Erlingur Jónsson fæddist í Móakoti á Vatnsleysuströnd 30. mars 1930. Hann lést á Hlévangi/Hrafnistu í Reykjanesbæ 14. ágúst 2022.
Foreldrar Erlings voru Guðrún Árnadóttir, f. 10. júní 1898, d. 4. maí 1975, og Jón Lárus Hansson, f. 1864, d. 1941. Guðrún og Jón slitu samvistum. Systkinahópur Erlings var stór. Sammæðra voru Hansína, f. 1916, d. 1989, Jón Finns, f. 1919, d. 1997, Guðný, f. 1921, d. 1991, Sigríður, f. 1923, d. 1944, Ólöf, f. 1925, d. 1946, Guðbjörg, f. 1927, d. 1940, Árni, f. 1931, d. 2020, og Rúnar, f. 1936, d. 2006. Öll eru systkinin nú látin. Samfeðra voru Sigurður Júlíus, Valdimar, Hannes Jónas, Hansína Kristín, Ögn Guðmannía, Gunnar Jón, Pétur Stefán, Þorvarður og Guðmundur Arinbjörn sem öll eru látin.
Erlingur giftist 31. desember 1964 Svanhvíti Elsu Jóhannesdóttur, f. 24. nóvember 1934, d. 21. mars 2019. Börn þeirra eru: 1) Ásgeir, f. 1. júní 1959, kona hans er María Kristín Jónsdóttir, f. 19. mars 1963. 2) Jóhanna, f. 13. mars 1961, eiginmaður hennar er Jón Guðmar Jónsson, f. 2. apríl 1950, dætur þeirra eru Svanhvít Ásta, f. 6. nóvember 1996, og Guðrún Sunna, f. 18. júní 1999.
Erlingur var lengst af barnæsku sinnar í Hafnarfirði, á Hverfisgötu 41. Hann starfaði sem handavinnukennari í Keflavík til fjölda ára. Listin átti ætíð hug Erlings allan og hann vildi að allir gætu notið hæfileika sinna á því sviði. Tilurð Baðstofunnar sem var listasmiðja í Keflavík var afrakstur frumkvæðis hans á því sviði. Þar gat fólk komið og sinnt sinni listsköpun og aflað sér þekkingar á því sviði. Hann vildi auka virðingu fólks fyrir handverki almennt.
Erlingur hafði yndi af tónlist og spilaði í hljómsveitum á yngri árum. Ljóðlist var ætíð stór þáttur í lífi hans. Hann sagði oft að ljóðlistin væri æðsta form listsköpunar. Hann var skáldmæltur og átti auðvelt með að setja saman ljóð og kvæði. Á áttunda áratugnum fór Erlingur fyrst til Noregs til að afla sér menntunar í list sinni. Hann sneri aftur til Íslands en fór ekki svo löngu síðar aftur til að bæta við menntun sína. Að loknu námi kenndi hann við framhaldsskóla í Ósló og síðan við listadeild háskólans í Ósló. Hann sinnti ætíð listsköpun sinni með vinnu og að lokum starfaði hann eingöngu að listsköpun. Fjölmargir skúlptúrar Erlings eru á opinberum stöðum hér á landi, í Noregi og Danmörku, bæði inni- og útilistaverk. Flest útilistaverka hans, á einum stað, eru í Reykjanesbæ. Erlingur var útnefndur bæjarlistamaður Keflavíkur, nú Reykjanesbær, fyrstur manna árið 1991.
Þau Erlingur og Svanhvít hófu byggingu húss um miðjan sjöunda áratuginn á Faxabraut 63 í Keflavík sem þau fluttu í upp úr 1970 og áttu það hús alla tíð. Erlingur og Svana fluttu að lokum alkomin heim í árslok 2018. Síðustu tvö æviárin dvaldi hann á Hrafnistu/Hlévangi á Faxabraut 13 í Keflavík.
Útför hans fer fram frá Keflavíkurkirkju 6. september 2022 klukkan 13.
Ég var sennilega 15 ára þegar ég heyrði fyrst talað um Erling Jónsson. Á þeim tíma gekk ég um í frakka og var með sítt slegið hár og amma mín hafði orð á því að ég væri eins fiðlungurinn Erlingur Jónsson. Amma sagði mér frá þessum mikla listamanni sem alltaf skar sig úr hópnum, gekk um með mikið úfið hár, í síðum frakka og með fiðlutösku í hendi.
