Guðni Ásmundsson var fæddur 9. september árið 1938 í húsinu Borg á Djúpavogi. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði 8. október 2022.
Foreldrar hans voru Ásmundur Guðnason frá Djúpavogi og Guðfinna Sigurveig Gísladóttir frá Kambsnesi í Dölum. Hann átti 2 systkini, Ásgerði Ásmundsdóttur og Örn Ásmundsson, þau eru bæði látin.
Hann bjó á Djúpavogi til ársins 1945 þegar hann fluttist til Reykjavíkur með fjölskyldu sinni. Hann flutti til Hnífsdals sumarið 1959 og svo til Ísafjarðar árið 1988.
Hann kláraði skólagöngu sína í Reykjavík og að loknu grunnnámi hóf hann nám við húsasmíði sem hann lauk svo á Ísafirði árið 1962. Guðni starfaði lengst af við húsasmíðar, hann var húsasmíðameistari og vann seinni ár við verslunarstörf og húsvörslu Menntaskólans á Ísafirði. Hann var mjög virkur í Litla leikklúbbnum á Ísafirði, var einn af stofnendum Golfklúbbs Ísafjarðar, hann starfaði með Bridgefélagi Ísafjarðar og lét til sín taka í hinum ýmsu félagsstörfum í Hnífsdal og á Ísafirði
Hinn 24. desember 1958 kvæntist Guðni Sigrúnu Vernharðsdóttur, f. 29. júní 1940, þau eiga 4 börn: Ásmundur Guðnason, fæddur 1959, kvæntur Ólínu Jónsdóttur og eiga þau 2 börn og 1 barnabarn. Vernharð Guðnason, fæddur 1962, kvæntur Ester Martinsdóttur og eiga þau 3 börn og 1 barnabarn. Margrét Katrín Guðnadóttir, fædd 1972, gift Jóni Arnari Sigurþórssyni og eiga þau 3 börn. Jóhanna Jóhannesdóttir, kjördóttir þeirra, fædd 1967, gift Pálma Kristni Jónssyni og eiga þau 3 börn og 5 barnabörn. Ásta Albertsdóttir, stjúpdóttir Guðna, fædd 1956, gift Kare Engelsen. Hún á 4 börn og 9 barnabörn. Guðný Ragnheiður Hólmgeirsdóttir, dóttir Sigrúnar, gift Sigurði Mar Óskarssyni og eiga þau 4 börn og 5 barnabörn.
Útför Guðna fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, 15. október 2022, klukkan 13.
Ó, pabbi minn, þú ávallt tókst mitt svar.
Aldrei var neinn svo ástúðlegur eins og þú.
Ó, pabbi minn, þú ætíð skildir allt.
x
Liðin er tíð, er leiddir þú mig lítið barn.
Brosandi blítt, þú breyttir sorg í gleði.
x
Ó, pabbi minn, ég dáði þína léttu lund.
Leikandi kátt, þú lékst þér á þinn hátt.
Ó, pabbi minn, hve undursamleg ást þín var.
Æskunnar ómar ylja mér í dag.
(Þorsteinn Sveinsson)
Við tvö áttum einstakt samband, þú varst mér yndislegur faðir, Jóni Arnari varstu virkilega góður tengdafaðir og hlýr og gefandi afi varstu börnunum okkar.
