Freysteinn Þórðarson vélstjóri fæddist á Haukafelli 23. nóvember 1929. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Skjólgarði 12. september 2022.
Foreldrar hans voru Þórður Jónsson búfræðingur frá Rauðabergi á Mýrum, f. 3. október 1900, d. 6. mars 1992, og Bergljót Þorsteinsdóttir frá Hvammi í Lóni, f. 23. september 1903, d. 9. júní 2005. Systkini hans voru Guðmundur Þórðarson kennari, f. 24. nóvember 1928, d. 20. nóvember 2011. Arnór Þórðarson kennari, f. 18. október 1932, d. 31. ágúst 2015, og Kristín Karólína Þórðardóttir, f. 1. desember 1942, d. 23. janúar 1957. Erla Ásthildur Þórðardóttir tæknir, f. 17, maí 1939.
Freysteinn Þórðarson kvæntist Guðlaugu Erlu Þorgeirsdóttur 11. september 1959 í Hofskirkju í Vopnafirði. Foreldrar hennar voru Jóna Kristín Jónsdóttir frá Skógum í Vopnafirði, f. 9. janúar 1897, d. 16. ágúst 1989, og Þorgeir Þorsteinsson frá Arnheiðarstöðum í Fljótsdal, f. 5. október 1891, d. 10. janúar 1947.
Börn Freysteins og Guðlaugar eru: Jóna Kristín Freysteinsdóttir, f. 15. febrúar 1960, starfsmaður viðskiptavers Rarik, maki Pétur Á. Unnsteinsson, f. 23. mars 1956, vélfræðingur. Börn þeirra eru Guðlaug Ósk Pétursdóttir, f. 8. nóvember 1980, gullsmiður, maki, Stefán Aðalsteinn Drengsson kvikmyndagerðarmaður, dætur þeirra eru Freydís Sóley, f. 8. febrúar 2016, og Elddís Helgey, 10. maí 2018. Brynjar Þór Pétursson, f. 2. apríl 1985, stýrimaður hjá Dan Pilot Danmörku, maki, Louise Ninette Valentin Kjærgaard, börn Baldur Valentin Brynjarsson, f. 29. september 2018, Freyja Valentin Brynjarsdóttir, f. 18. desember 2019.
Borgþór Freysteinsson, f. 22. nóvember 1961, slökkviliðsstjóri, maki Inga Jenný Reynisdóttir sjúkraliði, f. 5. janúar 1961, börn þeirra eru Sæunn María Borgþórsdóttir, f. 30. mars 1981, fjármálastjóri, maki Björgvin Lúðvíksson smiður, f. 11. september 1981, börn þeirra tvíburarnir Ólöf Inga Björgvinsdóttir, f. 12. júlí 2014, Aron Smári Björgvinsson, f. 12. júlí 2014, og Alma Dís Björgvinsdóttir, f. 11. júní 2022.
Freysteinn Smári Borgþórsson, f. 26. maí 1987, smiður, maki Anna Lilja Steinþórsdóttir, f. 29. janúar 1993, sjúkraflutningamaður, börn Emma Ósk Freysteinsdóttir, f. 28. júlí 2000, og Kara Sif Freysteinsdóttir, f. 4. júlí 2022.
Berglind Ósk Borgþórsdóttir deildarstjóri, f. 20. október 1991, maki Jón Vilberg Gunnarsson vélfræðingur, f. 8. júlí 1982, börn Eva María Jónsdóttir, f. 25. mars 2016, og Júlían Máni Jónsson, f. 27. mars 2019.
Svanhildur Freysteinsdóttir, f. 28. október 1967, fjármálaráðgjafi Arionbanka, maki Hlynur Garðason stjórnmálafræðingur, f. 28. nóvember 1965, börn Hekla Diljá Hlynsdóttir, f. 29. september 1994, í mastersnámi í Danmörku, og Guðlaug Erla Hlynsdóttir, f. 9. september 2001, hagfræðinemi.
Útför Freysteins fer fram í dag, 17. september 2022, kl. 14 frá Hafnarkirkju.

