Sigtryggur Þorláksson fæddist á Svalbarði í Þistilfirði 5. október 1928.
Hann lést 22. desember 2022.


Hann var sonur Þorláks Stefánssonar frá Laxárdal og Þuríðar Vilhjálmsdóttur frá Ytri-Brekkum. Þau bjuggu á Svalbarði frá 1928 allt þar til Sigtryggur tók við búskap þar.


Sigtryggur gekk í Héraðsskólann á Laugarvatni, sænskan lýðháskóla og Bændaskólann á Hólum.

Árið 1954 giftist hann Vigdísi Sigurðardóttur frá Ormarslóni. Þau bjuggu á Svalbarði alla sína starfsævi uns þau fluttu á dvalarheimilið Naust á Þórshöfn. Þau eignuðust fimm börn: 1) Þorlákur, f. 1955, d. 2001. Börn hans og Guðrúnar Hildar Bjarnadóttur eru Kristjana Þuríður, Einar Guðmundur, Magnús Jóhann, Jónína Sigríður og Sigtryggur Brynjar. Dóttir Kristjönu og Francescos Dottos er Vigdís Aurelia. Dóttir Einars Guðmundar og Aldísar Gunnarsdóttur er Hugrún Lóa og óskírður sonur þeirra fæddist í nóvember 2022. Synir Jónínu og Helga Eyleifs Þorvaldssonar eru Þorlákur Hugberg og annar óskírður, fæddur í október 2022. 2) Ingibjörg, f. 1956. Börn hennar og Kolbeins Gíslasonar eru Sigtryggur og Sólrún Dís. Sonur Sigtryggs og Kristínar Eiríksdóttur er Tómas Ari. Dóttir Sigtryggs og Valgerðar Sigurðardóttur er Sóley Dís. 3) Sigtryggur, f. 1958. Dætur hans og Brynju Reynisdóttur eru Gréta Ingibjörg og Þórdís. 4) Erlingur, f. 1960. Sonur hans og Önnu Bjarkar Sigurðardóttur er Stefán, kvæntur Irinu Zhilinu. Þeirra sonur er Ivan Snær. 5) Kristján Sigurður, f. 1963. Synir hans og Camillu Utne eru Jóhann, Jakob og Daníel.

Sigtryggur var ákafamaður um búskap og framfarir. Hann gegndi fjölda trúnaðarstarfa og lagði metnað sinn í að inna þau öll vel af hendi. Hann lagði mikla rækt við Svalbarðskirkju og -kirkjugarð.


Sigtryggur verður jarðsunginn frá Þórshafnarkirkju í dag, 7. janúar 2023, klukkan 14 og jarðsettur í Svalbarðskirkjugarði.

Streymi verður frá athöfninni, sjá síðu Langanessprestakalls, https://www.facebook.com/people/Langanesprestakall/100077043910951/

Í dag, 7. janúar 2023, kveð ég Sigtrygg Þorláksson á Svalbarði. Ég hef þekkt hann alla ævi mína en ég kynntist honum samt fyrst almennilega þegar hann varð tengdapabbi minn á níunda áratug síðustu aldar. Þau kynni og samskipti voru þannig að ekki bar skugga á, ekki heldur þegar við Erlingur sonur hans slitum sambúð okkar. Umhyggja og almenn elskulegheit eru meðal þeirra orða sem koma upp í hugann þegar ég hugsa um hann.

