Kolbrún Dýrleif Pálmadóttir fæddist í Reykjavík 12. apríl 1953. Hún lést á Landspítalanum Hringbraut 24. ágúst 2022 eftir stutta sjúkrahúslegu.

Foreldrar hennar voru Brynhildur Sigtryggsdóttir, f. 21.9. 1932, d. 30.9. 2000, og Jón Pálmi Steingrímsson, f. 22.6. 1934, d. 16.6. 2001.

Kolbrún Dýrleif var elst fjögurra systkina, hin eru: Jón Pálmi, f. 8.3. 1958; Aðalsteinn Leví, f. 11.3. 1959, kvæntur Kristínu Þorsteinsdóttur; Helga Ingibjörg, f. 16.5. 1964, sambýlismaður Örn Felixson.

Hún ólst upp í Kópavoginum og bjó þar stærsta hluta ævi sinnar, en síðasta árið bjó hún í Reykjavík.

Kolbrún eignaðist eina dóttur, Brynhildi Hrund Jónsdóttur, faðir hennar er Jón Norðmann Engilbertsson, eiginkona hans er Guðbjörg Vallaðsdóttir. Eiginmaður Brynhildar er Sigurður Bjarni Guðlaugsson, f. 28.9. 1974. Börn þeirra eru: 1) Guðrún Þórdís Edvardsdóttir, f. 9.2. 1991, maki Þráinn Orri Jónsson, sonur þeirra er Theodór Breki, f. 29.6. 2018  2) Bjarni Sigurðsson, f. 12.1. 1999. 3) Kolbrún Hulda Edvardsdóttir, f. 6.12. 2000, unnusti hennar Olaf Forberg. 4) Sóldís Jóna Sigurðardóttir, f. 5.6. 2005.

Kolbrún fæddist með hjartagalla og fór mjög ung í hjartaaðgerð til Danmerkur. Mörkuðu þessi veikindi allt hennar líf.

Kolbrún vann til fjölda ára við afgreiðslustörf, saumaskap hjá Sportveri, Fasa og öðrum saumastofum og síðustu árin sem hún var á vinnumarkaðnum vann hún við þrif hjá Securitas sem varð svo að ISS.

Kolbrún var mikil listakona í höndunum og fór á fjölda leir- og bastnámskeiða og var snillingur með prjónana. Liggur eftir hana fjöldinn allur af peysum, húfum, vettlingum og sokkum, að ógleymdum dúkum, hjá ættingjum og vinum úti um allt. Útsaumur var líka í miklum metum hjá henni og saumaði hún ógrynni af alls konar myndum í gegnum árin.

Útför hennar hefur farið fram í kyrrþey að hennar ósk.

Elsku Kolla mín. Nú ertu búin að fá langþráðu hvíldina þína og við búin að kveðja þig og mamma þín komin með þig í fangið aftur og Keli köttur kominn til þín aftur.

Þegar ég kom inn í fjölskylduna fyrir 45 árum vissi ég ekki alveg hvar ég hafði þig og tók mig smá tíma að komast inn fyrir skelina hjá þér. Þú varst nefnilega ekki allra. Eftir það vorum við mjög góðar vinkonur og þú kallaðir mig alltaf langbestu mágkonuna þína og eftir að foreldrar þínir fóru í sumarlandið sagðir þú að ég væri límið í fjölskyldunni og þykir mér alltaf mjög vænt um þessi orð. Við unnum saman í nokkur ár og gerðum ýmislegt saman eins og gerist og gengur.

Þú varst mjög hvatvís og beinskeytt í samskiptum við fólk og áttu sumir mjög erfitt með það. En þú vildir alltaf vel og vinahópurinn þinn sýnir þess merki. Þú varst dugleg að halda sambandi við ættingja, vini og kunningja. Sem dæmi fannst þér ekkert tiltökumál að keyra í þrjá klukkutíma norður í land að heimsækja okkur í bústaðinn og til baka aftur um kvöldið því þú gast ekki sofið neins staðar nema heima hjá þér og varst dugleg að sækja ýmsa viðburði eins og prjónakaffi hjá Sjálfsbjörg enda varstu snillingur með prjónana í höndunum og liggur eftir þig ógrynni af peysum, húfum, vettlingum, dúkum og skírnarkjólum. Þú fékkst ástríðu fyrir ýmsu sem þú gast gert með höndunum og fórst á ýmis námskeið til að læra handverk eins og t.d. körfugerð úr basti, leirnámskeið og keramiknámskeið svo eitthvað sé nefnt. Að ógleymdum öllum myndunum sem þú saumaðir út og prýða veggi hjá ættingjum og vinum.

Ekki vastu langskólagengin en þú fórst í Kvennaskólann á Blönduósi og lifðir á þeim lærdómi alla ævi.

