Kristín Þorfinnsdóttir fæddist 21. maí 1958 á Selfossi. Hún lést 8. október 2022 á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi.

Foreldrar hennar voru hjónin Þorfinnur Tómasson, ökukennari, f. 24. maí 1920, d. 1. mars 2011, og Magnea Guðmundsdóttir, húsfreyja, f. 20. júlí 1919, d. 9. jan. 2000.

Kristín giftist Kristni Pálssyni, byggingameistara, f. 27. desember 1955, þann 21. maí 1978.

Systur Kristínar voru 1) Vilborg Þorfinnsdóttir, f. 14. ágúst 1947, d. 28. maí 2003. Hún var gift Skúla Valtýssyni og eru börn þeirra: a) Þorfinnur Skúlason, f. 21. mars 1971, kvæntur Kristrúnu Höllu Helgadóttur. Dætur þeirra eru Embla Þorfinnsdóttir, f. 6. apríl 1997, Kristín Þorfinnsdóttir, f. 3. september 2004 og Magnea Þorfinnsdóttir, f. 15. mars 2006. b) Halldóra Skúladóttir, f. 18. júní 1976, gift Erlendi Stefánssyni. Dætur þeirra eru Vilborg Erlendsdóttir, f. 14. nóvember 2003 og Vigdís Helga Erlendsdóttir, f. 21. júní 2009. 2) Hjördís Þorfinnsdóttir, f. 16. júní 1953. Sambýlismaður hennar er Agnar Pétursson. Börn Hjördísar með fyrrverandi eiginmanni sínum Guðmundi Inga Karlssyni: a) Karl Guðmundsson, f. 10. apríl 1974, kvæntur Emilíu Borgdórsdóttur. Börn þeirra eru Ingi Snær Karlsson, f. 18. febrúar 2003, Bóas Karlsson, f. 7. júlí 2005, Júlía Karlsdóttir, f. 6. ágúst 2010 og Magni Þór Karlsson, f. 26. júlí 2012. b) Magnea Þóra Guðmundsdóttir, f. 17. mars 1978, gift Halldóri Laxness Halldórssyni. Börn þeirra eru Guðný Halldórsdóttir, f. 7. október 2013, Flosi Halldórsson, f. 18. apríl 2017 og sonur Halldórs er Kári Halldórsson, f. 10. febrúar 2011. c) Elín Guðmundsdóttir, f. 9. febrúar 1984 gift Benedikti Gröndal. Börn þeirra eru Hjördís Heiða Gröndal, f. 8. september 2017 og Þorfinnur Karl Gröndal, f. 28. apríl 2020 og sonur Elínar er Tómas Ægir Theodórsson, f. 5. apríl 2007.

Kristín er fædd og uppalin á Selfossi. Hún lauk verslunarprófi frá Verzlunarskóla Íslands. Hún starfaði sem bankaritari og gjaldkeri hjá Iðnaðarbanka Íslands á Selfossi frá stofnun hans. Á árunum 1987-89 annaðist hún veðurathuganir á Hveravöllum ásamt eiginmanni sínum. Hún var verslunarstjóri hjá versluninni Kjarabót á Selfossi og var bókari hjá KPMG enduskoðun. Á árunum 1997-98 starfaði hún hjá Sameinuðu Þjóðunum í Angóla. Lengst af starfaði Kristín sem sjálfstæður bókari.

Kristín tók þátt í ýmsum félagsstörfum. Hún var formaður Landssambands íslenskra vélsleðamanna, sat í Náttúruverndarráði Íslands og var gjaldkeri hjá suðurlandsdeild Ferðaklúbbsins 4x4. Kristín var virkur meðlimur í Lionsklúbbnum Emblu á Selfossi, var umdæmisstjóri 2010-11 og svæðisstjóri á Suðurlandi 2020-21. Auk þess gegndi hún mörgum embættum í umdæmisstjórn og fjölumdæmisráði.

Útför Kristínar fer fram frá Selfosskirkju í dag 21. október 2022 kl. 14.

Það er sárt að sjá á eftir fjölskyldumeðlimum í fullu fjöri kallaða úr þessu lífi of fljótt. Aðeins liðu tveir mánuðir frá því að móðursystir okkar og mágkona greindist með krabbamein og þar til hún lést. Kristín fæddist á Selfossi þann 21. maí árið 1958, yngst þriggja systra hjónanna í Ártúni 11, Þorfinns og Magneu. Heimilið var haganlega staðsett og þjónaði sem eins konar umferðarmiðstöð fyrir uppsveitirnar. Gestrisni, hlýja og glaðværð einkenndi fjölskyldubraginn og varð veganesti hennar út í lífið.

