[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Hildur Gísladóttir fæddist 26. apríl 1938. Hún lést 7. október 2022.

Útförin var gerð 31. október 2022.

Meira á www.mbl.is/andlat

Þegar lífið sýnir okkur sitt rétta andlit, dauðann, þá bregst fólk oftast á svipaðan hátt við: Sjálfsásakanir! Ég heimsótti ekki nógu oft, ég náði ekki að segja það sem ég ætlaði mér alltaf einn daginn að segja og af hverju núna o.s.frv. Og svipað var hjá mér. Ég hafði verið í heimsókn á Droplaugarstöðum hjá móður minni en þurfti að bregða mér frá vegna málverkaviðskipta. Er ég var kominn á vinnustofuna, sem er spölkorn frá Droplaugarstöðum, hringir Sara systir mín í mig og tjáir mér í gegnum tárin að það sé orðið of seint og tilgangslaust fyrir mig að koma aftur. Þetta væri búið og systur mínar og dætur væru allar uppgefnar á leið í háttinn og kæmu svo aftur á morgun. Mér til undrunar brotnaði ég saman og grét með hléum og ekka alla nóttina! Ég drekkti mér í vinnu við relief-mynd er ég var að vinna að. Ég vann eins og óður væri, með alls kyns lím, kítti og fylliefni líkt og ég væri að reyna að líma saman í mér sálina sem nú var brotin. Ég var með alls kyns viftur og slíkt, m.a. hárblásara er blés heitu. Í hvert sinn sem ég tók upp blásarann grét ég sáran því hann minnti mig á hárgreiðslukonuna hana móður mína.

Fyrstu minningar mínar af móður minni eru frá hárgreiðslustofu hennar sem hún hafði komið sér upp heima hjá okkur í Keflavík (í Miðtúni 2, húsið fékk nýverið verðlaun fyrir endurhönnun). Þetta var í byrjun sjötta áratugarins með heysátuhárgreiðslum, gerviaugnhárum og mínípilsum. Ég lærði það hjá mömmu að það sem hún notaði í heysátugreiðslurnar voru púðar sem kallast mýs. Mamma hafði ávallt minnst tvær stúlkur í læri. Svo þegar stóri strangi pabbi var í burtu að vinna fyrir Kanann þá lék litla músin lausum hala á hairsaloninu hennar múttu. Auðvitað varð ég ástfanginn af einni stúlkunni sem var í læri hjá mömmu, og eitt kvöldið elti ég hana til þess að sjá hvar hún ætti heima. Ég taldi mig alveg öruggan og passaði upp á að halda alltaf ákveðinni fjarlægð og vera mest í felum. Þetta hafði ég lært af Kanasjónvarpinu. Mér til undrunar vissi hún af mér allan tímann en í stað þess að reiðast bauð hún mér inn fyrir og gaf mér heitt kakó á meðan ég lék fyrir hana ástaróð á orgelið hennar. Ég bað hana að bíða eftir mér þar til ég yrði nógu stór til að vera maðurinn hennar. Ég man að hún hló dátt að þessu en sagðist ekki geta lofað því og ég myndi ábyggilega finna einhverja þegar sá tími kæmi. Ég var þá fimm ára en hún um tvítugt. Þungur í hjarta sneri ég þá aftur heim en ég sver, ég grét ekki þá!