Elsku besti pabbi minn.

Nú er komið að leiðarlokum. Söknuðurinn er sár en fjársjóður minninganna er stór.

Mínar fyrstu minningar eru frá bernskuárum mínum á Bjargi. Við bjuggum á neðri hæðinni þar sem þið mamma höfðuð búið ykkur fallegt heimili. Ég ólst upp við ástríki ykkar og afa og ömmu Beggu og Þórðar á efri hæðinni. Það var gott að geta hlaupið á milli hæða, ýmist í mat eða í bústörf með afa.

Við ferðuðumst í sumarheimsóknir á Seyðisfjörð og Vopnafjörð. Moskinn var útbúinn fyrir okkur Borgþór bróður minn, með alls konar pinklum og pjönkum. Mamma hafði soðið hangikjöt og útbúið gott nesti því ferðin var löng. Stoppað var í fallegu skógarrjóðri í Atlavík og borðað nesti, tínd ber, hlaupið um í skóginum og kíkt í Selið hjá Gumma frænda.

Hagatún 4 var síðan okkar framtíðarheimili. Þar byggðuð þið mamma ykkur reisulegt og fallegt hús. Við Borgþór fengum það hlutverk að naglhreinsa og sementshreinsa timbur. Pabbi fann alltaf einhver verkefni fyrir okkur að sýsla við.

Sumarið 1967 fluttum við fjölskyldan yfir götuna í Hagatúnið. Systir okkar Svanhildur fæddist í október sama ár. Það ríkti mikil gleði á heimilinu þegar við Borgþór eignuðumst litla systur. Pabbi var mikill fjölskyldumaður og undi hag sínum best inni á heimilinu. Þar vorum við systkinin umvafin ást og umhyggju samrýmdra foreldra.

Allt lék í höndum þínum. Þú hafðir komið þér upp litlu verkstæði í kjallaranum þar sem þú undir hag þínum vel. Þú varst bæði hagur á járn og timbur. Garðurinn ykkar mömmu var til fyrirmyndar, matjurtir og kartöflur voru þeir ávextir sem voru teknir upp að hausti. Rifsber og rabarbari soðið í sultur og hlaup. Þú varst liðtækur í heimilisstörfunum, uppvask eftir matinn eða skúrað yfir gólf eða ryksugað yfir stofuteppið.

Þið bjugguð vel í haginn fyrir veturinn, Þið tókuð slátur og söltuðuð kjöt. Keyrt var í Lónið þar sem hangikjötið var sótt úr reyk fyrir jólin. Þú talaðir um bernsku þína í Byggðarholti. Stoppað var á hinum ýmsu bæjum og kastað kveðju á ábúendur og trygga vini. Þú sagðir mér margar sögur þar sem þú þekktir öll kennileiti og sögur um óbrúaða Jökulsána og símstöðina í Byggðarholti. Tímann þinn í símavinnunni þar sem þú lagðir símann frá Höfn norður í Axarfjörð þar sem þú vannst í 6 ár. Vopnfirsk heimasæta átti hug þinn allan og þið mamma giftuð ykkur ykkur 11.09.1959 í Hofskirkju í Vopnafirði. Giftingarvottorðið hefur verið varðveitt í fallegum kassa, undirritað af sýslumanni á Seyðisfirði.

Jólahefðirnar voru skemmtilegar. Laufabrauðsgerð var hluti af þeim. Allt var handskorið að vopnfirskum hætti. Við fengum sendingu frá Steina frænda með reyktum laxi úr Selá og jólapakka frá ömmu á Vopnafirði. Bónað eldhúsgólfið var glansbjart á Þorláksmessukvöldi og smakkað á nýreyktu hangikjöti og jólaöli. Eitt af þínum verkum var að breiða sængina yfir okkur systkinin á kvöldin áður en við fórum að sofa. Nýsoðinn hafragrautur kraumaði í potti á morgnana.

Ósjaldan sofnuðum við við saumavélargný á kvöldin þar sem allt var heimasaumað, ný flík að morgni eða ný rúmföt eða náttföt fyrir jólin. Elsku mamma mín, listakonan með meiru, heklaði milliverk, saumaði í púða eða harðangur og klaustur. Skáparnir í Hagatúninu geymdu mörg listaverkin.