Sigtryggur var áhugasamur um svo margt, búskap og allt sem honum tengdist, nærsamfélag sitt en um leið þjóðfélagið allt og ekki tilviljun að honum voru falin mjög mörg störf sem of langt er upp að telja en hreppstjóri var hann að mér fannst í hundrað ár. Samvinnuhugsjón hans stóð held ég óhögguð alla tíð, sú samvinnuhugsjón að betra sé fyrir samfélagið að vinna saman. Kaupfélag Langnesinga var þess vegna eitt af þeim málum sem hann lagði krafta sína til. Hann var líka formaður sóknarnefndar Svalbarðssóknar og Svalbarðskirkja og allt sem henni viðkom vildi hann hafa í fullkomnu lagi. Betur sleginn kirkjugarður var vandfundinn á landinu svo dæmi sé tekið og get ég vel vitnað um það, þar sem Stefán sonur minn og ég ferðuðumst mikið um landið á nokkurra ára tímabili og hans áhugamál var þá að mynda kirkjur á Íslandi. Kirkjan skyldi einnig vera hrein og fín helst alla daga en þó auðvitað sérstaklega þegar athafnir voru í henni. Gleymi því aldrei þegar ég kom að honum úti í kirkju að ryksuga flugur og stóð hann þá á einhverju hrófatildri með ryksuguna í annarri hendi og ryksugurörið í hinni hendinni, til að komast að flugum í glugganum fyrir ofan altarið og altaristöfluna. Sennilega of langt að ná í stiga eða of stutt þar til messan byrjaði. Það þýðir ekkert að ryksuga daginn áður, allt orðið eins daginn eftir í gluggunum. Að finna úrræði þegar vanda bar að höndum var eitthvað sem honum var í blóð borið. Á kalárunum eyðilagðist meirihluti túna í Þistilfirði og víðar á Norðurlandi og þá voru góð ráð dýr. Sumarið 1968 fór hann með vélar og tæki ásamt bændum í Laxárdal og Syðra-Álandi og heyjaði engjar við Eyrarbakka en það var um 700 km leið sem heyið var svo flutt heim á vörubílum. Alltaf opinn fyrir nýjungum og tilbúinn að læra á nýja hluti. Seinustu árin líka, hann var duglegur að nota tölvutæknina til að hafa samskipti við vini og fjölskyldu. Margir kannast við að hafa heyrt hann heilsa með orðunum: Ég sá að það var grænn punktur hjá þér, svo ég ákvað að prófa að hringja, en þá var hann að hringja gegnum Facebook. Alla tíð fylgdist hann með fólkinu sínu og vinum hvar í heimi sem það var, duglegur að hafa samband og fá fréttir og segja fréttir.

Barnabörnin voru hans líf og hjarta ef svo má komast að orði. Finna þeim verkefni og hjálpa en bara þegar þurfti, þolinmæði og hvatning var alltaf fyrsta vers svo að þau lærðu að klára verk sín sjálf. Að aðstoða með smíði á sverði og skildi, hvetja menn áfram að læra að lesa, uppbyggilegt spjall til að vekja áhuga um allt milli himins og jarðar, áfram mætti telja, umfram allt að menn fyndu sér verkefni og lærðu eitthvað í leiðinni.

Örfáar fleiri minningamyndir sem birtast í huga mínum af handahófi: Eldhúsið á Svalbarði: Systkinin (börn Sigtryggs og Dísu) og hugsanlega einhverjir gestir og barnabörn að rifja upp og segja skemmtilegar sögur frá því í gamla daga eða bara jafnvel það sem hafði gerst þann sama dag. Oft hlegið dátt, sem er gott fyrir sálina.

Labb út við sjó og leitað að nýjum spýtum sem hafði kannski rekið, athugað með æðarkollur og aðra fugla og rifjaðar upp sögur svo sem þegar forystuhrúturinn kom heim í fjárborgina þar við sjóinn um miðjan dag í góðu veðri með allan kindahópinn og svo kom í ljós að það var ekki að ástæðulausu því seinna um daginn brast skyndilega á með alvöru mannskaðaveðri.

Heimsókn Sigtryggs og Dísu til okkar Erlings og Stefáns til Ísafjarðar þegar við bjuggum þar og við fórum meðal annars í fjöruna við Bolungarvík. Við litum smástund af honum en næst þegar litið var við, var hann kominn í hrókasamræður við mann sem hann mætti þar á förnum fjöruvegi. Þetta lýsir honum að mörgu leyti svo rosalega vel.

Sigtryggur að fara upp á hól þ.e. upp að útihúsum og skemmu með matarafganga til að gefa hænunum ásamt öðru fóðri í hvaða veðri sem var. Hann þá orðinn gamall maður og heilsan farin að gefa sig. Maður skildi ekki alveg hvernig hann komst þetta alltaf en það var auðvitað gamla þrautseigjan.

Hangikjötssending frá Svalbarði sem var árleg á meðan hann reykti kjöt. Einnig saltkjötskútur. Hvílíkt lostæti. Við reykinguna notaði hann mest rekavið sem hann þurrkaði í langan tíma og svo greinar, m.a. birki. Minnst saltaða hangikjöt sem ég hef á ævinni borðað og m.a. þess vegna svo undurgott.

Stofan á Svalbarði þar sem t.d. Dísa var að spila á píanóið, Sigtryggur að lesa bók, ráða krossgátu eða vinna í einhverjum málum við skrifborðið. Eða hann að kenna barnabarni kapal eða spila á spil. Stundum komu söngelskir gestir og þá var spilað og sungið lengi lengi. Og svo auðvitað kóræfingar stundum. Endalausar minningar.

Anna Björk Sigurðardóttir.