Það sem við brösuðum ekki saman, mér er sagt að þú hafir farið með mig á skíði fyrst þegar ég var tveggja ára gömul og áttum við margar skíðastundirnar eftir það. Ég man hvað það var mikið ævintýri að fara með þér í fjallið á kvöldin í upplýstar brekkurnar. Líka hvað þú varst reiður þegar ég fór í fyrsta sinn upp í efri lyftu, ég var svo hrædd og missti stjórnina og brunaði alla leiðina niður og náði einhvern veginn að standa í lappirnar. Þegar þú komst til mín bálreiður og ég háskælandi þá skiptir þú skapi á nóinu og hughreystir mig og huggaðir. Þú varst náttúrulega bara hræddur eins og ég, en beint upp aftur skyldum við fara aftur, ekki mátti láta hræðsluna sitja í sér. Við fórum saman á skauta og þú kenndir mér golf. Þú kenndir mér líka að spila og ófáir rakkarnir, mannarnir og kanarnir voru spilaðir og mjög glatt var á hjalla þegar við þrjú spiluðum manna, ég, þú og Jón Arnar, þá var oft erfitt að hætta. Þú varst svo þolinmóður við mig þegar ég stalst í dótið þitt í bílskúrnum til að byggja kofa á sumrin. Ófáa hamrana, smíðabeltin og naglapakkana þurftir þú að sækja út á kofasvæði, aldrei fékk ég miklar skammirnar. Þú studdir mig líka í leiklistinni og tókst að þér leikstjórn eftir pöntunum dótturinnar. Ég hugsa oft um morgnana sem við áttum saman, oftar en ekki varst þú með klárt te fyrir mig og ristað brauð með osti þegar ég kom fram á morgnana. Ég minnist einnig allra skemmtilegu ferðalaganna sem ég fór með þér og mömmu. Þið sýnduð mér landið og kennduð mér að meta náttúrufegurðina. Svo er það dýrabrasið á mér, kanínur fékk ég að hafa í bílskúrnum hjá þér og naggrísi og hunda í rúminu mínu. Þér fannst ekkert tiltökumál að leyfa stelpunni þetta.
Þú studdir mig í einu og öllu, þú varst stoltur af mér þegar ég fór í dýralæknanám til Danmerkur. Þú reyndist okkur Jóni Arnari svo vel þegar við fórum að vera saman og fóta okkur í lífi hinna fullorðnu. Þú aðstoðaðir okkur heilmikið við húsið okkar, þú og mamma keyrðuð mig um allt við dýralæknastörf þegar ég var bíllaus heima á Íslandi. Þið pössuðuð börnin okkar alltaf þegar á þurfti að halda, bæði á Ísafirði og í Borgarnesi, og ekki er hægt að sleppa því að minnast allra þeirra góðu stunda sem við áttum í Fljótavíkinni saman, ég man að þér fannst þó ekkert sérstaklega gaman að veiða, en varst þó hin mesta aflakló ef þú fékkst í það verkefni.
Þú og mamma komuð í nokkrar heimsóknir til okkar Jóns Arnars í Danmörku. Okkur er mjög minnisstæð ferðin okkar sumarið 2000 þar sem við eyddum þjóðhátíðardegi Íslendinga á grunsamlegri strönd í Austur-Þýskalandi og þræddum markaðina í Póllandi með gullkistuna góðu sem þið Jón Arnar fenguð að bera saman. Ferðir ykkar í Borgarnes voru óteljandi og algerlega ómetanlegt fyrir okkur fjölskylduna að hafa ykkur hjá okkur. Þú varst mikil fjallageit og þig var lengi búið að dreyma um að komast í Lónsöræfi og er Jón Arnar mjög þakklátur fyrir að hafa fengið að fara í þá draumaferð með þér þegar þú varst orðinn 70 ára.
Mig langar að setja hér með tvö erindi úr uppáhaldsljóðinu þínu, Stjörnufákur, eftir Jóhannes úr Kötlum. Þú last þetta ljóð fyrir mig þegar ég var barn og við táruðumst saman yfir örlögum hins fagra stjörnufáks.
hristi taglið, stutt og rotið,
snoðinn færðist flipi að vanga,
- flæddi um myrkrið kraftaverk:
Hokinn karl varð hraustur strákur,
húðarbikkjan stjörnufákur.
Fram undan var leiðin langa,
- ljómaði morgunsólin sterk.
x
Fór á bak hinn frjálsi piltur,
- frýsaði jórinn logagylltur
og af stað með stormsins hraða
stökk í bjarta norðurátt.
Hafsins voðann heitur þæfði,
höfuð rautt við skýin gnæfði.
Heyra mátti um geiminn glaða
glymja tíðan hófaslátt.
(Jóhannes úr Kötlum)
Þú lékst við mig, þú söngst fyrir mig, þú last fyrir mig, þú hlúðir að mér, þú kallaðir mig ljósablómið þitt, þú sýndir mér elsku þína á hverjum degi og ég mun alltaf geyma þig í hjarta mér
Þín dóttir,
Margrét Katrín.