Hreinn Einarsson fæddist 19. ágúst 1945 á Akureyri og ólst upp hjá ömmu sinni Kristínu, afa sínum Sigurði og móðursystur sinni Bertu. Hreinn lést í faðmi fjölskyldu sinnar á Skógarbrekku HSN 3. júlí 2022.
Foreldrar Hreins voru Erla Sigurðardóttir, f. 19. janúar 1926, d. 2. febrúar 1965, og Einar Eggertsson, f. 9. ágúst 1925, d. 11. nóvember 1985.
Systkini Hreins sammæðra eru: Hrafnhildur Garðarsdóttir, f. 19. janúar 1949, Björn Harðarson, f. 21. janúar 1954, Sigrún Harðardóttir, f. 30. mars 1956, Sigurður Harðarson, f. 2. febrúar 1958, og Erla Kristín Harðardóttir, f. 18. júní 1962.
Systkini Hreins samfeðra eru: Laufey Brynja, f. 22. desember 1947, Gunnar Rafn, f. 12. júní 1949, Hulda, f. 8. september 1949, Hallfríður Lilja, f. 1. febrúar 1951, Gunnar, f. 28. janúar 1954, d. 4. ágúst 1982, Birgir, f. 11. ágúst 1955, og Anna, f. 30. september 1964.
Eftirlifandi eiginkona Hreins er Sigríður Kristín Gunnlaugsdóttir, f. 3. júlí 1948 á Húsavík. Börn þeirra eru: 1) Gunnlaugur Karl, f. 30. maí 1966, maki Árninna Ósk Stefánsdóttir, f. 19. júlí 1969, börn þeirra eru Karolína Kristín Gunnlaugsdóttir, f. 1989, í sambúð með Gunnari Sævarssyni, f. 1979. Börn Karolínu eru Heimir Örn og Lovísa Ósk. Aníta Ösp Gunnlaugsdóttir, f. 1992, og Ágúst Már Gunnlaugsson, f. 1997. 2) Sigurður, f. 4. mars 1972, maki Harpa Gunnur Aðalbjörnsdóttir, f. 11. desember 1973. 3) Erla Kristín, f. 2. júní 1976, kærasti Jóel Þórðarson, f. 2. október 1966, börn Erlu eru Sigríður Kristín Ólafsdóttir, f. 1997, maki Kristján Orri Unnsteinsson f. 1997, dætur þeirra eru Dagbjört Erla og Aldís Anna. Guðrún María Erludóttir, f. 25. maí 2000, og Hreinn Kári Ólafsson, f. 12. október 2005. 4) Berta María, f. 21. maí 1978, eiginmaður Ragnar Hermannsson, f. 19. apríl 1980, synir þeirra eru Hermann Veigar Ragnarsson, f. 2005, Sigurður Karl Ragnarsson, f. 2008, og Kristófer Aron Ragnarsson, f. 2015. 5) Sveinn Veigar, f. 17. október 1979, börn hans eru Sandra María Sveinsdóttir, f. 2007, og Daníel Sævar Sveinsson, f. 2010.
Hreinn og Sigríður giftu sig 20. ágúst 1967 og bjuggu á Húsavík alla sína ævi saman.
Hreinn ólst upp á Akureyri og stundaði nám í barna- og gagnfræðaskóla þar. Strax eftir gagnfræðapróf fór hann á sjó og stundaði sjómennsku í nokkur ár, eða þar til hann hóf nám í Iðnskóla Húsavíkur haustið 1966 og lærði þar bifvélavirkjun sem hann vann við alla sína tíð.
Útför Hreins fer fram frá Húsavíkurkirkju í dag, 13. júlí 2022, kl. 14.00.

Elsku hjartans pabbi minn, það verða þung skref að taka er við kveðjum þig í hinsta sinn í dag, en jafnframt léttir mér örlítið til, að vita til þess að þú sért kominn á betri stað og þarft ekki að kljást lengur við þann sjúkdóm sem þú varst með. Það er margs að minnast, margs að sakna og ekki síst margs að þakka. Þú varst alltaf boðinn og búinn að rétta mér hjálparhönd, alveg sama hvað það var. Ósjaldan stóðst þú í hjólreiða viðgerðum fyrir mig, svo kom skellinöðru tímabilið hjá mér og loks bílarnir, ef það var eitthvað að þá varst þú alltaf kallaður til, til að lagfæra og græja, þú hafðir nefnilega lúmskt gaman að þessu öllu saman og ekki síður varstu á heimavelli þegar þú varst undir bíl eða ofan í húddi að lagfæra það sem þurfti. Ekki var það bara bílar og vélar sem þú varst góður í að gera við, heldur var það allt mögulegt og eftir að maður fór að búa sjálfur þá komst þú alltaf eins og kallaður til að aðstoða við ýmsar framkvæmdir, hvort sem var að smíða, glerja, leggja gólfefni, mála, pípuleggja eða skipta um heilu húsþökin, þú varst nefnilega völundur í höndum og þúsund þjala smiður. Það var fátt sem þú gast ekki gert, það var einna helst eldamennskan, það verður að viðurkennast að það var ekki þinn heimavöllur, mamma sá alfarið um það og passaði alltaf að nóg væri á borðum og allir fengju nóg.

