Haraldur Sigþórsson fæddist í Reykjavík 25. september 1961. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi mánudaginn 21. nóvember 2022.

Hann var einkasonur hjónanna Sigþórs Lárussonar kennara, f. 14.5. 1921, d. 27.1. 2005, og Lóreleiar Haraldsdóttur sjúkraliða, f. 21.2. 1932, d. 23.10. 2014.

Haraldur kvæntist Svanhildi Pálmadóttur 16.3. 1984 og þau skildu í janúar 1995. Þau voru barnlaus. Haraldur giftist Esther Hlíðar Jensen 16.10. 1999. Börn þeirra eru Hólmfríður og Lárus, f. 2.5. 1999, d. 5.5. 1999, og Sigþór, f. 5.8. 2005. Fyrir átti Esther dótturina Ingu Maríu, f. 2.8. 1991, maki hennar er Egill Þór Jónsson. Þau eiga tvö börn, Aron Trausta, f. 13.12. 2019, og Sigurdísi, f. 28.11. 2021.

Haraldur gekk í Austurbæjarskóla og fór þaðan í Vörðuskóla og svo í Menntaskólann í Reykjavík. Haraldur var dúx frá MR 1981. Hann lauk prófgráðu í byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands 1985 og Dipl.Ing. frá Universität Karlsruhe (KIT). Og Dr.Ing frá sama skóla 1993. Haraldur lauk síðar BA-gráðu í  kvikmyndafræði 2019 frá HÍ sér til yndisauka og var við meistaranám í bókmenntum þegar hann lést.

Haraldur hóf störf hjá umferðardeild Borgarverkfræðings árið 1986. Fyrst á sumrin en hann starfaði þar til ársins 1996. Árið 1996 fluttist hann til Nýja-Sjálands og starfaði í tæp tvö ár hjá LTSA (Land Transport Safety Authority) en flutti þá aftur heim og fór þá að vinna hjá verkfræðistofunni Línuhönnun, seinna Eflu. Hann starfaði þar til ársins 2009. Með fram þeirri vinnu setti hann á fót framhaldsnám í umferð og skipulagi ásamt Ásdísi Hlökk Theodórsdóttur við Háskólann í Reykjavík og kenndi þar til ársins 2013.

Haraldur starfaði sem deildarverkfræðingur fyrir Samgöngustofu 2014-15. Frá árinu 2016 vann hann aðallega við eigin ráðgjafarþjónustu VHS og vann fjölda rannsóknarverkefna m.a. fyrir Vegagerðina og ýmis sveitarfélög. Haraldur starfaði fyrir Landbúnaðarháskólann frá árinu 2021 og þar til hann lést. Helstu ritstörf Haraldar snerust um umferðaröryggi. Hann var viðriðinn fyrstu umferðaröryggisáætlun landsins og vann einnig áætlanir fyrir sveitarfélög.

Útför verður gerð frá Grafarvogskirkju í dag,
14. desember 2022, klukkan 13

Genginn er skyndilega góðvinur minn, félagi og samstarfsmaður, Haraldur Sigþórsson samgönguverkfræðingur. Við höfðum þekkst í 12 ár og unnum mörg verkefni saman, m.a. fyrir Rannsóknarsjóð Vegagerðarinnar, Orkusjóð og Samgöngustofu, oft í samráði við góða fagmenn svo sem dr. Valdimar Briem sálfræðing og fyrrverandi yfirverkfræðing Vegagerðarinnar, Rögnvald Jónsson.

En hver var Haraldur Sigþórsson? Haraldur var ótrúlega kraftmikill persónuleiki og með afar víðfeðmar gáfur og eins og við mátti búast var námsferill hans einstaklega glæsilegur. Dúx yfir allan 6. bekk í MR, þar sem hann leiddi skólann, áfram til B.Sc.-náms í HÍ, í framhaldi síðar Dipl. Ing.-prófs og enn síðar Dr. Ing.-gráðu frá Háskólanum í Karlsruhe í Þýskalandi. Haraldur var hámenntaður og mikið stærðfræðiséní og hafði auk þess mikið málatalent.

