Anna Ingólfsdóttir fæddist í Reykjavík 10. ágúst 1939. Hún lést á Landspítalanum 7. desember 2022.

Anna var dóttir hjónanna Hólmfríðar Jónasdóttur, f. 24. október 1917, d. 21. desember 2011 og Ingólfs Rögnvaldssonar, f. 29. janúar 1917, d. 26. júlí 2007. Systkini Önnu eru Þorbjörg, f. 1. september 1941, Guðbjörg, f. 19. júní 1945, Rögnvaldur, f. 4. júní 1947, d. 1. febrúar 2022 og Gísli Jónas, f. 8. desember 1951.

Eiginmaður Önnu var Jörgen Sigurjónsson, f. 12. nóvember 1935, d. 24. mars 2013. Þau giftust 30. október 1963 og bjuggu saman í Reykjavík og lengst af í Mosfellsbæ. Anna og Jörgen eignuðust eitt barn, Ingólf, f. 19. apríl 1958. Synir Ingólfs eru Jón Andri, f. 19 nóvember 2001 og Jörgen, f. 1. desember 2005. Eiginkona Ingólfs er Kristín Ásta Hafstein, f. 9. nóvember 1967.

Anna gekk í Miðbæjarbarnaskólann við Tjörnina í Reykjavík og síðan Gagnfræðaskóla Vesturbæjar. Vann hún ýmis störf, þar á meðal í fiskvinnslu, við afgreiðslu í efnalaug og bókabúð og sem aðstoðarstúlka tannholdssérfræðings. Anna var með þeim fyrstu sem útskrifuðust úr nýstofnuðum Sjúkraliðaskóla Íslands og hlaut starfsleyfi sem sjúkraliði 30. janúar 1977. Auk húsbyggingar og náms stofnuðu Anna og Jörgen til rekstrar á jarðefnisflutningum með fjárfestingum í búnaði til slíkra verka.

Útför Önnu fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 21. desember 2022, klukkan 13.

Mamma fædd í Reykjavík 1939 og bjó með fjölskyldu sinni á Vesturgötu 20 í Reykjavík.

Anna var elst barna, átti fjögur systkini sem lifðu og eitt sem lést stuttu eftir fæðingu. Systkini: Þorbjörg, f. 1941, Guðbjörg, f. 1945, Rögnvaldur, f. 1947, látinn í janúar 2022, og Gísli Jónas, f. 1951. Foreldrar Önnu voru Hólmfríður Jónasdóttir húsmóðir og síðar verkakona, látin 2011, og Ingólfur Rögnvaldsson eirsmíðameistari og verkstjóri, látinn 2007. Anna flutti snemma á sjötta áratugnum að Bakkastíg 5 með fjölskyldu sinni, þar sem fjölskyldan varð sjö manna í árslok 1951. Anna gekk í Miðbæjarbarnaskólann við Tjörnina í Reykjavík og síðan Gagnfræðaskóla Vesturbæjar. Hún tók inntökupróf í Verslunarskólann en ekki reyndist vera til fjármagn til að stunda nám þar. 1957 kynnist Anna síðar eiginmanni sínum Jörgen Sigurjónssyni og að vori 1958 fæddist þeim sonur. Sökum ungs aldurs fóru Jörgen og Anna ekki að búa fyrr en 1963. Jörgen átti eftir að hlaupa af sér hornin. Anna vann í fiski á Eiðsgranda og Jörgen við höfnina hjá Eimskip. Anna bjó hjá foreldrum sínum og systkinum með son sinn Ingólf á Bakkastíg þar til hún fór til Svíþjóðar í lýðháskóla í Stokkhólmi. Eftir skólann fékk hún vinnu á sóttvarnarsjúkrahúsi í Stokkhólmi. Sonur Önnu var þennan tíma í góðu yfirlæti hjá ömmu, afa og frændsystkinum á Bakkastíg. Anna kom heim rétt eftir 1960 og tóku þau Jörgen upp fyrra samband og giftu sig 1963 og fluttu í nýbyggt hús í Brekkugerði 9. Þar bjuggu þau í tvíbýlishúsi þar til systir Jörgens og mágur, sem var héraðslæknir, fluttu síðar í húsið með stóra fjölskyldu og vantaði meira húsrými. Árið 1965 festu Anna og Jörgen kaup á nýlegri og rúmgóðri íbúð á Háaleitisbraut 43. Árið 1976 byggðu þau sér glæsilegt einbýlishús í Mosfellssveit, í Barrholti 29, og fluttu inn í ársbyrjun 1977. Var þar heimili þeirra æ síðan.

