Árni Sigurbjörnsson var fæddur 10. nóvember 1951 á Akureyri. Hann lést á Landspítalanum 9. júlí 2022.
Foreldrar Árna voru Sigurbjörn Árnason, sjómaður, f. 18. september 1927, d. 25. september 2014, og Kristjana Kristjánsdóttir, sjúkraliði, f. 13. desember 1929, d. 27. desember 2021.
Árni átti einn hálfbróður og fimm alsystkin. 1) Samfeðra hálfbróðir var Guðmundur Sigurbjörnsson, f. 1949, en hann er látinn. 2) Eva Sigurbjörnsdóttir, f. 1950. 3) Jón Ingi Sigurbjörnsson, f. 1953. 4) Kristján Sigurbjörnsson, f. 1955. 5) Margrét Birna Sigurbjörnsdóttir, f. 1965. 6) Anna Sigurbjörnsdóttir, f. 1968.
Fyrri kona Árna er Agnes Olga Jónsdóttir. Þau áttu tvo syni, Sigurbjörn, f. 1972, og Jóhann Inga, f. 1976. Sigurbjörn er giftur Erlu Berglindi Antonsdóttur, f. 1975, og eiga þau fimm börn. Jóhann Ingi býr með Helenu Wilkins og eiga þau fjögur börn. Jóhann á eina dóttur frá fyrra sambandi.
Eftirlifandi eiginkona Árna er Andrea Jónheiður Ísólfsdóttir, f. 26. maí 1965, en þau hafa verið gift frá 29. mars 1986. Þau eiga þrjár dætur. Þær eru: 1) Kristjana Hrönn, f. 1987, gift Friðriki Páli Ólafssyni, f. 1981, og eiga þau þrjú börn. 2) Margrét Jónína, f. 1990. Hennar sambýlismaður er Steinar Hermann Ásgeirsson, f. 1985. Margrét á tvö börn úr fyrri samböndum og Steinar á eina dóttur frá fyrri sambúð. 3) Hafdís Eva, f. 1995, gift Ingólfi Helga Héðinssyni, f. 1991, þau eiga eina dóttur og annað barn á leiðinni.
Árni ólst upp í Garðabænum þar sem hann gekk í barnaskóla. Eftir að hafa lokið gagnfræðaskóla fór hann í Stýrimannaskólann en þaðan útskrifaðist hann með 3. stigs farmannapróf árið 1973. Lauk hann einnig prófi frá Varðskipadeild Stýrimannaskólans auk prófs frá Bandarísku strandgæslunni.

16 ára gamall byrjaði Árni á sjó og sótti sjóinn í nokkur ár áður en hann hóf störf hjá Tilkynningaskyldu íslenskra skipa sem starfrækt var af Slysavarnafélagi Íslands. Þar vann hann með sjómannaskólanum á veturna en var á hvalveiðum á sumrin. Fastráðningu hjá Tilkynningaskyldunni hlaut Árni 1973. Skyldan varð síðar að Vaktstöð siglinga og síðan Stjórnstöð LHG. Árni sinnti þessu starfi ötullega og af hugsjón í 50 ár og tók virkan þátt í umbótum sem vörðuðu öryggi sjómanna.
Árni verður jarðsunginn frá Víðistaðakirkju í dag, 21. júlí 2022, klukkan 13.

Mín fyrstu kynni af Árna voru þegar ég var nú bara stráklingur en Árni ungur maður að hefja störf hjá Tilkynningarskyldu íslenskra skipa sem rekin var af Slysavarnafélagi Íslands í húsnæði félagsins við Grandagarð. Ég kom þar stundum við með föður mínum og það sem gerði Árna minnisstæðan frá þessum tíma var að hann var langyngsti starfsmaður Skyldunnar því hinir voru gamalreyndir skipstjórnarmenn komnir í land eftir farsælan sjómannsferil. Minnist þess einnig að hafa fundist hann meiriháttar töffari. Árni byrjaði að starfa á Skyldunni með námi í Stýrimannaskólanum árið 1972 en hann lauk prófi úr varðskipadeild skólans 1974. Leiðir okkar Árna áttu síðan eftir að liggja saman talsvert næstu áratugina vegna samstarfs og vinskapar í tengslum við sjóbjörgunarstörf á vegum Slysavarnafélagsins, vorum báðir starfsmenn félagsins um tíma, unnum saman að uppfærslum á sjálfvirku tilkynningarskyldunni og svo loks samstarfsfélagar hjá Landhelgisgæslunni. Það voru allir sem umgengust og störfuðu með Árna sammála um að þar færi mikill fagmaður, eldhugi m.t.t. þróunar og uppbyggingar öryggismála sjófarenda og góður vinur sem gott var að eiga spjall við og skiptast á skoðunum við. Þau ár sem hann starfaði sem varðstjóri og vaktstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar var hann óspar á að veita yngri og nýrri starfsfélögum upplýsingar, góð ráð og hvetja þá til dáða. Samstarfsfólk hugsar hlýlega til hans og saknar góðs vinar. Sjálfur var ég svo heppinn að fá tækifæri til að ferðast með Árna starfa okkar vegna bæði innanlands og utan og skemmtilegri og viðræðubetri ferðafélaga er vart hægt að finna. Ferðin sem við fórum saman til Frakklands fyrir 15 árum til að kynna okkur skipaumferðareftirlitsstöð og sjóbjörgunarstjórnstöð í Brest og þar í nágrenni er mér eftirminnileg. Fíni veitingastaðurinn þar sem þjónarnir neituðu að skilja og tala ensku og Árni endaði með dýrindis steik en ég með fullt kar af ópillaðri rækju. Hlógum mikið að þessu. Það var ávallt gott og uppbyggilegt að líta inn á morgunvaktina hjá Árna og hlusta á hann fara yfir stöðuskýrslu síðastliðins sólarhrings. Fá sér kaffibolla og ráða ráðum sínum fyrir næsta sólarhring. Alltaf örugg og fagmannleg samskipti sama á hverju gekk þegar um þyrluútköll, neyðartilfelli á sjó eða aðrar krefjandi aðgerðir var að ræða. Ávallt einbeittur og með hag þeirra sem þörfnuðust aðstoðar eða björgunar að leiðarljósi. Árni var sannarlega vel að því kominn að hljóta heiðurspening Sjómannadagsráðs á síðasta ári fyrir margra ára ósérhlífin störf að öryggismálum sjófarenda á hafinu kringum Ísland og við vorum heppin mörg að fá að samgleðjast honum við það tækifæri. Við samstarfsfólk Árna höfum saknað hans undanfarin 2 ár meðan á veikindum hans stóð og við munum sakna hans nú þegar hann hefur róið yfir fljótið í bát ferjumannsins. Minningarnar um góðan dreng, samstarfsfélaga og vin munu lifa. Við samstarfsfólk Árna hjá Landhelgisgæslunni sendum Andreu, fjölskyldu og vinum hugheilar samúðarkveðjur.

