Líney Guðmundsdóttir fæddist 27. febrúar 1919 á Austarahól í Flókadal í Skagafirði. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sólvangi í Hafnarfirði 3. október 2022.

Foreldrar hennar voru Ólöf Anna Björnsdóttir, f. 29.9.1895, d. 10.3. 1989, og Guðmundur Jónsson, f. 26.10. 1893, d. 26.7.1927. Ólöf bjó lengi í Neskoti í Fljótum og síðar í Reykjavík. Systkini Líneyjar voru: Eiður, f. 13.4. 1913, d. 16.2. 1922; Hartmann, f. 5.5. 1915, d. 22.12. 1922; Páll Ragnar, f. 23.4. 1917, d. 25.5. 2012; Axel, f. 23.9. 1924, d. 24.4. 2007, hálfsystir þeirra Guðrún Hafliðadóttir, f. 15.12. 1932, d. 17.8. 2020.

Hinn 1. júní 1938 giftist Líney Árna Eiríkssyni, f. 6.12. 1905, d. 28.1. 1967, frá Reykjarhóli í Vestari-Fljótum og bjuggu þau þar þangað til þau fluttu til Reykjavíkur haustið 1962. Börn þeirra eru: 1) Ester, f. 27.5. 1941, eiginmaður hennar var Hilmar Jónasson, f. 14.4. 1934, d. 16.3. 2016. Börn þeirra eru: a) andvana fædd dóttir 20.12. 1971, b) Jóhanna Eldborg, f. 23.1. 1973, c) Árni Ásmundur, f. 10.10. 1976. 2) Haukur, f. 23.4. 1945. Fyrri eiginkona hans Anna Reykdal, f. 30.4. 1949. Sonur þeirra er Þór H. Reykdal, f. 6.5. 1971. Seinni eiginkona Hauks var Jórunn Oddsdóttir, f. 10.2. 1938, d. 26.3. 2018. 3) Fóstursonur; Benedikt Frímannsson, f. 27.7. 1930, d. 10.2. 2017, eiginkona hans var Ester Guðjónsdóttir, f. 4.4. 1934, d. 2.12. 2012. Börn þeirra eru a) Rebekka, f. 21.1. 1957, b) andvana fæddur drengur 16.4. 1958, c) Rakel, f. 4.11. 1959, d) Kristín, f. 19.6. 1962, e) Líney, f. 3.10. 1963.

Útförin fer fram frá Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu, Hátúni 2, Reykjavík, í dag, 19. október 2022, klukkan 15.

Elskuleg amma okkar kvaddi þetta líf á afmælisdegi nöfnu sinnar Líneyjar systur okkar þann 3. október - 103 ára og rúmlega sjö mánaða. Það er erfitt að finna nógu falleg lýsingarorð um elsku Líneyju ömmu, svo mikil áhrif hafði hún á okkur systurnar. Hjartahlýjan sem skein af henni var einstök, góðmennskunni og þessum fallega farvegi sem hún gaf okkur gleymum við aldrei. Við fáum hlýtt í hjartað að segja nafnið hennar og rifja upp samverustundirnar með henni, þær eru svo dýrmætar. Pabbi okkar, Benedikt Frímannsson, var svo lánsamur að koma inn á heimilið Reykjarhól í Fljótum aðeins sjö ára gamall, þar sem Líney amma var fyrir, 18 ára snót heitbundin syninum á bænum, Árna Eiríkssyni. Þau urðu fósturforeldrar pabba og kallaði hann Árna alltaf fóstra sinn. Pabbi dvaldi á Reykjarhóli við mikið ástríki fósturforeldra sinna til 19 ára aldurs.

Líney amma og Árni afi brugðu búi 1962 og fluttu til Reykjavíkur á Bergþórugötu 25. Amma missti mann sinn árið 1967, aðeins 62 ára gamlan, eftir erfið veikindi. Ein af fyrstu minningunum sem við systur áttum af Bergþórugötunni var að koma í sunnudagskaffið hjá Líneyju ömmu og Árna afa. Það var mikil tilhlökkun að hitta ömmu þar sem hún bar fram bakkelsið með bros á vör og hálfhljóp við fót, dillandi hlátur hennar var svo innilegur. Pönnukökurnar hennar voru þær bestu.

Þegar við fjölskyldan fluttum vestur í Dali vorum við alltaf velkomin í gistingu hjá ömmu. Það var alltaf opið hús, hlýja, matur og spjall, stundum var peningaseðli laumað í lófana við brottför og sagði hún að hún vissi ekkert hvað hún ætti að gera við þennan pening, það væri betra að við notuðum hann. Líney amma kom vestur í Dali til okkar og var alltaf til í smá ævintýri með okkur systrum svo sem að fara í berjamó og tína berin í vettling því boxin gleymdust heima. Fara í göngutúr niður að sjó léttklæddar í blíðskaparveðri - lenda í hellidembu á heimleiðinni, koma heim rennblautar og amma skellihlæjandi. Þessi atvik voru oft rifjuð upp og hlegið dátt. Það var dásamlegt nú seinni árin að rifja þau upp með henni.

Rakel valdi hjá henni tvo vetur vegna skólagöngu 1974-1976 og var yndislegt að eiga ömmu að þennan tíma. Oft var gestkvæmt á Bergþórugötunni og alltaf tók amma á móti öllum með bros á vör og enginn fór þaðan án þess að hafa fengið kræsingar hjá henni. Hún hafði alltaf mikinn áhuga á okkur og fjölskyldum okkar og þegar hún var kvödd eftir heimsóknir okkar bað hún ávallt um hlýjar kveðjur í allar áttir. Við vissum hvert þær kveðjur áttu að fara því áhuginn á börnum og barnabörnum okkar systra var svo einlægur. Við systur minnumst atvika sem lýsa hennar einstöku hjartahlýju, t.d. þegar pabbi okkar varð 84 ára og við systur fórum vestur í Stykkishólm þar sem hann bjó síðustu árin bað hún okkur að koma við hjá sér og taka með pönnukökur fyrir elsku drenginn sinn. Jólakortin sem hún skrifaði til okkar voru svo full af hlýju og kærleika og gott að ylja sér við lestur þeirra nú þegar hún er farin.

Amma flutti af Bergþórugötunni í Suðurholt 5 í Hafnarfirði og átti þar skjól í sinni íbúð í húsi dótturdóttur sinnar Jóhönnu og fjölskyldu hennar. Þarna bjó hún þar til í ársbyrjun 2020 þegar hún flutti á hjúkrunarheimilið Sólvang í Hafnarfirði - þar átti hún góða daga og fékk góða umönnun. Síðustu mánuðina fór að halla undan fæti - líkaminn var búin að fá nóg en hugurinn alltaf skýr. Hún er núna búin að fá langþráða hvíld, söknuðurinn er sár en yndislegar minningar um einstaka dásamlega ömmu lifa. Sendum börnum hennar Ester og Hauki og þeirra fjölskyldum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Hafðu þökk fyrir allt elsku Líney amma.

Þínar Bennadætur,

Rebekka, Rakel Kristín og Líney.