Svava Ásdís Davíðsdóttir fæddist í Reykjavík 20. febrúar 1939. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Mörk 16. nóvember 2022.

Hún var dóttir hjónanna Davíðs Gíslasonar stýrimanns frá Hamri í Múlasveit við Breiðafjörð, f. 28.7. 1891, d. 21.2. 1945, og Svövu Ásdísar Jónsdóttur saumakonu frá Eskifirði, f. 30.3. 1905, d. 14.10. 1992. Systur Svövu eru Lísabet Sigurlín, f. 12.6. 1932, d. 12.12. 2008, Margrét Sjöfn, f. 15.6. 1934, d. 15.11. 2014, Elín Klara, f. 29.10. 1936, d. 9.4. 2020 og Guðrún Björg, f. 18.8. 1941, d. 19.12. 2013.

Svava fæddist í Reykjavík og bjó sín fyrstu ár á Vegamótum á Seltjarnarnesi. Hún fluttist að Njarðargötu 35 með fjölskyldu sinni á fjórða aldursári og bjó þar öll sín uppvaxtarár. Svava er næstyngst fimm systra en faðir þeirra fórst með Dettifossi milli Englands og Írlands í seinni heimsstyrjöldinni í febrúar 1945 og ól móðir þeirra stúlkurnar upp.

Svava gekk í Kvennaskóla Reykjavíkur og lauk þaðan prófi árið 1956.

Strax að námi loknu hóf hún störf hjá Landsbanka Íslands. Þar kynntist hún eiginmanni sínum, Þór Halldórssyni viðskiptafræðingi, f. 12.10. 1932. Þau giftust hinn 24.2. 1962 og hófu sambúð í Tjarnargötu. Þór lést langt um aldur fram 18.5. 1970. Dætur Svövu og Þórs eru tvær: 1) Guðrún, f. 23.6. 1961, gift Matthíasi Árna Jóhannssyni og eiga þau þrjú börn: a) Þór, f. 1983, kvæntur Jennifer McTiernan og eiga þau einn son, Tarón M., en fyrir á Jennifer tvær dætur, Rheu og Dani. b) Sara, f. 1989, gift Pálmari Sigurðssyni og eiga þau tvo syni, Þorra Matthías og Högna Sigurð. c) Hera, f. 1992. 2) Ingibjörg Jóna, f. 4.2. 1965.

Seinni árin kynntist hún Guðmundi B. Sveinbjarnarsyni klæðskerameistara, f. 28.5. 1924. Þau hófu sambúð 1989. Hann lést 10.1. 1993.

Hún starfaði lengst af ævinnar í gjaldeyrisdeild og innheimtu hjá Landsbankanum. Einnig vann hún ýmis önnur störf á lífsleiðinni eins og í verslun og sælgætisgerð. Hún var mikil tungumálakona, naut þess að ferðast og eiga samverustundir með fjölskyldunni.

Útför Svövu Ásdísar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 23. nóvember 2022, og hefst athöfnin klukkan 13.

Mamma ólst upp á Vegamótum á Seltjarnarnesi en flutti ung á Njarðargötu 35. Þar bjó hún og fjölskylda hennar á efri hæðinni, ásamt afa hennar Jóni Kr. Á neðri hæð hússins bjó svo móðursystir hennar og fjölskylda. Mikill vinskapur var með systrunum og var oft mikið líf og fjör í húsinu.

Á uppvaxtarárum mömmu fóru fjölskyldurnar á Njarðargötu í ferðir á sumrin í Varmadal. Í minningu hennar var þessi tími ljúfur og góður.

Mamma hélt þessa hefð með okkur systrum, en nú var farið í Þrastaskóg við Álftavatn. Alltaf var margt um manninn í þessum ferðum, mikill gestagangur og gaman. Ella systir hennar var oft með fjölskyldu sinni þar á sama tíma í bústað. Ég gleymi seint þegar systurnar ætluðu allar út í bátsferð. Sú ferð gekk ekki vel því allar ætluðu þær að stjórna. Ómuðu hlátrasköll þeirra um vatnið. Ég og systir mín fengum að taka vinkonur okkar með í þessar ferðir. Þá var bíllinn hlaðinn börnum, svefnpokum og matarkössum því í þá daga var ekki auðveldlega skroppið út í búð í sveitinni. Í minningunni var saxbauti, súpur, egg, brauð og morgunkorn uppistaða en sú minning er alveg örugglega eitthvað skekkt. Gönguferðir okkar saman í sveitinni voru dýmætur tími þar sem mikið var skrafað og notið þess að vera úti í náttúrunni.

