Örn Árnason fæddist í Reykjavík 26. september 1938. Hann lést í Quebec-fylki í Kanada 21. ágúst 2021.
Hann lætur eftir sig eiginkonu til 60 ára, Margaret, og börnin Ingu Elínu, Belindu, Thor, Bobby, Andy, Leonu og Victor og barnabörn.
Minningarstund verður við jarðsetningu duftkers í Fossvogskirkjugarði í dag, 8. september 2022, klukkan 11.

Gen okkar eru svo mögnuð. Ég var 15 ára þegar The Net með Söndru Bullock kom út og var ég óeðlilega spennt fyrir tækninni í þeirri mynd. Það að panta sér pítsu í gegnum internet var algjörlega tjúllað í mínum huga. Um aldamótin sat ég tvítug fram á nótt hugfangin af netinu og var að fikta í kóða til að finna út hvernig vefsíður virkuðu. Mín fyrsta vefsíða var djúpfjólublá og skærbleik með dansandi GIF-stöfum þar sem stóð: FJÓLA Á LEIÐ TIL ÁSTRALÍU. Þar sem allir stafirnir voru á hreyfingu varð fólki stundum frekar illt í augunum við að skoða blogspot-vefsíðuna mína. En svona vildi ég hafa þetta og kunni engar skýringar á því.

Ég fór þó að leggja saman tvo og tvo þegar tölvupóstar fóru að berast í upphafstöfum með risastóru, fjólubláu og skærbleiku skáletri frá Knowlton, Quebec í Kanada. Tölvupóstarnir voru frá Erni Árnasyni uppfinningamanni eða afa í Kanada eins og við kölluðum hann.

Afi í Kanada var enginn venjulegur maður enda var starf hans í alvörunni að vera uppfinningamaður. Tækni og tækninýjungar voru hans ástríða. Hann tók öll tæki í sundur og ef eitthvað bilaði þá ljómaði hann víst upp við tilhugsunina um að laga hluti. Hann fluttist um tvítugt til Kanada og hlustaði á íslensku fréttirnar á hverjum degi í gegnum stuttbylgjuna áður en netið var fundið upp. Hans frægasta uppfinning var kaffivél sem var seld til Van Houtte árið 1998.

Hann átti sér fyrirmynd, sem var uppfinningamaður að nafni Reginald Fessenden, sem fann upp fyrstu útvarpsútsendinguna. Afi setti upp í slökkviliðssal Musée Lac-Brome-safnsins sýningu á gamaldags útvarpstækni sem tileinkuð var Fessender. En heimilið hans, bílskúrinn réttara sagt, var eins og safn um gamaldags tækninýjungar, allt um mors-samskipti, klukkur, gamlir símar, gamlar myndavélar og mjög margt annað. Hann lét engar tækninýjungar fram hjá sér fara. Til að mynda á áttræðisaldri kenndi hann sér fótósjopp. Þegar mamma heimsótti mig til Ástralíu sendi hann okkur mynd þar sem hann var búin að fótósjoppa sig með okkur og hafði sett okkur í litríkan ramma.

Ég þekkti þennan afa mjög lítið þegar ég var að alast upp. Við fengum reglulega bréfsefni og límmiða senda frá Kanada. Móðir mín vissi ekki af tilvist þessa manns fyrstu tuttugu árin þar sem hún átti annan pabba sem ól hana upp. Þegar hún lærði um blóðtengsl sín fór hún í sína fyrstu ferð til Kanada til að heimsækja blóðföður sinn Örn Árnason uppfinningamann. Móðir mín, listamaðurinn Inga Elín, og þessi blóðafi minn eru ótrúlega lík og bæði yfirleitt að hugsa um eitthvað allt annað en venjulegt fólk hugsar um. Ákveðið hispursleysi er einn eiginleiki þeirra. Fjöldi og filterslaus fjölbreytni tölvupósta afa gerði þá mjög skemmtilega. Til að mynda var síðasti tölvupósturinn frá honum árið 2020 með subject line: 2020 horse lover's selfie. Eh! og í tölvupóstinum var mynd af konu með grímu við hliðina á hesti sem var með brjóstahaldara á sér fyrir grímu. Þetta þótti honum eflaust fyndið og hikaði ekki við að deila þessari snilld með blóðdóttur sinni og dætrum hennar.


