Guðbjörg Þórunn Gestsdóttir fæddist í Forsæti í Flóa 27. ágúst 1947. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 24. desember 2022.
Útför Guðbjargar fór fram frá Selfosskirkju 3. janúar 2023.
Mamma var kölluð til annarra verka á afmælisdag Jesú á táknrænan hátt, tímasett í miðri jólamessu sem alltaf var órjúfanlegur þáttur jóla og okkar uppeldis. Umvafin fjölskyldu sem öll var með hugann á sama stað hjá mömmu.
Mamma sem ásamt pabba hefur skapað okkur systkinum mínum ógleymanlega ævi og gott uppeldi, veganesti sem reynst hefur okkur dýrmætt.
Mín fjölskylda þekkir ekkert annað en stuðning mömmu og styrk, daglega kom hún á heimili okkar Maríu og sýndi öllum áhuga og hjálpsemi en um leið hafði hún einstakt lag á að virða mörk allra hverju sinni. Mömmu tókst að hlúa að okkur, taka þátt í öllum okkar skrefum, aðstoða, hvetja og gleðja.
Það er ólýsanlega sárt að sjá hvernig sjúkdómurinn hrifsar þig bara burt frá okkur allt of fljótt í blóma lífsins, þú sem alltaf varst í fullu fjöri, heilsuhraust með mikinn lífsvilja; lífsvilja sem barðist til lokadags. Missir okkar allra er mikill og skarðið stórt sem skilið er eftir, okkar verkefni er að fylla sameiginlega í það og munum við halda minningu þinni hátt á lofti dag hvern og reyna að feta lífið áfram í sama takti og þú slóst.
Með þessum fátæklegu skrifum mín vil ég minnast yndislegar móður og þakka henni fyrir það sem hún hefur gert fyrir mig, Maríu og strákana okkar fjóra sem nú kveðja yndislega ömmu sína sem var þeim svo mikið.
Gestur Már.
Minningargreinin hér að framan átti að birtast í blaðinu í gær en hún féll niður vegna tæknilegra mistaka. Morgunblaðið biður alla hlutaðeigendur velvirðingar.
Hverfur margt
huganum förlast sýn
þó er bjart
þegar ég minnist þín.
Allt er geymt
allt er á vísum stað
engu gleymt,
ekkert er fullþakkað.
(Oddný Kristjánsdóttir, Ferjunesi)
Ekkert er enn fullþakkað en minningar um mæta konu Guðbjörgu Gestsdóttur lifa með okkur öllum sem kynntumst henni. Orðin: Kærleikur – Samvinna –Virðing voru fyrir nokkrum árum valin einkunnarorð fyrir starfsemi kvenfélagskvenna á Íslandi. Þau eru lýsandi fyrir hvernig Guðbjörg nálgaðist þau verkefni sem hún tók að sér að inna af hendi hjá Sambandi sunnlenskra kvenna, allt frá því hún var kosin inn í varastjórn þess árið 2018 og til dauðadags. Guðbjörg hafði ætíð góða nærveru var vinnusöm og jákvæð en krabbameinið tók sér bólfestu og sótti hart fram aftur og aftur. Hún fékk góða daga inn á milli meðferða og þá varð hún vongóð um bata en meinið sigraði því miður að lokum.
Ég sendi þér kæra kveðju
nú komin er lífsins nótt,
þig umvefji blessun og bænir
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir)
Nú skilur leiðir um sinn en fyrir hönd Sambands sunnlenskra kvenna eru hér þakkir færðar fyrir samvinnu og góð kynni. Við biðjum fjölskyldu Guðbjargar allrar blessunar.
Elinborg Sigurðardóttir, formaður SSK.