Alma Levý Ágústsdóttir fæddist í Ánastaðaseli á Vatnsnesi 24. ágúst 1929. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Hvammstanga, 13. október 2022.

Alma var dóttir hjónanna Ágústs Frímanns Jakobssonar, f. 10. júní 1895, d. 30. nóv. 1984, og Helgu Jónsdóttur, f. 6. sept. 1895, d. 26. ágúst 1973. Nokkurra vikna gömul var Alma send til fósturs hjá hjónunum Eggerti J. Levý, f. 30. mars 1875, d. 28. nóv. 1953, og Ögn Guðmannsdóttur, f. 1. júlí 1877, d. 28. feb.1955, að Ósum, Vatnsnesi, þar sem hún dvaldist fram á fullorðinsár.

Alsystkini Ölmu voru: 1) Unnur, f. 1920, d. 2002, 2) Jakob Gísli, f. 1921, d. 1994, 3) Ósk, f. 1923, d. 2008, 4) Jón, f. 1924, d. 2016, 5) Þóra, f. 1927, d. 2014, 6) Sigurbjörg Lilja, f. 1931, d. 1999, 7) Jóhanna Birna, f. 1931, d. 1999, 8) Anna, f. 1936, d. 2018.

Uppeldissystkini Ölmu voru: 1) Guðmann, f. 1902, d. 1974, 2) Hólmfríður, f. 1903, d. 1994, 3) Ingibjörg Sigurjóna, f. 1906, d. 1987, 4) Jónína Magnea, f. 1907, d. 1993, 5) Jóhannes Helgi, f. 1910, d. 1981, 6) Óskar, f. 1913, d. 1999, 7) Sigurbjörg, f. 1915, d. 1998, 8) Ragnhildur, f. 1916, d. 2009.

Þann 1. júlí 1952 giftist Alma Jóni Eyjólfi Guðmundssyni, f. 13. sept. 1928, d. 16. mars 1997, frá Vesturhópshólum í Þverárhreppi.

Börn þeirra eru:
1) Agnar Eggert, f. 19. febrúar 1952, maki Elísabet Bjarnadóttir. Börn Agnars eru Eyjólfur, Björgvin og Sandra Ögn. Hann á sjö barnabörn.

2) Lára Helga, f. 7. janúar 1957, maki Benjamín Kristinsson. Börn Láru eru: Ingibjörg Alma, Jón Rafnar, Sólveig Hulda og Kristinn Arnar. Þau eiga fjórtán barnabörn og tvö barnabarnabörn.

3) Guðmundur, f. 4. desember 1960, maki Erna Magnúsdóttir. Börn þeirra eru Lilja, Björk og Jón Eyjólfur.  Þau eiga þrjú barnabörn.

4) Hólmfríður Sigríður, f. 23. nóvember 1963, maki Sigurður Þórisson. Börn þeirra eru Guðrún Þóra, Jón Þórir og Guðbjörg Alma.

5) Ágúst Þormar, f. 7. mars 1972, maki Aðalbjörg Signý Sigurvaldadóttir. Börn þeirra eru Jóna Guðbjörg og Alma Lind. Þau eiga tvö barnabörn.

Alma ólst upp við hefðbundin sveitastörf. Hún sótti nám við farskóla sveitarinnar og síðan Húsmæðraskólann á Blönduósi einn vetur.

Árið 1952 hófu Alma og Jón búskap á Þorfinnsstöðum í Þverárhreppi og bjuggu þar fram til ársins 1996. Þá fluttu þau til Hvammstanga og settust að í Svaninum, húsi sem áður hafði verið í eigu foreldra Ölmu um langt skeið.

Alma vann húsmæðra- og sveitastörf allan sinn starfsaldur. Hún hafði mikinn áhuga á matjurta-, blóma- og trjárækt. Alma var mikil hannyrðakona og stundaði bæði sauma- og prjónaskap fram á sinn síðasta dag. Alma tók virkan þátt í starfi kvenfélagsins Ársólar í Þverárhreppi um áratugaskeið, um tíma sem formaður þess og síðast sem heiðursfélagi.

Síðustu æviárin bjó Alma á dvalarheimili aldraðra á Hvammstanga.
Útför Ölmu fer fram frá Hvammstangakirkju, 21. október 2022, kl. 13.

Elsku amma nú kveðjum við þig með sorg í hjarta. Þú varst einstök manneskja, já eiginlega þannig að orð fá þér ekki lýst, allavega ein stærsta manneskjan í lífi okkar allra. Þú varst svo uppfull af ást til okkar og lífsins alls, þegar þú hlóst og fíflaðist eða fussaðir og sveiaðir, þá gerðirðu það alltaf af mikilli hlýju.

