Elís Jónsson fæddist í Klettstíu í Norðurárdal í Borgarfirði 3.apríl 1931. Hann lést í Reykjavík þann 11. júlí 2022.

Foreldrar Elísar voru hjónin Jón Jóhannesson og Sæunn Elísabet Klemenzdóttir.

Elís var yngstur fjögurra bræðra en þeir voru Karl Magnús, Klemenz og Jóhannes, þeir eru allir látnir.

Elís kvæntist Brynhildi Benediktsdóttur Líndal f. 30.06.1934 d. 11.01.2022. Börn þeirra eru:

1. Benedikt Ingi f. 27.03.1957. Eiginkona Edda Jóhannsdóttir. Synir þeirra eru Elís Ingi og Birkir Páll.

2. Guðrún Alda f. 11.02.1971. Synir hennar eru Benedikt Líndal og Freyr Líndal.

Elís gekk í barnaskólann við Dalsmynni í Norðurárdal frá 7 til 14 ára aldurs. Veturinn 1945-1946 sat hann heimakennslu hjá prestunum í Fellsmúla í Landsveit en þar starfaði föðurbróðir hans Guðlaugur sem kennari. Þá stundaði hann nám við Gagnfræðaskóla Vesturbæjar, Gaggó Vest, veturna 1946-1949 og lauk þaðan landsprófi. Elís lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1953 og stundaði nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands 1954 til 1958.

Elís var dyggur starfsmaður Vegagerðar ríkisins í 51 ár en hann hóf fyrst störf sem sumarstarfsmaður sumarið 1950. Hann kom víða við í störfum sínum fyrir Vegagerðina m.a. á Fáskrúðsfirði, Ströndum, í Húnavatnssýslum og síðast en ekki síst í Mýra- og Borgarfjarðarsýslum, en árið 1959 tók hann við starfi umdæmisverkstjóra Vegagerðarinnar í Borgarnesi. Því starfi gegndi hann til ársins 1995 þegar hann færði sig um set til Vegagerðarinnar í Reykjanesumdæmi. Þar starfaði Elís til 70 ára aldurs eða til ársins 2001. Elís tók virkan þátt í félagsstörfum og starfaði innan Lions hreyfingarinnar og frímúrarareglunnar Akurs. Hann sinnti embætti sýslunefndarformanns fyrir Mýrasýslu í nokkur kjörtímabil, sat í stjórn Skallagríms / Akraborgar og í stjórn Sparisjóðs Mýrasýslu.

Elís og Brynhildur hófu búskap í Reykjavík árið 1955 en byggðu sér síðan hús að Kjartansgötu 20 í Borgarnesi og fluttu þangað árið 1964. Þar bjuggu þau allt til ársins 1995 þegar þau fluttu í Bröttuhlíð 6 í Mosfellsbæ. Elís naut sín við stangveiði og hestamennsku en þau Brynhildur héldu hesta allan sinn búskap og ferðuðust víða um landið tengt því. Þá ferðuðust þau mikið erlendis og var Elís víðlesinn og fróður um menn og málefni hvort sem kom að ættfræði, staðháttum, landafræði, stjórnmálum eða heimssögunni, aldrei var komið að tómum kofanum.

Útför Elísar fer fram frá Lágafellskirkju í Mosfellsbæ í dag kl. 13.

