David Diop „Þetta er æði myrk saga, grimm og djöfulleg.“
David Diop „Þetta er æði myrk saga, grimm og djöfulleg.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skáldsaga Á nóttunni er allt blóð svart ★★★★½ Eftir David Diop Ásdís Rósa Magnúsdóttir þýddi og ritar eftirmála. Angústúra, 2022. Kilja, 141 bls.

Bækur

Einar Falur

Ingólfsson

Frakkland höfuðsmannsins hefur þörf fyrir villimennskuna og þar sem við erum hlýðnir látum við eins og villimenn. Við höggvum hold óvinanna, limlestum þá, skerum af þeim hausinn, ristum þá á kvið,“ (19) segir sögumaðurinn Alfa Ndiaye í þessari áhrifaríku nóvellu fransk-senegalska höfundarins Davids Diop um hlutverk sitt og senegalskra landa sinna í her Frakka í fyrri heimsstyrjöldinni.

Diop (f. 1966) tekst hér á við söguefni sem margir höfundar hafa áður glímt við, fáránleika skotgrafahernaðarins, þar sem hundruðum þúsunda ungra manna var slátrað. Hann kemur þó með nýtt sjónar­horn á stríðið þar sem sögumaðurinn er einn hinna ótalmörgu fótgönguliða úr nýlendum Frakka í Vestur-Afríku sem börðust í Evrópu en um tvö hundruð þúsund afrískir fótgönguliðar munu hafa látið lífið fyrir Frakkland. Afrísku hermennirnir voru kallaðir Chocolats vegna húðlitarins og eins og haft er eftir Alfa hér framar, þá voru þeir vopnaðir sveðjum og var ætlað að vekja skelfingu hjá óvinunum sem mannætur og villimenn. Diop kennir bókmenntir í Frakklandi og er þetta ein þriggja bóka sem hann hefur skrifað og tekst í öllum á við sögu Senegals undir stjórn Frakka. Á nóttunni er allt blóð svart er þeirra þekktust. Hún kom út árið 2018 og hlaut alþjóðlegu Booker-verðlaunin í fyrra.

Sagan hefst þar sem Alfa Ndiaye liggur með æskuvin sinn úr þorpinu heima í Senegal hræðilega illa særðan í fanginu á milli skotgrafa og treystir sér ekki til að veita vininum náðarhöggið, þótt hann grátbiðji hann um það. Við þennan atburð, í hryllingi og tilgangsleysi stríðsins, missir Alfa tökin á lífi sínu og mennskunni. Hann verður heltekinn af hefndarþorsta og tekur að slátra óvinum sínum af mikilli grimmd, svo mikilli að félögum hans, afrískum sem evrópskum, verður nóg um.

Þetta er æði myrk saga, grimm og djöfulleg, um brostna drauma og það hvernig stríðið máir út mennskuna og öll mörk ásættanlegrar hegðunar skriðna. Alfa segir sögu sína sjálfur og Diop vinnur vel með það, eins og margir höfundar á undir honum, að skapa óvissu með lesandanum um hvað sé rétt og hverju eigi að trúa með svo óáreiðanlegum sögumanni. Þá er endurtekningum og hrynjandi vel beitt í frásögninni og skila sér vel í lipurlegri þýðingu Ásdísar Rósu Magnúsdóttur, ásamt iðulega formlegu málfari sögumannsins sem er í vel mótaðri mótsögn við það sem er lýst. Í góðum eftirmála skýrir Ásdís líka vel aðferð höfundarins við ritun sögunnar.