Elín Ágústa Ingimundardóttir fæddist í Reykjavík 20. ágúst 1955. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 15. ágúst 2022.
Foreldrar hennar voru Ingimundur Gunnar Jörundsson trésmiður, f. 26.2. 1922, d. 16.10. 1979, og Guðmunda Sigurborg Halldórsdóttir matráðskona, f. 19.9. 1934, d. 2.12. 2017. Bróðir hennar er Halldór Jón Ingimundarson, f. 27.11. 1959.
Elín var gift Níelsi Skjaldarsyni, f. 2.6. 1952. Þau skildu árið 2007. Börn þeirra eru: 1) Ingimundur Gunnar Níelsson, f. 19.5. 1976, maki Elísabet S. Stephensen, f. 11.10. 1972. Börn þeirra eru: Jóhann Ísak, f. 9.9. 2005, og Níels Logi, f. 12.8. 2009. 2) Jón Skjöldur Níelsson, f. 21.1. 1982, maki Guðrún Hildur Thorstensen, f. 2.5. 1985. Börn þeirra eru: Samúel Einar, f. 22.9. 2013, og Ágúst Pálmi, f. 13.3. 2016.
Elín ólst upp í Reykjavík. Lengstan hluta ævinnar bjó Elín í Kópavogi, að frátöldum árunum 1984-89 þegar fjölskyldan bjó í Danmörku.
Að lokinni grunnskólagöngu lauk hún verslunarprófi við Verslunarskóla Íslands. Hún starfaði lengst af hjá nemendaskrá Háskóla Íslands en í Danmörku starfaði hún hjá mötuneyti danska utanríkisráðuneytisins.
Útför Elínar fór fram í kyrrþey að hennar ósk.
Enn þann dag í dag hefur gleðin yfir þessum óvæntu, skemmtilegu samfundum ekki dofnað í hjarta mínu. Enn þreytist ég ekki á að rifja þá upp. Nýlega sagði ég erlendri samstarfskonu minni þessa sögu; It was ment to be, var hún snögg að álykta. Já, við afmælissystur vorum báðar á því, að örlögin hafi leitt okkur saman. Mæður okkur hafa legið samtímis á fæðingardeild Landspítalans á sínum tíma. Sömuleiðis við afmælissystur, við vorum báðar á fæðingardeildinni snemma árs 1982, óafvitandi hvor um aðra. Ella Gústa fæddi son 21. janúar og ég þann 23. Þá var ekki farið á fæðingardeildina fyrir minna en 5-7 daga. Þegar leið á kynni okkar afmælissystra kom í ljós að við áttum ýmislegt sameiginlegt og um margt svipuð hugðarefni.
Að Ellu Gústu stóðu sterkir ættstofnar á báða vegu og vinmörg var hún. Ella Gústa var enda einkar mæt manneskja, hreinlynd og góðum gáfum gædd, umhyggjusöm, gestrisin með afbrigðum, bókhneigð og ljóðelsk. Hafandi búið í Danmörku talaði hún dönsku eins og innfædd. Enskan lá ekki síður fyrir henni, bæði bókmálið og talmálið. Ég nefni þetta, því mér fannst djúpstæð málakunnátta hennar öfundsverð. Hún mátti nú ekki heyra á það minnst, enda ekkert fyrir að hreykja sér. Ella Gústa gat verið föst fyrir og ákveðin, en hún hafði góðan sans fyrir húmor. Það sem var gaman að hlæja með henni Ellu Gústu oft og tíðum.
Við Ammó mín hittumst síðast 28. júlí. Þá sátum við á líknardeildinni í Kópavogi, þar sem hún var í tímabundinni hvíldarinnlögn, að hún sagði mér. Við áttum saman indæla stund og auðvitað gátum við spaugað og hlegið. Ella Gústa kvaðst fara heim aftur fyrr en síðar og ég trúði því alveg, svo vel fannst mér hún bera sig. Við ákváðum að halda upp á ellilöggildinguna okkar og drekka saman reglulega gott kaffi á afmælisdegi okkar, þann 20. ágúst. Ekki var um það rætt, en ég taldi það næsta víst að við drykkjum afmæliskaffið á líknardeildinni, hún væri tæplega farin heim þá. Jú hún var farin, en í önnur heimkynni. Mennirnir ráðgera en Guð ræður. Ella Gústa var reyndar löngu búin að segja mér það, að hún óttaðist dauðann eigi.
Þrátt fyrir langvarandi og raunar æ erfiðari veikindi bar aldrei á barlómi hjá Ellu Gústu. Vissulega átti hún misgóðar stundir, en kvaðst ekki nenna að þreyta fólk með veikindavæli og sjálfsvorkunn. Á sama tíma gat hún haft áhyggjur af örðum, alveg fölskvalaust. Í huga mér kemur viðeigandi staka eftir föðurafa hennar Jörundur Gestsson, þjóðkunnan hagyrðing:
ei skal gráta af trega.
Lifðu kátur líka þá,
en lifðu mátulega.
Að leiðarlokum þakka ég afmælissystur minni, þessari miklu rausnarkonu, 17 ára samfylgd og vináttu. Ég kveð hana með væntumþykju og söknuði með von og trú um endurfundi í Sumarlandinu góða. Virðingu og samúð votta ég sonum, tengdadætrum, barnabörnum, bróður og öllu því góða fólki sem stóð Elínu Ágústu nærri.
Álfhildur Hallgrímsdóttir, (Ammósý).