Hve skelfilega einmana líður mér án þín elsku mamma! Þú varst alltaf besti vinur minn! Núna hef ég engan til að ljúga því að að allt gangi mér í haginn og hversu skynsamlegt það sé að framkvæma stórhuga, metnaðarfullu plönin er voru gjarnan á mörkum hins geranlega sem og á mörkum alls almenns velsæmis! Ætli megi ekki segja að ég hafi verið mömmustrákur. En ég hafði svo sem ekkert val því faðir okkar gaf bara skít í mig og mömmu og tvær nýfæddar dætur sínar og yfirgaf okkur fyrir flugfreyju er vann hjá Arnarflugi ásamt honum. Þá var fjölskyldan flutt úr Keflavík í Garðabæinn. Ég held einhvern veginn að flestir strákar séu mömmustrákar. Feðrum semur oft ekki vel við syni sína og oft er beinlínis hatur á ferðinni þeirra á milli. En hvað veit ég um það þar sem ég á dætur og engan son. Og ef ein af mínum dætrum af takmarkalausri ást til föður síns byðist til að láta breyta sér í minn einkason, þá myndi ég segja takk, sama og þegið. Mér þætti það einfaldlega óþarfa fyrirhöfn bara fyrir mig en ég yrði eðlilega snortinn og hrærður og myndi líklega tárast eins og kona af tilfinningasemi ef til þess kæmi. En ég átti föður rétt eins og flestir nema þeir sem eiga tvær mæður. Ég heyrði sögu af pilti sem var sagt upp af sinni kærustu og kærastan er nú kærasta móður hans, þannig að stúlkan breyttist úr ástkonu hans yfir í móður, aðra af tveimur. Margir eiga eflaust miklu fleiri mömmur nú til dags. Ég er og var fullkomlega sáttur við að eiga einungis eina og hefði alls ekki viljað fleiri.

Móðir mín stóð alltaf vörð um listamanninn í mér og skikkaði föður minn til að sjá til þess að mig skorti aldrei pappír og liti, síðar olíuliti og striga. Mamma trúði því nefnilega að ég væri Muggur endurfæddur frá því hún var, kasólétt að mér, barnapía í Galtafelli hjá Bjarna Nýjabíósbarón. Þar vísaði hún á þeim tíma til sætis. Og þar kynntist hún föður mínum, þá nýkomnum úr flugvirkjanámi, ennþá með Presley-greiðsluna er var fljótt skipt út fyrir military crew cut eftir að hann fékk vinnu hjá Pan American og líklega CIA. Hann var endalaust að vesenast með míkrófilmur á kvöldin þegar ég fékk að koma heim og leika mér í orrustuvélum og alls kyns furðutólum og tækjum. Ég vissi vel, þrátt fyrir ungan aldur, að pabbi smyglaði reglulega bjór og sígó. Ég hugsaði um að það hlyti að vera samkomulag vegna þess að amerísku hervarðmennirnir leituðu aldrei í Plymouth-bílnum hans pabba, merktum Pan Am-lógóum á hvorri hlið bílsins. Þeir heilsuðu einungis að hermannasið og opnuðu hliðið (CIA?). Ég varð margsinnis vitni að því er hann seldi mönnum kassa af bjór og karton af sígarettum og var vinsæll sökum þess. Móðir mín, Hildur Gestrún Gísladóttir, var hins vegar meira fyrir hefðbundin gildi og reyndi oft á kvöldin að kenna mér faðirvorið. Kom þá karl faðir minn hlaupandi með fúkyrðum og bannaði mömmu að halda að mér kristindómi. Í stað þess fræddi hann mig um um Vesak-hátíðina á Indlandi hvar meistararnir í Himalaja, Jesús, Búdda, Zoroaster, Múhameð o.fl. hittast allir einu sinni á ári til að funda um hvernig best væri að haga atburðum næsta árs á jörðinni. Hann kenndi mér einnig að ferðast úr líkamanum án þess að hreyfa jarðlíkamann! Hann sagði mér sömuleiðis, og það svo mamma heyrði, að ég ætti ekki að hlusta á mömmu. Að hún vissi ekkert og væri bara heimsk kona. Pabbi var búddískur fasisti er aðhylltist bækur Alice Bailey sem allar voru skrifaðar í gegnum hana af tíbetska meistaranum Djywahl Kuhl að sögn frú Bailey. Móðir mín hafði vanþóknun á því er faðir minn kom mér 13 ára inn í Guðspekifélagið og gaf skriflegt leyfi þar sem ég var þremur árum undir lögaldri til að hefja nám í hugleiðslunni hjá Sigvalda Hjálmarssyni sem tveimur árum síðar sá til þess að ég gerðist brottrækur úr Guðspekifélaginu sökum trúarskoðana minna. Var ég þá kominn á kaf í svartagaldur og satanisma. Þá fyrst lærði ég í gegnum galdraiðkun mína faðirvorið, en á hebresku! Á heimili mínu voru reglulega haldnir andafundir. Faðir minn stundaði hugleiðslunám hjá Geir Viðari sálfræðingi, þá nýkominn heim frá Berkley-háskólanum í Kaliforníu. Ég man að eitt skiptið hafði faðir minn límt kopargorma á andaglasið og gormuðust þeir í allar áttir og var það fyndin sjón. En eftir alllanga stund hreyfðist glasið ekki og þá reif hann pabbi gormana af og fólkið setti fingurna á glasið og fór þá allt af stað.