Elsku pabbi minn, leiðir okkar lágu fyrst saman 27.03.1957 á fæðingardeild LSH í Reykjavík. Það voru fagnaðarfundir okkar á milli þó svo að ég muni ekki eftir þínu fallega brosi og hlýju er þú faðmaðir mig í fyrsta sinn. Mín fyrsta ökuferð var frá LSH á Ásvallagötuna í Chevrolet 1955 grænn að lit með beige lituðum toppi (R 5252), þín fyrsta bifreið af mörgum, rómaður bílaáhugamaður gegnum árin. Í framhaldi festuð þið mamma kaup á blokkaríbúð að Kleppsvegi 8, þar sem ég ólst upp fyrstu árin. Þú hafðir þá þegar hafið störf hjá Vegagerðinni og varst iðulega fjarverandi, sérstaklega eftir að þú tókst við stöðu umdæmisverkstjóra Vegagerðarinnar á Vesturlandi árið 1959 með aðsetur í Borgarnesi, nærri þínum æskuslóðum. Þar dvaldir þú í útlegð á meðan bygging heimilis okkar að Kjartansgötu 20 í Borgarnesi stóð yfir þar til 1964. Á þeim tíma má geta þess að um 4 klst tók að aka á milli Borgarness og Reykjavíkur, en auðvitað léstu þig hafa það. Árin með ykkur mömmu í Borgarnesi voru eftirminnileg, að alast upp í þorpi þar sem fátt var um reglur, boð og bönn, þar sem börn voru frjálsari en á mölinni. Mamma var aðallega heimavinnandi að vetri til en vann með þér sem ráðskona í vegavinnu á sumrin. Það má í raun segja að ég hafi verið alinn upp sem hálfgerður sígauni, í tjöldum, skúrum og í aftursæti bílsins á ferðalögum þínum um umdæmið. Í nokkur ár hófst sumarúthaldið við vegaúrbætur á fögrum stað við Vesturárgil í V-Húnavatnssýslu, fluttum svo yfir til Brúar í Hrútafirði, þar sem vegavinnuskúrar voru settir upp við hlið símstöðvarinnar. Enduðum svo úthaldið að hausti við Fornahvamm í Norðurárdal. Þetta voru eftirminnileg ár þar sem unnið var við þröngan kost, svo sem án rafmagns og nútíma þæginda, aðstaðan var afar frumstæð. Þú og mamma kláruðuð verkefnin með myndarskap, tími sem ég man vel eftir og mun aldrei gleyma. Traustið og umhyggjan sem þú sýndir mér á unglingsárum var þakkarverð. Sjaldan skiptir þú skapi, ef það gerðist þá varði það ekki lengi. Þú hafðir sterkar skoðanir en varst lausnamiðaður. Þú treystir mér og aðstoðaðir í hvívetna, óskastaða ungs manns. Ungur drengur, nefni ekki aldur, fór ég flesta daga að vetri til í vinnuna til þín í lok dags, hitaði bílinn fyrir þig í lokuðu porti Vegagerðarinnar áður en haldið var heim í kvöldmat. Ók hring eftir hring í gegnum skafla þegar snjóalög voru, ekki var áhyggjum fyrir að fara af þinni hálfu. Að sumri til ferðaðist ég með þér um uppsveitir Mýra- og Borgafjarðarsýslu svo dögum skipti með viðkomu á flestum ef ekki öllum bæjum sýslunnar. Á þeim tíma voru ekki farsímar, en þú varst ávallt með Gufunes talstöð í bílnum, nokkur samtölin áttum við gegnum þann miðil við mömmu með milligöngu Gufunesradíós.

Pabbi var snyrtimenni, allt var í röð og reglu, heima og heiman. Skrifstofa hans var einkar vel skipulögð, svo eftir var tekið. Þú hélst dagbækur og skráðir viðburði dagsins frá degi til dags. Mikinn fróðleik er að finna í bókum þínum til áratuga. Sem dæmi þá skráðir þú veðurfar, verkefnin og hverja þú hittir. Pabbi tók einnig mikið af myndum (slide), á stundum kvörtuðu ættmenni yfir öllum þessum myndatökum, Elli minn hættu nú. Ekki sjá þeir eftir því í dag. Eftir liggja þúsundir mynda sem ellegar væru ekki til staðar frá árum áður.

Í innganginum hér að framan er minnst á æskuár og uppvöxt í Norðurárdalnum sem var frumstæður. Þú sagðir mér frá eftirminnilegu atviki þegar þú varst u.þ.b. 12 ára gamall að leiða hesta með hey af engjum á klyfberum. Kemur þá ekki aðvífandi bílalest amerískra hermanna á leið norður. Þeir stoppuðu og beindu að þér rifflum ungum drengum, þú auðvitað lafhræddur fórst hlémegin við hestana til að verja þig. Stuttu síðar hlógu hermennirnir og hentu til þín amerískum tyggjópökkum og óku á brott. Atburður þessi leið þér aldrei úr minni.