Mamma varð ekkja aðeins 32 ára og stóð hún þá uppi sem einstæð móðir með mig 5 ára og systur mína 8 ára. Hún gekk í verkin og barðist af öllu hjarta til að koma okkur í öruggt húsnæði. Í því máli kom einstakur styrkur hennar fram.

Hún var alveg einstaklega ljúf kjarnakona og alltaf kurteis og vel tilhöfð. Við brölluðum ýmislegt saman, sérstaklega þegar hún var orðin ein að nýju og hafði meiri frítíma þegar hún hætti að vinna eða minnkaði vinnuna. Hún var því ekki aðeins móðir mín heldur einnig vinkona og ferðafélagi til margra ára. Þannig urðum við nánari með árunum.

Mamma kenndi mér þá list að vera sjálfri mér nóg. Að drífa sig í verkið í stað þess að bíða eftir liðstyrk eins og þegar hún ákvað að veggfóðra eldhúsið sitt ein síns liðs. Hún sagði ekki hlutina beint út en maður vissi hvers ætlast var til af manni. Henni fannst sjálfsagt að ég stæði mig vel í námi, kláraði námið o.s.frv. Maður lærði bara að gera hlutina og að gefast upp var ekki til í hennar orðabók.

Gönguferðir urðu eitt helsta áhugamál mömmu þegar hún varð eldri ásamt góðri tónlist, lestri og ferðalögum. Mamma gekk um Grafarvoginn á hverjum degi. Ég reyndi að hitta hana á þessum gönguferðum. Svo skemmtilega vildi til að Lísa og Ella systur hennar bjuggu báðar í Grafarvogi. Enduðu því gönguferðir okkar oft í kaffisopa hjá þeim og var þá margt skrafað. Tónleikar voru annað áhugamál sem við mamma áttum saman. Mömmu fannst alltaf jafn gaman að fara á tónleika þar sem barnabörnin voru að syngja. Karlakórar voru á tímabili fastur liður í skammdeginu. Síðustu tónleikar sem við systur fórum á með mömmu voru þegar við fórum að hlusta á Kristin Sigmundsson sem var í miklu dálæti hjá mömmu.

Mamma hafði alltaf mikinn áhuga á ferðalögum og fór hún í fyrstu ferð sína sumarið eftir útskrift úr Kvennó. Ferðina fór hún með systrum sínum og æskuvinkonu. Var ferðinni heitið til Danmerkur og Noregs að skoða heiminn og hitta ættingja. Oftar en ekki hlógu þær dátt að skemmtilegum uppákomum í þeirri ferð sinni saman.

Fyrsta utanlandsferð okkar mömmu var ferð til Bretlands. Þar höfðum við báðar dvalið, bæði í London og Brighton við nám í enskuskólum. Við skemmtum okkur vel í þessari ferð, hlógum dátt að auglýsingamennsku gististaða þar sem mynd af antíkspegli í herbergi var lítill handspegill í raunveruleikanum. Við mönuðum svo hvor aðra í að ganga um götur í stuttbuxum þar sem hitinn var aðeins meiri en við bjuggumst við. Í þessari ferð féll mamma kylliflöt fyrir KFC sem varð einn besti skyndibiti sem hún leyfði sér, en gerði það kannski allt of sjaldan.

Síðar fórum við mæðgur aðallega til heitari landa. Þá skemmtum við okkur konunglega og kom þá tungumálakunnátta mömmu henni vel. Oft voru ferðirnar ákveðnar með litlum fyrirvara. Ein ferðin var keypt án hennar vitundar, með dags fyrirvara. Ég var úti á Krít og ákvað að framlengja ferðina og fá mömmu með síðari vikuna. Svo vildi til að mamma var í einni af lengri gönguferðum sínum þegar við reyndum að ná í hana. Sendur var út leitarflokkur til að finna hana og segja henni að fara heim að pakka. Þannig var mamma alltaf tilbúin í ævintýri með stuttum fyrirvara. Man alltaf þegar hún kom á áfangastað, þá hló hún dátt að þessu uppátæki og því að hafa verið í fullri flugvél af ungu fólki á leið í útskriftarferð.

