Steinarr Hallgrímsson fæddist á Siglufirði 17. maí 1937. Hann lést á heimili sínu 5. nóvember 2022.
Foreldrar hans voru Hallgrímur Márusson, klæðskeri á Siglufirði og síðar bílstjóri í Reykjavík, f. 6. nóvember 1913, d. 24. júní 1998, og Hermína Guðrún Sigurbjörnsdóttir húsmóðir, f. 4. ágúst 1916, d. 21. mars 2008. Steinarr átti fjögur systkini, Dúu Stefaníu, f. 9. maí 1942, d. 7. janúar 2018, Jónas, f. 17. apríl 1945, Þráin, f. 7. febrúar 1948, og Pálmar, f. 29. júní 1953.
Steinarr giftist 8. október 1960 Ernu Valdísi Viggósdóttur húsmóður, f. 10. ágúst 1941, d. 6. apríl 1978. Þau eignuðust fjögur börn og fjölmarga afkomendur.
Steinarr ólst upp á Siglufirði og í Fljótum. Hann lauk stúdentsprófi frá Verslunarskólanum og meiraprófsnámskeiði bifreiðarstjóra 1958. Hann vann hin ýmsu störf á sviði fyrirtækjarekstrar. Hin síðari ár átti Steinarr langan og farsælan feril sem innflutningsaðili, ráðgjafi og heildsali á sviði brunavarna.
Steinarr bjó lengst af að Álfhólsvegi 19 í Kópavogi.
Útför Steinarrs fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 22. nóvember 2022, og hefst athöfnin klukkan 13.
Honum var sífellt ofar í huga eftir því sem leið á ævina tíminn þegar leið að fæðingu Dúu Stefaníu, systur okkar bræðra á vordögum 1942. Á fimmta ári er hann fluttur yfir Siglufjarðarskarð í Fljótin til frænda sinna í Langhúsum til að létta undir með móður okkar tímann í kringum fæðinguna. Hann ílentist um tíma í Langhúsum og sá tími var honum afar kær. Hann tók ástfóstri við sveitina og dýrin á bænum og allt frá þessum tíma var hann hændur að Fljótunum og hestamennskan fylgdi honum til æviloka.
En kannski varð þessi viðskilnaður við foreldrahúsin og Sigló afdrifaríkari en okkur óraði fyrir. Steinarr varð snemma mjög sjálfstæður. Hann þótti uppátækjasamur og fór sínar eigin leiðir. Hann var bráðmyndarlegur, glaðvær og eignaðist góða vini og félaga, var vinsæll í þeirra hópi, hvort sem var á Siglufirði eða þegar hann flutti suður til Reykjavíkur til náms og starfa.
Hann var líka dugnaðarforkur eins og mamma okkar hefði sagt. Það er reyndar einkenni margra karla og kvenna í okkar frændgarði. Hann var afburða námsmaður. Fór samt ekki allan menntaveginn. Eftir verslunarskólanám reyndi hann fyrir sér um skamma hríð í háskólanámi en það átti ekki við hann. Honum lá svo mikið á að komast út í atvinnulífið, hefjast handa um eitthvað sem skipti máli.
Reyndar var Steinarr ekki mikið á Siglufirði eftir að hann flutti suður til náms og starfa. En jólin voru alltaf tilhlökkunarefni þegar hann og pabbi komu með strandferðaskipinu og voru hjá okkur um jól og áramót. Það voru gleðidagar.
Atvinnulífið lék líka við hann. Ég man enn þann dag í dag þegar góð frænka á Siglufirði sagði okkur frá því að Steinarr bróðir væri aldeilis að gera það gott. Hann væri orðinn forstjóri í fyrirtæki í Reykjavík. Með yngstu mönnum sem hefðu náð svo langt, ennþá á þrítugs aldri. Já, við bræður vorum ekkert smá stoltir af honum bróður okkar á þessum árum.
Það gekk mikið á í lífi Steinarrs á þessum tíma. Hann kynntist æskuástinni sinni, Ernu Valdísi Viggósdóttur og eignuðust þau á þessum árum fjögur mannvænleg börn og framtíðin blasti við honum, að því er virtist björt og fögur.
Steinarri var glaðværð og skemmtun í blóð borin og hann var allra manna skemmtilegstur í spilamennsku eða í leik og starfi meðal félaga sinna. Hann hafði bara ekki alveg taumhald á gleðinni og skuggar vofunnar miklu sem hefur leikið aðra hverja fjölskyldu á Íslandi grátt, fylgdu honum frá fyrstu gleðistundum og þar til öll gleðin var horfin úr veislunni.
Sagt er að ekki sé sama gæfa og gjörvileiki. Eins glæsilegur og ferill hans hafði verið, lét nú allt undan. Hann gerði þau miklu mistök að halda í alvöru að hann gæti stjórnað þessum þætti lífs síns eins og öðru. Að hann gæti átt gott líf í fjölskyldu sinni og atvinnulífinu og sinnt Bakkusi þegar honum hentaði. Hann fór smátt og smátt niður í dýpsta dal lífsins og mörg héldum við að hann myndi aldrei komast óskaddaður frá þessari dýrkeyptu lífsreynslu.
Við minnumst samtala frá þessum tíma, þegar það loks rann upp ljós fyrir honum. Hann var búinn að ná botninum og héðan í frá yrði það bara lífið eða dauðinn. Fyrir góðra manna hjálp tókst Steinarri að komast aftur í mannheima. Ekki óskaddaður en ákveðinn í því að standa sig. Upp frá þeim degi varð hann annar maður.
Steinarr hefur alltaf borið af í öllu sem hann hefur tekið sér fyrir hendur. Hann stofnaði fyrirtæki og hóf nýtt í líf í nýjum atvinnurekstri sem blómstraði í höndum hans.
Við minnumst við brotthvarf Steinarrs, mannkosta hans og góðra verka. Hann var alltaf bóngóður heim að sækja. Hann miðlaði okkur yngri bræðrum af sérþekkingu sinni í fjármálum, lánaði nafnið sitt á fjárhagsskuldbindingar og var okkur ætíð innan handar ef lífið var okkur erfitt. Við munum sérstaklega minnast síðustu ára hans þegar hann var farinn að íhuga líf sitt á nýjan leik og sá þar margt sem betur mátti fara. Við munum líka minnast hans af virðingu fyrir því viðhorfi að gefast aldrei upp. Reyna að takast á við lífið á nýjan leik eftir áralanga baráttu við hin myrku öfl mannlífsins.
Far þú í friði bróðir og þökkum þér allt. Biðjum börnum þínum og afkomendum öllum friðar og blessunar.
Þráinn Hallgrímsson, Jónas Hallgrímsson, Þórunn K. Þorsteinsdóttir, Ágústa Inga Pétursdóttir.