Pabbi skildi við mömmu og við fluttum í Vesturbæinn, á Fálkagötuna. Eftir skilnaðinn var það ég og mamma með tvær litlar stelpur. Ég bjó í risinu en mamma og stelpurnar niðri. Risið samanstóð af fjórum kompum en ég og vinur minn Valur Júlíusson breyttum risinu í einstaklingsíbúð er mamma gat seinna leigt stúdentum enda stúdentagarðar hinum megin við götuna. Ég vann á Borgarbókasafninu meðfram Myndlistarskólanum og borgaði mömmu alltaf með í búkostnaði. Reyndi ég að vera mömmu góður sonur þrátt fyrir mína áráttukenndu ánægju að hrella fólk með list. Síðar fékk ég svo vinnu hjá sjónvarpsstöð og gat því borgað meira heim en fljótlega eftir það var ég síðan floginn úr hreiðrinu en við áttum öll í fjölskyldunni eftir að njóta góðs af risinu hennar mömmu.

Eftir að mamma hafði fengið nóg af því að hlusta á allar krassandi kjaftasögurnar er flóðu úr varalituðum munnum viðskiptavina hennar hóf hún störf í Þjóðleikhúsinu og vann í mörg ár þar, en á endanum hætti hún þar, líklega af svipuðum ástæðum. Næst vann hún í átta ár á röntgendeild Landakotsspítala. Aldrei fékk nokkur starfsmaður á röntgendeildinni krabbamein né önnur mein þrátt fyrir að vinna í geislavirkni í átta ár. Hún sneri svo aftur til hárgreiðslunnar og gerðist hárgreiðslukennari í Iðnskólanum. Hún starfaði þar þar til henni var meinað að starfa lengur sökum aldurs (65).

Svo atvikast það að móðir mín, þá orðin sjötug, fær hjartaáfall og lá á St. Jósefsspítala. Var eins og hún vildi þá kveðja okkur en fyrir snarræði Rakelar systur minnar aðallega píndi hún mömmu til að labba um og snúa aftur til lífsins. Sara hafði ekki mikinn lausan tíma, nýskilin með tvær litlar dætur, útivinnandi ásamt að vera stöðugt að bæta við sig menntun og er hún víst með einhverjar fimm háskólagráður í dag. Móðir mín var af gamla skólanum hvar eðlilegt þótti að karlar réðu öllu og konan væri aðeins búfénaður í eigu mannsins síns. Sem eiginkona! Við skulum ekkert vera að blanda eiginmönnum inn í þetta. Það gerir hlutina einungis enn ruglingslegri.


Að lokum drápu matvælaframleiðendur og hugsanlega læknastéttin hana með eiturefnunum er í gegnum vélar þeir pumpuðu blóði og súrefni út í matvælin og lyfin svokölluð. Þótt lyfin lækni engan þá lengja þau tímann sem sjúklingurinn þarf til að versla af þeim lyfin, en af þeim sökum, eins og flestir kannski vita, er Big Pharma í bullandi bissness. Í kapítalismanum er allt viðskipti! Trúarbrögð, spítalar, fangelsi og stríð. Nú er stórbissness í að fylgjast með augnhreyfingum fólks í gegnum netið til að vita hvað vekur áhuga eða furðu á alnetinu hjá hinum kerfisbundna forheimskaða almenningi. Þeir sýktu mömmu rétt eins og milljónir annarra þegna af alzheimer. Samkvæmt hennar eigin ósk hafði hún margbeðið okkur systkinin að ef slík staða kæmi upp þá vildi hún fyrir alla muni ekki að henni yrði haldið á lífi sem einhverju hrúgaldi af innyflum og æðum er vélar pumpuðu blóði og súrefni í gegnum til þess eins að halda dauðahaldi í lífið sem við vitum ekkert um né höfum skilning á í hverju felst þegar svo takmarkað lífsmark er knúið áfram.

