Jóhannes Hólm Reynisson fæddist í Reykjavík 6. október 1950. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 29. desember 2022.

Foreldrar hans voru Reynir Reykjalín Ásmundsson, f. 1925, d. 2013, og Elísabet Guðrún Brynjólfsdóttir, f. 1933, d. 2016. Systkini Jóhannesar eru Rannveig Ása, f. 1951, Þórarinn Gunnar, f. 1954, og Kristín Sigríður, f. 1966.

Eiginkona Jóhannesar er Ásdís Runólfsdóttir, f. 1948. Dóttir þeirra er Sólveig Þóra, f. 1992.

Börn Jóhannesar með fyrri eiginkonu sinni, Sigríði Ólafsdóttur, eru Ólafur Þór, f. 1972, maki Aldís Arnardóttir og eiga þau þrjú börn og eitt barnabarn, og Elsa Guðrún, f. 1975, maki Jón Kjartan Kristinsson og eiga þau þrjú börn.

Fyrir átti Ásdís fjóra syni. Óttarr, f. 1975, maki Marcin Makuch. Óttarr á þrjár dætur. Runólfur, f. 1965, maki Hafdís Fanndal. Runólfur á tvær dætur og þrjú barnabörn. Þórir, f. 1969, maki Rannveig Erlingsdóttir. Þórir á fjögur börn og þrjú barnabörn. Heiðar Már, f. 1973, maki Brynhildur Kristinsdóttir. Heiðar Már á tvö börn og tvö barnabörn.

Jóhannes ólst í fyrstu upp hjá langömmu sinni Guðrúnu og langafa Þórarni í Höfða á Vatnsleysuströnd en flutti svo aftur í foreldrahús og sleit barnsskónum í Austurbrún 29 í Reykjavík. Eftir grunnskólagöngu stundaði Jóhannes nám við Iðnskólann í Reykjavík.

Jóhannes kom víða við á starfsævi sinni, vann við trésmíðar með föður sínum, múrverk, akstur vörubifreiða og veitingarekstur auk ýmissa skrifstofustarfa. Undir lok síðustu aldar keyptu hjónin Fínpússningu ehf. og starfaði hann þar sem framkvæmdastjóri til dánardags.

Íþróttir voru aðaláhugamál Jóhannesar og lék hann knattspyrnu á sínum yngri árum með Fram og Reyni Sandgerði. Hann fylgdi barnabörnum sínum mjög vel eftir og fylgdist náið með árangri þeirra í leik og starfi. Þá var hann alla tíð mikill áhangandi Framliðsins og missti helst ekki úr leik meðan heilsa hans leyfði. Jóhannes fann styrk í trúnni og var virkur þátttakandi í kirkjustarfi.

Útför Jóhannesar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 11. janúar 2023, klukkan 13.

Elsku pabbi. Þó við höfum vitað í einhvern tíma í hvað stefndi og baráttan væri töpuð er erfitt að sætta sig við það og einhvern veginn er maður ekki undirbúinn undir það þegar kallið svo kemur, þó maður haldi það.

Við áttum notalega stund saman á jóladag á HSS og þú sagðir að nú færi tíminn að koma, þú hefðir gert samning við almættið um ein jól í viðbót og nú væri sá samningur uppfylltur og því tími til kominn að kveðja.



Þegar Hrefna Sif hafði samband við mig kvöldið sem þú kvaddir hafði ég ekki hugarflug til að átta mig á að þetta væri síðasta skiptið sem ég myndi tala við þig. Mikið sem ég er þakklátur að hafa fengið þetta símtal og haft tækifæri til þess að koma til þín á HSS. Eins einkennilegt og það kann að hljóma þá var engu líkara en þú hefðir beðið eftir að við værum öll þrjú samankomin með þér. Rúmri klukkustund síðar tókstu síðasta andardráttinn og sofnaðir svefninum langa án veikinda og meiri kvala. Kveðjustundin var eins falleg stund og hún gat orðið þegar mamma, Sólveig og ég vorum með þér.

