Sigurgeir Kjartansson skurðlæknir fæddist í Þórisholti í Mýrdal 7. mars 1938. Hann lést 25. ágúst 2022.
Foreldrar: Kjartan Einarsson bóndi í Þórisholti, f. 27. ágúst 1893, d. 28. júlí 1970, og Þorgerður Einarsdóttir, f. 28. mars 1901, d. 7. janúar 2003.
Systkini Sigurgeirs voru Borghildur, f. 1922, Einar Sigurður, f. 1925, Ingveldur Guðríður, f. 1929, Einar, f. 1930, Kristinn Matthías, f. 1942 (öll látin), og Kjartan, f. 1944.
Sigurgeir kvæntist 7. mars 1959 Höllu Sigurjóns Sigurðardóttur tannlækni, f. 15. nóvember 1937, d. 31. mars 2002. Foreldrar Elín Þorláksdóttir, f. á Hrauni í Ölfusi 29. október 1904, d. 10. júlí 1997, og Sigurður Jónsson, f. á Þykkvabæjarklaustri, f. 10. apríl 1894, d. 4. júní 1938. Stjúpfaðir Höllu var Sigurður Grímsson frá Nykhól í Mýrdal, f. 8. maí 1888, d. 1. júní 1980.
Börn Sigurgeirs og Höllu eru: 1) Aðalsteinn, f. 12. júní 1962, kvæntur Steinunni Geirsdóttur. Börn þeirra: a) Hugrún, í sambúð með Arnóri Ásgeirssyni, sonur þeirra er Aðalsteinn. b) Borghildur, í sambúð með Tómasi Inga Shelton. c) Geir. 2) Elín, f. 9. febrúar 1967, í sambúð með Þorsteini Gunnlaugssyni, áður gift Kristjáni Hallvarðssyni. Dætur Elínar og Kristjáns: a) Halla, í sambúð með Christian Thor Helgasyni, dóttir þeirra er Matthildur María. b) Katla, í sambúð með Aroni Smára Lárussyni. c) Embla.
Kvæntist Hildi Stefánsdóttur 2. des. 2006, þau skildu.
Eftirlifandi eiginkona Sigurgeirs, gift 4. júli 2017, er Jóhanna Guðrún Halldórsdóttir, f. 22. apríl 1940 í Reykjavík. Hennar dætur með Garðari Steindórssyni deildarstjóra eru Kristín, Bryndís og Áslaug, allar með fjölskyldur. Barnabörn Jóhönnu eru sjö og langömmubörnin ellefu.
Sigurgeir gekk í Reynisskóla. Hann lauk landsprófi frá Skógaskóla og stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Laugarvatni vorið 1958. Með skóla starfaði hann í mastraflokki Landssímans víða um land. Einnig sem kyndari á bv. Aski og í síldarvinnu á Raufarhöfn. Hann nam við læknadeild HÍ og lauk læknaprófi í febr. 1965. Kandidat á sjúkrahúsum í Reykjavík og aðstoðarlæknir á Blönduósi. Framhaldsnám í skurðlækningum á Memorial Hospital í Worcester í Massachusettsríki í Bandaríkjunum frá júlí 1966 til júní 1971. Framhaldsnám í æðaskurðlækningum á Massachusetts General Hospital Boston frá júlí 1971 til júní 1972. Sérfræðingur í almennum og æðaskurðlækningum á Landakotsspítala frá júlí 1972-1996, þar af yfirlæknir um fimm ára skeið, ásamt því að starfa sem dósent við HÍ í fimmtán ár. Eftir sameiningu sjúkrahúsanna vann hann á Sjúkrahúsi Reykjavíkur (Borgarspítala) frá 1996-2001 og Landspítala til starfsloka 2007. Sigurgeir sat í stjórn Skurðlæknafélagsins í átta ár, þar af sem formaður frá 1994-1996. Útnefndur heiðursfélagi í Skurðlæknafélaginu 2008.
Útför Sigurgeirs fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 2. september 2022, klukkan 10.