Hjá Vegagerðinni fór pabbi með mannaforráð og eignaðist marga trausta vini. Vinskapur sem hélst svo árum skipti. Verkefnin voru ærin, nýbyggingar og viðhald vegakerfisins á Vesturlandi frá botni Hvalfjarðar að Hítará og síðan allt norður að Gljúfurá í Húnavatnssýslu, að ógleymdri Strandasýslu.

Helstu áhugamál pabba voru hestamennska, laxveiði og rjúpnaveiði á haustin. Hestarnir tóku drjúgan tíma árið um kring, það voru ekki ófáar ferðirnar sem þið mamma fóru í Dalina, yfir hálendið, á Þingvelli og á fleiri staði, auk styttri ferða. Að gefa og sinna hrossunum að vetri til, þar tók maður til hendinni eins og kostur var með þér og hafði gaman af.

Pabbi var gestrisinn, það var gestkvæmt á heimilinu. Frændfólk okkar voru tíðir gestir, systkinabörn mömmu dvöldu löngum stundum hjá okkur á sumrin sem jók á ánægju, skemmtun og prakkaraskap. Síðan kom systir mín í heiminn 1971, Guðrún Alda, 14 árum yngri en ég, sem lífgaði sannarlega uppá heimilislífið, prakkari og uppátækjasöm.

Pabbi og mamma tóku kærustu minni Eddu fagnandi 1979. Okkur fæddist sonur 02.01.81, skírður í höfuð afa síns á fimmtugsafmæli hans. Elís Ingi ungur að árum dvaldi löngum stundum hjá afa og ömmu í Borgarnesi, naut sérstaklega hestamennskunnar með þeim og ferðalögum með afa sínum um sveitir Borgarfjarðar. Yngri sonur okkar Birkir Páll f. 03.01.90, naut einnig góðra stunda með þeim, en í mun minna mæli þar sem við fluttum erlendis þegar hann var ungur að árum. Við fjölskyldan fórum ófáar helgarferðirnar í Borgarnes þar sem margt var brallað og höfðum mikla skemmtun af.

Eftir flutning pabba og mömmu í Mosó árið 1995 starfað pabbi áfram hjá Vegagerðinni í Grafarvogi til starfsloka. Pabbi naut lífsins heima við þar til fyrir u.þ.b. tveimur árum síðan er hann flutti á hjúkrunarheimilið Hrafnistu við Sléttuveg. Þrátt fyrir að vera við sæmilega heilsu, með gott minni og söguna á hreinu þá varð hann því miður fyrir því óláni að greinast með Covid sjúkdóminn, sem tók hann frá okkur á örskömmum tíma. Við þráðum að hafa hann lengur á meðal okkar en megum á sama tíma ekki vera eigingjörn, hann lifði góðu og litríku lífi í rúmlega 91 ár sem ekki öllum hlotnast og er þakkarvert.

Elsku pabbi, tengdapabbi og afi, við þökkum þér samfylgdina og hlýju í gegnum árin, hvíl í friði og vonum innilega að þið mamma hafið náð að sameinast á nýjum slóðum þar sem sólin skín árið um kring.

Þinn elskandi sonur og fjölskylda,

Benedikt Ingi.

Benedikt Ingi Elísson

Það haustaði snemma þetta sumarið þegar elsku pabbi kvaddi okkur, nákvæmlega hálfu ári eftir að mamma lést, enda var hann einstaklega nákvæmur maður.

Allt frá fyrstu tíð vorum við pabbi mjög náin enda var hann sérstaklega ástríkur og umhyggjusamur faðir og afi, sem hefur svo sannarlega verið mín mesta gæfa og sona minna. Hann var að mörgu leyti á undan sinni samtíð þegar kom að barnauppeldi, umönnun og heimilishaldi en þar tók hann þátt til jafns við mömmu. Mildi, virðing, stuðningur og þolinmæði var leiðarstef hans í uppeldi og samskiptum alla jafna enda taldi hann það skila meiru en harka og óbilgirni. Ég er eftirbátur hans í flestu tilliti en mun reyna að tileinka mér þessa góðu kosti eftir bestu getu.