Þegar að því svo kom fórum við systkinin að hennar ósk og ábyrgðin öll hjá systkinunum að nú væri stundin komin og mamma fengi að fara. Það var næstum ógerningur, svo stórt var skrefið og ákvörðunin. Og fyrirgefðu mér mamma að ég hafi ekki grátið, ég bara gat það ekki. Rifjast þá upp fyrir mér það sem stendur í Tíbetsku dauðabókinni að ef eftirlifendur syrgja hinn látna og gráta á dánarbeði hans þá geti það hamlað hinum látna á vegferð sinni í gegnum Bardoið.


Því má bæta við að daginn eftir jarðarförina átti ég stefnumót við góðan kunningja minn á veitingastað en þar sem hann var ekki kominn vatt ég mér að manni sem sat við borð og las í bók. Ég kannaðist við náungann frá því á helgiathöfn í Ásatrúarfélaginu fyrr á árinu og spyr hvort ég megi setjast hjá honum. Svarar hann þá því að það sé auðsótt mál því hann hafi einmitt verið að lesa ljóð eftir Ingólf frá Prestbakka sem heitir Ómar. Fannst mér þetta vera skýr skilaboð frá móður minni að handan.


Þar sem ég lá á spítala í Berlín eftir að hafa dáið úr hjartaáfalli, nú fyrir nokkrum mánuðum, þá voru þær umsvifalaust mættar dætur mínar og systir. Þær tjáðu mér að nú kæmi ég einfaldlega með þeim til Íslands, ekkert meira Berlínarrugl! Á Íslandi ætti ég fjölskyldu er þætti vænt um mig og vegna heilsunnar væri betra að fylgjast með þar. Ég varð að fallast á það þó að ég ætti bókaða sýningu í Berlín þremur mánuðum síðar. Þær sögðu við mig að sýningin mætti bíða, heilsufar mitt gengi fyrir. Ég trompaðist.

Þegar rétt fyrir jól við vorum komin í gegnum allan kórónueftirlitsskrípaleikinn á Leifsstöð, þá var mér komið fyrir í herbergi og tilkynnt að ég mætti ekki yfirgefa herbergið. Sem sé einangrun, fangelsi. Þetta voru síðustu jól mömmu minnar og fékk ég ekki einu sinni að sjá hana og var ekki heldur velkominn í nein jólaboð hjá minni elskandi fjölskyldu! Ég mætti koma á gamlárskvöld og borða með einni dóttur minni og tveimur systrum. Rakettur sprungu, svo var það aftur í herbergið. Hvað er fjölskylda ef þú ert ekki velkominn í afmælisveislur eða jólaboð? Þú gefur gjafir en færð engar sjálfur. Er það þá fjölskylda? Eða einungis söknuður minn að hafa átt og misst fjölskyldu?

ÓMAR
x
Ómar litli, Ómar,
þú átt að hlusta á mig,
svo ég geti sungið
sönginn minn við þig
vafið nýjum vonum
væran rökkurstig.
x
Ómar litli, Ómar,
þín augu blá og skær,
flytja okkur fegri
framtíð stöðugt nær -
- óður ljúfrar æsku
innst í hjarta grær.
x
Ómar litli, Ómar,
elsku barnið mitt,
ávallt verði öllum
yndi lífstarf þitt
veki glaðar vonir
vinar brosið þitt.
(Ingólfur Jónsson frá Prestbakka, Bak við skuggann)

Þinn elskandi sonur,

Ómar Stefánsson.