Að eiga góðan vin er dýrmæt gjöf. Hálfrar aldar vinskapur okkar hjóna og Sigurgeirs var gjöf sem við erum þakklát fyrir. Við Sigurgeir útskrifuðumst úr læknadeild á sitthvoru árinu, 1964 og 1965, og fórum báðir til sérnáms í Bandaríkjunum. Sigurgeir og Halla voru við nám í Worcester í Masschussets og komu í heimsókn til okkar Jónu í Rochester, Minnesota. Við áttum góðar stundir saman, og eins og ungs áhugasams fólks er títt, ræddum við um námsstörf okkar og hvað framtíðin kynni að bera í skauti sér. Síðar áttum við Sigurgeir eftir að starfa saman á Landakoti í áratug þegar heim var komið.
Landakot var mjög sérstakur vinnustaður, náið en óformlegt samstarf lækna, skurðlækna jafnt sem lyflækna og barnalækna, var einkennandi fyrir allt starf á spítalanum. Hver og einn fann til mjög persónulegrar ábyrgðar gagnvart sjúklingum sínum. Það stimplaði sig enginn út og lét vakthafandi lækni ráða fram úr vandræðum ef einhver voru eftir að svokallaðri dagvinnu lauk. Allir læknar voru með kalltæki sem var opið allan sólarhringinn og það lá á náttborðinu þegar gengið var til náða hvort sem sem viðkomandi var vakthafandi eða ekki. Sigurgeir var mjög virkur skurðlæknir, sinnti mörgum og oft erfiðum verkefnum og kom gjarnan við rétt fyrir miðnætti til að fullvissa sig um að allt væri eins og hann vissi best. Hjúkrunarfræðingar á næturvakt vissu að það var allt í lagi að hringja í Sigurgeir að nóttu til þó hann væri ekki formlega á vakt. Hann var alltaf á vakt fyrir þá sem hann hafði skorið upp.
Við vorum þrír sem deildum með okkur bráðavöktum, og eðli málsins samkvæmt þurfti oft að grípa til bráðra aðgerða að næturlagi, og stundum var ekki alveg ljóst hvernig best væri að halda áfram eftir að kviður hafði verið opnaður. Það kom fyrir að ég hringdi í Sigurgeir um miðja nótt og ræddi við hann um vandamál sem ég stóð gagnvart með opinn kvið sjúklings og 4 árs læknanema í kandídatsplássi sem aðstoðarmann. Við ræddum besta framgangsmáta á lausn verksins og við kvöddumst í símanum og ég hélt áfram verki. Eftir ótrúlega skamma stund fann ég heitan andardrátt að baki mér og heyrði að sagt var villtu að ég skrúbbi mig og rétti þér hjálparhönd. Hér var Sigurgeir kominn og þannig var hann alla tíð, hjálpsamur og var í raun sama hvert verkefnið var. Sigurgeir var ekki sporlatur maður, hann hefði líka hlaupið til og grafið með þér skurð ef það hefði verið eitthvað sem þú stóðst í við sumarbústað eða heimili. Sigurgeir var virkur þáttakandi á þingum Skurðlæknafélags Íslands, gegndi formannsstarfi í félaginu og varð heiðursfélagi Skurðlæknafélags Íslands á 50 ára afmæli félagsins árið 2007.
Utan starfa okkar á Landakoti áttum við Jóna margar góðar stundir saman með þeim hjónum Höllu og Sigurgeir, og sóttum oft læknaþing saman á erlendri grund. Einnig fórum við oft saman í góðra vina hópi á skíði í Hlíðarfjalli á Akureyri eða í Ölpunum í Austurríki og þar var oft farið dálítið hraðar en færnin leyfði, en ef til vill var það hluti af ánægjunni að standa niður krefjandi brekku. Fyrir Sigurgeir voru áskoranir hvort sem var í leik eða starfi læknis, eitthvað sem hann tókst á við af einurð og fullum krafti eins og áföll síðar í lífinu sjálfu.
Í október 2007 var friðarsúla í minningu John Lennons vígð í Viðey, en þetta var örlagadagur fyrir vin minn Sigurgeir. Þann dag var hann að huga að húsi sem hann var að byggja í Kópavogi. Sigurgeir féll af annarri hæð hússins og lenti á bakið ofan á malarkamb og hlaut alvarlegan skaða á hrygg og mænu, lamaðist frá mitti og var háður hjólastól upp frá því. Jafnaðargeð Sigurgeirs var mikið, aldrei heyrði ég hann tala af beiskju um þetta hlutskipti sitt né varð hann meir í okkar samtölum. Ég tek þessu eins og það er sagði hann snemma í okkar samtölum og tók síðan þátt í öllu sem aðstæður hans leyfðu, ók rafstól til að komast á fundi hjá Öldungadeild lækna eða keyrði sérútbúinn bíl ef veður voru válind eða vegalengdir langar.
Síðustu æviár sín átti Sigurgeir með þriðju konu sinni, Jóhönnu. Sigurgeir var lamaður og Jóhanna var ekkja þegar þau hófu sinn búskap. Þau vissu bæði að hverju þau gengu. Þegar Sigurgeir fékk erfið legusár annaðist Jóhanna Sigurgeir af mikilli natni og umhyggju og skapaði þeim báðum gleðistundir inn á milli erfiðari tíma.
Sigurgeir gaf af sér, og það voru forréttindi að vera vinur Sigurgeirs.

Sigurður E. Þorvaldsson, Jóna Þorleifsdóttir.

Elsku afi, nú hefur þú hvatt þessa jarðnesku veröld og fengið verðskuldaða hvíld.


Mér hefur gjarnan dottið það í hug að afi hljóti að hafa fengið níu líf í vöggugjöf, í það minnsta, eins og kettirnir. En hann hefur þurft að kljást við ýmsar heilsufarlegar áskoranir síðustu ár. Hann tók á móti hverri áskorun af æðruleysi en hann var tilbúinn að tilnefna þessa sem sína síðustu baráttu og þar með voru lífin öll.