Minningarnar hafa streymt fram síðustu daga. Ég sem lítil stelpa sitjandi á hnakkkúlunni fyrir framan pabba í útreiðartúrum og fann hvernig hlýtt fangið hans umvafði mig öryggi. Seinna kenndi hann mér að sitja hest og fylgdi mér í reiðskólann í Faxaborg. Hann hafði einstakt lag á að vekja mig blíðlega á morgnanna og dekraði við stelpuna sína á alla mögulega vegu. Þá fór ég með honum í ófáa vinnubíltúrana um uppsveitir Borgarfjarðar, á Mýrarnar og jafnvel niður í Hrútafjörð þar sem hann átti fundi með bændum og vegavinnumönnum, settumst inn í kaffi þar sem mynduð voru ævarandi tengsl. Klukkutímum saman sat ég í aftursætinu hjá honum og hann fræddi mig um helstu örnefnin, hvað bæirnir hétu og hver byggi hvar, svo sungum við hástöfum saman við lagið í útvarpinu, bæði afspyrnu laglaus. Að loknum löngum vinnudegi fengum við okkur svo heitt kakó og franskbrauð fyrir svefninn og höfum við borið þess merki síðan.

Pabbi var einstakt snyrtimenni og afar skipulagður. Allt frá unglingsárum og þar til að sjónin sveik hélt hann dagbók. Þar var ekki verið að flíka tilfinningum og skoðunum heldur voru helstu staðreyndir dagsins færðar til bókar. Hver dagbókarfærsla hófst með stuttri veðurlýsingu og í kjölfarið upplýsingar um hverja hann hitti, talaði við í síma, hvert hann fór og hvað var keypt. Hann var fróður, víðlesinn og stálminnugur til síðasta dags, þuldi upp ættir og tengsl fólks, hvaðan það kom og helstu staðhætti auk þess sem hann var vel að sér um sagnfræði, landafræði og stjórnmál. Þá var hann natinn við að huga að umhverfi sínu hvort sem það var húsið, innan heimilis, garðurinn eða bíllinn, öllu vel við haldið og snyrtilegt. Ilmurinn af nýslegnu grasinu á fallegum sumardegi tekur mig aftur til æskuáranna í Borgarnesi.

Pabbi var vinamargur og var umhugað að rækta sambönd við vini og fjölskyldu en þess má geta að enn fylgjast þeir að skólabræðurnir sem útskrifuðust saman úr MR árið 1953. Ómetanleg vinátta sem skipti hann miklu máli. Pabbi og mamma voru dugleg að ferðast saman tvö sem og í góðra vina hópi og veittu ferðalögin bæði innanlands og utan honum mikla lífsfyllingu. Ég minnist sérstaklega ferðarinnar okkar til Rómar árið 1980 þegar við pabbi gengum saman upp í turn Péturskirkjunnar. Síðar áttum við margar góðar stundir á ferðalögum þar sem allt var vel skipulagt og undirbúið.

Elsku hjartans pabbi minn, takk fyrir allt sem þú hefur verið mér og stráknum mínum. Takk fyrir að kenna mér að sitja hest, rækta fólkið mitt og vináttuna, slá blettinn og rækta kartöflur, brýna fyrir mér að fara vel með íslenskt mál, vekja mig varlega á morgnanna og bjóða mér fallega góða nótt. Takk fyrir að ganga Benedikt mínum í föðurstað á krefjandi tímum og vera Frey svo hlýr og góður afi. Þú kenndir okkur svo margt með þinni styrku hönd og stóra hjarta, það er veglegt nesti inn í lífið. Allt verður nú svo tómt og þín svo sárt saknað, farðu í friði elsku besti minn.

Nú kveðja þig vinir með klökkva og þrá
því komin er skilnaðarstundin.
Hve indælt það verður þig aftur að sjá
í alsælu og fögnuði himnum á,
er sofnum vér síðasta blundinn.
(Hugrún)


Þín dóttir


Alda.