Arnþór Reynir Magnússon fæddist á Brennistöðum í Eiðaþinghá 28. desember 1931. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Hulduhlíð 8. júlí 2022.
Hann ólst upp í Hamragerði í sömu sveit frá fjögurra ára aldri þegar foreldrar hans og systkini fluttust þangað.
Foreldrar hans voru Guðbjörg Sigríður Sigbjörnsdóttir, f. 12.4. 1890, og Jón Magnús Þórarinsson, f. 15.12. 1880, bændur á Brennistöðum, síðan í Hamragerði.
Systkini hans voru Anna María, f. 6. 2. 1912, Ingibjörg, f. 8. 10. 1914, Margrét, f. 13.5. 1918, Sigbjörn, f. 21.5. 1919, Soffía, f. 2.10. 1920, Þórunn, f. 1.4. 1924, Svanhvít, f. 15.4. 1925, og Magnhildur, f. 5.9. 1926.
Arnþór kvæntist Erlu Hjaltadóttur. Hófu þau búskap á Reyðarfirði, í kjallaranum í Ásbrún, hjá tengdaforeldrum hans. Þau byggðu síðan húsið að Brekkugötu 7 á Reyðarfirði og bjó hann þar allt fram til dauðadags. Arnþór og Erla skildu 2011. Börn þeirra eru: 1) Hjalti, maki Ólöf Kristín Einarsdóttir. Börn þeirra eru Arnþór og María, sonur Maríu er Bjarki Þór Úlfarsson. 2) Gunnar Magnús, maki Dóra Björk Reynisdóttir. Dætur þeirra eru Kristrún og Erla Hildur. 3) Heiðrún, sambýlismaður hennar er Grímlaugur Björnsson. Dætur Heiðrúnar eru Emma Björk, Fanný Ösp og Helena Eik. 4) Kári Elvar, sambýliskona hans er Valgerður Yngvadóttir.
Arnþór starfaði á Reyðarfirði, m.a. sem vélamaður hjá Vegagerðinni, sem bifreiðarstjóri og viðgerðarmaður véla og tækja hjá fiskverkun GSR, vann við afgreiðslustörf í byggingavörudeild KHB, verkamannastörf hjá Rafveitu Reyðarfjarðar og sinnti húsvörslu í grunnskólanum og íþróttahúsinu á Reyðarfirði.
Útför Arnþórs fer fram frá Reyðarfjarðarkirkju í dag, 16. júlí 2022, kl. 13.00.

Þá hefur sá gamli yfirgefið samkvæmið, sagði Gunni þegar hann tilkynnti mér andlát föður síns, Adda frænda míns sem mig langar að minnast nokkrum orðum. Arnþór Reynir Magnússon hét hann fullu nafni, yngstur af níu systkinum fæddum á Brennistöðum í Eiðaþinghá og eru þá öll gengin á vit forfeðra sinna. Reynir mun hann hafa heitið eftir reynitré sem óx einhvers staðar undir Ekkjufellinu þar sem móðir hans ólst upp en uppruna Arnþórs- nafnsins veit ég ekki. Tilvera mín hefur alla tíð tengst Adda með einhverjum hætti alveg frá því ég man eftir mér, þá búandi í kjallaranum í Ásbrún með fyrrverandi eiginkonu sinni Erlu, dóttur þeirra merkishjóna Hjalta Gunnarssonar og Aðalheiðar Vilbergsdóttur. Þessi minning mín um frænda á ekki að vera neinn sérstakur fagurgali um hann heldur langar mig að minnast hans og þakka fyrir allt sem hann var mér, hálfumkomulausum ellefu ára drengstaula eftir skilnað foreldra minna. Þú varst alltaf tilbúinn að koma til að aðstoða okkur með eitt og annað sem aflaga fór í Hvoli. Þú sýndir mér t.d. hvernig átti að sóthreinsa biðuna í olíufýringunni þegar hætti að loga í olíunni fyrir sóti, opna sótlúguna á skorsteininum til að skafa út sótið með sköfu sem þú smíðaðir. Gamli tréskíðasparkurinn sem þú endurbyggðir, sá var allur brotinn. Þú fékkst aflagðan barnaskólastól og munstraðir hann ofan á meiðana. Hvernig þú bjargaðir sálarheill minni varðandi bíladellu mína eftir að hún tók yfir líf mitt, keypt var gömul bjalla úr Reykjavík óséð, man að þú komst með mér á bryggjuna þegar gripurinn kom með strandferðaskipi á Reyðarfjörð og við fórum fyrstu ökuferðina báðir sælir með gripinn, en síðar kom í ljós að töluverður hluti af þyngd bílsins var bundinn fyllingarefni sem smám saman hrundi eftir því sem ekið var í fleiri holur. Reyndist þú þá mér betri en enginn, hvattir mig til láta ryðbæta og panta varahluti eins og sílsa, bretti og eina hurð. Bíllinn var settur í viðgerð á Lykli og man ég eftir því þegar við sóttum grindina og drógum hana inn í skúr hjá þér, þar hafðir þú yfirumsjón með ryðhreinsun og málningarvinnu. Þar sprautaðir þú brettin og hurðina með málningarsprautu sem var tengd við Nilfisk-ryksugu móður minnar. Þú skiptir um kúplingsdisk og pressu, losaðir nokkra bolta og sviptir svo vélinni frá, settir svo saman, hertir pressuna lauslega, tálgaðir svo til kústskaft til að diskurinn væri á réttum stað þegar þú rakst mótorinn upp á. Þessi tími var minn skóli í bílaviðgerðum. Svo líða árin eins og gengur, ég flyt upp á Hérað þannig að samgangur minnkaði en þessi strengur sem á milli okkar spannst slitnaði ekki. Þegar ég skipti um vinnu og sagði þér hvað stæði til þá sagðir þú: Það kemur mér ekki á óvart, þú hefur alltaf verið að horfa eftir flugvélum. Svo verða kaflaskipti í þínu lífi, þið hjónin skiljið og þú hófst búskap einn. Þá fóru samskipti okkar að aukast að nýju, aðallega í síma en þó nokkrar heimsóknir í Brekkugötuna. Samtölin sem við áttum þegar ég var á næturvöktum stóðu gjarna í tvo klukkutíma og eru mér ofarlega í sinni núna, um gamla tíma, þá sérstaklega úr sveitinni þinni Hamragerði og Brennistöðum sem ég reyndi að punkta niður svo lítið bæri á og á ég þær einhverjar í handraðanum. Mig langar að þakka þér fyrir að þiggja boðið í bíltúrinn 11. júní síðastliðinn, það er minning sem ég mun geyma meðan ég lifi.
Nú er komið að kveðjustundinni, það veit ég að vel verður tekið á móti þér í Sumarlandinu. Afkomendum þínum og aðstandendum sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur og vertu nú sæll og takk fyrir allt.
Þinn frændi,

Magnús Kristjánsson