Anna var með þeim fyrstu sem útskrifuðust úr nýstofnuðum Sjúkraliðaskóla Íslands og hlaut hún starfsleyfi sem sjúkraliði 30. janúar 1977. Auk húsbyggingar og náms stofnuðu Anna og Jörgen til rekstrar á jarðefnisflutningum með fjárfestingum í búnaði til slíkra verka. Anna, Jörgen og Ingólfur voru mjög samhent til að allt gengi upp. Anna með aukavöktum á Borgarspítala og við næturvaktir hjá SÁÁ. Jörgen með allri þeirri vinnu sem hægt var að fá, vann oft nótt og dag eins og Anna til að standa við skuldbindingar. Ingólfur sonur þeirra var í skóla á þessum árum og lagði til vinnu á sumrin til að hjálpa til.

Um 1980 var ljóst að Anna gekk ekki heil til skógar. Hún grenntist og var með mikil óþægindi í baki og kvið. Hún var lögð inn á Grensásdeild Borgarspítala og var þar til meðferðar í nokkrar vikur, var útskrifuð og byrjaði að vinna á Borgarspítala þegar eitill í nára greri út. Var þá ljóst að um alvarlegt krabbamein var að ræða eða non-Hodgkin's lymphoma. Fór Anna í mjög erfiða geisla- og lyfjameðferð sem læknaði krabbameinið. Í kjölfar þess var hún sjúklingur með geislabrennt smágirni og öll vandamál sem því fylgja. Vegna þessa lenti hún síðar í stóraðgerð 1996 með stíflað smágirni og þarmalömun, aðgerðin tókst. Þrátt fyrir þetta hjálpaði hún syninum við undirbúning að brúðkaupi við að kvænast tengdadóttur sinni Kristínu Hafstein í júní sama ár. Auk framangreinds greindist Anna með leghálskrabbamein 2019 og fór í lyfjameðferð og geisla og var læknuð en fylgikvillar gerðu hana ófæra um að ganga. Anna var á Vífilsstöðum í bið eftir að komast á hjúkrunarheimili. Því miður sýktist hún af Covid á Vífilsstöðum um miðjan nóvember og hlaut ekki nógu góða eftirmeðferð og lést í kjölfarið. Anna hafði um áratugabil verið með sjúkdóm sem var seint greindur. Sjúkdómurinn eða heilkennið nefnist Sjögren syndrom. Heilkenni þetta veldur þurrki í öllum slímhimnum líkamans og veldur því að tennur skemmast þar sem tannhold við tannhálsa þornar. Anna kom því til leiðar að sjúkratryggingar taka í dag að hluta til þátt í að greiða kostnað við tannviðgerðir, var það mikil vinna með aðstoð sérfræðinga í baráttu við Tryggingastofnun.

Anna var svo lánsöm að fæðast inn í ástríka fjölskyldu sem studdi hana sem mest hún mátti á hennar yngri árum og þegar aldur færðist yfir endurgalt Anna þennan kærleika til stórfjölskyldunnar sem mest hún mátti ásamt eiginmanni sínum. Anna var vinsæl meðal systkinabarna sinna og voru þau oft hjá henni. Anna hélt alla tíð hesta og byggðu þau hjón nokkur hesthús yfir ævina þar sem stunduð var hestamennska á meðan heilsan leyfði. Anna var mikill dýravinur, átti hund í Barrholtinu, Bangsa, sem fjölskyldan hafði gaman af að hitta og fá í heimsókn. Anna hafði allt frá barnsaldri haft mikinn áhuga á hestum og kom sér í kaupavinnu sem unglingur, fyrst hjá Jóni bónda í Varmadal á Kjalarnesi, síðar á Stóra-Hálsi í Grafningi, mestmegnis vegna ástar sinnar á hestum. Anna tók um tíma virkan þátt í stjórn Gusts í Kópavogi og mætti hún á þeirra vegum á þing hestamannafélaga, kom hún því til leiðar að komið var á skiptingu barna, unglinga og fullorðinna í keppnisgreinum á hestbaki.