Þú fæddist með græna fingur og hafðir mikið dálæti á kaktusum eins og Vésteinn ber merki um (afleggjari sem þú varðst þér úti um á læknastofunni hjá Vésteini augnlækni).

Eina sögu af þér rifjaði Steini bróðir þinn upp, þegar foreldrar ykkar fóru utan og þú varst heima að passa systkini þín og áttir að sjá um að gefa þeim að borða og svoleiðis. Kunnáttan í eldamennskunni var ekki alveg upp á hundrað og þú gafst þeim að borða kjöt með súpu út á sem sósu og sósu sem súpu í eftirrétt.

Nokkrar utanlandsferðir fórstu í gegnum tíðina bæði með dóttur þinni og vinkonum og svo eina með Guðrúnu og Kolbrúnu og er Guðrúnu mjög minnisstætt þegar þú fórst með hana eina til Portúgals og á ströndina en gerðir henni grein fyrir því að ef hún færi út í sjó þá gæti hún ekki bjargað þér ef þú færir þér að voða því hún væri ekki synd.

Minnug varstu og mundir alla afmælisdaga hjá öllum í kringum þig og varst manna fyrst að hringja og óska til hamingju með daginn og í seinni tíð eftir að þú fékkst þér tölvu skrifaðir þú afmæliskveðjur inn á Facebook á meðan þú gast sökum gigtar í höndunum.

Kolla fæddist með mjög sjaldgæfan hjartagalla sem var þannig að hjartað hennar var eins og gatasigti að innan. Þetta uppgötvaðist þegar hún var kornung, því hörund hennar var alltaf blátt, en í þá daga var ekki auðvelt að fá aðstoð með langveikt barn. Hún lærði ekki að ganga almennilega fyrr en 10 ára. Hún lék sér alltaf á hækjum sér því ung fann hún að ef hún beygði sig saman þá varð blóðrásin styttri og henni leið betur. 10 ára fór hún í hjartaaðgerð til Danmerkur þar sem þess var freistað að loka einhverjum af þessum götum inni í hjartanu. Foreldrar hennar þurftu virkilega að berjast fyrir því að koma henni í þessa aðgerð og voru þau dæmd fyrir það vegna þess að fólki fannst alger firra að fara með barnið í svona stóra aðgerð og líkurnar voru nánast engar að hún myndi lifa hana af. Á þessum tíma var ekki mikið um aura, ungt fólk með þrjú börn á framfæri. Sjúkrasamlagið vildi ekki taka þátt í þessari aðgerð og þau komu alls staðar að lokuðum dyrum þar til flugfélagið Loftleiðir eins og það hét þá borgaði flugið fyrir þau og í fyrstu ferðinni greiddu þau líka hótelkostnaðinn. Þau höfðu ekki efni á að borga aðallækninum fyrir aðgerðina þar sem sjúkrasamlagið vildi ekki greiða neitt - en þá tók aðstoðarlæknirinn að sér að gera þessa aðgerð. Sem tókst vel eins og raun ber viti, náði næstum 70 árum.

Árið 1988 fór hún í aðra aðgerð þar sem freistað var að loka fleiri götum en þá fór hún til Englands og eins og í fyrra skiptið var ekki vitað hvort hún kæmi til baka. En viti menn, hún kom keik til baka og minnist dóttir hennar þess þegar hún og afi hennar fóru út á flugvöll að taka á móti Kollu og mömmu hennar þegar hún kom til baka og það var mættur sjúkrabíll til að keyra hana á spítalann hér heima og með þeim var íslenski hjartalæknirinn hennar. Og þar sem Brynhildur stóð með afa sínum við gluggann á Keflavíkurflugvelli segir hann: Af hverju er amma þín að strunsa svona á undan mömmu þinni? Brynhildur svarar: Afi minn, þetta er mamma sem strunsar á undan ömmu og amma er að tala við sjúkraflutningamennina. Þá neitaði hún að leggjast á börurnar og fara í sjúkrabílinn og hún ætlaði sko ekki að fara á spítala hér eftir að hafa legið á spítala í útlöndum svona lengi og þar við sat.

Ef hún þurfti að leggjast inn á spítala í seinni tíð þótti læknum mjög merkilegt að hún væri hreinlega hér á jörð og flykktust læknanemar að sjúkrabeði hennar og vildu fá að taka niður sögu hennar og fá að rannsaka hjartað en það var nú ekki auðfengið og vildi hún alls ekki alla þessa athygli.

Vísa Steins Steinars Að sigra heiminn á vel við lífshlaup Kollu:

Að sigra heiminn er eins og að spila á spil
með spekingslegum svip og taka í nefið.
Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,
því það er nefnilega vitlaust gefið.

Elsku Kolla hvíl í friði, minning þín lifir alltaf í hjarta okkar og afkomenda þinna.

Þín mágkona og bróðir,









Kristín Þorsteinsdóttir og Aðalsteinn Leví Pálmason.