Ásdís Aðalsteinsdóttir fæddist 2. október 1932. Hún lést 12. júní 2022 á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi. Hún fæddist og ólst upp að Lyngbrekku Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu. Foreldrar hennar voru Hermína Jónsdóttir frá Höskuldsstöðum f. 1897 og Aðalsteinn Kjartansson frá Daðastöðum f. 1896. Ásdís var önnur í röð þriggja systkina, Jóns, f. 1930, og Þóreyjar, f. 1939, d. 2018. Eiginmaður hennar var Ólafur Sveinsson, f. 1930, d. 2007, húsasmíðameistari frá Barðsnesi við Norðfjörð. Þau bjuggu í Reykjavík. Börn þeirra eru Sigríður Melrós, f. 1965, Hermína Dóra, f. 1967, Aðalsteinn, f. 1970. Ömmubörnin eru átta talsins.
Jarðarför Ásdísar fór fram í kyrrþey þann 27. júní 2022 frá Fossvogskapellu. Þann 6. ágúst verða jarðneskar leifar hennar í duftkeri lagðar í gröf við Einarstaðakirkju í Reykjadal og af því tilefni haldin minningarathöfn.

Mamma ólst upp við hefðbundin sveitastörf í gamalgrónu Þingeysku bændasamfélagi. Faðir hennar lést er hún var sjö ára. Hermína amma ákvað að halda barnahópnum saman og búa áfram einstæð móðir á Lyngbrekku. Það þótti ekki sjálfsagt á þeim tíma en hún hlaut stuðning frá fjölskyldunni og systir hennar Dóra og eiginmaður fluttu til þeirra tímabundið og bjuggu félagsbúi. Krakkarnir voru hændir að Dóru sem var barnlaus, hún var fjörkálfur sem glæddi lífið lit. Hlýjar æskuminningar tengdust berjaferðum með Dóru. Enda reistu mamma og pabbi sumarhús áratugum síðar við berjabrekkurnar.

Mamma þráði að mennta sig og verða lestrarkennari barna sem áttu við lestrarörðuleika að stríða. Úr því varð þó ekki af ýmsum ástæðum. Hún fór hefðbundinn menntaveg kvenna þess tíma sem var húsmæðraskóli. Hún eignaðist góðar vinkonur sem héldu saman til Reykjavíkur og unnu ýmis störf. Ávallt var farið heim í sveitina yfir sumartímann til að rétta hjálparhönd í sauðburði og heyskap. Í Reykjavík kynntist hún pabba á gömlu dönsunum en þeim fannst báðum gaman að dansa. Þau giftu sig 1965 og svo komum við systkinin þrjú. Búskap sinn hófu þau í lítilli risíbúð í Kaplaskjóli sem pabbi gerði upp og lagfærði. Síðar var stækkað við sig og flutt i nýsmíðaða blokk í Fossvogi. Alltaf var verið að byggja einhvers staðar en svo fór að þau keyptu 1977 eldra hús í Smáíbúðahverfi þar sem þau bjuggu síðan. Byggður var sumarbústaður 1974 á æskustöðvunum og nefndur Brekkubær. Þangað var farið hvert sumar.
Þegar barnahópurinn var kominn á legg var tekið til við að ferðast. Ferðafélagarnir voru gjarnan systkini mömmu og makar. Mamma var mikil fjölskyldukona og lagði mikla rækt bæði við fjölskyldu pabba og sína norðlensku fjölskyldu en sérstaklega sterk bönd voru þó á milli þeirra systra, Þóreyjar og hennar. Voru þær nánar vinkonur til fráfalls Þóreyjar. Þær ferðuðust saman, töluðu saman daglega og hittust sem kostur var en bjuggu á sitthvoru landshorninu.

Heimilið í Reykjavík, Skógargerði 7 stóð ævinlega opið stórfjölskyldunni og vinum. Alltaf gistipláss og kaffisopi til reiðu. Pabbi lést 2007 eftir langvinn veikindi og hafði mamma sinnt honum vel og lengi. Hún var ævinlega heilsuhraust og naut þess að hreyfa sig. Eftir andlát Ólafs hellti hún sé í líkamsrækt 75 ára gömul og naut þess um tíma og mátti gjarnan sjá hana á hlaupabretti í Laugum.

Æ best að sleppa því í dag sem hægt er að gera á morgun sagði hún stundum en kom samt öllu í verk sem þurfti og það var ekki lítið. Heimilið alltaf fallegt og snyrtilegt. Matur í hvert mál. Iðjusöm og ótrúlega drjúg á rólegan máta. Alltaf í húsverkunum þó henni leiddust þau. Prjónaskapur var hennar ástríða og skapandi útrás. Peysurnar eru óteljandi sem eftir hana liggja víða um heim, enda eftirsóttar. Hún var náttúrufræðingur og náttúruverndunarsinni. Hún var fljót að koma auga á spaugilegar hliðar lífsins og hafði lúmskan og oft á tíðum svartan húmor. Hún var óhagganleg ef eitthvað var hennar hjartans mál, fór sínar eigin leiðir svo lengi sem það gerði ekki á hlut annarra.

Mamma var góð móðir og yndisleg amma. Hún lagði okkur lífsreglurnar á hófstilltan máta, enda var hún hógvær að eðlisfari og vildi aldrei trana sér fram. Já svo einstaklega æðrulaus og þegar erfiðleikar steðjuðu að sagði hún ævinlega að þetta væri nú skrifað í lífsbókina. Af móður minni lærði ég margt, t.d. að vera heppin í lífinu en hún talaði um það sem val. Einnig að njóta eigin félagsskapar og þá speki að sálin ferðast hægt.

Nú er mamma loksins komin norður í sveitina sína sem hún þráði svo heitt. Hún var búin að sitja lengi við hótelgluggann og bíða, óáreitt og spök eins og segir í kvæðinu Hótel Jörð eftir Tómas Guðmundsson og vitnaði hún oft í kvæðið. Við sem enn dveljum á Hótel Jörð samgleðjumst innilega og þökkum samfylgdina sem var nærandi og góð.


Sigríður Melrós Ólafsdóttir.