Guðmundur Tryggvi Jakobsson fæddist 18. febrúar 1958 í Hafnarfirði. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar 10. október 2022.

Foreldrar Guðmundar eru Jakob Helgason, bólstrari og garðyrkjubóndi, f. 1. mars 1930, og Birna Ingunn Guðmundsdóttir, garðyrkjubóndi og húsfreyja, f. 19. febrúar 1934.

Guðmundur bjó fyrstu fjögur árin í Kópavogi og þaðan fluttist fjölskyldan í sveitina Gufuhlíð í Reykholti í Biskupstungum, þar ólst hann upp. Guðmundur og Kristbjörg hófu sambúð á Aðalgötu 23 í Keflavík, fluttu svo víðsvegar um Keflavík þar til þau fluttu á Garðbraut 70. Síðustu árin bjó Guðmundur á Beykidal í Reykjanesbæ.

Guðmundur var þriðji í röðinni af sex systkinum, hin eru: Ingigerður, f. 17. desember 1952, Jón Már, f. 30. júlí 1956, Hildur, f. 5. febrúar 1964, Helgi, f. 9. desember 1965, og Jóhanna, f. 10. júní 1971.

Sambýliskona Guðmundar var Kristbjörg Stefánsdóttir, f. 15. febrúar 1961. Dætur þeirra eru: 1) Birna Margrét, f. 10. ágúst 1980, sambýlismaður hennar er Ingvar Þór Björgvinsson, f. 15. ágúst 1977, dóttir þeirra er Elísabet Sóley, f. 29. nóvember 2014. 2) Sara Dögg, f. 1. ágúst 1984, sonur hennar er Tryggvi Jökull Elísson, f. 5. júlí 2003.

Guðmundur lauk grunnskóla og síðar tók hann meiraprófi og öll vinnuvélaréttindi. Lengst af starfaði hann sem vélamaður en sinnti einnig öðrum fjölbreyttum störfum um ævina, þar má nefna á vertíð, sjómennsku, verslunarstörf, sprunguviðgerðir og kjötiðn. Hann fór til Noregs og starfaði þar við vélavinnu í tæp tvö ár. Síðustu ár starfaði hann hjá ISAVIA. Víðsvegar um Reykjanesbæ má sjá jarðvinnu og lóðir eftir Guðmund og holtagrjót sem hann setti víða niður.

Útför Guðmundar Tryggva Jakobssonar fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 20. október 2022, kl. 13.

Elsku pabbi minn. Ég er uppfull af sorg og söknuði að skrifa þessi orð en á sama tíma er þakklæti mér efst í huga. Ég gleymi ekki þeim degi þegar mamma og Birna sóttu mig í vinnuna fyrir ári síðan og sögðu mér að þú hefðir greinst með briskrabbamein. Þá tóku við átakanleg og erfið veikindi, aðgerðir og lyfjagjafir en þú varst alltaf svo ákveðinn í að þú kæmist í gegnum þetta. Elsku pabbi minn, ég er svo stolt af því hversu jákvæður og æðrulaus þú varst í gegnum þetta allt. Eftir erfiðar aðgerðir tókum við ákvörðun um að þú færir heim til mömmu og við yrðum saman í þessu. Ég er óendanlega þakklát mömmu minni fyrir að hafa gefið okkur tækifæri til að vera saman heima hjá henni þína síðustu mánuði. Á þessum mánuðum fékk ég tækifæri til að hugsa um þig og áttum við saman góðar stundir.

Morgnarnir voru okkar tími. Ég rúllaði þér fram í hjólastólnum, hellti upp á kaffi, smurði kæfubrauð og við horfðum út í móann og ræddum heimsmálin. Þetta eru mér dýrmætar minningar í dag. Svo lágum við saman flest kvöld og þú reyndir að horfa á sjónvarpið og ég prjónaði og ávallt hrósaðir þú mér fyrir prjónaskapinn, sama hversu misheppnaður hann var.

Pabbi minn, við höfum alltaf verið bestu vinir og mér finnst við vera svo lík á svo margan hátt. Mér hefur alltaf þótt nærvera þín og samverustundir með þér svo skemmtilegar. Pabbi minn, við höfum átt lífið saman en þessir síðustu mánuðir þínir eru mér mjög dýrmætir. Við gerðum gott úr ómögulegum aðstæðum og ég fékk að fylgja þér í Sumarlandið. Elsku pabbi minn, ég og sonur minn búum svo vel að hafa átt þig sem föður og afa. Pabbi, það er svo tómt og sárt hérna án þín.

