alltaf að opna pakkana frá henni ömmu Búbbís, en það var gælunafn sem hún kom með sjálf og hefur fest við hana og bar hún það gælunafn einstaklega vel og með rentu. Hún hitti ekki alltaf á réttu gjafirnar, en þær vöktu alltaf mikið umtal og mörg bros og hlátur.

Ég deildi með Eygló miklum áhuga á hvers kyns skarti og fylgihlutum og mér þótti mjög gaman að gramsa í skartinu sem hún var að selja í búð sinni í Flórída, þar sem hún bjó síðustu ár sín í Bandaríkjunum eftir að hún varð ekkja. Úr varð að ég opnaði verslun sem hét Bling-Bling og hún aðstoðaði mig dyggilega við að kaupa inn og setja fram og selja. Þetta var einstaklega skemmtilegur tími og geymi ég margar dýrmætar minningar um Bling-ævintýrið okkar í hjartanu, uppfull af þakklæti fyrir að hafa deilt þessu áhugamáli með henni á þessum tíma.


Fjölskyldan var henni Eygló ávallt mjög hjartfólgin og var hún mjög dugleg að skipta tíma sínum á milli allra og var það ekkert létt verk þar sem hún á fimm börn sem búa í tveimur löndum með 14 barnabörnum og 14 barnabarnabörnum. Börnin dýrkuðu ömmu Búbbís, hún var alveg einstök amma sem nennti alltaf að sprella með þeim og sagði þeim sögur sem fékk þau til að gapa af undrun, hún amma gat allt, farið í splitt og svo hafði hún gert svo margt skemmtilegt og þekkti svo marga flotta og fræga. Hún elskaði skafmiða og fékk börnin oft í að skafa með sér, en skemmtilegast fannst henni sjálfri að komast í alvöru Casino. Gummi bauð mömmu sinni með okkur fjölskyldunni til Los Angeles og Las Vegas í tilefni 50 ára afmælis hans fyrir nokkrum árum og var gaman að sjá hvað Eygló var á miklum heimavelli þar. Fórum á tónleika í LA og heimsóttum stjörnurnar á Hollywood Boulevard, flugum yfir Grand Canyon í þyrlu og heimsóttum spilavítin og hún elskaði þetta allt saman og brosti hringinn.

Eygló flytur heim til Íslands um 2010, en er alltaf með annan fótinn í Bandaríkjunum þar sem tvö barna hennar og þeirra fjölskyldur búa þar enn. Þess vegna er maður vanur því að Eygló sé ekki alltaf heima á Íslandi og þannig líður mér ennþá, finnst eins og hún sé bara í Bandaríkjunum og komi svo bráðum heim og droppi við. En raunveruleikinn er að Eygló er farin í sína síðustu ferð þangað og kom hún heim til Íslands í síðasta sinn í maílok og var þá mjög dregið af henni vegna veikinda sem hún glímdi við frá nóvember 2021. Svo fór að hún beið lægri hlut í veikindabaráttunni í lok júní og nú er hún farin í sumarlandið þar sem ég veit að Guðmundur hennar, Magga systir og foreldrarnir taka vel á móti henni.

Ég kveð þig elsku Eygló mín og þakka þér litríka og góða samfylgd síðastliðin 30 ár. Votta öllum aðstandendum og vinum hennar innilega samúð, en við skulum muna að Eygló vildi gleði og lit í lífið og munum eftir þeim mörgu gleðistundum sem við áttum með henni og spörum svarta litinn eins og við getum.

Þangað til næst.

Love,

Björk Þorsteinsdóttir.