Auður Ásdís Sæmundsdóttir fæddist 2. ágúst 1925 í Vestri-Leirárgörðum í Leirársveit og ólst upp í Sigtúnum á Akranesi. Hún lést á dvalarheimilinu Höfða á Akranesi 10. október 2022.

Foreldrar hennar voru Sæmundur Eggertsson frá Vestri-Leirárgörðum, f. 1896, d. 1969, og Karólína Stefánsdóttir frá Sólheimagerði í Blönduhlíð í Skagafirði, f. 1891, d. 1986. Auður átti tvo bræður sem báðir eru látnir, Svein, f. 1923, d. 2017, og Eggert, f. 1928, d. 1990.

Eiginmaður Auðar var Þórarinn Einarsson (Daddi) frá Brekkukoti á Akranesi, f. 1917, d. 2002. Auður og Daddi eignuðust fjóra syni:

1) Einar, f. 1949, kvæntur Lilju Aðalsteinsdóttur, f. 1951, d. 2015. Börn þeirra: Þórarinn, f. 1974, sem á fjögur börn, Katrín, f. 1975, sem á fjögur börn, Karólína, f. 1980, sem á þrjú börn og tvö barnabörn, og Þorvaldur, f. 1981, sem á þrjú börn.

2) Helgi f. 1950, kvæntur Guðmundu M. Svavarsdóttur, f. 1951. Börn þeirra: Ásdís Huld, f. 1974, sem á tvö börn, og Tinna, f. 1981, sem á eitt barn.

3) Þórarinn, f. 1953, kvæntur Birgittu Guðnadóttur, f. 1952. Börn þeirra: Einar, f. 1976, sem á tvö börn, Rut, f. 1979, sem á þrjú börn og Bjarki, f. 1983, sem á þrjú börn.

4) Reynir, f. 1962, kvæntur Jónu B.H. Jónsdóttur, f. 1958. Barn þeirra: Heiðdís Haukdal, f. 1990, sem á eitt barn. Fyrir á Jóna Berglindi Hólm Harðardóttur, f. 1975, hún á þrjú börn.

Auður gekk í barnaskóla á Akranesi og útskrifaðist þaðan með hæstu einkunn. 16 ára gömul hóf hún nám við Samvinnuskólann og er hún var tvítug fór hún í Húsmæðraskólann í Reykjavík.

Þegar hún var 15 ára var henni boðin vinna í Bókabúð Andrésar á Akranesi og þar starfaði hún í fimm ár. Þá vann hún á veitingahúsinu Bárunni og svo á pósthúsinu, þar til hún var fengin til starfa á bæjarskrifstofunni en þar vann hún uns hún gifti sig 20. nóvember 1948. Eftir það var Auður að mestu heimavinnandi, en vann þó annað slagið úti við, t.d. í mjólkurbúðinni og við síldarsöltun. Auður og Daddi bjuggu fyrst á Heiðarbraut 24 á Akranesi en byggðu svo hús við Heiðarbraut 31. Árið 1964 keyptu þau jörðina Ás í Melasveit þar sem þau bjuggu með blandaðan búskap. Árið 1986 fluttu þau svo aftur á Akranes. Þar vann Auður ýmis störf og sá m.a. um þvottahús Fjölbrautaskóla Vesturlands.

Auður var virk í félagsstörfum og ber þar hæst skátastarf frá unga aldri. Hún var einnig virk í starfi kvenfélagsins í Leirár- og Melasveit og átti sæti í hreppsnefnd í tvö kjörtímabil.

Auður verður jarðsungin frá Akraneskirkju í dag, 21. október 2022, kl. 13.

Elsku amma mín er nú látin. Hún var mér afar kær og minningarnar flæða til mín. Ég veit að ég er lukkunnar pamfíll að hafa verið mikið með þeim ömmu og afa. Ég er lánsöm að hafa verið náin ömmu. Fyrstu minningar mínar eru frá því þegar ég var í Ási í Melasveit þar sem þau afi stunduðu búskap. Húsið þeirra var á tveimur hæðum og það var spennandi að leika í stiganum og á efri hæðinni þar sem við frændsystkinin fengum að sofa saman í fleti. Amma og afi áttu hesta og þar vaknaði áhugi minn á hestum sem varð að aðalatriði mínu út barnæskuna. Við deildum því sameiginlegu áhugamáli og reyndar mörgum fleirum, sem flest voru tengd náttúrunni.

