Sumarliði Sigurður Gunnarsson fæddist á Borgarfelli í Skaftártungu V-Skaftafellssýslu 11. ágúst 1927. Hann lést 8. júlí 2022.
Foreldrar hans voru Gunnar Sæmundsson, f. 23. sept. 1886, d. 4. sept. 1971, og Kristín Sigurðardóttir, f. 8. júlí 1892, d. 24. apríl 1967.
Systkini hans eru Jón, f. 1922, d. 2012, Oddný Sigurrós, f. 1924, d. 2019, Kristmundur, f. 1925, d. 1991, og Jón Elimar, f. 1930.
Sumarliði giftist Grímu Thoroddsen í mars 1959. Foreldrar hennar voru Ingibjörg Tómasdóttir, f. 1905, d. 1962, og Bolli Thoroddsen, f. 1901, d. 1974. Börn Sumarliða og Grímu eru: 1) Gunnar Þorsteinn, f. 13. des. 1958, giftur Birnu Þórðardóttur. 2) Ingibjörg, f. 15. jan. 1961, gift Jarle Larsen. 3) Kristín, f. 29. júní 1963, sambýlismaður hennar er Edward Roy Arris. 4) Ragnhildur, f. 16. des. 1965, sambýlismaður hennar er Magnús Geirsson. 5) Ásthildur, f. 1965.
Fyrir átti Gríma þrjá drengi: 1) Kristján Valdimarsson, f. 16. júní 1947, d. 21. júlí 2006. 2) Bolli Th. Valdimarsson, f. 10. sept. 1950, giftur Helgu Herborgu Guðjónsdóttur. 3) Þorvaldur Emil Valdimarsson, f. 6. okt. 1954, d. 22. jan. 1986.
Útförin fer fram frá Keflavíkurkirkju 11. ágúst 2022.
Meira á www.mbl.is/andlat
Síðustu árin dvaldi hann á Hlévangi í Reykjanesbæ við góða umönnun. Þú kvaddir 8. júlí sl. á afmælisdegi móður þinnar, alveg þinn stíll, fórst beint í fögnuðinn í Sumarlandið góða. Minning þín lifir áfram í hjörtum okkar elsku pabbi. Við látum hér ljóð fylgja eftir Káinn sem þú hafðir miklar mætur á.
Minning þín er mér ei gleymd;
mína sál þú gladdir;
innst í hjarta hún er geymd,
þú heilsaðir mér og kvaddir.
Gunnar, Ingibjörg, Kristín, Ragnhildur og Ásthildur.
Ég mun ávallt hugsa með hlýhug til afa Summa. Hann var skemmtilegur og
glaðlyndur karl sem virtist taka raunum lífsins með jákvæðni og léttúð.
Líklega sá afi Summi glasið alltaf hálffullt og fann sig því knúinn til að
súpa hressilega á því þegar færi gafst. Afi var skemmtileg týpa sem rataði
inn í þekkt dægurlög, þar sem hann var meðal annars sagður geta allt og
vita allt miklu betur en fúll á móti og hafa að auki taugakerfi úr
grjóti.
Margar af mínum hlýlegustu æskuminningum eru tengdar ömmu Grímu og afa
Summa á Vallargötunni. Heimilið var eins og umferðarmiðstöð fjölskyldunnar
og annarra vina. Þangað var vinsælt að detta í kaffi og spjalla enda var
alltaf stutt í gleðina og Vallargötuhúmorinn svokallaða. Ég var mikið hjá
afa og ömmu sem barn og ég leitaði ætíð mikið á heimilið. Þar gat ég setið
á kjaftatörn tímunum saman. Rútínan var oftast þannig að fyrstu 10
mínúturnar spjölluðum við amma og afi saman í eldhúsinu en svo sagði amma
iðulega: Jæja Summi minn farðu nú inn í stofu og leyfðu okkur Arnari
aðeins að tala saman. Og án þess að blikka tók afi blaðið, jammandi og
jæjandi, og settist einn inn í stofu. Þegar við amma vorum búin að ræða
allt sem ræða þurfti brá ég mér yfir í stofuna til afa, sem lagði þá frá
sér blaðið og kveikti sér í einni Camel filterslausri. Afi var enginn
stórreykingamaður, heldur fékk sér eina og eina. Hann naut þeirra vel og
reykti alveg ofan í kjúku, alveg eins og hver sígaretta væri sú síðasta.
