Jakob Hallgrímsson fæddist 10. janúar 1943. Hann lést 8.
júní 1999. Útför hans fór fram 18. júní 1999.

Jakob Hallgrímsson, fiðluleikari, organisti og tónskáld, hefði orðið áttræður í dag, 10. janúar.


Auðvelt er að kalla fram í hugann ljósmynd af honum ungum. Og svo er gjarnan um þá sem við höfum umgengist mest: Það er hægara að sjá fyrir sér mynd af þeim en að setja sér fyrir sjónir andlitsdrætti þeirra sjálfra. Talið er að þetta stafi af því að við höfum séð þessi andlit svo oft og í ótal tilbrigðum tilfinninga og skapsmuna að enginn einn svipur hefur náð að festast okkur í minni; en það gerir ljósmyndin aftur á móti, sú sem stóð í ramma á neðstu hansahillunni á Hjarðarhaganum. Hún er alltaf eins.


Á hverjum einasta sunnudagsmorgni árum saman fundust á heimili foreldra Jakobs, hjónanna Margrétar og Hallgríms, krakkar sem voru að bera sig að klimpra á hljóðfæri. Þeir bókstaflega lögðu undir sig svo stofu sem borðstofu íbúðarinnar í húsinu nr. 24 við Hjarðarhaga. Þar var líka sannkallaður rausnarrannur; ávallt mjög myndarlega breitt á borð og sísvöngum gestunum unninn afbragðsgóður beini.


Móðir Jakobs, Margrét Árnadóttir frá Látalæti á Landi (Múli núna), var glaðlynd skörungskona. Krakka á Lokastígnum, þar sem þau Hallgrímur bjuggu áður, hafði verið gefinn kúrekahattur og beltishulstur með skammbyssum að hafa að leikfangi. Þá kom Margrét út í bakdyrnar á húsinu nr. 18, með drifhvíta svuntu, veifaði pönnukökuhnífnum og hélt harða ræðu; svonalagaðar eftirlíkingar af morðtólum fyrir barnagull þótti henni hámark heimsku og smáborgaraskapar.


Hallgrímur söngkennari, faðir Jakobs, var stórvel gefinn og mikið prúðmenni, orðvar og umtalsfrómur, einlægur unnandi lista og menningar. Langtímum saman gat hann staðið við bókahilluna í stofunni og grúft sig niður í opnuna á einhverju riti, hreyfingarlaus og nærri því án lífsmarks, þegar frá er skilinn tóbaksreykurinn sem liðaðist upp úr pípunni hans. Viðstöddum unglingsmanni kom einatt í hug að einmitt svona vildi hann verða þegar hann væri orðinn stór.


Þessir krakkar urðu fyrsta kynslóð barna á Íslandi til þess að hljóta skipulega tónlistarfræðslu. Fræðimenn hafa í sínum bókum sýnt fram á gagnsemi þjálfunar í tónlist; viss svæði í heyrnarstöðvum heilans stækki æ því meir sem fólk syngi lengur ellegar spili á hljóðfæri. Af sjálfu leiði að það verði fljótgreindara og ekki jafnstirfið í umgengni.


Seinna lágu leiðir sumra þessara táninga saman í Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem þá hélt æfingar sínar í Góðtemplarahúsinu, Gúttó, sem kallað var, á milli Alþingishússins og norðurenda Reykjavíkurtjarnar.


Að loknu burtfararprófi í fiðluleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík hélt Jakob til tveggja ára framhaldsnáms við Konservatoríið í Moskvu. Austur þar saknaði hann geðhrifa Ríkisútvarpsins á Íslandi í býtið á sunnudagsmorgnana, sem í þann tíð var á síst lægra menningarstigi en núna. Það mun ekki hafa verið siður Rússa, sem þó eru músíkölskust þjóð einhver á jarðríki, að spila tónlist Bachs í morgunútvarpi sínu. Jakob kom sér því upp grammófóni og hlustaði eftir það fyrir allar aldir á kantötur fimmta guðspjallamannsins á meðan hann reykti pípu sína og drakk úr seinni bollanum. Þannig bjó hann sér til sína eigin útgáfu af gamaldags íslenskum sunnudegi með biblíuversum, sálmasöng, trumbu, trómeti og öllu saman.


Á áttunda áratug síðustu aldar treystust enn vináttubönd samkennara hjá höfðingsmanninum og tónlistarfrömuðinum Ragnari H. Ragnar, skólastjóra Tónlistarskólans á Ísafirði, og frú hans, hinni frábæru mætiskonu Sigríði Jónsdóttur. Það voru góð ár og þá varð til Kammersveit Vestfjarða, mikið indæll félagsskapur: Sigríður Ragnarsdóttir og Gunnar Snorri Gunnarsson léku á píanó, Jakob, Hlíf Sigurjónsdóttir og Leifur Þórarinsson á fiðlur, Jónas Tómasson og Erling sæli Sörensen á flautur, Bandaríkjamaðurinn Daryl Wieland á gítar og presturinn í Bolungarvík á celló. Ragnar og Sigríður stóðu fyrir nær óslitnu gestaboði á menningarlegu heimili sínu við Smiðjugötuna í áratugi og hvöttu hina ungu til dáða. Kynni af þeim og börnum þeirra voru ævintýri líkust og með öllu ógleymanleg. Jakob kenndi á fiðlu en greip tækifærið og fór í píanótíma til Ragnars. Honum sagðist svo frá síðar að af Ragnari hefði hann lært þolinmæði við kennslu.


Jakob lauk prófi frá Tónskóla þjóðkirkjunnar eftir að hafa numið orgelleik, m.a. af Hauki Guðlaugssyni söngmálastjóra og Pavel Smíd, organleikara Fríkirkjunnar í Reykjavík. Organisti var Jakob m.a. við Súðavíkurkirkju og Háteigskirkju í Reykjavík. Þá stjórnaði hann og ýmsum kórum og nemendahljómsveitum. Hann stýrði Samkór kirkjukóra Vestfjarða á kristniboðshátíðinni á Patreksfirði sumarið 1981. Sjálfur gerði hann það að gamni sínu að leika á lágfiðlu í Sinfóníuhljómsveit áhugamanna undir stjórn öðlingsins Ingvars Jónassonar.


Jakob tók snemma að semja sönglög, sem eru persónuleg og skera sig úr og bera greinilegt höfundarmark sem ekki er auðvelt að skilgreina en felst kannski umfram allt í mikilli, næstum barnslegri einlægni og einfaldleika. Stundum heyrist í útvarpsmessu sunginn sálmur Þorsteins Valdimarssonar við einkar sérstætt og fagurt lag Jakobs: Ó, undur lífs!


Ekkja Jakobs er Helga Sveinbjarnardóttir tónlistarkennari, dóttir Sveinbjarnar Þorsteinssonar og Svölu Einarsdóttur, heiðurshjóna sem lengi áttu heima á Skálholtsstíg 2 í Reykjavík. Börn Jakobs og Helgu eru tvö, Einar Hallgrímur (f. 1981) og Laufey (f. 1987).


Jakob Hallgrímsson andaðist hinn 8. júní 1999, 56 ára að aldri. Hans er þeim mun sárar saknað sem lengra líður. Guð blessi minningu drengsins góða. Guð verndi og styrki ávallt fjölskyldu hans og ættmenni.

Gunnar Björnsson.