Ólöf Birna Björnsdóttir fæddist á Auðkúlu í Húnavatnssýslu 2. apríl 1934. Hún lést á Droplaugarstöðum 14. ágúst 2022 eftir skamma dvöl þar.

Foreldrar hennar voru Björn Stefánsson prófastur, f. 13. mars 1881, d. 10. nóvember 1958, og Valgerður Jóhannsdóttir, f. 26. apríl 1902, d. 29. mars 1980.

Eiginmaður Ólafar er Jón Ólafsson hæstaréttarlögmaður, f. 19. september 1932. Foreldrar hans voru Ólafur H. Jónsson cand. juris og forstjóri, f. 25. janúar 1905, d. 8. október 1973, og Sigþrúður Guðjónsdóttir, f. 15. desember 1908, d. 10. nóvember 1984.

Ólöf ólst upp á Auðkúlu til 13 ára aldurs en fluttist þá til Akureyrar og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1953.

Ólöf og Jón kynntust sumarið 1954 og giftu sig 8. júní 1957. Þau hófu búskap í Reykjavík og þar af bjuggu þau lengst á Hávallagötu 32, eða í 52 ár.

Börn þeirra eru: 1) Valgerður, f. 31. mars 1957, ritari. 2) Sigþrúður Inga, f. 23. janúar 1963, sjúkraþjálfari, maki Sverrir Hákonarson verkfræðingur. 3) Ólafur Helgi, f. 27. júní 1967, verkfræðingur, maki Estelle Toutain kennari. Barnabörnin eru níu talsins og barnabarnabörnin eru fimm.

Ólöf sinnti ýmsum störfum um ævina, starfaði hún m.a. hjá Sparisjóði Reykjavíkur og sem læknaritari á Landspítala í Hátúni til ársins 1990. Eftir að Ólöf hætti störfum sem ritari sinnti hún heimilinu og barnabörnum ásamt því að aðstoða eiginmann sinn við ritarastörf á lögfræðistofu hans.

Segja má að helsta áhugamál Ólafar hafi verið fjölskyldan, sem hún lifði fyrir. Auk þess voru Ólöf og Jón dugleg að stunda útivist og sameiginlegt áhugamál þeirra voru göngur, bæði innan- og utanlands. Þá nutu þau þeirrar gæfu að ferðast saman um allan heim og fóru m.a. umhverfis hnöttinn.

Útför Ólafar fer fram frá Neskirkju í dag, 25. ágúst 2022, kl. 15.

Elsku hjartans amma mín. Nú er komið að kveðjustund. Mér finnst það mjög óraunverulegt og eflaust á eftir að taka mig langan tíma að átta mig á að þú ert ekki lengur hjá okkur. Á þessum erfiðu tímamótum er þakklæti mér þó efst í huga. Þakklæti fyrir að hafa fengið að eyða tæpum 32 árum með þér. Þakklæti fyrir að hafa verið svona náin þér og eiga ógrynni yndislegra minninga með þér og afa. Mér þykir líka óskaplega vænt um hve mikinn tíma þú gast eytt með Hildi og Sverri. Ég mun passa að þau gleymi þér aldrei.

Hávallagatan var mitt annað heimili alla æsku og fram í háskóla. Allan háskólann og þar til við fluttum til Svíþjóðar fyrr á árinu passaði ég uppá að heimsóknir til ykkar afa væru að minnsta kosti vikulegar. Það var, og er, alltaf jafn yndislegt að koma til ykkar á Hávallagötuna.


Fjölskyldan og fólkið þitt var þér alla tíð það allra mikilvægasta. Þú gerðir allt fyrir okkur og dekraðir okkur barnabörnin eflaust meira en góðu hófi gegnir. Í því samhengi má ég til með að minnast á allar London ferðirnar sem þið afi fóruð í og þú komst alltaf heim með troðfullar ferðatöskur af fötum og varningi sem gat tekið ansi langan tíma að útdeila til okkar í stofunni á Hávallagötu, slíkt var magnið. Alltaf hittir þú naglann á höfuðið varðandi tísku og fatastærðir.