Hann sagði mér oft sögur úr sveitinni sinni á Borgarfelli í Skaftártungu,
og ýmsar ævintýralegar sjóara- og ferðasögur. Það var eitt í frásagnarstíl
hans sem mér þótti afar vænt um. Þegar afi sagði fyndnar sögur, þá fannst
honum sjálfum sögurnar svo fyndnar að hann sprakk úr hlátri rétt áður en
hápunktinum í frásögninni var náð og þannig hvarf oft fyndasta línan í
smitandi hláturskófinu og enginn skildi hvað afi var að segja. Ég man
sérstaklega hvað afi fór á flug þegar ég ræddi við hann um pólitík og þá
fékk maður að heyra sögur af honum að koma hinum og þessum framsóknarmönnum
í sveitinni inn á þing með einhverjum klækjabrögðum.
Afi Summi var kominn af kvæðaunnendum og söngelsku fólki og til eru
upptökur, bæði af honum og svo föður hans, kvæðamanninum Gunnari
Sæmundssyni, bónda á Borgarfelli. Þar syngja þeir kvæði og segja sögur úr
sveitinni. Upptökurnar eru ómetanlegar og munu halda minningu þeirra á
lofti um ókomna tíð. Afa þótti afar vænt um þegar ég, um tvítugt, fór að
sýna kveðskapnum áhuga. Ég á góða minningu af því þegar við pabbi fórum með
afa á hagyrðingakvöld á Ljósanótt í Keflavík og sá gamli ljómaði af
hamingju. Mér þótti alltaf mikið til koma að heyra hann þylja upp fjöldann
allan af vísum og ég veit fyrir víst að eitthvað hefur hann samið sjálfur.
Því miður hefur lítið sem ekkert af hans eigin kveðskap varðveist en þó
fékk ég leyfi frá honum til að skrifa upp eina vísu sem átti sér
skemmtilegan aðdraganda. Afi vann lengst af sem bifvélavirki á
Keflavíkurflugvelli. Þar vann hann með manni sem hét Lárus og mig minnir að
hann hafi verið yfirmaður á verkstæðinu. Voru þeir hinir mestu mátar og
sendu oft sín á milli gamanvísur eða línur til að botna. Einn
mánudagsmorgun hringdi afi sig inn veikan og þegar hann kom aftur til vinnu
daginn eftir beið hans umslag. Í því var vísa sem var á þá leið að ónefndur
samstarfsfélagi hefði hvíslað því að Lárusi að Summi hefði alls ekkert
verið veikur heldur legið heima þunnur eftir myndarlega helgardrykkju. Afi,
sem var þá að eigin sögn í sínu besta kveðskaparformi, gekk rakleiðis að
næsta síma og án umhugsunar hringdi hann á skrifstofu Lárusar og fór með
þessa vísu:
Lárus minn ég þakka þér
þína ljóðasnilli.
Einhver held ég aumur hér
um þér fyrir villi.
Veikindi mín voru skýr
veikur hausinn maginn.
Hjartslátturinn heldur rýr
og hrjáður aftandraginn.
Skrifaðu þetta skýrt og rétt
í skýrzlu vinur þína.
Svo klögumálin komi nett
kveðju færðu mína.
Það liggur á milli hluta hvernig veikindum afa var háttað þennan umrædda
mánudagsmorgun en eitt er víst að afi bjó þarna til nýyrðið aftandraginn,
sem var að hans sögn bak en getur líka átt við um afturenda. Afa Summa
hefur ef til vill ekki þótt mikið til um þennan kveðskap og aldrei hefði
hann grunað að vísan ætti eftir að varðveitast í hans eigin minningargrein.
En mér þykir vænt um þessa vísu og minninguna henni tengdri, og þar fyrir
utan er yrkisefnið svo innilega í anda afa Summa, að ég gat hreinlega ekki
setið á mér.
Hvíldu í friði elsku besti afi Summi og knúsaðu ömmu Grímu frá mér.
Arnar Fells Gunnarsson, barnabarn.
Arnar Fells Gunnarsson