Sigmar fæddist í Keflavík 8. ágúst 1956. Hann lést á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi þann 23. ágúst síðastliðinn.
Foreldrar hans voru Sigurður Pálsson, f. 14.9. 1930, d. 14.3. 2008 og Sigrún Sigurlaug Sigfúsdóttir, f.23.8. 1932, d. 15.8. 2015. Bræður hans eru Ingvar, f. 2.1.1954 og Sævar, f. 22.2. 1955.
Börn hans eru 1) Hjalti Hreinn, f. 4.10. 1980, maki: Hulda Jóhannsdóttir, f. 6.3. 1980, börn þeirra eru a) Magnús Víkingur, f. 4.12. 2007 og b) Agnes Freyja, f. 15.2. 2011, 2) Ásta María, f. 16.5. 1983, maki Haukur Steinn Ólafsson, f. 19.1. 1983, börn þeirra eru a) Atli Þór, f. 10.4. 2004, d. 4.5. 2006, b) Sigrún Helga, f. 4.1. 2007 og c) Sigmar Þór, f.10.11. 2011, 3) Sigrún Marta, f. 21.6. 1985, maki: Daníel Páll Jóhannsson, f. 6.8. 1984, börn þeirra eru a) Amelía Guðlaug, f. 2.1.2012, b) Axel Páll, f. 20.4. 2017 og c) Jóhann Víkingur, f. 13.8.2021.
Sigmar stundaði nám við Bændaskólann á Hvanneyri og útskrifaðist þaðan sem búfræðingur. Hann stofnaði og rak byggingarvöruverslunina Kvist í Hveragerði eftir að hafa starfað í BYKO um árabil. Seinna vann hann í Bílanaust og Stillingu í Hafnarfirði. Eftir aldamótin ók hann á sendibíl í nokkur ár og starfaði sem sjálfstæður verktaki í bílaviðgerðum og fleiru.
Útför hans fer fram frá Vídalínskirkju í dag, 29. ágúst 2022, kl.13.
Pabbi var hjálpsamur og iðulega fyrstur á staðinn til að aðstoða vini sína og vandamenn. Það var alveg sama hversu mikið var að gera hjá honum, ef einhvern vantaði hjálp þá var hann mættur. Þegar við Daníel keyptum okkar fyrstu íbúð í Dalalandinu, þá hjálpaði pabbi okkur svo óendanlega mikið. Við hefðum aldrei getað gert þetta án hans hjálpar og leiðsagnar. Því hann var ekki bara hörkuduglegur, hann var líka viskubrunnur og ég gat alltaf hringt í hann til að fá leiðsögn og ráð.
Pabbi var ákveðinn maður með stórt skap, var algjör harðjaxl og töffari. Eitt af hans aðaláhugamálum var að ferðast. Hann var aldrei mikið fyrir að ganga, til hvers að labba þegar maður gat farið á fjórhjóladrifnum jeppa á 46 tommu dekkjum. Stundum átti pabbi marga bíla í einu og mótorhjól og ég veit ekki hvað og hvað. Alveg frá því að ég man eftir mér fannst mér svo gaman að fá að hjálpa til í skúrnum, verkefnin þurftu ekki að vera flókin en mikið var gaman að fá að sortera skrúfur eða sópa gólfið, nú eða halda ljósahundinum á réttum stað svo pabbi sæi hvað hann væri að gera. Ég er sko með meistarapróf í að halda á ljósahundinum!
Einu sinni þegar ég var kannski fimm ára var pabbi að undirbúa húsbíl fyrir ferðalag. Litla forvitna ég fylgdist grannt með verkinu og sá að hann var að skrúfa langa undarlega skrúfu í vaskaskápnum og sagði Pabbi, þetta er skrítin skrúfa, hann leit á mig og brosti og svaraði ÞÚ ert skrítin skrúfa. Síðan þá kallaði hann mig oft skrítna skrúfu.
Við systkinin áttum iðulega gamla bílgarma sem pabbi var duglegur að hjálpa okkur að laga. Fyrsti bílinn minn var til að mynda BMW drusla, sorry pabbi en hann var það. Við kölluðum BMW-inn Skjóna, vegna þess að hann var eins og skjóttur hestur, rauður á litinn en með hvítt húdd og tvær hvítar hurðar.
Við keyptum oft tjónaða bíla á uppboði og pabbi hjálpaði mér að gera við. Ég fékk nú ekki að gera mikið sjálf, þótt mig langaði til. En þá var gott að kunna vel á ljósahundinn og ég gat staðið á hliðarlínunni og sagt brandara og rétt verkfæri.
Einu sinni átti ég gamlan Suzuki Swift garm sem fór ekki í gang svo til stóð að draga hann í gang, nema hvað ég hafði aldrei gert það áður sjálf, nýlega komin með bílpróf. Ég sat inni í bílnum og pabbi byrjaði að ýta. Þegar pabbi var búinn að hlaupa með bílinn á undan sér nánast alla innkeyrsluna að Landakoti þá hvæsti hann á mig Hvað ertu að gera!? og ég svaraði fullum hálsi á móti Nú, það sem þú sagðir mér að gera! Pabbi varð svo hissa að ég hafi svarað honum í sömu mynt og svolítilli stund seinna þegar hann var búin að gefa mér betri leiðbeiningar og bílinn var komin í gang, segir hann við mig já það er skap í þér, hvaðan ætli þú hafir það? Svo brostum við bara.
Fyrir innan hans harða kjöl var hann algjört ljúfmenni og mikil tilfinningavera. Hann var líka yndislegur afi og börnin mín dýrkuðu hann. Við áttum margar góðar stundir saman eftir að hann hætti að vinna og var mikið hjá mér þegar ég var í fæðingarorlofi með Jóhann litla. Hann sagði mér oft að honum þætti svo gott að vera hjá okkur, þessi tími er mér mjög dýrmætur.
Pabbi var mikill húmoristi og hafði gaman að orðaleikjum. Þrátt fyrir erfið veikindi þá tapaði hann aldrei húmornum og sagði brandara og grín alveg fram á síðustu stundu. Það var alltaf stutt í húmorinn og ég hafði svo gaman að því þegar við fórum í göngutúr í Bauhaus fyrir stuttu, þegar við gengum fram á gas arinn, grínaðist ég að þarna ætti Arnar heima. Við hlógum. Svo sáum við kantsteina og pabbi bætti við að þarna byggi Steinar. Við vorum svo góðir vinir og ég mun sakna hans svo mikið.
Takk fyrir allt elsku pabbi minn.
Þín skrítna skrúfa,
Marta.