Anna hafði yndi af því að skipuleggja ferðalög og afþreyingu af ýmsu tagi og var þá ekkert til sparað. Hún ferðaðist alloft með foreldrum sínum og eiginmanni meðan þeirra naut við. Síðar ferðaðist hún með syni, tengdadóttur og sonarsonum til dæmis til Danmerkur, Bretlands, Þýskalands, Sviss, Austurríkis og Ítalíu þar sem farið var til Feneyja og siglt á síkjunum og dvalið var á yndislegum stað við Gardavatn á Ítalíu.

Á hverju vori plantaði Anna sumarblómum við hús sitt þannig að mikil prýði var að. Hún hafði unun af því að elda góðan mat og var sífellt opin fyrir að reyna eitthvað nýtt í þeim efnum. Anna hafði um tíma unnið hjá Efnalaug Vesturbæjar og var því einstaklega lagin við að meðhöndla fatnað og vefnaðarvörur. Anna naut menningar og lista í hvívetna og var um tíma áskrifandi að Sinfóníunni og elskaði að fara á einsöngstónleika og hlýða á ljóðasöng. Anna las alla tíð mikið og var vel að sér um ýmis málefni, þess má geta að þegar hún eignaðist ættbók og sögu íslenska hestsins las hún hana spjaldanna á milli og fyrir vikið, þegar hún hitti óskylda hrossabændur, hrifust þeir af þekkingu hennar á hestum. Anna var vel talandi á sænsku og ensku. Hún fór í öldungadeild til að læra meiri ensku og skellti sér í enskuskóla í Bretlandi á tíunda áratugnum. Þegar Anna kom í hóp fólks var hún óhrædd við að halda uppi líflegum umræðum og sá til að flestum liði vel og fólk nyti sín. Síðastliðið ár á spítalanum átti hún fjölda kunningja sem heilsuðu upp á hana þegar þeir komu til vinnu þótt þeir væru ekki að sinna henni.

Anna las alla tíð mikið eins og áður er getið, fylgdist með fréttum og reyndi að setja sig inn í og skilja hluti. Hluti af þessu var að fylgjast með því hvað skyldmenni og vinir voru að sýsla. Þegar fjölskyldan kom saman við ýmis tækifæri var Anna hrókur alls fagnaðar og tók þátt í að góður andi skapaðist og að flestir nytu sín. Anna hafði lag á því að fá fólk til að tala og njóta sín og kom það til vegna þess hvað hún var natin við að þekkja hugðarefni hvers og eins. Sigrún tengdamamma mín hefur oft sagt þegar Önnu vantaði í hópinn og eitthvað dauft var yfir: Það vantar Önnu til að koma lífi í hópinn. Það er ekki skrítið að Anna valdi sér starf sem sjúkraliði og vann lengst af á A7 á Borgarspítala sem var þá lyflæknisdeild, þar sem meðhöndlaðir voru krabbameinssjúklingar. Það er kannski tímanna tákn að stundum kom Anna heim og ræddi við mig um erfiða hluti í vinnunni þegar ungt fólk var að berjast við krabbamein. Hún tók það nærri sér. Vonandi er sálgæslu betur borgið í dag fyrir starfsfólk og sjúklinga. Það var gott að leita til Önnu. Hún var hjartahlý, ráðagóð, hvetjandi, skynsöm og umfram allt mannvinur.

Elsku mamma, ég vil þakka þér og pabba fyrir alla ást og umhyggju sem þið hafið veitt mér Kristínu og drengjunum okkar í gegnum lífið. Megir þú hvíla í friði í faðmi Guðs.

Þinn sonur,

Ingólfur.