Bílskúrinn var þinn griðastaður, þar leið þér vel og ófá verkefnin sem þú tókst að þér fyrir hina og þessa og flest, ef ekki öll, eiga það sameiginlegt að þú tókst aldrei neitt fyrir það, gerðir þetta ánægjunnar vegna og ef einhver bað þig um eitthvað þá var það alltaf já, þú varst mjög slæmur í að segja nei nefnilega svona yfir höfuð. Við systkinin nýttum okkur það óspart er við vorum lítil, t.a.m. um helgar er þið mamma voruð enn sofandi á morgnana og við krakkarnir vildum eitthvað, sem við vissum vel að við mættum ekki fá, þá spurðum við þig alltaf hvort við mættum fá þetta og fá hitt, þú muldraðir þá alltaf já já, með mismikilli hrifningu frá mömmu er hún kom á fætur.

Alltaf var allt í röð og reglu hjá þér, öll verkfæri á sínum stað, hvort sem var í áhaldahúsinu þar sem þú vannst í yfir 40 ár eða bílskúrnum heima. Þú nefnilega vildir geta gengið að hlutunum vísum og sagðir oft við mömmu er hún var búin að týna lyklunum eða gleraugunum sínum að hún ætti alltaf að leggja þetta frá sér á sama stað, þá þyrfti hún ekki vera að leita að þessu alsstaðar, svo einfalt væri það.

Alltaf varstu okkur góður og vildir okkur vel, þú varst ekki alltaf að sýna það neitt sérstaklega en ég fann það alltaf hjá þér að þér þótti vænt um okkur. Margar minningar koma upp í huga minn er ég rita þessi orð og þær mun ég geyma vel. Þegar þú gafst mér heitan andardrátt í eyrað til að minnka þjáningar mínar vegna heiftarlegrar eyrnabólgu sem var tíður gestur hjá mér er ég var smákrakki, ekki var ég hár í loftinu er þú sast með mig undir stýri á bláa Galant-inum og leyfðir mér að keyra, rétt náði niður á bensíngjöf og sá varla yfir stýrið, allar árlegu ættarútilegurnar með föðursystkinum þínum og fjölskyldum þeirra, utanlandsferðirnar sem við fórum í, spila kana við eldhúsborðið fram á nótt, allar bílskúrsstundirnar, matartímar þar sem þú bauðst mér alltaf grænar baunir vitandi að ég borðaði þær ekki, þær voru jú í uppáhaldi hjá þér og þú alltaf jafn hissa er ég neitaði þeim, þú settir þær meira að segja út á skyr í eitt skiptið já þetta er aðeins brot af þeim minningum sem koma upp í hugann og það er margt sem þú kenndir mér og ég bý enn að í dag og er ég þakklátur fyrir það.

Eftir að þú greindist með alzheimer fyrir nokkrum árum síðan vissi ég að leiðin hjá þér myndi liggja niður á við, það var erfitt að horfa og vita til þess, að þú sem alltaf hafði verið svo líkamlega hraustur og handlaginn mundir missa heilsuna hægt og bítandi. Og eftir því sem sjúkdómurinn óx ásmegin með árunum þá varð verkstol einnig meir hjá þér og einföldustu verk fyrir þér hér áður fyrr voru orðin erfiðari að leysa. Ekki varstu vanur að biðja um hjálp og þú vildir gera hlutina sjálfur, en mamma var alltaf á vaktinni og lét okkur systkinin vita er þú þyrftir á hjálpinni að halda og bað okkur að kíkja á þig í skúrinn ef svo bæri undir. Það var æði oft sem ég hristi hausinn og hló inn í mér er ég mætti og sá hvað þú varst búinn að vera brasa. Eins ömurlegur og Alzheimer sjúkdómurinn er, og fer illa með fólk, þá býr hann einnig til ótal skemmtilegar minningar fyrir okkur hin sem standa eftir og þær, elsku pabbi minn, bjóst þú sko til eins og þér er einum lagið. Það er nefnilega þannig að þú getur horft á glasið ýmist hálf tómt eða hálf fullt, ég ákvað að velja síðari kostinn hvað varðar veikindi þín og höfðum við systkinin það oft á orði að það væri ekki annað hægt en að hlægja og brosa að þessu öllu saman og öllum þínum uppátækjum þó svo að alvarleikinn væri ekki langt undan. Þú sýndir mér aldrei neina reiði né illsku í þínum veikindum, eins algengt og það er með fólk með þennan sjúkdóm, heldur varstu alltaf sama ljúfmennið, allt frá því ég man fyrst eftir mér og þar til ævi þinni lauk. Þannig mun ég ævinlega minnast þín, ljúfur, góður og hjálpsamur.

Elsku pabbi minn, takk fyrir allt saman sem þú hefur gert fyrir mig og börnin mín gegnum árin.

Ég elska þig.

Þinn sonur,Hreinn

Sveinn Veigar.