Það var svo á Laxnesshátíðinni í Keflavíkurkirkju árið 2002 sem ég hitti
Erling í fyrsta sinn. Þá starfaði ég sem blaðamaður og ljósmyndari og var
þar staddur til að skrifa um viðburðinn og listaverk Erlings,
Laxness-fjöðrina, sem gefið var Bókasafni Reykjanesbæjar í tilefni 100 ára
afmælis nóbelsskáldsins. Ég man vel hvað ég var uppnuminn af því að heyra
Erling tala. Blaðlaust þuldi hann upp hin ýmsu ljóð og heilu kaflana úr
verkum Laxness. Aldrei hafði ég heyrt nokkurn mann tala af svo miklu næmi
og ástríðu um menningu og listir. Á einhvern hátt fannst mér Erlingur vera
hálfóraunverulegur. Það var engu líkara en þar væri á ferð líflegur
karakter sprottinn upp úr einu af skáldverkum Halldórs. Sem í sjálfu sér er
ekki svo fjarstæðukennt því Erlingur var alla tíð undir miklum áhrifum af
skrifum Halldórs og voru þeir góðir vinir í lifanda lífi. Eftir hátíðina
rakst ég svo óvænt á þá Erling og Rúnar Júlíusson tónlistarmann og ég
endaði á eftirminnilegu spjalli með höfðingjunum tveimur. Við Erlingur
náðum strax vel saman og frá þeim degi urðum við perluvinir.
Árið 2005 hlaut ég svo ferðastyrk hjá Reykjanesbæ til að fara til Noregs
til að vinna ljósmyndasýningu í tengslum við 75 ára afmælissýningu Erlings
í Duus-húsum. Erlingur tók ekki í mál að ég færi á hótel heldur bauð mér
inn á heimili sitt í Osló og var sannkallaður höfðingi heim að sækja. Þessi
fimm daga heimsókn er mér afar minnisstæð og fékk ég að kynnast Erlingi og
verkum hans betur og hafði myndavélina alltaf með. Ég heimsótti m.a.
vinnustofur Erlings þar sem hann vann við listsköpun sína og greip ýmist í
gifsspaða eða logsuðutæki á meðan við ræddum um listina og lífið. Erlingur
var ætíð afkastamikill og vann langa daga á vinnustofunum sínum tveimur.
Til að hlaða batteríin og brjóta upp vinnudaginn fór Erlingur oft fram á
gang til að saga í fiðluna sína eins og hann orðaði það. Þá brá Erlingur
sér fram á stigagang, þar sem var hátt til lofts, og spilaði nokkur ljúf
lög sem ómuðu um alla bygginguna. Þegar hann spilaði á fiðluna vantaði ekki
innlifunina í andlitið frekar enn við ljóðalesturinn. Meðan á heimsókninni
stóð keyrðum við víða. Við þræddum stál- og steinsmiðjur og skoðuðum fjölda
af verkum Erlings sem m.a. prýða háskólann í Osló, fyrrverandi vinnustað
Erlings. Einnig sýndi Erlingur mér listaverk eftir Nils Ass, einn fremsta
myndhöggvara Norðmanna, sem jafnframt var stórvinur Erlings.
Einhverjum mánuðum seinna voru ljósmyndirnar úr ferðinni svo sýndar á 75
ára afmælissýningu Erlings. Við héldum alltaf sambandi eftir þetta og
hittumst reglulega þegar hann heimsótti Ísland. Stundum aðstoðaði ég hann
við að ljósmynda hin og þessi verk og jafnvel módel sem hann vann lágmyndir
af. Í einum af þessum heimsóknum sagði Erlingur við mig með sinni annáluðu
angurværð: Veistu Arnar, ég búinn að búa sáttur í Noregi í áratugi en nú
fer mig að langa heim. Ég verð að enda ævi mína á þeim stað þar sem öll mín
eftirlætisljóð voru ort. Þannig var hann Erlingur, hann lifði fyrir
listina og elskaði ljóðin. Ég er feginn að þessi ósk hans raungerðist og
hann sagðist vera sáttur með vistina á öldrunarheimilinu Hlévangi síðustu
misserin.
Erlings verður ætíð minnst fyrir list sína en hans verður ekki síður minnst
fyrir störf sín sem kennari. Hann starfaði lengi sem handavinnukennari í
Keflavík og síðar sem kennari við listadeild háskólans í Osló. Hann var
dáður af nemendum sínum og hafði mikil og jákvæð áhrif á þá. Þótt ég hafi
aldrei setið á eiginlegum skólabekk hjá Erlingi mun ég alltaf líta á hann
sem einn mesta áhrifavald og kennara í mínu lífi og ég er ævinlega
þakklátur fyrir að hafa kynnst honum.
Erlingur skynjaði meira flestir því hann var sítengdur einhverri andlegri
uppsprettu sem gerði honum kleift að lifa samtímis í efni og anda. Erlingur
gat séð fegurðina alls staðar; í hlutföllum dauðra hluta, sprungu í steini,
bliki í auga eða línu í ljóði. Hann leyfði fegurðinni að hrífa sig og flæða
inn í listsköpun sína - verk sem munu veita innblástur og halda minningu
Erlings á lofti um ókomna tíð.
Nú kveð ég kæran vin og eftir situr fuglinn á garðstaurnum að hlusta á
bergmálið af því sem hann kvakaði í vor.
Arnar Fells Gunnarsson.