Ásgrímur Lárus Ásgrímsson.

Elsku besti eiginmaður og ástin mín eina er farinn. Farinn og kemur aldrei aftur. Að taka sporin ein til framtíðarinnar án hans er ógnvekjandi. Ég veit ekki enn hvernig ég fer að því að stíga þau spor, einfaldlega kann það ekki því við gerðum allt saman. Ferðuðumst saman bæði innanlands og utan.
Þegar við fórum til útlanda var það aldrei fyrir minna en viku. Honum fannst ekki taka því að fara út fyrir styttri tíma. Hann vildi skoða hreint alla hluti og var lítið fyrir að liggja í leti. Komum út að villast, sagði hann gjarnan og það gerðum við. Ég gat ævinlega treyst á að hann kæmi okkur til baka á aðsetursstað, stýrimaðurinn sjálfur. Hann tók bara sólarstöðuna, þá var þetta ekkert mál. Á þessum ferðum okkar sáum við ótal margt fyrir vikið. Uppáhaldsland Árna var Grikkland og af öllum stöðum stóð upp úr fallega gríska eyjan Amorgos. Hann fékk aldrei nóg af kyrrð og fegurð þessarar ósnortnu eyju. Að sigla til hennar tók átta klst. frá Aþenu og allan tímann sat hann uppi á dekki. Sat þar með kaffibollann sinn og skoðaði allar eyjarnar sem siglt var innan um. Tímdi ekki að leggja sig og missa af þessu öllu saman eins og hann sagði sjálfur.
Hér heima ferðuðumst við víða. Höfðum gaman af að fara í sumarbústaði og skoða hverja þúfu alls staðar á landinu. Stundum áttum við til á ferðum okkar að panta hótelherbergi með örskömmum fyrirvara og bara njóta umhverfis og kyrrðar í fallegri íslenskri sveit.
Hestarnir voru sameiginlegt áhugamál okkar þótt Árni færi aldrei á bak sjálfur. Hann lét sér duga að moka skítinn, gefa þeim að éta og spilla þeim á alla lund með því að gauka að þeim eplum, flatkökum og öðru góðgæti. Þeir elskuðu hann að sjálfsögðu.
Við fórum saman í veiðiferðirnar, sérstaklega fyrstu árin okkar. Mínum ferðum fækkaði eftir að við eignuðumst dæturnar en ég hélt þó þeirri venju að fara með honum eitt til tvö skipti á sumri. Við fengum barnapíu til að gista og svo var farið á fætur kl. 5 að morgni og haldið af stað. Spenningurinn var svo mikill í huga Árna að hann gat aldrei sofið nóttina fyrir veiðiferðir. Þetta voru bestu stundirnar okkar. Að vera bara tvö úti í náttúrunni á fallegum sumarmorgni var það besta í tilverunni.
Hugur okkar var einn. Hvað eftir annað kom það fyrir að annað okkar hugsaði eitthvað og hitt sagði það upphátt. Við vorum kannski á göngu, á ferð í bílnum eða bara að vera sófa8klessur fyrir framan sjónvarpið. Alltaf gat komið upp svona tilfelli, annað okkar hugsaði eitthvað, hitt sagði það. Okkur fannst þetta alltaf jafn furðulegt og hlógum oft að þessu.
Í dag fylgi ég mínum manni síðustu sporin. Eftir það geng ég ein og það fyllir mig ugg en sem betur fer hef ég börnin okkar, barnabörnin og aðra ættingja til að deila sorginni með og styðjast við. Sorgin er vissulega þung en við deilum henni öll saman. Vonandi verður þá lífið okkur öllum léttbærara, eða eins og Sigurbjörn Þorkelsson segir í góðri grein: Það er svo sárt að sakna en það er gott að gráta. Tárin eru dýrmætar daggir, perlur úr lind minninganna.

Andrea.