Um 2004 byrjaði ég að blogga um plön mín að fara til Ástralíu í framhaldsnám. Þá fór afi að senda mér blaðaúrklippur og alls kyns upplýsingar um framhaldsnám í Kanada. Ævintýraþrá mín varð til að ég hélt mínu striki og fór til Ástralíu, en það fyrsta sem ég gerði þar var að hitta kanadískan mann sem var þá uppfinningamaður sem er eiginmaður minn í dag. Nýja kanadíska fjölskyldan mín varð til þess að ég fékk að hitta afa nokkrum sinnum á fullorðinsárunum. Báðir synir mínir fengu að hitta hann og hef ég sjaldan séð jafn mikinn aðdáunarglampa í augum neins við að horfa á börnin mín.

Afi og Margaret eiginkona hans til 60 ára áttu við frjósemisvandamál að stríða. Því eignuðust þau einungis eina líffræðilega dóttur saman. En þau stoppuðu ekki þar heldur ættleiddu fimm börn. Fyrir utan það voru þau með í gegnum ævina yfir 30 börn í fóstri. Þau veittu skjól og buðu upp á öruggt heimili fyrir börn sem voru að bíða eftir að fara í ættleiðingu eða voru í tímabundinni vistun og myndu svo fara aftur heim til sín. Aðs ögn yngstu dóttur þeirra Leonu montaði afi sig aldrei af neinu og talaði víst aldrei um vinnuna þrátt fyrir að hafa átt mjög glæsilegan vinnuferil, nema þegar kom að börnunum hans. Eins og hún sagði: Það er til fólk sem gerir gott í lífinu en það er annað fólk eins og hann sem raunverulega gerir heiminn að betri stað. Hversdagshetjurnar sem sleppa því að bera góðmennsku sína á torg. Allir veggir heimilis þeirra voru þaktir myndum af öllum þeim 35 börnum sem höfðu dvalið hjá þeim einhvern tíma ásamt myndum af barnabörnunum.


En það er endalaust hvað sérviskugenin koma manni á óvart. Það var nefnilega þannig að þegar ég var ólétt að yngri syni mínum árið 2015 fékk ég þrálátar hugsanir um klukkur. Ég sat og hannaði klukku daginn út og inn sem nú prýðir vegginn í stofunni heima hjá mér í Kanada. Ástandið var orðið svo slæmt að þegar sonur minn var fjögurra daga gamall fór ég með hann í rammabúð í West End í Vancouver til að ræða ákveðna stærð hringlaga ramma sem mig bráðvantaði helst í gær. Það var ekki fyrr en nýlega sem ég áttaði mig á tengingunni við söguna sem ég hef sagt fólki í gegnum tíðina af þessum hálfótrúlega afa sem ég átti sem byrjaði alltaf á spurningunni: Vissirðu að ég á afa í Kanada sem á bílskúr fullan af klukkum?

Við munum sakna fjölbreyttu tölvupóstanna, þar sem efnistök voru algjörlega ófyrirsjáanleg. Allt frá hlekkjum í grein úr Morgunblaðinu frá 1968 um lestrarvenjur barna í myndir af rokkasmiðnum á Eyrarbakka sem var langafi minn. Ég sendi hlýja strauma til Knowlton og er svo glöð að hafa fengið að kynnast afa í Kanada. Gen hans munu halda áfram að valda mér kátínu í okkur öllum afkomendum hans.

Fjóla Dögg Helgadóttir.