Ásta Sigurrós Sigmundsdóttir fæddist á Ísafirði 22. ágúst 1917. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 18. júlí 2022.
Hún var dóttir hjónanna Júlíönu Óladóttur húsmóður og verkakonu, f. 1879, d. 1951, og Sigmundar Brandssonar járnsmiðs, f. 1870, d. 1919. Systkini Ástu voru: Anna Kristín Björnsdóttir, f. 1908, d. 1993, Þorbjörg, f. 1913, d. 1913, Óli Jóhannes, f. 1916, d. 2000, og Daníel G.E., f. 1916, d. 2002.
Ásta giftist 25. mars 1947 Gunnari Þorsteini Þorsteinssyni frá Litluhlíð á Barðaströnd. Foreldrar Gunnars voru hjónin Guðrún Finnbogadóttir ljósmóðir, f. 1893, d. 1978, og Þorsteinn Ólafsson bóndi í Litluhlíð, f. 1890, d. 1989. Gunnar var þriðji elstur af ellefu börnum þeirra hjóna sem upp komust.
Börn Ástu og Gunnars eru: 1) Júlíana Signý, f. 1947, maður hennar er Örn Jónsson, börn þeirra eru Margrét, Jón Ragnar og Gunnar Örn. 2) Óðinn Gunnsteinn, f. 1948, kvæntist Áslaugu Kristjánsdóttur, dóttir þeirra er Hera Kristín. Þau skildu. Kona Óðins er Auður Hallgrímsdóttir, þau eiga börnin Daníel Óla, Hallgerði Kötu og Davíð Þór. 3) Anna Margrét, f. 1950, maður hennar er Guðmundur Jóelsson og eiga þau dæturnar Gunnhildi Ástu, Erlu Dögg og Aldísi. Fyrir átti Gunnar dótturina Sigrúnu Björk, f. 1944, d. 2019, með Önnu Einarsdóttur, f. 1927, d. 2003. Sonur Sigrúnar og Eiríks Hjartarsonar er Hjörtur. Sigrún Björk giftist Þorsteini Pálssyni, f. 1943, d. 1975. Börn þeirra eru Anna Silfa og Gunnar Reynir. Maður Sigrúnar er Ásgeir Indriðason og dóttir þeirra er Svava Björk. Afkomendur Ástu og Gunnars eru 54 en alls telur fjölskyldan um 80 manns.
Ásta ólst upp á Ísafirði hjá einstæðri móður og systkinum. Hún fór kornung í sveit norður í Grunnavík til prestshjónanna þar, séra Jónmundar Halldórssonar og Guðrúnar Jónsdóttur. Síðar var hún einnig í sveit hjá skyldfólki í Mýrartungu í Reykhólasveit. Hún stundaði skíði og gönguferðir og tók þátt í unglingastarfi í bænum. Hún lauk gagnfræðaprófi og fór í Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði. Hún fluttist ung til Reykjavíkur og vann fyrst á Vöggustofunni Suðurborg en hóf síðan störf hjá Ellingsen. Það starf markaði upphafið að verslunarstörfum sem hún sinnti út starfsævina. Hún var sjálf lengi kaupmaður í Kópavogi og rak, ásamt manni sínum, verslunina Kópavog um árabil. Ásta og Gunnar settust að í Kópavogi 1954 og bjuggu þar alla tíð. Hún var virkur félagi í Lionsklúbbnum Ýri og lagði á þeim vettvangi ýmsum framfaramálum í Kópavogi lið.
Útför Ástu verður gerð frá Kópavogskirkju í dag, 22. ágúst 2022, og hefst athöfnin klukkan 13.

Það er mér og konu minni, Önnu Silfu Þorsteinsdóttur, ljúft að minnast hér og nú ákaflega fallegrar manneskju sem nýverið kvaddi okkar jarðneska heim, konu sem á útfarardegi sínum hefði fagnað 105 ára aldursafmæli.

Ásta Sigurrós Sigmundsdóttir, eða Ásta amma eins og ég ævinlega heyrði hana nefnda, bæði af minni konu og dætrum sem og öðrum þeim sem hana nefndu, var Ísfirðingur og vestfirsk að upplagi og þótti upplag sitt vera slíkt að það væru gæfumenn og -konur sem slíks nytu. Ásta ólst upp án Sigmunds föður síns sem varð bráðkvaddur þegar hún var lítil telpa en á þessum erfiðu árum bauðst henni sumardvöl hjá prestshjónunum í Grunnavík sem urðu nokkur skipti og ekki ósennilegt að þar hafi Ásta fundið það akkeri sem Kristur er í lífi þeirra sem á hann trúa enda var henni ljúft að lesa jólaguðspjallið árlega á fundum í sínum Lionsklúbbi enda boðskapur þess og fögnuður henni hugleikinn.