Kristín fór í Verzlunarskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með verslunarpóf og eignaðist vinkonuhóp sem hefur haldið góðu sambandi út lífið. Eftir útskriftina fékk hún starf við nýstofnaðan Iðnaðarbanka á Selfossi og starfaði þar í samheldum hópi fólks í hátt á áratug. Hún kynntist Kidda og þau hófu búskap í Ártúninu en þeim var ekki gefið barnalán og því leiddist líf þeirra fljótlega inn á ævintýralegar brautir. Þau tóku að sér veðurathuganir inni á miðju hálendi Íslands, á Hveravöllum. Sú hugmynd hafði kviknað á fjölmörgum ferðum þeirra um hálendið. En á Hveravöllum urðu þau fljótt eins og vin fyrir ferðafólk og bændur sem áttu leið um. Síðar lá svo leiðin út til Afríku, til Mósambík og Angóla, þar sem Kiddi hóf störf fyrir Sameinuðu Þjóðirnar og Kristín fylgdi síðar í kjölfarið og starfaði honum við hlið.

Fyrir okkur frændsystkinin var þetta líf töfrum hulið. Þau áttu stóra fjallabíla og komu okkur oft til aðstoðar þegar keyra áttitilSelfoss á jóladag í ófærð. Minningar um að hafa verið dreginn um á vélsleða, í brakandi frostblíðu á skíðum uppi á Hellisheiði, eru eins og úr draumi. Dugnaður og félagsandi Kristínar var slíkur að hún gerðist formaðurLandssambands íslenskra vélsleðamanna,þá tók hún að sér störf fyrirFerðaklúbbinn 4x4 og síðar fyrir Lionshreyfinguna. Ekki var óvanalegt að heyra af þeim hjónum á ferð inn á Langjökul þar sem oft var gist í skálanum Slunkaríki í góðum hópi fjallafólks en þar eignuðust þau marga góða vini.

Kristín var glaðlynd að eðlisfari og reyndi alltaf að gera það besta úr málum ef eitthvað bjátaði á. Hún var hlý og bar aldrei kala tilneins. Henni var tamt að nota eignarfornafnið _minn og _okkar þegar hún talaði um annað fólk og gerði það þannig að sínu. Hún ræktaði sambandið við dætur okkar vel og var þeim sem önnur amma. Kom oft í heimsókn og létti undir þegar hún gat. Myndir af þeim og sögur sýndi hún gjarnan öðrum og var stolt af afrekum þeirra og göngu í gegnum lífið. Við nutum enn meiri samvista við Kristínu þegar þau hjón fluttu til Hafnarfjarðar. Oft var grillað og okkur ósjaldan boðið í mat eða hún birtist óvænt í kaffi. Þau Kiddi áttu alltaf fullar frystikistur af mat sem kannski var vani frá Hveravallaárunum þegar koma þurfti sér upp forða fyrir veturinn.

Síðari hluta ævinnar starfaði Kristín sjálfstætt sem bókari en vinnusemi var henni í blóð borin. Hún vann mikið, fór snemma á fætur og var alltaf að. Samvinna hennar við föður okkar, sem rak bókhaldsfyrirtæki í Hafnarfirði fram á efri ár, var farsæl og gerði honum kleift að halda áfram lengur að störfum en hann hefði getað einn. Til gamans sagðist hún stundum vera af _drífa-sig-fjölskyldunni. Kristín var aldrei verkkvíðin. Ekkert verk var henni ofviða en til hliðar við sín eigin störf var hún einnig á vaktinni og vann ófá handtökin við verktakafyrirtæki þeirra hjóna. Þegar smiðir og verkafólk frá Póllandi og Litháen tók að streyma til landsins með fjölskyldur sínar og hófu störf við fyrirtækið lagði Kristín sig í líma við að greiða götu þeirra í nýju landi á allan hátt sem hún gat, þar sýndi sig gestrisni hennar og umhyggja fyrir öðrum.

Síðustu árin bjó Kristín á Borg þar sem hálendið blasir við í bakgarðinum. Þar sem gott var að halda hunda og láta sig dreyma um fjallaferðir sem urðu þó færri eftir því sem árin liðu. Kristín gerði sér grein fyrir hvert stefndi þegar hún fékk þær óyndisfréttir síðla sumars að krabbamein hefði dreift sér um allan líkamann. En andi hennar var óbrotinn og hún tók fréttunumaf æðruleysi, lagði drög að því hvernig hún vildi haga jarðarförinni og kallaði okkur systkinin til sín til þess að verða við sínum hinstu óskum. Vonin um að halda í lífið hvarf þó aldrei. Þegar við hittum hana síðast á HeilbrigðisstofnunSuðurlands þremur dögum fyrir andlátið hafði húná orði að hún væri nú kannski ekki að fara að vinna mikið núna en kannski gæti hún haldið til heima við eitthvað áfram og hugsað um dýrin. Við kveðjum ástkæra móðursystur okkar og mágkonu með söknuði og sendum henni hlýjar kveðjur inn í hennar hinstu ferð.

Þorfinnur Skúlason og Kristrún Halla Helga, Halldóra Skúladóttir og Erlendur Stefánsson, Skúli Valtýsson.