Haraldur gerði víðreist um heiminn til þess að svala sínum menntunarþorsta og mun hafa komið við á Nýja-Sjálandi til að ná í praktíska reynslu í samgönguverkfræðinni. Allt gekk ljómandi vel og við tók starfsferill m.a. á Nýja-Sjálandi, hjá Reykjavíkurborg, Verkfræðistofunni Eflu og kennsla við HR og rannsóknir.

Kynni okkar Haraldar hófust með því að Bjarki Brynjarsson verkfræðingur, sem stundaði nám við NTNU í Þrándheimi dálítið á undan mér, leiddi okkur saman er ég leitaði verkefna hjá Tækniskólanum. Ég kann honum miklar þakkir fyrir. Líf mitt sem fræðimanns hefði orðið mun fátæklegra ef Haraldar hefði ekki notið við. Okkur kom ávallt vel saman og fyrir mig var mikill ávinningur að geta verið í verkefnum sem gáfu þverfaglegt innsæi. Ég hitti Harald reglulega í 12 ár og við ræddum um heima og geima, ekki síst háskólanám.

Haraldur var víðsýnn og studdi þann eiginleika með frekara námi, verkfræðin var ekki nóg fyrir hann. Hann hóf síðar nám í bókmenntafræðum við HÍ, en þar fjallaði hann töluvert um kvikmyndir og sögu síðari heimsstyrjaldarinnar, ekki síst myrkraöflin í Rússlandi og Þýskalandi en Haraldi ofbauð mannvonskan í ríkjum einræðisherranna. Hugsjónamenn eins og Haraldur vilja bæta heiminn og leggja honum lið. Fötlun Haralds var mikil og hún hafði eflaust mikil letjandi áhrif á getu hans til að skara fram úr, sem var honum eiginlegt.

En áhuginn á lífinu var ekki bundinn við tækni og bókmenntaverk og Haraldur náði að tengjast ýmsum góðum konum og síðar góðri eiginkonu, Esther Hlíðar Jensen veðurfræðingi, og þau eignuðust soninn Sigþór, sem nú stundar nám við MR og erft hefur miklar námsgáfur foreldranna og verið þeim mikil uppspretta ánægju og gleði.

Haraldur þurfti að glíma við mjög alvarlega fötlun síðustu 20 ár ævinnar. Þeir áverkar sem hann hlaut í framhaldi af ruddalegri árás á skemmtistað voru mjög alvarlegir en ég gat ekki fundið að Haraldur vildi draga þennan aðila til ábyrgðar þegar þessa atburði bar á góma.

Eftir á að hyggja finnst mér Haraldur hafa gert allt það mögulega, sem í hans valdi stóð, til að gera líf sitt innihaldsríkt á ný eftir hið hörmulega áfall sem hann hafði orðið fyrir. Ekki ber að leita eftir vinsældum sem flestra heldur vera börnum sínum og nemendum góð fyrirmynd. Þessu hefur hann örugglega náð fram og það var honum mikilvægara en að standa sig í samkeppninni við aðra. Sum mál voru honum afar hjartfólgin og hann var mikill andstæðingur fyrirætlana um gerð borgarlínu og átti þar mjög öflugan hóp samherja, sem öðlast höfðu mikil áhrif í samfélaginu vegna mikils dugnaðar í námi og framtaks í pólitík og á ritvellinum. En þessi samfélagshópur vildi gagnrýna borgarstjóra fyrir óvarkárni í meðferð fjármuna borgarinnar. Þarna fékk fagmaðurinn í Haraldi tækifæri til að hafa áhrif, en oft er nú erfitt að hafa áhrif gegn pólitískum áherslum. Hin bestu og mestu áhrif hygg ég að Haraldur hafi haft meðal nemenda sinna, kennara, samstarfsmanna og barna.

Ég á Haraldi mikið að þakka fyrir frábær og gefandi kynni. Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar, Ingu Maríu, Sigþórs og Estherar.


Stefán Einarsson áhættuverkfræðingur.