Leið Ástu lá suður skömmu eftir seinna stríð þegar Reykjavík var í miklum vexti og hafði þá lokið námi við Húsmæðraskólann á Ísafirði auk þess sem hún hafði kynnst verslunarstörfum í mjólkurbúðinni fyrir vestan enda varð það hlutskipti hennar síðar meir að reka eigin verslun í Kópavogi sem stolt bar sama nafn og bæjarfélagið þar sem hún bjó lengst af. Ásta hafði fyrir suðurferðina kynnst Gunnari Þorsteini Þorsteinssyni járn- og rennismið á dansleik fyrir vestan sem einnig fluttist suður á mölina til starfa og bundu þau sitt ástarband árið 1947 og þar var upphafið að farsælu og löngu ástarævintýri sem aldrei bar skugga á og gaf ríkulega af sér fríðan barnahóp, þau Júlíönu Signýju, Óðin Gunnstein og Önnu Margréti, en fyrir átti Gunnar dótturina Sigrúnu Björk. Og kærleikurinn sem bjó innra með Ástu mótaði börnin og eru þau lifandi boðberi hans í sínu eigin lífi í samskiptum við sitt samferðarfólk.

Ásta var glaðlynd og gerði sér far um að vera jákvæð í samskiptum við allt sitt fólk. Þá var hún ákveðin í því að tryggja að börnin og síðar meir barnabörnin og þeirra börn myndu njóta þess sem fylgdi jólahátíðinni og var ævinlega fyrst til þess að draga jólatréð fram á gólf og sjá til þess að öll dönsuðu blessuð börnin í kringum það syngjandi háum rómi Göngum við í kringum einiberjarunn og Adam átti syni sjö, sjö syni átti Adam. Minningar líkt og þessi eru ófáar hjá þeim börnum sem ólust upp við herlegheitin og minna á það hlýja hjartalag sem þau upplifuðu öll, hvert og eitt, hjá henni Ástu ömmu sinni.

Ég sjálfur kynntist henni Ástu eilítið, of lítið í raun, en minnist þess þó hversu brosmild hún var þegar spjallað var og hversu auðvelt henni reyndist að sjá betri hliðina á flestu og flestum þótt hún væri ákveðin samt þegar að því kom að gera greinarmun á réttu og röngu. Mitt fyrsta spjall við hana var við eldhúsborðið á Kársnesbrautinni og þar fékk ég að njóta gestrisni hennar og kærleika en hún var ófeimin við slíkt þegar kom að hennar niðjum og þeirra ástvinum. Var kaffibollinn ljúffengari fyrir vikið enda væntumþykjan vel til þess fallin að gera ljúft og gott betra og eftirminnilegra.

Á aldarafmæli hennar auðnaðist mér að fá að ávarpa hana og árna henni heilla ásamt því að færa henni ljóðstúf sem fangaði hugleiðingar og tilfinningar hennar Önnu Silfu minnar til ömmu sinnar sem hafði í gegnum lífið gefið henni svo mikið líkt og hinir bestu vinir gera hver til annars. Er vinarmissirinn mikill en eftir stendur ylurinn af vináttunni sem áfram hlýjar og huggar.

Nú þegar Ásta hefur kvatt okkur og loksins fengið að njóta þess endurfundar með æviástinni sinni sem hún hafði beðið svo lengi eftir að hitta á ný, þá langar mig að leita í orð séra Hallgríms Péturssonar til að segja hjartans þakkir Ásta mín fyrir allt og allt og hafðu góða ferð í sumarlandið blíða og skilaðu góðum kveðjum til horfinna ástvina sem þar bíða þín.

Ég sendi þér kæra kveðju
nú komin er lífsins nótt,
þig umvefji blessun og bænir
ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.
x
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.

(ÞS)
x
Þú lifðir góðum Guði,
í Guði sofnaðir þú,
í eilífum andarfriði
ætíð sæl lifðu nú.

(HP)

Egill Örn Arnarson Hansen.