Amma var klár kona og las mikið. Allt heimilið þeirra afa var umkringt bókum. Þegar við fengum að gista hjá ömmu í Ási þá las hún fyrir okkur íslenskar þjóðsögur fyrir svefninn. Það voru afar spennandi sögur og mér fannst bækurnar ævafornar og merkilegar. En áður en við lögðumst í svefn þá fengum við ískalda mjólk og köku. Amma átti alltaf eitthvað gott, kökur, kex eða nammi. Seinna meir þegar amma og afi voru flutt á Akranes, þá átti þau myndbandstæki, en ekki við. Það var því afskaplega gaman að gista hjá ömmu og afa. Við fórum oft á Langasand að leita að kröbbum og skeljum og leika við öldurnar. Amma leyfði okkur að fara í vídeóleiguna, kaupa nammi og horfa á einhverja geggjaða mynd um kvöldið og mér fannst þessar stundir stórkostlega spennandi.

Þegar ég var í grunnskólanum í Heiðarskóla í Leirársveit, þá vann amma þar nokkra vetur sem gjaldkeri. Á haustin þegar allir í sveitinni voru að vinna í sláturhúsinu, fékk ég að slæpast þar og þá var amma á skrifstofunni. Þegar ég fór á heimavistina í framhaldsskólann á Akranesi var ég enn og aftur svo heppin að amma vann í þvottahúsinu fyrstu árin mín. Hvílík gæfa að hafa ömmu sína alltaf nálægt sér í gengum barnæskuna og unglingsárin. Á fjölbrautarskólagöngu minni fór ég í mat til hennar og afa einu sinni í viku. Hún eldaði oftast ýsu í raspi eða fiskibollur, enda var það í uppáhaldi hjá mér og systkinunum. Mér finnst eins og ég hafi alltaf borðað á mig gat hjá ömmu, enda var hún alltaf að bjóða mér meira og meira, og þegar ég hugsa um matinn hennar þá fara garnirnar að gaula.

Amma skapaði sérstaka ró og gott andrúmsloft. Það var griðastaður að koma til þeirra afa og vera hjá þeim bæði á Akranesi og svo seinna þar sem þau komu sér upp paradísarstað heima hjá okkur á Hlíðarfæti, niður að Tjörn. Við gróðursettum mikið af trjám, pabbi stíflaði jarðföll sem urðu að tjörnum. Svo hófst fiskeldisævintýrið. Við ræktuðum bleikjur og aðeins af urriða, slepptum í tjarnirnar og svo var selt veiðileyfi. Amma og afi stóðu vaktina og höfðu afskaplega gaman af, þau höfðu mikinn áhuga á fiskveiði. Ég og við systkinin eyddum mörgum stundum að Tjörn, bæði að leika og vinna með þeim. Gefa og fylgjast með fiskunum og öllum fuglunum í kring. Við fengum stundum að gista í hjólhýsinu og þá var amma og afi dugleg að spila við okkur eða leggja kapla. Það var alltaf friður og ró hjá ömmu.

Allt sem ég hef tekist á við í mínu lífi hefur amma alltaf sýnt áhuga. Hún spurði mig alltaf um skólann, vinnuna og seinna meir börnin. Hún gaf mér ófá ráðin og sagði mér frá sínum sorgum og sigrum. Ég fann hvað hún var alltaf stolt af mér og var óspör að segja mér hvað ég væri dugleg og hvatti mig áfram í því sem ég var að gera, sem var alveg ómetanlegt. Amma var stolt af öllum afkomendum sínum. Amma og afi komu stundum með okkur fjölskyldunni í útilegur og þau höfðu gaman að ferðast um fallega landið, en þar deilum við öðru áhugamáli saman, landinu okkar fallega. Amma átti jeppa og kölluðum við hana stundum Amma musso eða Amma dreki. Hún keyrði um fjöll og firnindi fram til níræðis aldur. Það sem við gátum hlegið að því hvað amma var mikill glanni og keyrði oftast greitt.

Amma var félagsvera og var dugleg að mæta á alls konar viðburði. Hún rúntaði um á mussonum og náði í vinkonur, sem voru hættar að keyra, á alls kyns samkomur. Hún var því ekki alltaf heima þegar maður ætlaði að kíkja á hana í heimsókn. Ef maður hringdi og boðaði komu sína, þá fór hún alltaf að vesenast í mat eða kaffi fyrir mann. Amma sagði mér að eftir sem hún eltist þá liði tíminn alltaf hraðar og hraðar. Þegar ég var unglingur skildi ég þetta ekki. En eftir að ég eignaðist börnin þá kviknaði á perunni og tíminn fór allt í einu að líða allt of hratt hjá mér líka. Ég spurði ömmu ekki fyrir löngu hvort henni fyndist tíminn enn þá líða hratt. Hún sagði að dagarnir liðu bara enn hraðar, sem er alveg magnað finnst mér.