Í góðu veðri á Íslandi vildi mamma nýta sólina til útiveru og njóta þess að sitja á svölunum og hafa það gott. Í ferðalögum nýtti hún sér reyndar ekki sólina til sólbaða, heldur var tímanum varið í að skoða okkur um, ganga, njóta og helst að fara í siglingu í hverri ferð. Þegar ég lít til baka til þessara ferðalaga er gleði og undrun þær tilfinningar sem bærast með mér. Hvað hún var dugleg að ganga með mér langar vegalengdir, prófa nýja ferðamáta og rífa sig upp fyrir allar aldir til að geta nýtt tímann sem allra best.

Mamma hafði mikinn áhuga á eldamennsku og bakstri. Hafði gaman af að prófa eitthvað nýtt enda ber fjöldi úrklippubóka og stílabækur fullar af uppskriftum því vitni. Við systur vorum kannski ekki bestu tilraunadýrin en ég á góðar minningar um bakstur fyrir jól og afmæli. Þá varð hún alltaf að breyta smá og bæta við sort eða prufa nýja kökuuppskrift. Marsipangerð úr soðnum kartöflum og flórsykri líður manni seint úr minni. Hjá fjölskyldunni okkar mun svo asparssúpan hennar ávallt vekja minningar.

Fyrir tæpum fimm árum veiktist mamma og heilabilun hennar varð til þess að hún lagðist inn á spítala. Hún dvaldi um stund á Vífilsstöðum og var frekar sátt við veru sína þar. Síðustu fjögur árin dvaldi hún á Mörk og ég reyndi að heimsækja hana á hverjum degi. Fengum okkur kaffisopa. Fyrstu árin vorum við duglegar að fara í bíltúra, á kaffihús og í heimsóknir til ættingja. Stoppuðum oft á Grund að heimsækja Ellu systur hennar sem dvaldi þar. Það var dásamlegt að hlusta á þær furða sig á því að þær væru komnar á þennan stað. En síðustu árin héldum við mamma okkur meira inni á Mörk, lásum, hlustuðum á tónlist og spjölluðum. Eitt sem hún hafði alltaf áhuga á að heyra um var hvað barnabörnin og langömmubörnin væru að gera. Gladdist hún mikið þegar þau komu í heimsókn til hennar. Þrátt fyrir heilabilun þá mundi hún margt af því sem rætt var um. Ég ætlaði að fara að endurtaka eitthvað, þá sagði hún oft: Já alveg rétt, ég man þetta núna.

Þegar mamma varð 80 ára bauð hún til veislu. Margir ættingjar og vinir mættu. Varð hún mjög glöð og ánægð að sjá allt þetta fólk. Á þessum tíma var mamma í spelku á öðrum fæti þar sem hún hafði brotið sig. Lét hún það ekki aftra sér að hoppa á milli borða til að spjalla við fólkið með mig í stresskasti á eftir henni tilbúna að grípa konuna ef hún missti jafnvægið.

Á haustdögum sagði mamma við mig að við þyrftum að flýta jólunum því alltof langt væri í þau. Hún yrði ekki hér þá. Var ákveðið að halda litlu jólin þegar eitt barnabarnið kæmi í heimsókn með fjölskyldu sína til Íslands. Fyrir ekki svo löngu var mamma ekki viss um að hún næði því að hitta nýja fjölskyldumeðliminn. En þrátt fyrir að vera orðin mjög veik þá hittist öll fjölskyldan; börn, barnabörn og langömmubörn, hjá henni á sunnudaginn og var dásamlegt að sjá hve lifnaði yfir henni allri.

Mamma lést á miðvikudagsmorgun, 83 ára að aldri. Við systurnar vorum báðar hjá henni þegar hún skildi við.

Ég vil þakka bæði núverandi og fyrrverandi starfsfólki kærlega fyrir aðstoð og hlýju í garð mömmu. Hún hafði alltaf mjög gaman af því að fá sér kaffisopa og spjalla við starfsfólkið.

Nú kveð ég mömmu en minningin um einstaka konu, móður og vinkonu lifir. Ljóðið hér fyrir neðan valdi mamma á legstein pabba en hún verður lögð til hinstu hvílu í Fossvogskirkjugarði við hlið hans.

Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
(Valdimar Briem)


Ingibjörg Jóna (Inga Jóna).