Það mun aldrei neitt koma í staðinn fyrir það að heimsækja ömmu, að knúsast og setjast svo við borðið. Amma á fullu að leggja kræsingar á borðið á meðan maður rembdist við að reyna segja henni að maður þyrfti ekki neitt, að þetta væri óþarfi. En þú vissir það auðvitað að maður vildi allar kræsingarnar og settir þær því á borðið. Þetta var eins konar dans sem við stigum í hvert sinn og þegar fleiri komu og settust við borðið þá fylgdist maður með sama dansinum aftur og ávallt kom meira á borðið. Já með hverjum rassinum sem settist við borðið komu meiri kræsingar, meiri hlátur, fleiri sögur, svo mikil hlýja, svo mikil hamingja. Þegar við minnumst þín kemur matur oft upp í hugann, eggjamjólk, ábrystir, mjólk beint úr kúnni (þessi með smá skán á floti), selkjöt, mauksoðið lambakjöt (af því þannig vildi afi það) og kleinurnar. Já allar kleinurnar, já og partar og ástarpungar og besta lagkaka í heimi (hún er það allavega núna). Við munum aldrei gleyma því þegar við vorum að heyja á túninu norðan við fótboltavöllinn í brakandi sunnanþurrki. Við bjuggum til skjólvegg úr böggunum og þú komst með heitt súkkulaði og nýsteiktar kleinur og parta, svo sat maður þarna og tróð í sig og ávallt bauðstu manni meira. Svo lá maður á meltunni þar til afi sagði jæja. Þessi saga átti sér reyndar stað öll sumur og á öllum túnum Þorfinnsstaða og við erum svo fegin að geta farið þangað aftur og aftur í huganum.
Við munum minnast hvernig þú straukst og talaðir við kýrnar, eins og þær væru vinkonur þínar sem þær auðvitað voru, hvernig þú sagðir púdda púdda þegar þú talaðir við hænurnar og hvernig þú rakst hundinn í burtu þegar hann vogaði sér á staði sem hann átti ekki að vera á. Það var ljúft að vera með ömmu í fjósinu, að sitja á bláa kassanum í mjólkurhúsinu og spjalla um allt milli himins og jarðar á meðan amma gekk frá og þreif mjólkurkerfið. Svo endaði samtalið alltaf á að amma setti svampana í gegnum mjaltakerfið og það var það mest spennandi í öllum heiminum að bíða eftir þeim þjóta í gegnum kerfið og sjá þá koma niður í glerhylkið. Þá skipti öllu máli að blikka ekki því þá gat maður misst af.
Amma bar sérstaka hlýju til kletta, allra kletta, og horfði stundum út um gluggann þegar hún fór um landið og dáðist að öllum þeim klettamyndum sem birtust henni. Hún trúði því að í þeim væri einhver kraftur og að í þeim byggi huldufólk og jafnvel skjannahvítar huldukindur. Ef einhver efaðist um það þá skipti það engu máli, hún vissi hvað hún vissi og sá það sem hún sá. Á göngu með ömmu gat maður stundum séð hana taka til í kringum kletta, hún kenndi manni að bera virðingu fyrir þeim. Um það bil einum kílómetra frá Þorfinnsstöðum er mjög sérstakur klettur kallaður Einbúi, kallaður það vegna þess að hann stendur svo einn og sér. Þar á móti var kúahaginn og í þau skipti sem við krakkarnir áttum þar leið hjá með ömmu bað hún okkur ávallt að setja stein í eina sprunguna í hurðinni á Einbúanum, handa huldufólkinu. Ætli sami kraftur hafi ekki verið í ömmu og er í öllum þessum klettum.
Amma bar virðingu fyrir öllu umhverfinu, var kannski á undan sinni samtíð og kannski meira í núinu í dag en margur myndi halda. Á göngu með ömmu var hún ávallt að tína upp alls konar plast, drasl og baggabönd, svo mörg baggabönd. Þannig að allir vasar voru orðnir fullir af böndum, þar með sagt ef hún var ekki búin að nýta bandið til að gera við girðingu á leiðinni. Já því hún amma var alltaf á iði. Eins og þegar hún tók eftir því að við vorum búin að búa til stærðarinnar snjóhús fyrir utan eldhúsgluggann, örugglega tvö hús með göngum á milli. Þá færði hún okkur nýbakaðar gyðingakökur sem við mauluðum úti í skafli. Það var dásamleg stund, að sitja í snjónum með kökurnar í rökkrinu og horfa á hana bjástra baðaða ljósi í eldhúsinu.
Við munum minnast þín amma með söknuð í hjarta en einnig ákveðnum fögnuði, því við vitum að nú leggstu við hlið afa eftir öll þessi ár. Hann þarf ekki lengur að eltast við þig til Hvammstanga og í Svaninn. Þú ert svo nálæg okkur en um leið nærri því goðsagnakennd. Þú fæddist í koti uppi á fjalli, varst gefin ellefu vikna í fóstur, flutt í reið (í kassa á hestbaki) yfir fjallið að Ósum í nóvember þegar snjóa var farið að taka. Þú kynntist afa og saman sköpuðuð þið Þorfinnsstaði. Þorfinnsstaði sem voru heimili okkar æsku. Hvernig er hægt að skapa þannig stað? Þér og afa tókst það. Að sitja við matarborðið og hlusta á þig segja sögur frá Þorfinnsstöðum var eins og að fara í messu um æsku okkar, þú áttir alltaf uppáhaldssögu fyrir hvern og einn og sagðir hana oft, það var eins og þú færir með faðirvorið þegar þú sagðir þá sögu. Já við munum sakna þín og fagna það sem eftir er, og þegar við keyrum frá Hólum næsta föstudag og brunum fram hjá Þorfinnsstöðum vitum við að þið afi munuð standa á suðurpallinum og vinka bless, eins og kóngur og drottning í ríki sínu.

Björgvin, Sólveig Hulda, Alma, Jón Rafnar, Kristinn Arnar.