Ást þín og umhyggja var takmarkalaus. Minningarnar eru óteljandi en uppúr standa öll þau fjölmörgu skipti sem ég gisti á Hávallagötunni, þá sérstaklega með Ólöfu frænku. Við Ólöf gátum nú brallað ýmislegt, sem betur er látið ósagt hér, en alltaf hafðir þú sömu þolinmæðina fyrir vitleysunni í okkur. Það var líka alltaf jafn mikið tilhökkunarefni að fara í leikhús með ykkur afa, fara út að borða (oftar en ekki á Ruby Tuesday) og kaupa svo bragðaref í eftirrétt á Ingólfstorgi, sem við vorum samt of södd til að geta borðað. Toppnum í dekrinu var eflaust náð þegar þið afi buðuð okkur Ólöfu til London þar sem við fengum að vera algjörar prinsessur í nokkra daga. Við fórum saman til útlanda í nokkur skipti til viðbótar, síðast á áttræðisafmæli afa til Glasgow. Allar ferðirnar fullar af dásamlegum minningum.

Alla mína æsku voru mánudagar einir bestu dagar vikunnar. Ástæðan er sú að alla mánudaga í mörg ár passaðir þú okkur heima í Búlandi. Þar beiðst þú eftir okkur með hlýju þegar við komum heim úr skólanum, auðvitað alltaf með heimagert gúmmelaði. Enda varst þú snillingur í eldhúsinu og besti kokkur sem ég hef kynnst. Mér fannst það ekkert skrítið þá en þegar ég hugsa um það núna þá er eflaust frekar óvanalegt fyrir konu á þínum aldri að elda mat frá öllum heimshornum og alltaf varstu að prófa eitthvað nýtt og framandi sem allt var jafn gott. Betri gestgjafa var heldur ekki hægt að finna og mjög reglulega bauðstu okkur allri stórfjölskyldunni í mat. Svo ekki sé minnst á jólaboðin og nýársboðin sem þú hélst alla tíð fyrir heilu ættina.


Þú ert mín helsta fyrirmynd amma og verður áfram alla ævi. Þú varst mikill feministi og kjarnakona, langt á undan þinni samtíð með svo margt annað en eldamennsku. Þú varst einnig jafnréttissinni og mjög umburðarlynd. Ég á t.d. nokkrar minningar af okkur saman á Gleðigöngunni og sú hátíð á alltaf eftir að minna mig á þig. Þar að auki varstu eldklár, einstaklega vel lesin og búin að ferðast bókstaflega út um allan heim. Einnig hafðir þú einstakan áhuga á fréttum, hafðir alltaf skoðun á málunum og leiddist ekki að vera ósammála síðasta ræðumanni.
Þú varst algjörlega einstök elsku amma. Þú varst mér mjög góð vinkona og hefur gefið mér svo mikið. Miklu meira en þú gætir ímyndað þér. Ég veit að það eru forréttindi að Hildur og Sverrir gátu kynnst þér eins vel og raunin varð. Þið Sverrir áttuð einstakt samband og eitt af því síðasta sem þú sagðir áður en þú fórst frá okkur var hvað hann Sverrir væri skemmtilegur strákur. Ég er svo glöð og þakklát fyrir að hafa komið til Íslands í lok júlí til að hitta þig. Þar gat ég kvatt þig og átt nokkrar ómetanlegar stundir með þér; þú brostir þínu hlýja brosi, við spjölluðum og þú gast meira að segja fíflast aðeins með Hildi og Sverri.
Elsku amma mín, ég elska þig svo heitt og innilega og þú munt alltaf eiga risastóran sess í hjarta mínu. Það er erfitt að kveðja en ég veit að þú ert nú komin á betri stað þar sem þér líður betur.
Þín ávallt,



Unnur.