Afi var mikill karakter. Hann reyndi gjarnan að láta lítið fyrir sér fara, sagði ófáum sinnum ég þarf ekkert. Hann hafði húmor og gat verið svolítið stríðinn. Við fórum stórfjölskyldan í frí til Massachusetts í Bandaríkjunum árið 2007, heimsóttum meðal annars Worcester þar sem amma og afi höfðu verið í námi. Við skiptum okkur niður í þrjá bílaleigubíla og við Hugrún sátum með afa í bíl. Hann hafði stillt á klassíska tónlist í útvarpinu, en við unglingsstelpurnar höfðum lítinn smekk fyrir þeirri tónlist svo afi lét loks undan þrýstingi og fletti yfir á aðra stöð. Nema hvað, hann stoppaði mjög stutt við hverja útvarpsstöð, heldur fletti hann heilan hring og endaði á sömu stöð með klassísku tónlistinni. Þetta gerði hann nokkrum sinnum og sagði svo í hvert sinn sem kom að klassísku stöðinni sko, þetta er fínt!.


Í þessari sömu ferð vorum við að reyna að keyra í samfloti með hinum bílunum innan Bostonborgarinnar og fylgdum öll leiðbeiningum gps tækja sem við höfðum leigt með bílunum. Réttara sagt voru það tveir bílar af þremur sem fylgdu leiðbeiningum gps tækjanna, því afi þóttist rata sjálfur. Hann hafði jú keyrt margsinnis um götur Boston á námsárum sínum. En síðan voru þónokkur ár liðin og götur Bostonborgar höfðu mikið breyst. Við misstum því af mörgum highway exit og tókum ótal margar rangar beygjur og í tækinu heyrðist stanslaust vélræn rödd sem sagði recalculating. Sama hvað gps tækið vældi, var afi sannfærður um að tækið væri alger óþarfi og vildi helst fá að slökkva á því. Við frænkur flissuðum og klóruðum okkur í hausnum yfir því hver væri besta leiðin til þess að fá afa til þess að treysta tækinu svo við kæmumst einhvern tímann á áfangastað.


Afi tók alltaf á móti barnabörnum sínum á sama hátt: Hann sagði Sæl, jú, ljós og strauk okkur um vangann með grófu handabakinu. Afi var natinn við það að færa okkur ömmu morgunmat í rúmið þegar við vorum í pössun hjá ömmu og afa og bauð gjarnan upp á suppl (morgunkort) fyrir okkur kisurnar (barnabörnin).


Afi gat stundum verið svolítið utanvið sig. En ég man eftir því eitt sinn þegar við amma og afi vorum komin í bæinn eftir heimsókn í Vík í Mýrdal. Þá kom afi við á bílaþvottastöð til þess að smúla drullugan bílinn. Hann var nýbyrjaður á verkinu þegar amma hrópar á sinn eftirminnilega hátt Siiiigurgeir!. Þá hafði afi gleymt að loka hurðinni almennilega og sprautaði vatni inn í bílinn, beint yfir ömmu. Amma rennblaut inni í bíl og afi hálf skömmustulegur með vott af aulaglotti haldandi á þvottaburstanum í höndunum.


Ekki löngu eftir að amma féll frá vorum við Borghildur fengnar til þess að hjálpa afa að þrífa eldhúsið í Víðigrund. Afi verður seint kallaður snyrtipinni en okkur Borghildi fannst þetta heldur stærra verkefni en við höfðum séð fyrir okkur. En allan þann tíma sem við skrúbbuðum og þrifum hvern krók og kima, tautaði afi um hina og þessa menn sem höfðu verið í heimsókn og gengu svo illa um. Snyrtipinninn hann afi vildi meina að gestir síðustu vikna hefðu sóðað allt eldhúsið hans út. Við Borghildur höfðum mjög gaman af þessu bulli í honum.


Afi verandi skurðlæknir var vanur því að sjúklingar hans væru yfirleitt svæfðir á skurðborðinu, en hann gat verið svolítið grófur í tilþryfum við okkur sem ekki fengu svæfingu, að mér fannst að minnsta kosti. Þá sérstaklega þegar hann var beðinn um að kíkja á mig eftir fótbrot mitt því gipsið þrengdi svo að og mig verkjaði undan því. Afi mætti í snatri með stórar garðklippur í einni hendinni og skrúfjárn í hinni. Þá leist mér nú ekki á blikuna! Afi helgaði lífi sínu skurðlækningum og var einn sá fremsti í sínu fagi. Hann kunni fjöldamargar sögur að segja frá sínum starfsferli sem gaman var að hlusta á.

Já, það eru ótal minningar um afa sem koma upp í hugann og dýrmætt er að eiga. Ég er þakklát fyrir góðu stundirnar sem við áttum saman og mér þykir vænt um það að hann hafi fengið tækifæri til þess að hitta frumburð minn sem fæddist í maí á þessu ári.

Hvíldu í friði, elsku afi minn og skilaðu kveðju til ömmu Höllu.

Halla Kristjánsdóttir