Takk fyrir að gefa mér öruggt og ástríkt heimili.
Takk fyrir alla vinnuna sem þú lagðir á þig svo ég gæti fengið allt.
Takk fyrir að kynna mig fyrir sveitinni og allt sem hún hefur upp á að bjóða.
Takk fyrir að kenna mér vinnusemi og hjálpsemi.
Takk fyrir að kynna mig fyrir fólki sem var þér mikilvægt og mótaði þig á svo góðan hátt og vonandi mig líka.
Takk fyrir alla rúntana á mótorhjólinu, það var svo gaman.
Takk fyrir að kenna mér að stundum má fara yfir mörkin og stundum ekki, 120, það er ekki mikið!
Takk fyrir ísbíltúrana þar sem þú fórst með mig um borð í báta, heimsóttum sorpeyðingarstöðina, fórum upp á völl, heimsóttum verkstæði og alls konar staði þar sem þú þekktir mann og annan.
Takk fyrir að leyfa mér að fá kött, páfagauka og öll hin dýrin og hafa gaman af mínum skýringum á dýrahaldi, eins og til dæmis eilífu fjaðratímabili páfagauka.
Takk fyrir að taka niður tjaldið þegar ég hafði mig ekki í það, og hafa gaman af því.
Takk fyrir að gefa mér kofa í kerrunni þinni þegar mig langaði í kofa.
Takk fyrir að leyfa mér að vera með leikherbergi í bílskúrnum með allt barbíið mitt.
Takk fyrir að svæfa mig, klóra bakið og sussa mig í svefn.
Takk fyrir að segja mér ruglumbullusögur.
Takk fyrir að koma mér í leikskólann með því að segja að þú myndir villast ef ég hjálpaði þér ekki að rata.
Takk fyrir hjálpina með viðhald á öllum íbúðunum sem ég hef búið í.
Takk fyrir alla bílana sem þú og mamma hafa gefið mér og takk fyrir óteljandi rafgeyma. Alltaf komstu brunandi með nýjan rafgeymi þegar hinn var botnfallinn því ég gleymdi alltaf að slökkva á ljósunum.
Takk fyrir að vera svona dásamlegur afi við Tryggva Jökul, leika við hann í alls konar leikjum, geimveruleik, feluleik og horfa á allar myndinar saman og spóla yfir bankann og bréfin.
Takk fyrir að girða lóðina í Garðinum svo Tryggvi gæti leikið frjáls, smíða kastalann, róluna og heita pottinn.
Takk fyrir að draga Tryggva á gröfunni um allan Garðinn og kíkja á hestana.
Takk fyrir að vera femínisti og hafa alltaf réttindi kvenna að leiðarljósi.
Takk fyrir að segja mér frá þér á yngri árum á einlægan og opinn hátt.
Takk fyrir að kalla mig Sessu og Skruddu og láta mér líða eins og ég sé einstök.
Takk fyrir allan húmorinn.
Takk fyrir að standa alltaf með mér og hafa trú á mér.
Takk fyrir að hjálpa mér og Tryggva Jökli að eignast öruggt heimili.
Takk fyrir að kenna mér að greina rétt frá röngu.
Takk fyrir að gera mig að mér.
Takk fyrir að vera heimsins besti pabbi.

Hvíldu í friði elsku pabbi minn. Við vitum bæði að við munum hittast aftur í Sumarlandinu.

Gef að stjörnurnar skíni, svo aldrei ég týni
því sem geymi í hjarta mér enn.
Gef að stjörnurnar skíni, svo aldrei ég týni
því sem geymi í hjarta mér enn.
Mitt ljós, mitt fegursta augnayndi,
Gef örlög okkur saman bindi.
Eftir regnið að springi út blóm,
því án þín virðist veröldin tóm.
Í þér hef ég fundið hinn fegursta hljóm.

Og ef vegur minn liggur til veraldar enda
veit ég hjarta mitt kallar á þig.
Já, ef vegur minn liggur til veraldar enda
veit ég hjartað það kallar á þig
Á þig, mitt fegursta augnayndi,
Gef örlög okkur saman bindi.
Eftir regnið að springi út blóm,
því án þín virðist veröld mín tóm.
Í þér hef ég fundið hinn fegursta hljóm.




Þín dóttir

Sara Dögg Guðmundsdóttir.