Ef það leið langt á milli samtala okkar eða samvista þá átti ég það til að afsaka mig á þá leið að hafa ekki komið eða hringt fyrr. Amma svaraði því alltaf til, hvaða vitleysa þetta væri því hún væri engu skárri að hafa ekki sjálf hringt eða komið.

Amma var alltaf spennt að heyra göngusögurnar mínar um fjöllin. Hún sagði að það hafi ekki tíðkast að fara í fjallgöngur þegar hún var ung, það var bara farið á fjöll að smala. Ég er viss um að hún hefði verið fjallageit ef hún hefði fæðst á öðrum tíma. Hún var skáti og sagði mér frá ferðum sem hún fór sjálf í þegar hún var ung. Þau afi áttu lítið samansafn af eggjum, steinum og skeljum og svo átti hún hvalshlust sem hún sagði okkur að leggja við eyrað en þá mætti heyra í hafinu. Mér hefur alltaf þótt það ævintýralegt að skoða þetta hjá henni og afa.

Amma var alltaf með myndavélina meðferðis og vildi alltaf fá myndir af okkur eða fallegu náttúrunni. Öðrum til mikillar mæðu og óþolinmæði þannig að oftar heyrðist úr fjölskyldunni: Jæja, er þetta ekki orðið gott af myndatökum! Amma hélt bara áfram og hló. Amma skipulagði og raðaði myndunum í albúm og merkti vel og vandlega. Ég kíkti aðeins í nokkur um daginn og hvílíkur fjársjóður sem þetta er.

Þau afi náðu aðeins að ferðast til útlanda saman í seinni tíð. Ég, hafði þá nánast ekkert farið til útlanda og spurði hvort það væri ekki fallegt þar sem þau hefðu verið og þá sagði hún mér að það væri bara stundum ekkert að sjá fyrir öllum trjánum, það væri fallegra á Íslandi. Ég skildi hana ekki þá, en geri það núna.

Amma er ein af mínum helstu kvenfyrirmyndum. Hún var bóndi og gekk í öll störf, hún var einnig vel lesin og klár og vann líka skrifstofustörf. Þegar ég var ólétt, sagði hún mér eitt sinn frá því þegar hún varð ólétt af elsta drengnum, honum Einari, en þá vann hún á bæjaskrifstofunni. Þegar það fór að sjá á henni, tíðkaðist ekki að konur væru út á vinnumarkaðnum og hún varð því að hætta og halda sig heima fyrir. Við vorum sammála um að það hafi verið fáránlegt, en hún fylgdi tíðarandanum. Hún var svo mikil stelpa í sér alla tíð. Hún talaði alltaf um stelpurnar, þegar hún talaði um vinkonur sínar. Hún kunni vel við nýjungar og var mjög fær á tölvur og tæki. Hún elskaði gátur og krossgátur. Hún var mikill dýravinur, átti hundinn Lassa og köttinn Kisa. Hún sagði mér að eitt sinn hefði þeim afa verið gefin humar, en á þeim tíma var hann ekki borðaður. Hún prófaði þó að elda hann og ákvað sjóða hann eins og ýsu, en hann varð svo seigur að það var ekki hægt að borða hann og ekki einu sinni Kisi vildi borða hann. Hún var afar hjartahlý og með einstaka skapgerð, alltaf í góðu skapi og til í allt, en vildi samt ekki að aðrir væru að hafa fyrir sér. Hún meira að segja bölvaði fallega og sagði: Helvítis greyið!

Elsku amma, ég vil þakka þér fyrir allar stundirnar saman, þú hefur svo sannarlega mótað mig og ég vona að ég verði jafn lánsöm og þú í lífinu og verði jafn góð amma og þú. Þú skrifaðir alltaf svo fallegar kveðjur í afmæliskortin til mín og barnanna minna og nú kveð ég þig með sömu ævintýralegu orðunum þínum, megi allar góðar vættir vaka yfir þér elsku amma mín.

Rut Þórarinsdóttir frá Hlíðarfæti.