Eva Soffía Halldórsdóttir fæddist á Akureyri 3. júlí 1978. Hún lést á heimili sínu á Skálatúni í Mosfellsbæ 20. ágúst 2022.
Foreldar hennar eru Halla Thorarensen, f. 26. febrúar 1958, og Halldór J. Harðarson, f. 11. maí 1958. Eiginkona Höllu er Þórdís María Pétursdóttir, f. 28. september 1964.
Eva Soffía var elst fjögurra systkina. Þau eru: 1) Ásta Margrét Halldórsdóttir, f. 9.1. 1982, sambýlismaður hennar er Gestur Hrannar Hilmarsson, f. 19.4. 1984. Sonur Ástu úr fyrra sambandi er Ari Liljan Hlynsson, f. 26.3. 2009. 2) Elvar Lárus Halldórsson, f. 7.9. 1986, d. 18.2. 1987. 3) Óttar Már Halldórsson, f. 2.11. 1989. Sambýliskona hans er Halla Eyjólfsdóttir, f. 22.8. 1989. Börn þeirra eru Liam Fannar, f. 4.10. 2016, og Emma Día, f. 13.9. 2020.
Eva Soffía bjó hjá foreldrum sínum fyrstu árin og fluttist svo á Skálatún haustið 1984.
Eva stundaði nám við Safamýrarskóla, Borgarholtsskóla og Fjölmennt. Hún sótti reglulega þjónustu hjá Skjóli og starfaði á Vinnustofum Skálatúns.
Útför hennar fer fram frá Guðríðarkirkju í dag, 31. ágúst 2022, kl. 13.

Elsku Eva.
Elsku systir mín.

Ég næ ekki alveg utan um tilveruna nú þegar þú ert ekki áþreifanleg að baða umhverfi þitt með þínum eigin björtu litbrigðum.

Þegar ég hugsa um systrasamband okkar kemur eitt orð í hugann, ást.

Ástin á milli okkar var hrein, ótvíræð og einlæg. Ég veit að við fundum hana báðar þegar við horfðumst í augu og það gerðum við svo oft. Og við vissum það báðar því ósjálfrátt brostum við hvor til annarrar í kjölfarið. Brostum yfir systraástinni okkar.

Ég var litla systir þín og þótt ég aðstoðaði þig með alls kyns hluti sem þú þarfnaðist aðstoðar með var alltaf á hreinu hver væri stóra systirin. Það var augnaráðið þitt sem sagði mér það. Þú hafðir ekki málið til að styðjast við en augun sögðu svo margt og táknin sem þú lærðir og bjóst til sjálf, því þú gerðir hlutina eftir eigin höfði, okkur öllum sem umgengust þig til mikils yndisauka.

Litla systir mín, sögðu augun og svo lagðirðu hönd á hnakka minn og hallaðir enninu að mínu.

Þú varst sannarlega stóra systir mín og þú varst mér fyrirmynd í svo mörgu. Ákveðin með eindæmum og það fékk sem betur fer enginn að vaða yfir þig. Meðvirkni var ekki til í þínum bókum, og þú lést verkin tala. Kattþrifin og sást til þess að hafa hlutina í röð og reglu umhverfis þig.

Og góð varstu öllum sem þér líkaði við og þú máttir ekkert aumt sjá. Það var eins og þú fyndir það á þér ef eitthvað hvíldi á mér, þótt ég teldi mig fela það, og þá klappaðirðu mér á kinnina, tókst í hönd mína og bankaðir svo hressilega í öxlina á mér, brostir glettin og augnaráðið sagði: Svona litla systir, ekki dvelja þarna of lengi, leyfðu lífinu að hafa sinn gang. Og þú leist ekki af mér fyrr en ég brosti á móti, bankaði til baka og við fórum báðar að hlæja og gantast. Og þannig voru svo margar stundir hjá okkur systkinunum þegar við komum öll saman. Þá var hlegið, gantast og þótt ég sjálf geti verið dólgur inn við beinið hafði ég ekki roð við prakkarastrikum þínum og Óttars, enda alltaf örlítið alvarlegri en þið tvö. En það sem mér fannst skemmtilegt að taka þátt í þeim.