Mig langar að þakka Hrefnu Sif sérstaklega fyrir allt sem hún hefur gert fyrir okkur í veikindum pabba sem og hvernig búið var um hann eftir að hann lést. Það litla smáatriði að hafa teppi í uppáhaldslit pabba yfir honum segir meira en mörg orð, eitt lítið takk er lítið fyrir alla þá hjálp og aðstoð sem þú veittir okkur, Hrefna mín.



Það var lítill snáði, líklega mætti segja uppátækjasamur en samt feikna rólegur, sem þú tókst á móti, ég var rétt um 6 ára gamall. Það var opinn faðmur sem beið mín þá og ætíð eftir það. Það er nefnilega ekki sjálfgefið þegar maður bætist sem viðbót við óþekkta fjölskyldu að manni sé vel tekið en það gerðir þú, amma og afi svo sannarlega.

Þeim árum sem á eftir komu fylgdu gleði og sorg eins og gengur í daglegu lífi fólks og margar minningar sem ég myndi vilja rifja upp og hæglega gæti ég fyllt blaðið ef út í það er farið.



Ég man að ég fór tvisvar með þér á fótboltaleik, í bæði skiptin var þitt lið Fram að vinna leikinn en mér þótti hitt liðið þurfa meiri hvatningu, ef ég man rétt var það KR og síðan Valur, og mér hafði jú verið kennt að styðja af fremsta megni þá sem þurftu aðstoð eða hvatningu og byrjaði ég að hvetja þá til dáða við litla hrifningu pabba og benti hann mér góðfúslega á að liðið til að hvetja væri FRAM. Því fór sem fór og mér var ekki boðið oftar á völlinn og ég sagðist ætíð eftir það styðja KR enda þyrftu þeir meira á því að halda.

Óteljandi bíltúrar innanbæjar sem utanbæjar þar sem allt var rætt milli himins og jarðar, heimsins smæstu og stærstu vandamál leyst a.m.k. að okkar leyti. Ef maður komst ekki með þá brúkaðir þú gamla NMT-símann og var hann nýttur til fulls með tilheyrandi símreikningum sem þú furðaðir þig oft á hve háir væru enda notaði þú símann minna en ekkert.

Þú varst þannig gerður að þú stóðst alltaf með þínu fólki í gegnum allt sem það kunni að fara í gegnum. Þú fagnaðir þegar vel gekk og þú hughreystir þegar erfiðir tímar bönkuðu upp á, en alltaf stóðstu þétt upp við þitt fólk og hjálpaðir öllum eftir fremsta megni en því miður gleymdir þú stundum að sama skapi að hugsa um þig.



Það er óneitanlega skrítin tilfinning að heyra ekki aftur í þér elsku pabbi, engin símtöl sem eru yfir klst. löng þar sem rætt er um allt og ekkert, þar sem spurt er í þaula og stundum leið manni eins um spurningakeppni væri að ræða. Þú sagðir oft að það er ekki að þér komi það við en væri ekki verra að vita það og að sjálfsögðu varstu alls ekki forvitinn þó þú værir feikna fróðleiksfús.



Þú gekkst mér í föðurstað og ætíð hef ég litið á þig sem pabba minn þó við séum ekki tengdir blóðböndum. Mér þótti óendanlega vænt um þegar þú spurðir mig hvort ég vildi gera eitt fyrir þig, það væri alveg mín ákvörðun, en þér myndi þykja óskaplega vænt um það enda væri ég sonur þinn og hefði alltaf verið. Þú baðst mig að taka upp nafn þitt sem föðurnafn og það mun ég glaður gera, pabbi.



Ég veit við eigum eftir að taka mörg samtölin þar sem ég tala og þú hlustar þar til við hittumst á nýjan leik.

Takk fyrir allt elsku pabbi, ég sakna þín sárt.

Óttarr Makuch Jóhannesson.