Ein af mínum fallegu jólagjöfum frá ykkur eru rúmföt með íssaumuðum bekk af harðangri og klaustri, algert listaverk eftir mömmu.

Þú smíðaðir gróðurhús í garðinum ykkar. Þar voru bleikar og hvítar rósir. Fræjum var sáð í potta snemma að vori og litríkir laukar kíktu upp úr gróðurkössum sem þú smíðaðir, pabbi minn.

Þú varst alinn upp í fegurstu sveit landsins þar sem fjöllin hafa vakað í þúsund ár. Fjöllin skarta sínu fegursta. Ilmurinn af regnvotu birkinu og berjabrekkan blá. Upp úr 1970 byggðuð þið mamma ykkur lítinn sumarbústað í Stafafellsfjöllum í Lóni. Sannkallaður sælustaður fjölskyldunnar. Nýsteiktar kleinur og smurðar flatkökur með hangikjöti voru á borðum. Sennilega hafa flestir í fjölskyldunni keyrt bíl í fyrsta sinn á aurunum í Raftagili, undir leiðsögn pabba.

Þú vannst hjá Rarik í 40 ár, sinntir vélarkeyrslu og gekkst vaktir. Veður gátu verið vond og bjallan hringdi á nóttum. Rafmagn var skammtað og ekki voru allar nætur svefnsamar. Mér eru minnisstæð jólin þegar þú varst að vinna. Beðið var með að borða matinn á aðfangadagskvöld og jólapakkarnir undir trénu biðu einnig. Spennan hjá okkur systkinum var óbærileg. Mamma hafði ofan af fyrir okkur með skemmtilegum sögum og kertaljós voru tendruð. Fjarvarmaveitan átti hug þinn allan og sinntir þú ýmsum verkefnum í kyndistöðinni.

Hjá Rarik eignaðist þú marga góða vini til lífstíðar. Ánægja þín í vinnunni var ómæld. Þú varst stoltur af fyrirtækinu Rarik þar sem þú varst heiðraður fyrir 40 ára starf. Gullúrið var áletrað á bakhliðinni. Það var einungis sett upp spari.

Þú varst bókhneigður. Kiljan-safnið átti sína hillu í stofunni. Þú last Íslandsklukkuna og hlustaðir á plöturnar líka. Ég eignaðist þetta plötusafn síðar ásamt Gullna hliðinu. Bækurnar Sjálfstætt fólk og Bréf til Láru vitnaðir þú oft í.

Þið mamma ferðuðust á erlenda grund. Frakkland, Ítalía, Garda-vatnið, Spánn og Mallorca. Þið mamma fóruð yfirleitt í bústað á Laugarvatn eina viku að sumri til. Þú hélst alltaf upp á stórafmæli þín, bauðst allri fjölskyldunni, mökum þeirra og börnum í Perluna og leikhús. 90 ára afmæli þitt hélst þú upp á í Haukalindinni hjá Svanhildi systur og bauðst öllu þínu besta fólki. Þar var gleði þín og gæska við völd.

Barnabörnum þínum fylgdist þú vel með, barst umhyggju fyrir þeim og lagðir til að þau menntuðu sig til góðra starfa.

Elsku pabbi. Þú umvafðir okkur fjölskylduna alla daga. Alla tíð hélst þú í hönd mína þegar á þurfti að halda. Ég hélt í hönd þína í veikindum þínum. Þú kvaddir, saddur þinna lífdaga, umvafinn fjölskyldunni.

Guð verndi þig og styrki að eilífu amen, þetta voru þín lokaorð.

Hafðu þökk fyrir allt og allt elsku pabbi minn.

Elsku mamma mín. Missir þinn er mikill. Við systkinin munum vernda þig og styrkja, eins og pabbi sagði alltaf.

Þín dóttir,

Jóna Kristín Freysteinsdóttir, og Pétur Unnsteinsson, tengdasonur.