Já þú varst prakkari en fórst svo fallega með það, t.d. þegar þú brostir kímin að okkur fjölskyldumeðlimum þegar við klaufuðumst eitthvað. Hversu einstakur eiginleiki að hafa. Þú varst nefnilega næm og svo flink í að gera góðlátlegt grín að okkur.

Þú varst fjögurra ára þegar ég fæddist og við ólumst upp saman fyrstu árin mín. Táknið sem þú gafst mér varð til þegar ég var nokkurra mánaða. Ég hafði víst náð taki á hárinu þínu og í óvitaskap haldið dágóða stund. Þú með þína sterku og hljómmiklu rödd sem ósjaldan heyrðist í á þessum árum gafst víst ekki frá þér eitt einasta hljóð heldur gaptir í vantrú yfir ósvífninni í litlu systur. Og ég fékk aldrei að gleyma þessu uppátæki mínu því táknið festist við mig og var notað alla tíð síðan. Ásta systir táknaðir þú með því að grípa í hárið á þér og það er einmitt svo lýsandi fyrir þig. Auðvitað fyrirgafstu mér strax en atvikið varðveittist og vakti kátínu alla tíð síðan þegar það var rifjað upp innan fjölskyldunnar.

Sex ára byrjaðirðu í aðlögun á Skálatúnsheimilinu þar sem hlúð var alúðlega að þér og þú hafðir greiðan aðgang að allri þeirri þjónustu sem þú þarfnaðist í daglegu lífi. Það voru vissulega þung skref fyrir mömmu að taka en þú varðst strax svo heimakær þar. Á endanum fluttirðu þangað inn en komst þó alltaf reglulega til okkar og gistir heima. Jólin eru mér einna minnisstæðust af þeim stundum. Enda báðar mikil jólabörn. Þegar við vorum yngri vorum við undantekningarlaust í eins jólakjólum og til eru margar myndir af okkur þannig. Það þykir mér einnig svo lýsandi fyrir systrasamband okkar.

Á fullorðinsárum hélst jólahefðin (fyrir utan fötin eins og eðlilegt er þegar systur fara að þróa með sér eigin stíl) og þótt ég væri sjálf flutt að heiman gisti ég alltaf líka hjá mömmu og Þórdísi. Eftir að ég átti Ara minn tók ég hann með mér og við komum okkur öll fyrir saman í mömmukoti. Og það sem þú varst alltaf góð við hann. Enda þótti honum svo vænt um þig.

Hátíðarnar eru með mínum allra mestu uppáhaldsstundum með þér og jólin verða ekki eins án þín elsku systir. En ég ætla að læra að njóta þeirra aftur þótt það taki tíma. Af því það er það sem þú sjálf myndir gera. Ég finn nú þegar fyrir þér banka prakkaraleg í öxlina á mér til að hressa mig við og ég geri mitt besta til að hlýða þér en þú verður að gefa mér svolítið meiri tíma í þetta skiptið. Ég lofa að gera mitt besta en ég þarf aðeins lengri tíma.

Ég veit að þú skilur það því ég finn fyrir enni þínu við mitt. Ég sé líka glitta í kímna brosið þitt og eins og í öll hin skiptin ýtir það hlýlega við mér.

Svo margar minningar leita á hugann og tilfinningar og hugsanir þess sem verður eftir flæða um í ringulreið. Þakklæti, ást, sorg og óbærilegur söknuður og vanmáttur.

En ég veit líka að þú veist að ég gaf mig alla í hverja stund sem við áttum saman og þær voru ótalmargar.

Elsku Eva.
Elsku systir mín.

Hjartað þitt er stórt eins og karakter þinn og þótt það slái ekki lengur bókstaflega tifar það í öllum öngum tilverunnar og þú heldur áfram að baða hana björtum litbrigðum þínum.

Þú býrð í hjarta mínu um aldur og ævi. Takk fyrir þig. Takk fyrir okkur. Takk.

Þín litla systir,

Ásta.